Umræða og fréttir
  • 2004-05-u12-fig1

Mun eflaust glæða umræðuna

Ég fagna leiðara formanns LÍ í síðasta Læknablaði sem innleggi í umræðu um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja og tel að umræðan sé læknum og lyfjafyrirtækjum holl og eigi helst stöðugt að vera í gangi. Ég tel að samskipti lækna og lyfjafyrirtækja séu báðum aðilum nauðsynleg en þurfi að vera gegnsæ og lúta ákveðnum siða- og samskiptareglum enda hagsmunaárekstrar mögulegir eins og reyndar víðar í þjóðfélaginu.

Meðal annars vegna þessara mögulegu hagsmunaárekstra hafa læknar siðareglur og einnig hafa læknafélögin í gegnum tíðina lagt mikla vinnu í að móta og semja reglur um samskipti lækna við lyfjafyrirtæki. Þessar reglur eru í fullu gildi og læknum ber að sjálfsögðu að fylgja þeim enda trúverðugleiki og fagmennska lækna í húfi. Það er óhjákvæmilegt að sum samskipti lækna og lyfjafyrirtækja geti orkað tvímælis og meðal annars þess vegna er umræðan nauðsynleg. Hugsanlega þurfa læknar að endurskoða reglur sínar í samskiptum við lyfjafyrirtæki í ljósi nýrra hugmynda lækna sem endurspegla það þjóðfélag sem þeir lifa og starfa í. Læknafélögin hafa reyndar gert ráð fyrir endurskoðun á samningum og reglum um þessi mál. Innan heimilislæknahópsins hefur lengi verið umræða um samskipti við lyfjafyrirtæki, meðal annars um það hvernig og hversu mikið þau komi að endurmenntun og símenntun heimilislækna. Ég geri ráð fyrir að umræðan glæðist með innleggi formannsins og hún sýni hversu nauðsynlegt það er að halda á lofti fagmennsku lækna, meðal annars í samskiptum lækna við lyfjafyrirtæki.

Elínborg Bárðardóttir
formaður Félags íslenskra heimilislækna


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica