Umræða og fréttir
  • 2004-05-u13-fig1

Fjárstuðningur verði óskilyrtur og opinber

Á að afnema með öllu stuðning lyfjafyrirtækja við fræðslu- og vísindastarfsemi lækna? Svar mitt við þessari spurningu er NEI. Sú blómlega fræðslustarfsemi sem rekin hefur verið hérlendis undanfarin ár væri ekki svipur hjá sjón án góðs samstarfs og stuðnings lyfjafyrirtækja. Ég tel jafnframt að þó finna megi of mörg dæmi þess að samskipti lækna og lyfjafyrirtækja hafi farið yfir ásættanleg mörk þá standi læknar yfirleitt heiðarlega að og noti eigin dómgreind í ákvarðanatöku um lyfjaávísanir.

Hafandi lýst yfir stuðningi mínum við áframhaldandi samvinnu lækna og lyfjafyrirtækja í símenntunarmálum lækna tel ég engu að síður að endurskoða þurfi leikreglur þessara samskipta. Samskiptin eiga að vera gegnsæ og það á að skína í gegn að tilgangurinn helgist fyrst og fremst af þeim ásetningi að gefa læknum kost á hlutlausri umfjöllun um viðfangsefni læknisfræðinnar. Ég er þeirrar skoðunar að afnema eigi fræðslufundi sem eru haldnir á vegum lyfjafyrirtækja, afnema eigi boð um ferðalög innanlands og utan á fræðslufundi og gjafir til lækna frá lyfjafyrirtækjum ættu að heyra fortíðinni til.

Í stuttu máli tel ég að draga eigi úr eða jafnvel afnema einstaklingsmiðaða þátttöku lyfjafyrirtækja í fræðslustarfi fyrir lækna en beina stuðningnum til þeirra hópa eða samtaka lækna sem sjá um framkvæmd og fjármögnun fræðslustarfseminnar. Slíkur fjárstuðningur á að vera óskilyrtur og ekki háður því að fjallað verði sérstaklega um þau lyf sem viðkomandi fyrirtæki hefur hagsmuni af. Stuðningurinn yrði formlegur og opinber og byggðist á ásetningi beggja aðila að miðla sem réttastri og bestri fræðslu til lækna. Hag lækna og lyfjafyrirtækja til lengri tíma hlýtur að vera best borgið þegar kaupendur læknisþjónustunnar og lyfjanna, það er sjúklingarnir, eru ánægðir.

Eftir sem áður eiga lyfjafyrirtækin rétt á og ber jafnvel skylda til að upplýsa lækna um framleiðslulyf sín. Ég sé ekkert athugavert við að slík upplýsingagjöf fari fram með samræðum, póstsendingum eða á lyfjabásum fræðsluþinga, þar sem auðvelt er að skilja á milli lyfjaauglýsinga og óhlutdrægrar fræðslustarfsemi.

Arnór Víkingsson
formaður Fræðslustofnunar lækna


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica