Umræða og fréttir
  • 2004-04-u09-TI
  • 2004-04-u09-TII
  • 2004-04-u09-TIII

Áhugakönnun á fjarlækningum meðal heimilislækna

 
Þann 1. október síðastliðinn var send út könnun til allra heimilislækna á landinu varðandi afstöðu þeirra til og áhuga á fjarlækningum. Þessi könnun er hluti af fyrsta áfanga rannsóknarverkefnis um fjarlækningar. Verkefnið er samvinnuverkefni heilsugæslustöðva og Landspítala þar sem sjúkrahúslæknar innan nokkurra sérgreina á spítalans veita sérfræðiráðgjöf með aðstoð fjarfundabúnaðar. Verkefnið er styrkt af Rannís og markmiðið með því er að setja fram líkan að skipulagi og starfrækslu fjarlækningaþjónustu sem henta myndi hér á landi. Með þetta í huga var áhugi heimilislækna á fjarlækningum kannaður.

Fjarlækningar má skilgreina sem aðferð til að senda sjúklingagögn með rafrænum hætti frá einum stað til annars. Markmiðið er skjótvirk sending gagna til að fá sem fyrst úrlausn þess vanda er fyrir liggur. Gögnin geta annars vegar verið þess eðlis að sjúklingur sé óbeinn þátttakandi við sendingu gagna, svo sem þegar send er röntgenmynd eða hjartarit. Hins vegar getur sjúklingur sjálfur verið viðfangsefni læknisskoðunar með aðstoð fjarfundabúnaðar og í vissum tilvikum sérhæfðs jaðarbúnaðar. Þá er um að ræða bein samskipti læknis/lækna og sjúklings.

Fjarlækningar bjóða upp á ýmsa möguleika fyrir heilsugæslu og sjúkrahús. Möguleiki er á úrlestri mynda og annarra gagna, hægt að taka þátt í klínískum fundum, fá ráðgjöf sérfræðinga í öðrum greinum og svo framvegis. Sérfræðiráðgjöf í bráðatilfellum er einn möguleiki. Í sumum nágrannalöndum okkar hefur slík þjónusta er að ofan greinir verið til staðar undanfarin ár, til dæmis í Noregi þar sem fjarlækningar hafa fengið fastan sess. Fjarlækningar á Íslandi eru vart stundaðar í dag með skipulegum hætti en verkefni á einstökum sviðum sérgreina hafa verið unnin á undanförnum árum.



Niðurstöður

Spurningalistinn var eins og áður sagði sendur í október 2003 til 219 lækna sem störfuðu á heilsugæslustöð samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Félags íslenskra heimilislækna. Ítrekunarbréf var sent nokkru síðar til að auka heimtur. Um áhugakönnun var að ræða, sjá spurningalista. Alls svöruðu 98 læknar könnuninni, eða 45% aðspurðra. Af þeim lýstu 79 læknar, eða rúmlega 1/3 allra starfandi heimilislækna, yfir áhuga á að nýta sér fjarlækningar í sínu starfi, eða um 80% þeirra sem svöruðu. Ef miðað er við að hver heimilislæknir hafi að meðaltali 1500 manna upptökusvæði hafa heimilislæknar 118 þúsund Íslendinga áhuga á að nota fjarlækningar í sínu starfi. Varðandi upplýsingar um þátttakendur vísast í töflu I.

Um 86% læknanna sem þátt tóku í könnuninni voru með þéttbýli sem upptökusvæði, þar af sinnti 37% þeirra einnig dreifbýli, sbr. töflu I. Rúmur helmingur læknanna starfaði utan höfuðborgarsvæðisins.

Áhuga læknanna við að nýta sér hinar ýmsu tegundir eða notkunarmöguleika fjarlækninga sést í töflu II. Þar tróna efst á blaði fræðslufundir sem gefa möguleika á aukinni símenntun. Einnig var áhugi mikill á húðlækningum, hjartalækningum og röntgenlækningum.

Heimilislæknar af höfuðborgarsvæðinu höfðu í um 90% tilvika áhuga á fleiri greinum fjarlækninga en fræðslufundum eingöngu.

Spurt var um þörf fyrir bráða sérfræðiráðgjöf (konsúlt) með fjarlækningum á heilsugæslustöðinni og svöruðu 39 læknar því til að svo væri og þá helst í slysa- og hjartalækningum. Barnalækningar, kvenlækningar, röntgen og húðsjúkdómar voru einnig nefndir í þessu samhengi. Nokkrir sögðu að nú þegar væri fyrir hendi bráðafjarlækningaþjónusta þar sem hægt væri að faxa hjartarit og senda röntgenmyndir í pósti eða tölvupósti. Bent var á að þægilegra yrði að nota stafræna röntgentækni í þessu samhengi. Það kom fram hjá einum lækni að bráðasérfræðiráðgjöf hafi til þessa verið símleiðis og að alltaf hafi verið greiður aðgangur að sérfræðingum á sjúkrahúsum. Einum fannst sjaldan þörf fyrir flóknari fjarlækningar en hægt væri að sinna gegnum venjulegan síma eða með pósti. Ef það dugi ekki þurfi venjulega að senda sjúklinginn hvort sem er.

Þegar spurt var hvort eitthvað væri að vanbúnaði til að taka við fjarlækningaþjónustu sögðu 12 áhugann vanta, 33 tiltóku fjárskort, 19 tímaskort og 59 sögðu nauðsynlegan tækjabúnað ekki til staðar. Einn læknir nefndi skort á þekkingu á notkun tæknibúnaðar. Bent var á að læknar á báðum endum þyrftu að kunna að nota búnaðinn og einnig var auglýst var eftir nýmælum og tæknilausnum. Jafnframt var bent á að hægt væri að senda blóðrannsóknir með hjálp tölvu í stað bréfa eða pósts. Sömuleiðis að nota stafrænar röntgenmyndir og að senda hjartalínurit í tölvu.

Gagnrýnar raddir voru nokkrar og taldi einn læknir notagildi fjarlækninga vera takmarkað og nýtast á takmörkuðu sviði og þá helst fræðslu. Sami læknir benti á notkunarmöguleika fjarlækninga í teymisvinnu margra fagstétta, til dæmis við meðhöndlun endurhæfingarsjúklinga. Fram kom að skipulag fjarlækninga á sjúkrahúsunum mætti bæta, það þyrfti að tryggja að læknir í sérgreininni væri til staðar á sjúkrahúsunum þegar fjarlækningar ættu að fara fram. Nokkrir höfðu notað fjarlækningar til röntgenmyndasendinga en með þeirri tækni sem þá var notuð tók sendingin langan tíma. Einn læknir benti á að fjarlækningar krefðust tvöföldunar í mönnun og að þær myndu trúlega ekki gagnast þeim sem þyrftu mest. Tveir sögðu fjarlækningar vera dúsu stjórnmálamanna fyrir dreifbýlislækna. Þá sagði einn læknir að fjarlækningar hafi nýst dreifbýlislæknum illa. Þörfin væri oftast ekki mikil þegar á reyndi og erfiðleikar væru við svarenda búnaðarins.



Lokaorð

Hér er um áhugakönnun að ræða og verða það að teljast jákvæðar undirtektir þegar 1/3 heimilislækna lýsir yfir áhuga á notkun fjarlækninga í starfi sínu og því rétt að gefa þessu gaum. Erlendis hefur slík þjónusta á sumum stöðum gengið vel, svo sem í Tromsø í Noregi þar sem boðið er upp á fjarlækningaþjónustu innan margra sérgreina. Annars staðar hefur ekki gengið eins vel af ýmsum orsökum. Áhugavert er að heimilislæknar á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem úti á landi sýna áhuga á notkun fjarlækninga. Kom það nokkuð á óvart þar sem fyrirfram var búist við að áhuginn væri mun meiri úti á landi. Flestir hafa áhuga á því að taka þátt í fræðslufundum með hjálp tækninnar en áhuginn tekur einnig til margra sérsviða læknisfræðinnar. Niðurstaða könnunarinnar bendir til að margir heimilislæknar séu tilbúnir til að nýta sér nýja tækni, svo sem fjarlækningar við vinnu sína.


Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica