Umræða og fréttir
  • Lilja Sigrún Jónsdóttir

Umgjörð og heilsa í starfi lækna

Velferð lækna í lífi og starfi er mikilvæg forsenda farsællar heilbrigðisþjónustu. Starfsaðstaða lækna, líðan þeirra í starfi og áhrif þess á samskipti lækna og sjúklinga eru í brennidepli verkefnis þess sem hér er kynnt.

Stofnað hefur verið til verkefnisins Umgjörð og heilsa í starfi lækna í samstarfi Læknafélags Íslands, Félags kvenna í læknastétt á Íslandi, Landspítala Háskólasjúkrahúss, Landlæknisembættisins og Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Markmið verkefnisins eru:

o Að rannsaka vinnutengda heilsu lækna, starfsumhverfi og stofnanamenningu fjögurra háskólasjúkrahúsa í fjórum löndum.

o Að vinna faraldsfræðilega rannsókn á heilsu og lífsstíl íslenskra lækna.



Samstarfsverkefnið hefur fengið heitið Organisation and Health among university Hospital Physicians in Four European Countries: Sweden, Norway, Iceland and Italy. How do national framework, gender, hospital structure and organisational culture impact on physicians' health? og eru erlendu samstarfsaðilarnir Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, St. Olav´s Hospital í Þrándheimi og Azienda Ospedaliera Universita í Padova, Ítalíu.

Öllum læknum á Íslandi verður boðið að taka þátt í rannsókninni. Notaðir verða prófaðir spurningalistar á ensku og svörun spurninga verður rafrænt um internet. Sameiginlegur gagnabanki verður staðsettur við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og ekkert unnið með gögn undir persónuauðkennum. Rannsóknartímabilið spannar fimm ár og verða spurningalistar lagðir fyrir tvisvar á tímabilinu. Spurningar um lífsstíl og heilsu verða lagðar fyrir í fyrri umferð spurninga. Við hönnun verkefnisins og val á spurningalistum hafa niðurstöður fyrri rannsókna verið hafðar til hliðsjónar og reynsla hér á þessu sviði nýtt. Stofnað var til rannsóknarhóps sem í sitja læknarnir Kristinn Tómasson, Þorvaldur Ingvarsson, Guðmundur Sigurðsson, Jóhanna Jónasdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir, Óskar Einarsson, Haukur Hjaltason, Katrín Fjeldsted, Linn O. Getz, Ólöf Sigurðardóttir og Matthías Halldórsson auk Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur félagsfræðings. Þorgerður Einarsdóttir félags- og kynjafræðingur er fulltrúi íslenska hlutans í vísindanefnd erlenda samstarfsverkefnisins og mun leiðbeina nemum í mastersverkefnum hér á landi. Lilja Sigrún Jónsdóttir læknir er verkefnisstjóri og er skrifstofa verkefnisins hjá Landlæknisembættinu.

Farsæl framkvæmd verkefnisins er mjög háð stuðningi lækna. Við hönnun er horft til þess að afla mikilvægra upplýsinga fyrir stéttina. þegar að framkvæmd kemur skiptir hins vegar góð þátttaka meginmáli og er því vonast eftir góðum undirtektum. Verkefnið verður kynnt nánar í Læknablaðinu í mars. Spurningalistar verða lagðir fyrir í lok mars næstkomandi og stefnt að því að kynna helstu innlendar niðurstöður í upphafi árs 2005.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica