12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Bókarumfjöllun

Hugsjónir og hugarvingl

2004-10-frontMörgum þykir fróðlegt að velta fyrir sér persónugerð og sjúkdómum ýmissa manna sem hafa látið að sér kveða í stjórnmálum, listum eða vísindum. Oft verða slíkar vangaveltur til þess að við skiljum betur störf þeirra, afrek og mistök. Margir læknar sem eru áhuga­menn um sögu hafa ritað bækur um rannsóknir sínar á heimildum um menn sem hafa ver­ið áberandi á ýmsum tímum og haft áhrif á þróun mála á sínum sviðum. Slíkar rannsóknir og skrif eru gagnleg ekki aðeins til að skilja þá og framvinduna betur, heldur ættu þær að gera gagn í nútímanum til að eyða fordómum gegn sjúkdómum með því að sýna að þeir geta hitt alla fyrir, háa sem lága. Flestir sem fengist hafa við þessar rannsóknir hafa aðeins skrifað um einn eða fáa sögufræga menn, enda ærið verk að kanna slíkar heimildir svo að hægt sé að komast að niðurstöðu.

2004-10-frontNýlega barst mér áhugaverð bók eftir prófessor Nils Retterstöl í Oslo, "Store tanker, urolige sinn" (1). Í bókinni eru dregnar saman niðurstöður heimildarannsókna um 21 þekktan hugsuð, rithöfunda, málara, stjórnmálamenn og aðra sögufræga menn sem hafa haft mikil áhrif á Norðurlöndum, einkum í Noregi. Hver kafli er skrifaður líkt og góð geðsjúkraskrá til að auðvelda lesandanum að meta vangaveltur höfundarins um sjúkdómsgreiningu hvers og eins sem um er fjallað, samkvæmt nútíma greiningum, ICD-10 og DSM-IV.

Bókin hefst á þemur köflum um Noregskonunga, Harald hárfagra, Hákon jarl Sigurðsson og Sigurð Jórsalafara. Höfundur reynir að gera grein fyrir geðröskunum sem hrjáðu þá samkvæmt lýsingum Snorra í Heimskringlu. Það gefur auga leið að þær lýsingar eru of knappar til að hægt sé að setja ákveðna greiningu á raskanir þessara konunga. Öðru máli gegnir með Kristján 7. Danakonung og D.G. Monrad, sem var forsætisráðherra Dana í stríðinu við Þjóðverja 1864 þegar Danir biðu ósigur, m.a. vegna geðhæðar (maniu) Monrads.

Hitler og Quisling eiga hvor sína sögu og hafa báðir haft verulegar persónuleikaraskanir og fengið köst með svo miklum ranghugmyndum að ætla má að þeir hafi haft aðsóknarröskun (delusional disorder). Þó telur höfundurinn að ekki séu nægar upplýsingar um Quisling til að setja þessa greiningu með vissu.

Sjúkrasögum van Gogh og Edvard Munch eru gerð allítarleg skil. Báðir höfðu verið geðveikir og mis­notað áfengi og dvalið um tíma á geðsjúkrahúsum. Rætt er um hvaða sjúkdómsgreiningar komi til greina við skoðun á persónuleika, veikindum og lífshlaupi þeirra, þar með talið endirinn hjá van Gogh sem framdi sjálfsvíg þegar hann var 47 ára. Hann hefur senni­lega haft ?borderline? persónuleikaröskun og flogaveiki (temporal lobe) sem gæti skýrt sturl­un­­ar­­ein­kenni auk misnotkunarinnar. Einnig hafa menn velt fyrir sér mörgum öðrum greiningum. Munch hefur hins vegar haft geðklofalíka per­sónu­leika­rösk­un með ofurviðkvæmni sem leiddi til skamm­vinnr­ar aðsóknarröskunar eftir að hann varð fyrir per­sónulegum áföllum.

Síðasti hluti bókarinnar fjallar um sex rithöfunda og heimspekinga, þar á meðal Nietzsche, Grundtvig og Strindberg. Nietzsche var einn af meiri háttar heim­spekingum sinnar tíðar sem hafði mikil áhrif, en kenningar hans hafa verið umdeildar, einkum um ofur­mennin. Hann var mjög bráðger og lærði að lesa og skrifa fjögurra ára gamall, skrifaði fyrstu ævisögu sína 13 ára gamall en átti í miklum erfiðleikum með stærðfræði. Hann þjáðist snemma af mígrene og maga­verkjum. Hálfþrítugur fékk hann sýfilis sem leiddi til geðsjúkdóms 15 árum seinna, fyrst með stór­mennsku­hug­villum og smáversnaði. Þrátt fyrir það skrifar hann mikið næstu sex árin, en þýskur geðlæknir, Möbius, telur að í þeim ritverkum gæti einkenna sjúkdómsins, sem leiddi til vaxandi sljóleika síðustu æviárin.

Danska sálmaskáldið Grundtvig setur enn svip á kirkjulegar athafnir á öllum Norðurlöndum. Í íslensku sálmabókinni er enn að finna sálma eftir hann, t.d. hjónavígslusálminn, ?Hve gott og fagurt og indælt er??. Grundtvig hafði tvískauta lyndisröskun (var manio-depressiv). Hann fékk fyrsta þunglyndiskastið 27 ára gamall sem sló síðan yfir í geðhæð áður en honum batnaði. Hann hafði þá þegar skrifað mikið og hélt því áfram eftir að honum batnaði og komu þá út mörg verk. Hann veikist aftur með oflátum (geðhæð) rúmlega sextugur. Um sjötugt fær hann skammvinna þunglyndisröskun og loks veikist hann skyndilega af geðhæð 83 ára gamall. Síðustu fimm ár ævinnar hafði hann ekki einkenni um geðröskun.

Afbrýðissemin og kvenfyrirlitningin sem kemur fram í mörgum verka Strindbergs er nóg til að vekja grunsemdir um geðröskun hans þótt öllum beri saman um snilli hans sem rithöfundar. Menn hafa deilt um hvort eitthvað hafi verið að honum og þá hvað. Persónugerðin var óvenjuleg með mikilli sjálfsdýrkun, þörf til að upphefja sjálfan sig, ofurviðkvæmni gagnvart eigin persónu, og ofsafengnum ástar- eða vináttusamböndum sem auðveldlega snerust í andhverfu sína. Sumir telja að geðröskun Strindbergs megi greina þegar 1882 er hann taldi þáverandi eiginkonu sína eitra fyrir sér, þó að afbrýðissemin tæki ekki á sig sjúklegan blæ fyrr en 1888. Á árunum 1894-96 fær hann fjögur köst með ákveðnum sturlunareinkennum. Þrátt fyrir þau hélt hann áfram ritstörfum en þó einkum eftir þau. Ýmsir töldu sturlunareinkennin svo mikil og viðvarandi að líklega væri um geðklofa að ræða, aðrir töldu að geðröskunin stafaði af eitrun, áfengiseitrun eða eitrun sem hann hefði fengið í sambandi við tilraunir til gullgerðar.

Aðrir, þar á meðal Retterstöl (1), telja að sturlunina megi rekja til persónugerðar og áfalla, sem Strindberg varð fyrir, þ.e. að um hafi verið að ræða aðsóknarröskun með geðklofaívafi.

Sumir af þeim sem fjallað er um í bókinni leituðu læknis eða voru jafnvel innlagðir á geðdeild, sbr. norsk-danski rithöfundurinn Amalie Skram, sem ritaði svo heiftarlega skáldsögu eftir eina veru sína að yfirlæknir deildarinnar flæmdist úr starfi, en hún varð síðar að leggjast inn annars staðar.

Þessi bók (1) er fróðleg og gagnleg lesning fyrir alla, en kannski sérstaklega fyrir heilbrigðisstarfsmenn og verðandi heilbrigðisstarfsmenn. Hún ætti að stuðla að auknum skilningi á geðröskunum og draga úr fordómum. Það á að vera hægt að tala um geðraskanir eins og aðra sjúkdóma, eins og t.d. norski forsætisráðherrann gerði er hann tilkynnti að hann þyrfti að taka sér frí frá störfum vegna geðlægðar, eða eins Nóbelsverðlaunahafi, sem talaði nýlega í sjónvarpi frjálslega um nokkrar innlagnir sínar á geðdeild.

Heimild

Retterstöl N. Store tanker, urolige sinn; 21 psykiatriske portretter. N.W. Damm & Sön 2004, Oslo.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica