12. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Ráðstefna til minningar um Jón Steffensen

Félagið er afsprengi norrænnar samvinnu

2004-10-frontDagana 18. og 19. febrúar 2005 verð­ur haldin ráðstefna í minningu Jóns Steffensen prófessors en þann 15. þess mánaðar verða 100 ár liðin frá fæðingu hans. Ráðstefnan verður haldin í fyrirlestrarsal Þjóðarbók­hlöðu og samhliða henni verður opn­uð sýning á bókum, handritum og myndum úr safni Jóns og munum sem tengjast honum í eigu Þjóðminja­safns. Umsjón sýningarinnar er í hönd­um Emilíu Sigmarsdóttur.

Ráðstefnan á að endurspegla fjöl­breytnina í viðfangsefnum Jóns. Í þeim tilgangi hefur verið leitað til fræðimanna úr ólíkum greinum um að flytja erindi á ráðstefnunni, lækna, mannfræðinga, fornleifafræðinga, sagnfræðinga og bókmenntafræðinga.

Ráðstefnan verður sett föstudaginn 18. febrúar. Þá mun Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður opna sýninguna, Hrafnkell Helgason fjallar um Jón, líf hans og störf og gestur ráðstefnunnar og aðalfyrirlesari, Andy Cliff, prófessor í landafræði við Cambridge háskóla, flytur erindi um efni að eigin vali. Cliff er kunnugur verkum Jóns og hefur meðal annars unnið að rannsóknum á mislingafaröldrum hér á landi. Um þær má lesa í bók hans Spatial Diffusions: An his­torical geography of epidemic in an island community (1981).

Á laugardeginum mun hver málstofan fylgja annarri þar sem fjallað verður um ýmis mál sem tengjast Jóni á einn eða annan hátt. Hannes Blöndal ræðir um kennslu við lækna­deild Háskóla Íslands, einkum kennslu í líf­færafræði en það var aðal­fag Jóns, og Halldór Bald­urs­son segir frá end­urlífgun um 1800. Þá fjall­ar Kristinn Magnússon, sem lengi sá um Nesstofusafn, um störf Jóns í þágu söfnunar lækningaminja. Gavin Lucas forn­leifafræð­ingur ætlar að fjalla um beina­fundi í Skálholti í nýju samhengi en hann hefur unnið þar á veg­um Fornleifa­stofnunar Ís­lands. Jón Þorsteinsson læknir og Hildur Gests­dóttir hjá Fornleifastofn­un segja frá rannsóknum þeirra á fornmeinafræði. Agnar Helga­son mann­fræðingur fjallar um DNA-rannsóknir á beinum og Birna Jóns­dóttir um DNA-rannsókn­ir á múm­íum. Svend Richter og Sig­fús Þór Elíasson fjalla um rannsóknir á leifum tanna úr Skeljastaðafundin­um. Fulltrúar húmanískra greina verða meðal annars Elín Hirst sagn­fræð­ing­ur sem að undanförnu hefur verið að skrifa um bólusótt og Jón Karl Helga­son bókmenntafræðingur. Hann er höfundur bókarinnar Ferða­­lok, þar sem bein Jónasar Hall­­grímssonar koma við sögu, en á ráðstefn­unni fjall­ar hann um bein Jóns Arason­ar. Fjöldi ann­arra fyrirlestra verður en dagskrá mun standa frá klukkan níu og fram eftir degi. Endanleg dagskrá verður kynnt síð­ar.

Að undirbúningi ráðstefnunnar hafa unnið Kristín Bragadóttir bókmennta­fræðingur, Örn Bjarna­son lækn­ir og mannfræðingarnir Gísli Páls­son, Agnar Helgason og Sigurður Örn Guðbjörnsson.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica