11. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Kjaramál lækna

Undanfarnar vikur hefur þjóðfélagsumræðan snúist um verkfall kennara og áhrif þess. Líkt og oft áður er það saklaust fólk sem geldur mest fyrir svona verkföll. Í þessu tilfelli eru það einstaklingar sem varla hafa málsvara vegna ungs aldurs. Aðalumkvörtunin kemur frá foreldrunum að geta ekki sinnt vinnu sinni að fullu.

Það sem hefur hins vegar vakið áhuga minn eru kröfugerðir kennara. Hefur sú umræða snúist nokkuð um hvað sé réttlátt að hafa í laun eftir þriggja ára háskólanám. Hefur einnig komið þar fram sú mikla ábyrgð sem kennarar bera við kennslu barnanna okkar. Taka má undir með kennurum að þeir beri ábyrgð á framtíð þessa lands því menntun mun ráða miklu um hvar Ísland mun standa í samkeppni við aðrar þjóðir í hátæknisamfélagi.

Kennarar hafa talið það réttlátt að nýútskrifaður kennari sem lokið hefur þriggja ára háskólanámi sé með 250.000 kr. í grunnlaun. Þessari kröfu fylgir einn­ig krafa um breytingu á kennsluskyldu og öðru sem ekki er ætlunin að fara út í frekar hér.

Hins vegar er gaman við þetta tækifæri að bera saman kröfu kennara og stöðu kjaramála unglækna í dag. Til að hefja störf sem læknir þarf einstaklingur að ljúka sex ára háskólanámi. Til að fá full réttindi þarf svo að vinna í eitt ár til að uppfylla skyldur um lækningaleyfi. Unglæknir hefur þá sinnt námi í um 20 ár frá því að hann byrjaði í barnaskóla.

Nýútskrifaður kandídat frá Háskóla Íslands byrjar núna með 204.000 í grunnlaun eftir sex ára háskóla­nám. Eftir að hafa lokið ársvinnu og með veitingu lækningaleyfis fara grunnlaunin upp í 234.000.

Auðvitað er erfitt að bera saman mismunandi starfsstéttir og álag og ábyrgð sem þeim fylgja. Störf kennara og lækna eru ólík. Hins vegar eru þetta hvoru tveggja störf sem krefjast háskólamenntunar og í báðum störfum felst mikil ábyrgð og jafnvel álag.

Ekki veit ég hvernig launanefnd kennara hefur komist að þeirri niðurstöðu að lágmarksgrunnlaun skuli vera um 250.000. Hlýtur þar að baki að liggja lengd á háskólanámi, álagi í starfi, ábyrgð á framtíð okkar litla lands og ýmislegt fleira.

Ef við setjum upp einfalt reikningsdæmi þar sem við samþykkjum að álag og ábyrgð sé svipuð þegar kemur að kennurum og læknum þá myndi helsti munurinn vera lengd á háskólanámi. Ef miðað er við að meðalgrunnlaun verkamann séu um 100.000 þá eru kennarar að fara fram á um 50.000 kr. hækkun á grunnlaunum fyrir hvert ár í háskólanámi. Þar á bak við fylgir auðvitað einnig stúdentspróf.

Ef þessari reikningsformúlu yrði beitt fyrir lækna væri launakrafa unglækna við næstu kjarasamninga eftirfarandi.

Grunnlaun verkamann: 100.000

Hækkun vegna háskólanáms: 6 x 50.000

Samtals 400.000

Sem formaður Félags ungra lækna getur undirritaður verið hjartanlega sammála launanefnd Kennarasambandsins í launaútreikingum sínum. Það hefur lengi verið ljóst að grunnlaun kennara og lækna eru of lág. Krafa okkar í næstu kjaraviðræðum hlýtur því að byggja á sama grunni og kröfur kennara í dag.

Þörfin fyrir vel menntaða kennara og lækna hefur aldrei verið meiri enda þjóðfélagið á stjörnuhraða í tæknivæðingu. Krafan verður sífellt meiri um hærra menntunarstig og betri heilsu. Til þess að geta sinnt þessu þurfa störf kennara og lækna að vera aðlaðandi og aðstæður til að sinna þessum störfum fullkomnar.

Undirritaður lýsir því fullum stuðningi við launa­bar­áttu kennara og óskar eftir því að fá sama stuðning þegar kemur að kjaraviðræðum lækna næsta vetur.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica