11. tbl. 90. árg. 2004

Ritstjórnargrein

Upplýsingatækni í læknisfræði

Karl Andersen

Grundvöllur allrar læknisfræðilegrar meðferðar er upplýsingamiðlun. Læknar leita upplýsinga um meingerð og nýjar meðferðarleiðir sjúkdóma og skiptast á upplýsingum um nýjungar og framþróun. Við miðlum upplýsingum til samstarfsmanna sem skipta sköpum í ákvarðanatöku í daglegum stöfum okkar. Án þessa upplýsingaflæðis væri læknisfræðileg meðferð fljótt úrelt, handahófskennd, ósamhæfð og sennilega í mörgum tilfellum hættuleg. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við ráðum yfir tækni sem auðveldar okkur að nálgast þær upplýsingar sem við leitum að og gerir okkur mögulegt að miðla upplýsingum til annarra.

Á síðastliðnum áratug höfum við tekið þátt í mestu tæknibyltingu mannkynssögunnar. Farsímar, tölvur og internet hafa opnað gáttir að yfirþyrmandi upplýsingaflæði og jafnframt borið með sér möguleika á gagnvirkum samskiptum einstaklinga og stofnana á fljótlegan, öruggan og þægilegan hátt. Tæknilegar framfarir í læknisfræði hafa á sama tíma orðið stórstígari en svo að auðvelt sé að fylgja þeim eftir. Þessi þróun hefur í heildina leitt til aukins hraða og meiri skilvirkni í læknisfræðilegri meðferð.

Milliliður á milli læknis og upplýsinga sem hann þarf að nota og miðla áfram í daglegum störfum er upplýsingatæknin. Þróun tölvukerfa hefur verið í burðarliðnum í mörg ár, en heildarlausnin virðist allt­af vera handan við hornið. Með hliðsjón af tæknibyltingu undanfarinna ára er næsta undarlegt að hagnýting upplýsingatækninnar skuli ekki vera lengra á leið komin í daglegum störfum lækna. Á hátæknisjúkrahúsi eru mismunandi tölvuskrár á mismunandi deildum spítalans, engin samhæfð sjúkraskrá og flutningur upplýsinga milli deilda fer oftast fram á útprentuðum pappírseyðublöðum og jafnvel handskrifuðum miðum. Heilsugæslan í Reykjavík hefur tekið upp margfrægt Sögukerfi sem tengist miðlægri tölvu á Heilsu­verndarstöðinni, en engin miðlun upplýsinga á sér stað milli einstakra heilsugæslustöðva nema á pappír. Sömu sögu er að segja um samskipti heilbrigðisstofnana sín á milli og við einkareknu læknastöðvarnar. Þó hefur gríðarleg vinna verið unnin á síðastliðnum árum til þess að liðka þessar boðleiðir. Nú í byrjun 21. aldar er enn algengt að sjá lækna sitja á læknastofum og skrá nótur með penna og blokk. Þannig virðist hagnýting framfara í upplýsingatækni ekki hafa náð til lækna nema að takmörkuðu leyti. Erfitt er að sjá hvernig þessi raunveruleiki fer saman við það sem við viljum kalla hátækni í heilbrigðisþjónustu.

Á ráðstefnu Skýrslutæknifélagsins um sjúklingamiðuð upplýsingakerfi sem haldin var 15. október síðastliðinn kom fram að fjárfesting heilbrigðisstofnana í upplýsingatæknikerfum væri ekki líkleg til að skila mælanlegum fjárhagslegum ávinningi fyrr en eftir 10-30 ár. Hver er þá ávinningurinn af slíkum kerfum og hvers vegna eru þau nauðsynleg?

Í fyrsta lagi er það krafa sjúklingsins að upplýsingar sem hann lætur í té séu rétt skráðar og nákvæmlega, að þær upplýsingar séu aðgengilegar öðru heilbrigðisstarfsfólki sem þarf á þeim að halda vegna rannsókna og meðferðar á vanda hans, hvort sem það er innan eða utan veggja sjúkrastofnunarinnar. Sjúklingurinn gerir þær kröfur að þessar upplýsingar tryggi öryggi hans gagnvart rangri meðhöndlun eða ómarkvissum rannsóknum. Að lokum gerir hann þá kröfu að með þessar upplýsingar sé farið sem trúnaðarmál og að þær séu ekki aðgengilegar öðrum en þeim sem á þurfa að halda starfs síns vegna. Til þess að uppfylla þessar kröfur allar er gott upplýsingatæknikerfi nauðsynlegt.

Greiðendur heilbrigðisþjónustu gera þá kröfu að meðferðin sé hagkvæm og útgjöldum haldið í lágmarki. Heilbrigðisþjónustan á að vera eins góð og tök eru á að veita á hverjum tíma. Skilvirkni heilbrigðiskerfisins þarf sífellt að efla. Til þess að svo megi verða þarf öflugt upplýsingatæknikerfi.

Læknar gera þá kröfu að þeir hafi aðgang að þeim upplýsingum sem þeir þurfa á að halda, bæði fræðilegra gagna, rannsóknarniðurstaðna og sjúkraskrár­gagna til að geta stýrt meðferðinni og miðlað upplýsingum um hana til annars heilbrigðisstarfsfólks. Þetta er ógerlegt án skilvirks upplýsingatæknikerfis.

Þannig verður hinum margþættu kröfum í læknisfræðilegri þjónustu ekki mætt án aðkomu upplýsingatækninnar. Hér þarf að nýta möguleika tölvuneta og internets með aðgangsstýringu og gagnvirkri upplýsingamiðlun. Rafræn samskipti mega ekki mæta meiri hindrunum en hefðbundin upplýsingaveita gerir. Ótti við misnotkun upplýsingakerfa má ekki verða til þess að hefta framþróun þeirra. Tæknilausnir eru fyrir hendi en hafa af einhverjum ástæðum ekki náð sem skyldi inn í heilbrigðiskerfið. Augnskannar stjórna aðgangi að einkareknum heilsuræktarstöðvum en læknar staðfesta lyfjafyrirmæli með penna.

Á komandi áratug munum við upplifa aukna notkun gagnvirkrar upplýsingaveitu í læknisfræði. Sjúk­lingar munu taka aukinn þátt í ákvarðanatöku um eigin meðferð og komast í samband við gagnabanka með gagnvirkum sjónvarpstengingum á heimili sínu. Með hagnýtingu skipulegra flæðirita og aðstoðar fagfólks getur sjúklingurinn til dæmis sjálfur fylgst með eigin mælingarniðurstöðum og stýrt skammtastærð algengra lyfja, svo sem blóðþynningar-, blóðþrýstings-, sykursýkis- og skjaldkirtilslyfja. Bætt upplýsingaflæði auðveldar sjúklingnum að velja strax réttan stað í heilbrigðisþjónustunni og forðar þannig fjölda óþarfra heimsókna á bráðamóttökur sjúkrahúsanna vegna vandamála sem ekki krefjast bráðra eða sérhæfðra úrlausna. Þessu gæti fylgt mikið hagræði og sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

Heilbrigðisþjónustan er smám saman að færast í átt að einstaklingsmiðaðri þjónustu þar sem sjúklingurinn sjálfur er þátttakandi og meðvirkur í ákvarðana­töku. Meiri áhersla er lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir og greiningu sjúkdóma á frumstigi. Sjúklingar gera aukna kröfu um skjóta sjúkdómsgreiningu og bestu mögulega meðferð. Hlutverk læknisins er að breytast og verður sífellt meira ráðgefandi í stað þess að stjórna með valdboði.

Saga læknisfræðinnar geymir mörg dæmi um litlar uppgötvanir sem ollu straumhvörfum vegna þess að framsýnir menn kunnu að tileinka sér nýjungar og þróa þær áfram. Upplýsingatækni nútímans býr yfir möguleikum til gríðarlegra framfara í læknisfræði. Við læknar þurfum koma auga á þessa möguleika og nýta þá til að þróa fræðigreinina á komandi árum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica