10. tbl. 90. árg. 2004

Umræða og fréttir

Opið bréf til lækna um HOUPE

Kópavogi 23. september 2004

Kæru félagar.

Nú er komið að því að bjóða öllum læknum á Íslandi að taka þátt í rannsókn á heilsu, lífsstíl og starfsskilyrðum lækna.

Rannsóknarverkefninu er stýrt af fagfólki á sviði félagsvísinda og vinnuverndar og tekur mið af fyrri rannsóknum að höfðu samráði við hóp íslenskra lækna frá mismunandi sérgreinum og vinnustöðum. Það er hluti af erlendu samstarfsverkefni sem heitir the HOUPE study eða "Health and Organisation among University Hospital Physicians in four European Countries: Sweden, Norway, Iceland and Italy. How do national framework, gender, hospital structure and organisational culture impact on physicians' health?". Þar störfum við með Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, St. Olav's sjúkrahúsinu í Þrándheimi og Azienda Ospedaliera Universita í Padova, Ítalíu. Læknafélög grannlandanna koma að verkefninu.

Læknafélag Íslands samkvæmt ákvörðun aðalfundar 2003, Landspít­ali og Landlæknisembættið eru aðal styrktaraðilar og ábyrgðarmenn verkefnisins og Læknafélag Reykjavíkur hefur einnig lagt til þess umtalsvert fé. Íslenski hluti þess hefur þá sérstöðu að ná til allra lækna en ekki einvörðungu tiltekinna sjúkrahússlækna.

Markmið íslenska verkefnisins eru:

  • Að lýsa heilsu og lífsstíl íslenskra lækna í faraldsfræðilegri rannsókn.
  •  Að bera saman vinnutengda heilsu lækna, starfsumhverfi og stofnanamenningu eftir tegund og staðsetningu heilbrigðisstofnana hér á landi.
  •  Að bera saman vinnutengda heilsu lækna, starfsumhverfi og stofnanamenningu fjögurra háskólasjúkrahúsa í fjórum löndum.

www.houpe.n

Öllum læknum sem höfðu gilt lækningaleyfi á Íslandi þann 30. júní 2004 skv. skrám Landlæknisembættisins, búsettum hér á landi, verður sent boð um þátttöku og þeir beðnir að svara spurningalista rafrænt á vefsetri rannsóknarinnar

Ennfremur verður aflað gagna frá háskólasjúkrahúsunum fjórum er varða stjórnskipulag, starfsmannastefnu og veikindafjarvistir. Spurningalisti rannsóknarinnar er samsettur úr prófuðum einingum sem mæla m.a. umgjörð, stjórnun og menningu á vinnustað, að mestu sameiginlegur öllum löndunum. Okkar framlag til samstarfsins er að svara spurningum um önnur rannsóknarsvið, þ.e. starfsframa og áhrif þagnarskyldu á líðan. Sérstakur viðauki er um líkamlega heilsu og lífsstíl fyrir Ísland.

Niðurstöður verða kynntar á fundum lækna innan vinnustaða og sem hluti af masters- og doktorsverkefnum.

Ég skora á ykkur að leggja þessu lið með góðri þátttöku þegar þar að kemur.

Með félagskveðju,

Sigurbjörn Sveinsson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica