Umræða og fréttir
  • Mynd 1
  • Mynd 2
  • Mynd 3
  • Mynd 4
  • Mynd 5
  • Mynd 6
  • Mynd 7
  • Mynd 8

Um bókasafn Jóns Steffensen

Af samtölum mínum við þá sem þekktu Jón Steffensen hefur orðið til í huga mér mynd af fremur hæglátum manni með gott skopskyn. Margt er jafnframt til vitnis um að Jón hafi verið ástríðumaður. Auk þess að gegna starfi sem prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands og sjá þá um alla kennslu í líffæra- og lífefnafræði annaðist hann þjónusturannsóknir fyrir starfandi lækna í Reykjavík. Hann stundaði rannsóknir í líffræðilegri mannfræði og varla fundust þær beinaleifar að Jón væri ekki til kallaður með tæki sín og tól til að mæla. Hann lét ekki þar við sitja heldur hélt í víking til Norðurlanda, Bretlandseyja og vestur um haf og mældi íslensk, norræn og engilsaxnesk bein. Mælingar hans leiddu til merkra vísbendinga um uppruna íslensku þjóðarinnar og var hann þekktur í alþjóðasamfélagi mannfræðinga fyrir þessar rannsóknir sínar. Þá lagði Jón einnig stund á rannsóknir er varða íslenska sögu og menningu og þá einkum þær sem tengdust heilbrigði og velferð þjóðarinnar. Þá eru ónefnd störf hans í þágu félagsmála, sem voru mikil.

En hér er það ekki læknirinn Jón Steffensen sem er til umfjöllunar, hvorki mannfræðingurinn Jón né áhugamaðurinn um sögu og íslenska tungu. Jón lagði nefnilega stund á aðra iðju sem oft hefur verið talin ástríða, bókasöfnun. Í spjalli sem Páll Skúlason, lögfræðingur, átti við Jón og birtist í tímaritinu Bókaorminum 1983 segir: ,,Einn er sá þáttur í lífi og starfi Jóns Steffensen, sem mikils er um vert og lengi mun halda nafni hans á loft, er hið mikla og vandaða safn bóka sem hann hefur náð saman og hlýtur að hafa kostað hann mikinn tíma og fjármuni." Það hefur komið í hlut þjóðdeildar Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns að flytja fram þennan þátt í lífsstarfi Jóns, því hann ánafnaði henni bókasafn sitt, auk fjármuna til að búa vel um það. Það starf hefur verið unnið síðustu misserin og hefur safn hans fengið verðugan sess meðal sérsafna þjóðdeildar.

Það er óhjákvæmilegt að í kringum mann eins og Jón, sem lagði stund á svo fjölbreytt fræði, verði til safn bóka. Bókasafnið endurspeglar þannig viðfangsefni Jóns á hverjum tíma. Þar eru bækurnar sem hann kenndi í læknisfræðinni, fjöldi mannfræðirita og svo gott safn bóka á sviði íslenskrar menningarsögu, þar á meðal merkar útgáfur margra forn- og ferðasagna.

En einn er sá þráður í safni hans sem skapar því sérstöðu meðal safna. Jón lagði sig sérstaklega eftir því að safna öllu sem hann komst yfir um íslenska heilbrigðissögu og sögu heilbrigðisfræða almennt. Þar er því að finna margt það elsta sem prentað hefur verið hér á landi um þau mál. Það fyrsta sem birtist um lækningar í prentaðri bók er í tímatali Þórðar Þorlákssonar biskups, sem prentað var í Skálholti 1692 og segir þar meðal annars frá blóðtökum og þvagskoðun. Um og upp úr miðri 18. öld komu síðan út bækur um fæðingarhjálp. Fyrst eftir Balthazar Johann de Buchwald árið 1749 og fjörutíu árum síðar eftir Matthías Saxthorp. Þá kom árið 1798 út þýðing Sveins Pálssonar (1762-1840) á bók hollensks læknis: Edlisútmálun Manneskjunnar og má af formálsorðum Sveins merkja að henni er stefnt gegn handritahefðinni en hann skrifar: ,,til ad þeckja mannsins skapnadar-edli hefir múgi manns hér á landi, allt til þessa, ecki haft önnur hjálpar-medöl, enn afskræmt og ílla valid rugl úr eldgömlum lækninga-skruddum, sem flækjast hér og hvar milli manna, og betur öllum væri lógað." Árið 1782 var prentuð á Hólum samantekt eftir íslenskan lækni, Jón Pétursson (1733-1801): Stutt Agrip umm Icktsyke Edur Lidaveike og þar boðar hann væntanlega lækningabók sína. Það er þó ekki fyrr en áratugum eftir að hann lést, eða árið 1834, sem lækningabók hans er gefin út, fyrst prentaðra lækningabóka eftir íslenskan höfund. Aðdragandi útgáfu hennar var langur og hefur Jón Steffensen rakið þá sögu í grein er birtist í Árbók Landsbókasafns Íslands árið 1986. Árið 1783 sótti Jón Pétursson um að lækningabókin yrði prentuð og urðu ýmsir til að tala máli hans. Þannig mælir Hálfdan prófastur Einarsson með útgáfu hennar og þremur árum seinna segir Jón konferensráð Eiríksson í bréfi til Árna biskups Þórarinssonar að illt væri ef eigi yrði af útgáfu hennar. En enn átti eftir að líða hálf öld áður en á bókin kæmi á prent. Þegar loks kom að útgáfu bókarinnar var það Sveinn Pálsson læknir sem gekk frá handritinu.

Það er þó ekki einungis í prentuðum bókum sem fróðleik um íslenska heilbrigðissögu er að finna. Tímarit og annálar voru oft vettvangur umræðu um heilbrigðismál. Þeim ritum safnaði Jón og gat það oft kostað mikið erfiði að ná þeim heilum saman. Þýski heimspekingurinn Walter Benjamin bendir, í frægri grein um bókasöfnun, á gildi þess að safna. Að ástríðan felist ekki eingöngu í að eignast ritið heldur í leitinni sjálfri. Í áðurnefndu spjalli við Pál Skúlason segir Jón skemmtilega sögu af því hve sú leit getur verið löng og ströng og er vert að rifja hana upp með orðum Jóns sjálfs: ,,Og er þá komið að því ritverki er Jón Eiríksson hleypti af stokkunum er mér þykir vænst um, Rit þess íslenzka lærdómslistafélags, vegna hinna mörgu ágætu greina um hagfræði, læknisfræði og verkmenningu þjóðarinnar sem í því eru. Má vera að hluti af væntumþykjunni stafi af því hvað ég hafði mikið fyrir að ná því saman. ... Fyrsta bindi ritanna, fyrir árið 1780 kom út 1781 og síðan árlega til og með 12 bd.; 13. bd. fyrir árið 1792 kom út 1794 og 14. bd. kom út 1796, en prentun 15. bd. var aldrei að fullu lokið (vantar titilblað, félagatal o.fl., en allar aðalgreinar þess fullfrágengnar). Af manntalstöflum þess má ráða að því hafi verið ætlað að koma út 1801 eða 2; en fyrsta grein bindisins, Tilraun til að upptelia sjúkdóma þá er að bana verða, og orðið geta, fólki á Íslandi, hafði Sveinn Pálsson sent ritara félagsins 1795. Það er skiljanlegt að hið ófullgerða 15. bd. er torfengnast allra bindanna og þó sérstaklega myndin í því. - Þetta ársrit er eitt hið vandaðasta sem út hefur komið á íslensku, ... Vegna hinna mörgu mynda varð útgáfukostnaður mikill ... Sérprentaðar töflur og myndir vilja oft glatast úr bókum og hafa félagsritin gömlu ekki farið varhluta af því. Heil eintök eru því sjaldséð og menn hafa reynt að bæta sér það upp með ljósprentunum ... Það mun hafa verið laust fyrir síðari heimsstyrjöld að ég eignaðist 9. og 10. bd. ritanna og vantaði í þau allar myndir, en Regestur yfir íslensk sjúkdómanöfn eftir Svein Pálsson lækni, sem í þeim eru, freistuðu mín. Smám saman fjölgaði bindunum sem ég eignaðist bæði með gjöfum og kaupum, svo að 1955 átti ég tvö eintök en í þau vantaði 14 myndir til að geta náð úr þeim einu heilu eintaki. En þar sem eintakið var að öðru leyti gott lét ég binda það með festingum fyrir þær myndir er vantaði og fargaði hinu eintakinu. Og þegar ljósprentanir ... komu 1961 fyllti ég í eyðurnar með þeim. Síðan gerist það, að 1966 gerir Björgúlfur læknir Ólafsson er verið hafði læknir holdsveikraspítalans í Kópavogi síðan 1942, mér boð að finna sig. Erindi hans var að gefa mér eintak sitt af gömlu félagsritunum, sem áður höfðu verið í eigu Holdsveikraspítalans á Laugarnesi, það var 1. til 14. bd. heil og í góðu standi og með öllum myndum en ljótur blekstimpill spítalans óprýddi titilblaðið. En harla feginn varð ég gjöfinni, því nú gat ég bætt mitt eintak til muna. ... Og nú vantaði aðeins myndina í 15. bd. til að um heilt eintak ritanna væri að ræða, og satt best að segja gerði ég mér ekki vonir um að eignast hana. Ég hélt þó áfram þeim vana að glugga í eintök af gömlu félagsritunum sem á uppboð komu. Og viti menn, 1970 fær Sigurður Benediktsson eintak af þeim á uppboð sem vantar í flestar myndir aðrar en þá í 15. bd., og samdist svo með okkur að ég fengi þá mynd, en léti í staðinn 5 frummyndir og það af ljósprentunum ... sem á vantaði til að fullgera uppboðseintakið. Þannig lauk þrjátíu ára stríði mínu við að ná saman heilu eintaki af gömlu félagsritunum."

Af erlendum bókum í safni Jóns má nefna fornar bækur um líffærafræði. Allar í fallegu bandi og margar fagurlega myndskreyttar. Ákveðið hefur verið að setja upp litla sýningu helgaða þeim bókum nú í upphafi nýs árs, en stór sýning á bókum og handritum úr safni Jóns mun verða sett upp í tengslum við ráðstefnu sem haldin verður er hundrað ár verða liðin frá fæðingu hans, í febrúar árið 2005.

Auk bókanna fylgdi gjöf Jóns mikið safn sérprenta, bæði íslenskra og erlendra, minnisvarði um þá tíma er hefð var fyrir því að fræðimenn skiptust sín á milli á eigin greinaskrifum. Þá eru í safninu handrit Jóns, bæði af útgefnu efni og eins ýmislegt óbirt. Síðustu ár ævi sinnar vann Jón að ýmsu er varðar ævi og störf Sveins Pálssonar læknis og er afrakstur þess starfs meðal handrita Jóns.

Loks ber að geta bréfasafns Jóns, sem í undirbúningi er að skrá og gera aðgengilegt. Meðal þeirra eru bréf sem Guðmundur Hannesson skrifaði Jóni til Þýskalands er Jón var þar við nám og þá eru umfangsmikil bréfaskipti við félaga í norrænum samtökum áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. Einnig eru forvitnileg bréf frá mannfræðingum víða um heim en þau samskipti hljóta að hafa verið Jóni mjög kær, ekki síst í ljósi þess hvert ,,eyland" Jón var í íslenskri mannfræði þess tíma.

Safn Jóns er merkur vitnisburður um ástríðufulla bókasöfnun og ekki síður verðugur áfangastaður allra þeirra sem hug hafa á að kynna sér, jafnt íslenska sem almenna heilbrigðissögu. Til að auka enn á nálægð Jóns eru ýmsir persónulegir munir, skrifborð, hillur, myndir og fleira varðveitt í safninu, að ógleymdri pípunni og má enn finna tóbaksilminn sem svo margir minnast frá samskiptum sínum við Jón.



Heimildir

1. Skúlason P. Hver ein bók á sína sögu. Rætt við Jón Steffensen. Bókaormurinn 1983; 8: 4-8.

2. Pálsson S. Formáli, í Joannes Florentius Martinet: Edlis-útmálun Manneskjunnar. Leirárgörðum, 1798.

3. Steffensen J. Jón læknir Pétursson og lækningabók hans. Í: Árbók Landsbókasafns Íslands, nýr flokkur, 12. árg. 1986: 40-9.

4. Pétursson J. Stutt Agrip umm Icktsyke Edur Lidaveike. Hólum. 1782.

5. Benjamin W. Unpacking my library. A talk about book collecting. Í: Illumination. London. Pimlico, 1999: 61-9.

6. Hrafnkelsson Ö. Lækningahandrit og prentaðir lækningatextar. Valin dæmi frá 17.-18. öld. Í: 2. íslenska söguþingið. 30. maí - 1. júní 2002.í safni Jóns Steffensen í Þjóðarbókhlöðunni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica