Umræða fréttir

Hvenær og hver á að kalla út þyrlusveitina? - Viljum að þjónusta okkar sé notuð sem mest, segir Friðrik Sigurbergsson umsjónarlæknir þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og Landspítalans

Eftir rútuslysið sem varð á Geldingadraga í Borgarfirði um verslunarmannahelgina urðu nokkrar umræður í fjölmiðlum um það hvernig réttast sé að standa að útkalli þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og Landspítalans. Inn í þær umræður blönduðust aðrar fréttir af önnum þyrlunnar þegar slysahrina gekk yfir skömmu síðar. Af þessu tilefni hitti Læknablaðið Friðrik Sigurbergsson að máli en hann er sérfræðingur á slysa- og bráðasviði Landspítalans í Fossvogi og umsjónarlæknir þyrlusveitarinnar.

Umræður manna á meðal um þyrlusveitina eru af tvennum toga. Annars vegar heyrist stundum gagnrýni á það að þyrlan skuli notuð til þess að ná í lítið slasað fólk sem í raun væri hægt að bjarga með öðrum hætti en svo hendir það líka að þyrlan er ekki tiltæk þegar meira liggur við. Hins vegar er það spurningin um það hver taki ákvörðun um það að kalla þyrluna út en á það reyndi í rútuslysinu sem áður var nefnt.

Varðandi það fyrrnefnda sagði Friðrik að það væri skoðun þeirra sem skipa þyrlusveitina að þjónustu þeirra beri að nota sem mest. "Málið er í rauninni sáraeinfalt, þyrlan á að vera á lofti í 400 klukkustundir á ári og ef lítið er um útköll þurfum við að fara þeim mun oftar í æfingaferðir. Það getur því fallið vel að starfsemi okkar að skreppa eftir manni sem hefur tognað á ökkla á gönguför í Henglinum. Slík ferð getur komið í staðinn fyrir æfingaflug og kostnaður við alvöruferð er að heita má sá sami og við æfingar," segir Friðrik.

Þetta á þó fyrst og fremst við um sumartímann þegar flugskilyrði eru góð. "Það gegnir dálítið öðru máli um vetrartímann því þá þurfum við oft að standa fast á því að fljúga ekki nema brýna nauðsyn beri til. Ef tvísýnt er um færð vegna illviðris og myrkurs erum við að tefla okkar eigin öryggi í hættu með því að fljúga og þá viljum við ganga úr skugga um að þörfin sé raunveruleg og brýn," segir hann.



Ósáttur við boðunarkerfið

Varðandi það hver geti kallað þyrluna út og hvernig það er ákveðið þá segist Friðrik ekki vera sáttur við það hvernig að því er staðið.

"Venjulega er haft samband frá slysstað og beðið um aðstoð þyrlunnar. Það er svo Neyðarlínan eða aðrir björgunaraðilar sem taka ákvörðun um framhaldið. Að vísu getum við í áhöfninni breytt þeirri ákvörðun og gerum það stundum í samráði við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Það hefur gerst þegar augljóst er af atburðarásinni að veruleg líkindi séu á því að alvarlegt slys hafi orðið.

Það er mín skoðun að þegar Neyðarlínan fær tilkynningu um að rúta með 30 manns innanborðs hafi oltið þá eigi hún að setja slysadeildina í viðbragðsstöðu fyrir hópslys og senda greiningarsveit á vettvang með þyrlunni. Við vorum ósáttir við að þyrlan væri einungis sett í viðbragðsstöðu en ekki send strax af stað. Þarna getur hver mínúta skipt máli við björgun mannslífa eins og dæmin sanna. Og þó svo væri ekki þá er enginn skaði skeður með því að senda okkur af stað. Við fáum þá bara góða æfingu út úr ferðinni."



Engin varaáhöfn tiltæk

Þegar slysahrinur ganga yfir getur álagið á starfsmenn þyrlusveitar og slysadeildar orðið mikið. Menn hafa því velt því fyrir sér hvort nóg sé að hafa eina þyrluvakt. Sveitina skipa, auk flugáhafnar, sex læknar og skipta þeir með sér vöktum sem eru frá einum sólarhring upp í þrjá. Allir eru þessir læknar jafnframt í fullu starfi við Landspítalann.

"Þegar álagið er mikið getur farið svo að við verðum að neita fólki um aðstoð af þeirri ástæðu að reglur um vinnutíma sveitarinnar banna okkur að fljúga meira en orðið er. Menn verða að fá sína lágmarkshvíld. En þegar svo háttar er ekki hægt að kalla út aðra áhöfn því fjárveitingar leyfa ekki að önnur áhöfn sé á bakvakt. Stundum hefur það gerst að sveitin er að sinna verkefni fjarri Reykjavík eða í gæsluflugi þegar útkall berst. Þá þyrfti að vera hægt að manna hina þyrluna og senda hana á vettvang en það er ekki hægt.

Verst finnst okkur þó ef þetta gerist þegar þyrlan er upptekin við að flytja erlenda þjóðhöfðingja milli staða eða að sinna öryggisgæslu vegna slíkra heimsókna. Þá hefur það komið fyrir að engin þyrla er tiltæk dögum saman, til dæmis þegar forseti Kína var hér á ferð. Þá var þyrlan upptekin mestallan tímann við að flytja víkingasveit lögreglunnar á milli viðkomustaða forsetans," sagði Friðrik Sigurbergsson.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica