Umræða fréttir

Staða barna- og unglingageðlækninga í Evrópu. Greinargerð Evrópusamtaka barna- og unglingageðlækna

Í barna- og unglingageðlækningum er unnið með alþjóðlega viðurkenndar læknisfræðilegar aðferðir, staðla og viðhorf við greiningu, fyrirbyggingu og meðferð á geðröskunum fólks undir 18 ára aldri. Einnig að unnið sé að framgangi fræðanna í þágu aukins geðheilbrigðis.





Heiti og titlar

Innan evrópsku sérgreinasamtakanna UEMS er heitið barna- og unglingageðlækningar/sálgreining (Child and Adolescent Psychiatry Psychotherapy; CAPP) notað til að sýna að sálgreining á ungu fólki, framkvæmd af barna- og unglingageðlæknum, sé hluti af starfi sérfræðinga í barna- og unglingageðlækningum. Sálgreining er hluti af sérnámi barna og unglingageðlækna, er faglega unnin og veitt innan ramma greiningar. Þetta kallar á sérstaka viðurkenningu, og því er það haft í titli UEMS-kaflans. Í CAPP-samtökunum eru vanalega ekki læknisfræðilega menntaðir sálgreinar fyrir fullorðna sjúklinga.

Heitin "barna- og unglingageðlækningar", "barnageðlækningar", "barna- og unglingataugageðlækningar", "pedopsychiatry" og fleiri eru útbreidd í Evrópulöndum. Í raun þýða þau öll hið sama, þótt mismunandi sé eftir löndum hvernig barna- og unglingageðheilsuþjónusta er skipulögð eftir aldurshópum, og hversu mikil skörun er við barnataugalæknisfræði. Heitið "CAPP" er notað í þessu skjali til styttingar þegar læknisþjónustunni er lýst, þótt heitið barna- og unglingageðlæknir sé notað til glöggvunar þegar vísað er til iðkandans.





Störf CAPP

Barna- og unglingageðlæknar eru með mikla sérþekkingu. Ekki kalla öll geðheilsuvandamál ungmenna á sérhæfða þekkingu geðlækna né lækna yfirhöfuð. Vægar geðraskanir geta foreldrar eða ósérhæfðir einstaklingar oftast ráðið við. Við sum alvarlegri vandkvæði er hins vegar þörf á faglegri þekkingu annarra en þeirra sem hafa læknisfræðilega kunnáttu, svo sem sálfræðinga, sálgreina, hjúkrunarfræðinga, kennslufræðinga, félagsráðgjafa og svo framvegis. Sumar alvarlegar geðraskanir geta barna- eða heimilislæknar séð um. Alvarlegustu og erfiðustu geðraskanirnar þurfa þó aðstoð barna- og unglingageðlæknis.

Möguleiki er á frekari sérhæfingu á CAPP-sérsviðinu. Barna- og unglingageðlæknar nota staðlaðar læknisfræðilegar aðferðir (greiningu, lyfjameðferð og fleira) en eru einnig þjálfaðir í sálfræðilegum aðferðum, greiningum og sálfræðimeðferðum sem sumir sérfræðingar nota mikið. Sums staðar er vinna barna- og unglingageðlækna nátengd vinnu barna-taugalækna. Til er úrval af aðferðum sem gefa færi á mjög fjölbreyttri meðferð þannig er unnt að velja um marga möguleika. Mismunandi vinnuaðferðir kunna að ráða því hvaða geðröskunum er vísað áfram til tiltekins barna- og unglingageðlæknis.

Þótt barnið (heiti sem er látið ná til unglinga einnig), sé meginviðfangsefni barna- og unglingageðlækna, þarf að taka tillit til þess að næstum öll börn lifa og þroskast hjá fjölskyldum sínum. Meðferð CAPP beinist að því að vinna með foreldra jafnt sem börn vegna þess að foreldrar hafa valdið til að veita þroska barnanna brautargengi. Viðhorf foreldra eru mikilvæg með tilliti til hegðunarmótunar og lyfjagjafar til að meðferðarheldi sé til staðar. Stundum er viðeigandi að hafa alla fjölskylduna í meðferð, sérstaklega þegar tilfinningavandi og hegðun barnsins stafa af misverkunum í fjölskyldukerfinu.





Framkvæmd greiningar

Geðtruflanir barna eru vel skýrðar og til eru umfangsmikil gögn um uppruna þeirra og orsakir. Venjulega er um að ræða samspil erfða, líffræðilegra þátta og umhverfisþátta. Geðraskanirnar eru oft langvinnar, þrúgandi fyrir fjölskyldu og umhverfi, og kostnaðarsamar fyrir þjóðfélagið. Þær kunna að skaða persónuþroska einstaklingsins, setja skólagönguna í uppnám og valda foreldrum og systkinum verulegri óhamingju.

Greiningarferlið er margbrotið og í því felst meira en það að bera kennsl á tiltekið mynstur af sjúkdómseinkennum. Það beinist einnig að því að skoða samspil einstaklinga og fjölskyldna, og að lýsa kerfi þar sem einkennum er haldið við með ákveðinni hegðun og hugsun sem lagast illa að aðstæðum. Stundum eiga fleiri en ein sjúkdómsgreining rétt á sér.

Við þetta bætist sú staðreynd að barnið er einstaklingur að þroskast - en ekki lítil fullorðin manneskja - og taka þarf tillit til aldurs einstaklingsins við greiningu og meðferð.





Þjálfun

Af ofangreindu sést að greiningarhlutverk CAPP- sérfræðings kallar á hæfni á mörgum sviðum læknisfræði jafnt sem sálfræðiþekkingar og þekkingar í félagsvísindum. Nálgun meðferðar er ekki bara líkamleg heldur einnig sálfræðileg og ráðgefandi svo að fagþekkingin er umfangsmikil.

CAPP á upphaf sitt bæði í almennum geðlækningum og í barnalækningum. Þannig getur CAPP-sérfræðingurinn ekki einungis komist af með kunnáttu og sérþjálfun geðlæknis fullorðinna. Á fyrstu áratugum CAPP og fram til þessa, hafa verið til sérfræðingar með fulla þjálfun í geðlækningum bæði fullorðinna og barna. Í löndum þar sem sérfræðiviðurkenning í taugalæknisfræði er enn hluti af almennum geðlækningum, kann að reynast erfitt að uppfylla allar þær kröfur sem bæði sérnám felur í sér auk þess að uppfylla skilyrði fyrir viðurkenningu í barna og unglingageðlækningum.

Í ráðleggingum um þjálfun í CAPP sem eru útgefnar af UEMS CAPP-samtökum, er talið að fjögur ár í barna- og unglingageðlækningum/sálgreiningu og eitt ár í fullorðinsgeðlæknisfræði sé lágmark til að þjálfunarþeginn teljist vera orðinn nógu hæfur. Mælt er með að minnsta kosti einu valári í barnalækningum fyrir hinn verðandi CAPP-sérfræðing. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að á árum sínum í læknanámi sem og í CAPP-þjálfunarnámskrá sinni hafi þjálfunarþeginn þegar fengið tækifæri til að viða að sér þekkingu og reynslu í barnalækningum.





Þjónustuframboð

Barna- og unglingageðlækningar hafa verið viðurkenndar sem sérgrein í læknisfræði í um hálfa öld í mörgum Evrópulöndum. Þó eru enn nokkur lönd þar sem geðheilsuþörfum barna er einungis sinnt af geðlæknum fullorðinna eða öðrum læknum en barna og unglingageðlæknum, eða þar sem engin aðskilin full námsbraut býðst í barna- og unglingageðlækningum. Þetta er ófullnægjandi að áliti UEMS-CAPP-sérfræðinga. Börn eru um fjórðungur íbúafjöldans í þróuðum löndum og tegundir geðraskana sem þau kunna að hrjá og meðferð þeirra er ekki nákvæmlega eins og hjá fullorðnum.

Fjöldi barna- og unglingageðlækna er mjög misjafn eftir löndum, en þó er hægt að setja fram nokkrar almennar alhæfingar þar um:

Í lok 20. aldar var fjöldi barna- og unglingageðlækna í Evrópu almennt yfir 9000, og í ESB- og EFTA- löndunum samanlagt var talan í kringum 5500. Að meðaltali eru því sex sérfræðingar á hver 100.000 börn og unglinga. UEMS-CAPP-sérdeildin telur þetta ófullnægjandi þótt það fari eftir viðkomandi landi hver æskileg tala sé. Hún fer eftir því hversu mikill stuðningur kemur á móti frá öðrum greinum en geðlækningum.





Kennsluhliðar

Vísindalegur grunnur á háskólastigi er til staðar fyrir þjálfun í barna- og unglingageðlækningum og kennslu.

Í ESB- og EFTA-löndum eru um 120 prófessorsstöður í barna- og unglingageðlækningum við læknadeildir háskóla. Hin vísindalega CAP-stofnun í Evrópu, Evrópufélagið um barna- og unglingageðlækningar (The European Society for Child and Adolescent Psychiatry; ESCAP), var stofnuð 1960 og er undanfari þess að stofnuð var sérdeild barna- og unglingageðlækninga/ sálfræðilækninga (Section Child and Adolescent Psychiatry/Psychotherapy) hjá Evrópusambandi sérfræðilækna (European Union of Medical Specialists; UEMS Section CAPP) sem var stofnað 1993.

Það er mikil samvinna milli UEMS CAPP og ESCP, sem hjálpar til við gerð góðra greiningarstaðla og við notkun eða þróun á gagnagrunni fyrir nauðsynlega kennslu. Aðferðir í barnageðlækningum eru sannanlega skilvirkar séu þær bornar saman við aðferðir sem ekki eru sértækar eða sérfræðilegar og þær halda áfram að þróast.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica