Umræða fréttir

Læknablaðið frá upphafi komið á netið

Eins og lesendur Læknablaðsins vita eflaust flestir hefur allt efni blaðsins verið sett út á heimasíðu þess frá og með upphafi árs 2000. Hægt er að leita í öllum texta blaðsins, bæði fræðigreinum og því efni sem birst hefur í umræðuhlutanum. Sú spurning hefur hins vegar oft heyrst hvort þeir 85 árgangar sem þá voru komnir út verði einhvern tíma aðgengilegir. Nú er svo komið að hægt er að svara þeirri spurningu játandi, þó með nokkrum fyrirvara.

Á bókasöfnum spítalanna í Fossvogi og við Hringbraut unnu starfsmenn það þrekvirki að skrá allt efni blaðsins frá upphafi inn í tölvu. Að vísu voru einungis skráðar fyrirsagnir, heiti höfunda og lykilorð greina en að þessu þrennu var hægt að leita. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að leitina var einungis hægt að stunda í tölvum bókasafnanna. Skráningin fór fram á tölvumáli sem notað var fyrir daga netsins og þegar það kom til skjalanna var ekki auðunnið verk að færa skrána yfir á nýtt form.

Í vor gerðist það hins vegar að opnaður var aðgangur að bókasafnskerfinu Gegni á netinu en það mun hýsa samskrá íslenskra bókasafna. Þá þegar voru komnar í gagnasafnið allar skrár Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og tíu annarra rannsóknarbókasafna. Þeirra á meðal er bókasafn Landspítala og þar með er skráning safnsins á efni Læknablaðsins orðin aðgengileg á netinu.

Skráin er á vefslóðinni www. gegnir.is. Hægt er að leita að greinum eftir ákveðna höfunda eða slá inn efnisorð og leita þannig í fyrirsögnum og lykilorðum greina. Þegar menn hafa fundið þá grein sem leitað er að er hægt að sjá hvar hana er að finna í söfnum landsins og panta hana eða nálgast með öðrum hætti.

Á heimasíðu Læknablaðsins (laeknabladid.is) er hægt að fara beint inn í Gegni.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica