11. Vísindaráðstefnan

Ellefta ráðstefnan um rannsóknir í læknadeild, tannlæknadeild og lyfjafræðideild Háskóla Íslands

Ráðstefna um rannsóknir í læknadeild Háskóla Íslands hefur verið haldin frá árinu 1981 og er nú í fyrsta sinn haldin sameiginlega af læknadeild, tannlæknadeild og lyfjafræðideild. Nýskipuð Vísindanefnd þessara þriggja deilda sér um framkvæmd ráðstefnunnar.

Fjöldi framlaga sem barst að þessu sinni er til marks um mikla grósku í rannsóknum í lífvísindum. Aukin áhersla á rannsóknatengt nám innan Háskóla Íslands eykur rannsóknavirkni deilda og á eftir að auka hana enn frekar ef tekst að fjármagna þessa starfsemi.

Tilgangur ráðstefnunnar er að kynna þær rannsóknir sem unnið er að í þessum deildum eða í tengslum við þær og einnig að gefa ungum vísindamönnum tækifæri til að kynna rannsóknaverkefni sín. Ráðstefnan spannar fjölmörg svið en framlög eru mismörg í ólíkum greinum. Þetta skýrist auðvitað að hluta af mismikilli rannsóknavirkni á einstökum sviðum. Virkir rannsóknahópar, þar sem margir nemar í framhaldsnámi eru við störf, senda að sjálfsögðu inn mörg framlög. Að hluta má þó rekja ójafnvægi milli greina til mismikils áhuga á þátttöku. Markmið deildanna og Vísindanefndar er hins vegar að höfða til sem flestra þannig að ráðstefnan endurspegli vísindastarfsemi á þessum sviðum hér á landi sem best.

Fyrirkomulag ráðstefnunnar er með svipuðu sniði og síðast. Viðhorfskönnun sem gerð var í lok ráðstefnunnar 2001 benti ekki til að þátttakendur teldu annan tíma en janúarbyrjun henta betur og einnig virtist nokkur sátt um tímalengd erinda. Alltaf má þó betrumbæta og eru ábendingar og tillögur um það sem betur mætti fara í framkvæmd eða kynningu á ráðstefnunni vel þegnar.

Fjöldi erinda sem flutt verða markast af því að ráðstefnan stendur aðeins í tvo daga. Nokkur fjöldi framlaga sem höfundar höfðu óskað að kynna með erindi verða því kynnt sem veggspjöld. Veggspjöld verða hins vegar uppi báða ráðstefnudagana og ættu því að gefast næg tækifæri til að skoða þau.

Birna Þórðardóttir sér nú um framkvæmd ráðstefnunnar í þriðja sinn. Hennar þáttur er mjög stór, sérstaklega þar sem ný Vísindanefnd var ekki skipuð fyrr en á miðju haustmisseri. Þakkar Vísindanefnd Birnu frábær störf.

Ég vona að ráðstefnugestir hafi bæði gagn og ánægju af því sem kynnt verður á þessum ráðstefnudögum og kynni sér ekki aðeins það sem er að gerast á sínu sérsviði heldur einnig hvað er að gerast í öðrum greinum.







Jórunn Erla Eyfjörð

formaður Vísindanefndar læknadeildar, tannlæknadeildar og lyfjafræðideildar

Vísindanefnd læknadeildar, tannlæknadeildar og lyfjafræðideildar Háskóla Íslands

Elín Soffía Ólafsdóttir lyfjafræðideild HÍ

Gísli H. Sigurðsson læknadeild HÍ

Jórunn Erla Eyfjörð læknadeild HÍ, formaður nefndarinnar

Sigfús Þór Elíasson tannlæknadeild HÍ

Svandís J. Sigurðardóttir sjúkraþjálfunarskor, læknadeild HÍ

Þór Eysteinsson læknadeild HÍ



Framkvæmdastjóri ráðstefnunnar

Birna Þórðardóttir



Dómnefnd vegna verðlauna Menntamálaráðuneytisins til ungs og efnilegs vísindamanns

Guðmundur Þorgeirsson

Ingileif Jónsdóttir, formaður dómnefndar

Þórunn Rafnar
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica