Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 43-84

V 43 Boðefni og efnatogar sem einkenna Th1 og Th2 frumur í RSV og öðrum veirusýkingum í ungbörnum


 

Stefanía P. Bjarnarson1, Ingileif Jónsdóttir1, Áslaug Pálsdóttir3, Inger María Ágústsdóttir3, Þorgerður Árnadóttir2, Göran Wennergren5, Ásgeir Haraldsson3, Sigurður Kristjánsson3



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði, 2veirufræði og 3Barnaspítali Hringsins Landspítala Hringbraut, 4Heilsugæslustöð Reykjavíkur, 5barnadeild Queen Silvia Barnaspítalanum, Gautaborg

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Respiratory syncytial veira (RSV) er ein algengasta orsök veirusýkinga í neðri öndunarvegi ungbarna og sýkjast tveir þriðju barna innan eins árs. Talið er að RSV-sýking í ungbörnum auki líkur á astma eða ofnæmi síðar á ævinni. Eósínphilia í lungum hefur verið tengd við staðbundna minnkun á framleiðslu IFN-g og aukningu á IL-4. Þessi boðefni ásamt IL-5, MIP-b og eótaxín voru mæld í nefskoli og Eosinopil Cationic Protein (N-ECP) sem líka var mælt í sermi (S-ECP).

Efniviður og aðferðir: Nefskolsýni voru tekin úr 68 ungbörnum (sjö mánaða eða yngri) með veirusýkingu og sýking staðfest með ræktun og flúrskinslitun. Þrjátíu og níu höfðu RSV-sýkingu, níu aðrar veirusýkingar. Fimmtíu heilbrigð ungbörn voru til viðmiðunar (VM). IL-4, IL-5, IFN-g, MIP-b og eótaxín voru mæld í nefskoli með ELISA og ECP með UniCap.

Niðurstöður: Ekki var marktækur munur á magni neinna boðefna eða efnatoga milli barna með RSV og aðrar veirusýkingar. Marktækur munur var milli RSV og VM í IL-4 (0,79 miðað við 0,31 pg/mL; p=0,008), IFN-g (0,55 miðað við 0,18 pg/mL; p=0,021), MIP-b (605 miðað við 128 pg/mL; p<0,001) og N-ECP (379 miðað við 54 µg/L; p<0,001). Í RSV-hópnum var fylgni milli IL-4 og N-ECP (R=0,60; p<0,001), Il-4 og S-ECP (R=0,35; p=0,002), en neikvæð fylgni milli IFN-g og N-ECP (R=-0,39; p=0,015). Fylgni var á milli CD4 efnatogans MIP-b og N-ECP (R=0,35; p=0,064). Neikvæð fylgni var milli IL-4 og eótaxíni (R=-0,48; p=0,002). IL-4 í RSV-hópnum var marktækt hærra í ungbörnum, þriggja mánaða eða yngri, en þeim eldri (p=0,049), en eótaxín jókst með aldri (p=0,003).

Í RSV-sýktum ungbörnum var IL-4, IFN-g, MIP-b og N-ECP hærra en í heilbrigðum. Í RSV-hópnum var jákvætt samband á milli N-ECP og IL-4 en neikvætt við IFN-g. Ekki fannst hækkað hlutfall Th2/Th1 boðefna í RSV-sýktum ungbörnum miðað við heilbrigð.

Ályktanir: Við drögum þá ályktun að aukin framleiðsla Th2 boðefna í staðbundnu ónæmissvari í RSV-sýkingu sé tengd aldri.





V 44 Miðeyrnasýking í rottum. Áhrif bólusetningar

á sýkingarmynd

Ingileif Jónsdóttir1, Arnfríður Henrýsdóttir2, Håvard Jakobsen1, Stefanía P. Bjarnarson1, Anna Björk Magnúsdóttir3,5, Ann Hermansson3, Karl G. Kristinsson4, Hannes Petersen5



1Ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2læknadeild HÍ, 3háls-, nef og eyrnadeild Háskólasjúkrahússins í Lundi, 4sýkladeild Landspítala Hringbraut, 5háls-, nef og eyrnadeild Landspítala Fossvogi

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Ein algengasta orsök eyrnabólgu í börnum er Streptococcus pneumoniae, pneumókokkar. Vaxandi sýklalyfjaónæmi pneumókokka meðal annars hér á landi hefur aukið þörf á fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem bólusetningum. Fjölsykrubóluefni (PPS) er gagnlegt gegn pneumókokkasýkingum í fullorðnum, en vekur ekki ónæmissvar í börnum yngri en tveggja ára. Próteintengdar fjölsykrur (PNC) vernda ungbörn gegn ífarandi pneumókokkasýkingum og veita nokkra vernd gegn eyrnabólgum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna mótefnamyndun gegn PNC og áhrif á miðeyrnabólgu í rottum.

Efniviður og aðferðir: Átján Sprague-Dawley rottur voru bólusettar á degi eitt og 14 undir húð með p barnaskammti af Prevenar (sjö hjúpgerðir pneumókokkafjölsykra tengdar próteininu CRM197): 18 voru óbólusett viðmið, fjórar voru bólusettar með bóluefni ásamt ónæmisglæði. Á degi 28 voru rotturnar sýktar með pneumókokkum af hjúpgerð 6B í vinstra miðeyrað. Bláæðablóð var dregið úr hala fyrir og 14, 28 og 38 dögum eftir bólusetningu. IgG-mótefni gegn hjúpgerðunum 7 voru mæld með ELISA.

Niðurstöður og ályktanir: Í bólusetta hópnum varð marktæk aukning á IgG mótefnum gegn öllum sjö hjúpgerðum frá degi eitt til 28, styrkur mótefna var breytilegur og hlutfallslega lágur gegn 6B. Marktækur munur var á mótefnastyrk bólusetta hópsins og viðmiðunarhóps á degi 28. Allar rotturnar fengu miðeyrnasýkingu eftir inngjöf hjúpgerðar 6B á degi 29. Bólusetti hópurinn fékk vægari sýkingu og var marktækt fljótari að ná bata. Ein rotta úr viðmiðunarhópi fékk ífarandi sýkingu og dó fyrir lok tilraunar.

Sjögilda pneumókokkabóluefnið Prevenar vakti mótefnasvar í rottum gegn öllum hjúpgerðum þess. Það kom ekki í veg fyrir miðeyrnasýkingu pneumókokka af hjúpgerð 6B við þessar tilraunaaðstæður, en stuðlaði að vægari sýkingu og hraðari bata. Þetta líkan verður notað til að hanna betri aðferðir við bólusetningar gegn eyrnabólgu.





V 45 Dýralíkan miðeyrnasýkinga. Máttur aðferðarinnar, annmarkar greiningar

Hannes Petersen5, Rakel Valdimarsdóttir2, Anna Björk Magnúsdóttir3,5, Ann Hermansson3, Karl G. Kristinsson4, Håvard Jakobsen1, Ingileif Jónsdóttir1



1Ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2læknadeild HÍ, 3háls-, nef og eyrnadeild Háskólasjúkrahússins í Lundi, 4sýkladeild og 5háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

hpet@landspitali.is



Inngangur: Miðeyrnabólgur af völdum baktería eru algengar í börnum og hafa um 70% barna fengið að minnsta kosti eina slíka sýkingu við þriggja ára aldur. Streptococcus pneumonia er sú baktería sem oftast sýkir miðeyru manna ásamt því að sýkingar af hennar völdum leiða til alvarlegustu fylgikvillanna ef fram koma. Dýralíkön þykja góð til rannsókna á miðeyrnabólgum þar sem ströng stöðlun tilraunaaðstæðna orsaka og afleiðinga er möguleg. Við greiningu á miðeyrnabólgum er mikilvægt að fá sem gleggsta mynd af hljóðhimnu enda er huglægt mat þess er greinir á útliti hljóðhimnunnar lagt til grundvallar greiningarinnar. Því er mikilvægt að myndgreiningartækið gefi góða mynd af þeim þáttum sem leitað er eftir og þykir eyrnasmásjáin best.

Efniviður og aðferðir: Fjörutíu karlkyns Spraque Dewly rottur voru sýktar með Streptococcus pneumonia, hjúpgerð 6B. Í svæfingu var framkvæmd aðgerð og bakteríulausn komið fyrir í bulla temporalis sem er kviðlæg útbungun úr miðeyra rottunnar. Rotturnar voru síðan skoðaðar á öðrum, fjórða, sjötta, áttunda og 10. degi sýkingar með smásjá og var útlit hljóðhimnunnar stigað með tilliti til vökva og æðateiknar en þeir þættir eru talin helstu teikn miðeyrnasýkingar. Á fjórða degi sýkingar voru bólusettu rotturnar skoðaðar af þremur aðilum, með þremur mismunandi greiningartækjum, eyrnasmásjá, otoscopi og stafrænni eyrnasjá, til að meta greiningargetu og samræmi þeirra.

Niðurstöður: Allar rotturnar sýktust, bólusettar og óbólusettar. Af óbólusettu rottunum höfðu 87,5% fengið sýkingu með purulent vökva á degi tvö. Á degi 10 voru 43% lausar við sýkingu en purulent vökvi enn til staðar hjá 28%. Ein rotta sýndi einkenni fjölkerfa sýkingar og dó á sjötta degi. Mest samræmi var á milli skoðunar á hljóðhimnum, með mismunandi greiningartækjum, hjá reyndasta skoðunaraðila og í samanburði skoðunar reyndra og óreyndra aðila var mest samræmi á milli þeirra þegar notuð var smásjá við skoðunina.

Ályktanir: Dýralíkan það sem notað var í þessari rannsókn reynist vel til framköllunar á stýrðum miðeyrnabólgum í rottum þar sem markmiðið var að fjöldi sýktra væri í hámarki og fjöldi dauðra í lágmarki. Allar rotturnar reyndust sýkjast og aðeins ein drapst fyrir lok rannsóknarinnar. Samanburður myndgreiningartækjanna sýndi að óreyndir athugendur geta metið hljóðhimnubreytingar af nokkurri nákvæmni ef myndgæði greiningartækis eru góð. Það sýnir sig hins vegar óraunhæft að ætla að nálgast rétta greiningu með óreyndum athuganda og greiningartækjum er gefa lélega mynd. Reyndur athugandi getur hins vegar nálgast rétta greiningu með nokkurri nákvæmni þrátt fyrir miður góð myndgæði.





V 46 Aldursháð T-frumu svör gegn próteintengdum pneumókokkafjölsykrum. Veikt og Th2-ríkjandi svar

í nýfæddum músum má yfirvinna með notkun LT-K63 ónæmisglæðis

Håvard Jakobsen1, Sólveig G. Hannesdóttir1, Stefanía P. Bjarnarson1, Emmanuelle Trannoy2, Giuseppe Del Giudice3, Claire-Anne Siegrist4, Ingileif Jónsdóttir1



1Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Aventis Pasteur, Frakklandi, 3Chiron, Ítalíu, 4Genfarháskóli, Sviss
ingileif@landspitali.is



Inngangur: Við höfum sýnt að bólusetning með tetanus-toxoid (TT)-tengdum pneumókokkafjölsykrum (Pnc-TT) getur verndað nýfæddar og ungar mýs gegn pneumókokkasýkingum, en bæði ónæmissvör og vernd voru lægri en í fullorðnum músum.

Efniviður og aðferðir: Til þess að meta hvort lágt svar gegn Pnc-TT tengist lágu T-frumusvari gegn burðarpróteininu, voru T-frumusvör gegn TT í músum bólusettum á mismunandi aldri með Pnc-TT metin.

Niðurstöður: Miltisfrumur úr fullorðnum músum sem voru bólusettar undir húð með Pnc-TT fjölguðu sér við örvun með TT, en miltisfrumur úr nýfæddum og ungum músum ekki. Marktæk IL-5 myndun fékkst við örvun miltisfrumna allra aldurshópa, en svarið var aldursháð. Hins vegar var IFN-g myndun miltisfrumna úr nýfæddum músum hverfandi. Takmörkuð myndun Th1-frumuboðefna í nýfæddum músum endurspeglaðist í lækkuðu IFN-g/IL-5 hlutfalli og lágum IgG2a mótefnum. Fylgni var milli IL-5 myndunar og magns IgG mótefna gegn bæði TT og fjölsykrunni. Með því að nota ónæmisglæðinn LT-K63 var hægt að yfirvinna þetta takmarkaða ónæmissvar gegn Pnc-TT, bæði með bólusetningu undir húð og um nef. Aukið mótefnasvar af völdum LT-K63 tengdist aukinni T-frumusvörun gegn TT og fékkst fullorðinslík frumufjölgun og IFN-g myndun bæði í milta og eitlum nýfæddra músa. Hins vegar jókst IL-5 myndun eingöngu ef mýsnar voru bólusettar með Pnc-TT og LT-K63 undir húð.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að T-frumusvör gegn burðarpróteini Pnc-TT aukast með aldri og virðast stýra mótefnamyndun gegn fjölsykruhlutanum. Takmarkaða T-frumusvörun í nýburum má yfirvinna með LT-K63 ónæmisglæði. Próteintengdar fjölsykrur ásamt ónæmisglæðum vekja mismunandi ónæmissvör í nýfæddum músum eftir því hvort þær eru gefnar um nef eða undir húð, sem endurspeglast í mismunandi vægi boðefna Th1- og Th2-frumna og IgG undirflokkum mótefnaseytandi B frumna og minnisfrumna.





V 47 Sértæk mótefni gegn Streptococcus_pneumoniae>Streptococcus pneumoniae (pneumococcus) hjá barni með miltisleysi í tengslum við tvær blóðsýkingar með hjúpgerð 33F og bólusetningu með 23-gildu fjölsykrubóluefni og próteintengdu bóluefni gegn pneumókokkum

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, Ingileif Jónsdóttir1, Þórður Þórkelsson2



1Rannsóknastofnun í ónæmisfræði, 2Barnaspítali Hringsins Landspítala háskólasjúkrahúsi

ingileif@landspitali.is



Inngangur: Vörn gegn pneumókokkum er miðluð með sértækum mótefnum gegn fjölsykrum og komplementum. Fjölsykrur pneumókokka eru T-óháðir mótefnavakar og mótefnamyndun gegn þeim er háð eðlilegri starfsemi miltans. Miltisleysi (asplenia) eykur hættu á ífarandi sýkingum af völdum pneumókokka.

Efniviður og aðferðir: Við kynnum barn sem fékk tvisvar blóðsýkingu af pneumókokka, hjúpgerð 33F, við 10 og 17 mánaða aldur. Miltisleysi kom í ljós við ísótópaskann og tölvusneiðmynd. IgG gegn hjúpgerðum 1, 3, 4, 5, 6B, 7F 9V, 14, 18C, 19F, 23F og 33F var mælt með staðlaðri ELISA fyrir og eftir sýkingar, bólusetningu tveimur mánuðum síðar með 23-gildu fjölsykrubóluefni (PPS), tvær bólusetningar með11-gildu próteintengdu bóluefni gegn pneumókokkum (PNC) (Aventis Pasteur) við 28 og 29 mánaða aldur og endurbólusetningu með PPS ári síðar.

Niðurstöður: Eftir báðar sýkingar af hjúpgerð 33F mældist 2-37 föld aukning á sértæku IgG gegn öllum hjúpgerðum nema 23F. PPS bólusetning ræsti IgG svar aðeins gegn hjúpgerðum 3 og 7F. PNC sem gefið var 9 og 10 mánuðum síðar olli 2,5->200 faldri hækkun á IgG (gildi >1,97 µ/ml) gegn öllum hjúpgerðunum nema 33F sem ekki er í PNC og 23F, < 0,3 µ/ml. PPS endurbólusetning ári eftir PNC framkallaði geysilega hátt IgG endursvar.

Ályktanir: Ífarandi sýking af einni hjúpgerð pneumókokka veldur hækkun á IgG gegn mörgum hjúpgerðum sem bendir til ósértækrar mótefnaframleiðslu sem líklega veitir takmarkaða eða enga vörn gegn sýkingu. Þegar metin er geta ónæmiskerfisins til að mynda mótefni gegn fjölsykrum, ber að gera það í tengslum við bólusetningu með fjölsykrubóluefni og túlka varlega mælingar mótefna sem eru til staðar vegna náttúrulegrar útsetningar. Einnig sýna þessar niðurstöður að PNC bóluefni ræsir gott mótefnasvar og ónæmisminni gegn pneumókokkum í miltislausum einstaklingi.







V 48 Samanburður á húðsæknieiginleikum T-eitilfrumna úr kokeitlum, blóði og kviðarholseitlum



Ragna H. Þorleifsdóttir
1, Jóhann E. Guðjónsson1, Hekla Sigmundsdóttir1, Páll Möller2, Hannes Petersen3, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild, 2skurðdeild og 3háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Kokeitlar eru frábrugðnir öðrum slímhúðareitilvef meðal annars að því leyti að þeir eru þaktir lagskiptri flöguþekju. Ákveðnar húðsæknisameindir á yfirborði T-eitilfrumna, einkum cutaneous lymphocyte antigen (CLA) og viðtakinn fyrir kemókín 4 (CCR4), hafa verið tengdar meinmyndun sóra. Það er vel þekkt að sóri getur byrjað í kjölfar keðjukokkasýkingar í kokeitlum. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman húðsæknieiginleika T-frumna í kokeitlum, blóði og kviðarholseitlum.

Efniviður og aðferðir: Einangraðar voru eitilfrumur úr kokeitlum og blóði 15 einstaklinga sem fóru í kokeitlatöku vegna endurtekinna sýkinga. Kviðarholseitlar fengust úr fimm sjúklingum. Enginn þessara einstaklinga hafði sóra. Eitilfrumurnar voru litaðar með nokkrum þrennum af einstofna mótefnum og greindar í flæðifrumusjá.

Niðurstöður: CLA- og CCR4-tjáning CD8 T-frumna reyndist vera mun meiri í kokeitlum samanborið við blóð (p<0,001). Einnig var CLA-tjáning CD8 T-frumna meiri í kokeitlum en kviðarholseitlum (p=0,003). Hins vegar voru hlutfallslega færri CLA+CD4 frumur í kokeitlum miðað við blóð (p=0,003). Enginn marktækur munur fannst hins vegar á tjáningu ICAM-1 milli eitilfrumna í blóði, kokeitlum og kviðarholseitlum.

Ályktanir: Þessar niðurstöður samrýmast því að ræsing húðsækinna T-frumna, einkum CD8, geti átt sér stað í kokeitlum. Þessar frumur gætu borist blóðleiðina til húðar. Þetta gæti að einhverju leyti skýrt tengsl hálsbólgu og uppkomu ýmissa húðútbrota, til dæmis sóra. Verið er að kanna tjáningu húðsæknisameinda í kokeitlum sórasjúklinga.





V 49 Metótrexat bælir tjáningu á ICAM-1 og CLA eftir ólíkum leiðum

Jóhann E. Guðjónsson, Hekla Sigmundsdóttir, Björn Rúnar Lúðvíksson, Helgi Valdimarsson



Ónæmisfræðideild Landspítalans

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Metótrexat (MTX) er notað sem krabbameinslyf í háum skömmtum en lágskammta metótrexat er mjög öflug meðferð við gigt- og húðsjúkdómum eins og sóra. Óljóst er hvers vegna metótrexat hefur læknandi áhrif á þessa sjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Við rannsökuðum áhrif lágra skammta af metótrexati á tjáningu viðloðunarsameinda og húðsæknisameindarinnar CLA, frumudauða og frumufjölgunar hjá T-eitilfrumum örvuðum með hefðbundnum vækjum í fimm daga eða anti-CD3 og PHA í þrjá daga. Lykilensím í myndun CLA (FUC-TVII) á PSGL-1 var mælt með PCR í TaqMan.

Niðurstöður: Metótrexat bældi tjáningu á ICAM-1, CD25 (IL-2 viðtaki) og CLA (p<0,0001) en hafði engin áhrif á tjáningu VLA4a eða aeb7. Metótrexat jók frumudauða í ræktum þar sem eitilfrumurnar voru örvaðar með anti-CD3 eða PHA (p<0,0001). Hins vegar var metótrexat verndandi gegn frumudauða í ræktum þar sem örvað var með hefðbundnum vækjum (p=0,002). Hægt var að hamla áhrifum metótrexats á ICAM-1 með háum skömmtum af fólínsýru (>100mM) og með adenósín viðtakahemjurum, en þessi efni höfðu engin áhrif á CLA-bælinguna. Áhrif metótrexats á CLA voru háð því að lyfið væri stöðugt í frumuræktinni en áhrif á CD25 og ICAM-1 komu fram í ræktum þar sem metótrexat hafði aðeins verið til staðar í 24 klukkustundir. Sermi (MTX-sermi) sem tekið var úr sjúklingum á lágskammtametótrexati á þriðja degi eftir inntöku, hafði sterkari bælandi áhrif á CLA-tjáningu (p<0,0001), en mun minni áhrif á ICAM-1 og CD25. Metótrexat eða MTX-sermi höfðu ekki áhrif á tjáningu FUC-TVII. Engin áhrif voru á tjáningu PSGL-1 sem er grunneining CLA.

Ályktanir: Niðurstöður okkar benda til þess að áhrif metótrexats á ICAM-1 og CD25 séu miðluð í gegnum adenosín og fólatháð ensím, innanfrumnaensím. Áhrifin á CLA byggjast líklega á hömlun ensíma sem gegna lykilhlutverki í myndun CLA.





V 50 Metótrexat minnkar tjáningu viðloðunarsameinda sem stýra íferð T-frumna úr blóði í húð

Hekla Sigmundsdóttir1, Jóhann E. Guðjónsson1, Bolli Bjarnason2, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss, 2University of Alabama School of Medicine, Birmingham, Alabama

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Cutaneous lymphocyte associated antigen (CLA) binst E-selektíni á þeli húðæða og stuðlar þar með að útrás hvítfrumna úr blóðrás inn í húð. Við höfum áður sýnt fram á sterk jákvæð tengsl milli tíðni CLA-jákvæðra T-eitilfrumna í blóði ómeðhöndlaðra sjúklinga með sóra og sjúkdómsvirkni þeirra. Hins vegar var þessi fylgni afgerandi neikvæð hjá sórasjúklingum sem voru meðhöndlaðir með metótrexati (MTX).

Efniviður og aðferðir: 1. Rannsökuð var CLA-tjáning T-eitilfrumna í blóði 16 PS sjúklinga sem fengu vikulega metótrexatskammta. 2. Fylgst var daglega í fimm vikur með CLA-tjáningu T-eitilfrumna í blóði hjá einum þessara sjúklinga. 3. Þessi sjúklingur hætti meðferð í 16 daga og var fylgst með fjölda CLA-jákvæðra frumna í blóði hans og útbrotum á meðan og eftir að hann byrjaði aftur að taka lyfið.

Niðurstöður: 1. Mikil sjúkdómsvirkni hélst í hendur við háa metótrexatskammta og lága tíðni af CLA jákvæðum T-eitilfrumum í blóði. 2. CLA-tjáning T-eitilfrumna í blóði minnkaði jafnt og þétt fyrstu fjóra dagana eftir hvern metótrexatskammt en hækkar síðan þar til næsti skammtur var tekinn. 3. Eftir níu daga án metótrexats kom fram versnun sem var staðfest með klínísku mati og blóðflæðimælingu. Versnunin hélst í hendur við vaxandi CLA-tjáningu á T-eitilfrumum í blóði, verulegri aukningu í E-selektíntjáningu æðaþels og íferðar CLA+ eitilfrumna í húðútbrotum sjúklingsins. Allt þetta gekk smám saman til baka þegar sjúklingurinn lagaðist eftir að hann byrjaði aftur að taka metótrexat.

Ályktanir: Niðurstöðurnar samrýmast því að jákvæð áhrif metótrexats á sórasjúklinga geti að verulegu leyti skýrst af því að lyfið bælir viðloðunarsameindir sem stjórna vefjaíferð hvítfrumna.









V 51 Interleukin (IL) 12 getur ekki eitt og sér stuðlað að tjáningu á húðsæknisameindinni cutaneous lymphocyte associated antigen



Hekla Sigmundsdóttir, Jóhann E. Guðjónsson, Helgi Valdimarsson



Ónæmisfræðideild Landspítalans

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Sýnt hefur verið fram á að ofurvakar (superantigen) baktería geta örvað tjáningu á sameindinni cutaneous lymphocyte associated antigen (CLA), sem beinir T-eitilfrumum út í húð. Þessi tjáning var sögð háð framleiðslu á IL-12. Þetta gæti skýrt tengsl á milli sýkinga af völdum streptókokka og sóra. Við gátum ekki fengið fram aukna CLA-tjáningu með ofurvaka frá streptókokkum (SpeC) en við notuðum ræktunarvökva með mannasermi (HS) en ekki sermi frá kálfum (FCS) eins og gert hafði verið í fyrri rannsókn. Markmið rannsóknar okkar var að bera saman áhrif ofurvaka á CLA-tjáningu eitilfrumna í ræktum með HS eða FCS og áhrif IL-12 á þessa tjáningu.

Efniviður og aðferðir: Eitilfrumur úr heilbrigðum einstaklingum voru litaðar með mótefnum gegn ýmsum yfirborðssameindum og greindar í flæðifrumusjá fyrir og eftir ræsingu með SpeC. Frumufjölgun var metin með upptöku á geislamerktu thymidine.

Niðurstöður: Eitilfrumur ræktaðar í tvo daga í nærveru FCS sýndu aukna tjáningu á CLA þótt að ekkert SpeC væri til staðar. Þessa aukningu var hægt að hindra með mótefnum gegn IL-12. Frekari aukning varð á CLA-tjáningu T-frumna eftir fjögurra daga ræsingu með SpeC. Þessi aukning sást hins vegar eingöngu í ræktum með FCS en ekki með HS. SpeC örvaði hins vegar tjáningu á ICAM-1 og CD25 óháð því hvaða sermi var notað, og það sama gilti um áhrif SpeC á fjölgun eitilfrumna. Ekki var hægt að auka tjáningu á CLA með því að bæta IL-12 út í ræktir með HS. Mótefni gegn boðefnunum IL-18 eða TGF-b höfðu engin áhrif á SpeC-örvaða CLA-tjáningu. Ræsing með endótoxíninu LPS örvaði tjáningu á CLA í HS, en LPS+SpeC örvaði CLA-tjáningu ekki umfram það sem LPS gerði eitt og sér.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að SpeC örvuð CLA-tjáning sé ekki aðeins háð IL-12 heldur einnig öðrum þætti sem er til staðar í FCS en ekki HS. Þessi hjálparþáttur er ekki LPS.





V 52 Leit að sjálfsvakaeiningum í sóra

Andrew Johnston, Jóhann E. Guðjónsson, Helgi Valdimarsson



Ónæmisfræðideild Landspítalans

helgiv@landspitali.is



Inngangur: Tengsl sóra við sýkingar í hálsi með Streptococcus pyogenes benda til hugsanlegs ónæmisvaka sem gæti ræst T frumurnar sem safnast í húð og undirhúð í sórablettum. M prótein streptókokka og keratínsameindir í húð mannsins eiga langa röð sameiginlega. Mjög lítið er um keratín 16 (K16) og 17 (K17) í eðlilegri húð en þau eru yfirtjáð í sórablettum. Þess vegna er hugsanlegt að T frumur sem voru ræstar með M próteini greini væki á keratínum vegna sameindahermunar.

Efniviður og aðferðir: Í leit að líklegum vakaeiningum voru valdar 9-20 amínósýra peptíðraðir úr K17 með hliðsjón af ætluðum klippisetum próteasóma, bindingu við vefjaflokkasameind HLA-Cw6 og samsvörun við M6 prótein. Einnig voru valin peptíð úr M6 með samsvörun við K17 peptíð. Einkjarna blóðfrumur voru ræktaðar með peptíðröðunum og T frumuvirkjun metin með mælingu í frumuflæðisjá á innanfrumu CD69 og IFN-gamma framleiðslu.

Niðurstöður: Forathugun gaf til kynna að CD8+ T frumur svöruðu blöndu af peptíðum með skörun á röðum. Blöndur sem áttu líklegar vakaeiningar sameiginlegar gáfu svipaða svörun. Tíu sjúklingar með vefjaflokk Cw6 og útbreiddan langvarandi útbrota blettasóra voru valdir til rannsóknar. Átta sjúklingar sýndu sterka CD8+ T frumusvörun við einu eða fleiri peptíðum. CD4+ T frumusvaranir voru mun minni. Þessi peptíð framkölluðu miklu meiri svörun en óskyld peptíð. Viðmið með vefjaflokk Cw6 en engan sóra sýndu veika eða enga T frumusvörun gegn M6 peptíðunum og enga svörun gegn K17 peptíðum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að T frumurnar, sem safnast fyrir í sórablettum, svari vökum sem eru sameiginlegir milli M próteina streptókokka og keratíns í mönnum og að CD8+ T frumur eigi þátt í meinferli sóra.





V 53 Svipgerð frumna í nefslímhúð rottna

Ingibjörg Ólafsdóttir1, Jóna Freysdóttir1, Arnór Víkingsson1,2, Ingibjörg Harðardóttir1,3, Auður Antonsdóttir4, Friðrika Harðardóttir1



1Lyfjaþróun hf., 2gigtlækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3læknadeild HÍ, 4Rannsóknastofa í veirufræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

fridrika@lyf.is



Inngangur: Fyrstu kynni ónæmiskerfisins af vaka eru oftast í gegnum slímhúð. Á síðustu árum hefur áhugi beinst að því að nýta sér þessa náttúrulegu leið vaka inn í líkamann með því að gefa lyf og bóluefni um nef. Hins vegar hafa fáar grunnrannsóknir verið gerðar á ónæmissvörum í slímhúð nefs. Þó hefur verið sýnt fram á að ónæmisaðgerðir í nef eru mjög öflug leið til að vekja almennt ónæmissvar. Neftengdur eitilvefur (nasal associated lymphoid tissue, NALT) er skipulagður eitilvefur í nefgöngum nagdýra sem liggur ofan á efri góm. Talið er að NALT sé sá staður þar sem ónæmisvakning (induction) eigi sér stað sem leiði til ræsingar ónæmiskerfisins. Hlutverk nefsins sem ónæmisvakningarstaðs hefur þó lítið verið skoðað. Eins hafa þær frumur sem taka þátt í ónæmissvörum í nefslímhúð ekki verið vel skilgreindar né heldur hlutverk þeirra og samspil í stjórnun ónæmissvars. Aðalmarkmið þessa verkefnis var að rannsaka ónæmissvör í nefslímhúð í kjölfar sýkingar.

Efniviður og aðferðir: Lewis rottur voru sýktar í nef með RS-veiru. NALT, hálseitlar og milta voru fjarlægð úr sýktum rottum og ósýktum rottum til samanburðar. Verið er að skoða svipgerð eitilfrumna og angafrumna (dendritic cells) úr þessum vefjum með því að lita frumurnar með flúrmerktum einstofna mótefnum gegn ýmsum yfirborðssameindum sem eru einkennandi fyrir ákveðna frumuhópa og mæla þær í frumuflæðisjá.

Niðurstöður: Hlutfall mismunandi eitilfrumna í ósýktu NALTi er frábrugðið því sem sést í milta og hálseitlum. Auk þess sýna frumniðurstöður mismun á hlutfalli mismunandi eitilfrumna í sýktu og ósýktu NALTi. Mælingar á svipgerð angafrumna stendur yfir. Í næstu skrefum verða T-frumur og angafrumur einangraðar með segulkúlumerktum einstofna mótefnum og MACS og frumuboðefni sem þessar frumur seyta mæld til að meta það sameindaumhverfi sem er til staðar í ónæmissvarinu.



Þakkir:
Verkefnið er styrkt af Rannís.

V 54 Ensímlitanir á vefjasneiðum úr þorski



Sigríður Guðmundsdóttir1, Díana Guðmundsdóttir1, Einar Jörundsson1, Slavko H. Bambir1, Agnar Steinarsson2, Bergljót Magnadóttir1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík

siggag@hi.is



Inngangur: Vegna fyrirhugaðs þorskeldis er brýnt að efla rannsóknir á líffræði þorsks. Rannsóknin beindist að þroskun ónæmiskerfisins fyrstu vikurnar eftir klak, en þá verða mikil afföll. Líkur benda til að starfsemi átfrumna skipti afar miklu máli við varnir þorsks gegn sýkingum. Þannig er óvenju hátt hlutfall frumna með átfrumuvirkni í blóði, en magn sérvirkra mótefna er lágt. Í rannsókninni var ensímvirkni, sem á að einkenna átfrumur, könnuð með litunum á vefjasneiðum.

Efniviður og aðferðir: Sýni voru tekin á Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar, við klak, tveimur dögum síðar og vikulega eftir það í átta vikur. Sýni voru fryst í fljótandi köfnunarefni og skorin í 4 mm sneiðar. Litanir voru gerðar samkvæmt lýsingu framleiðanda (Sigma) til að greina alpha-naphtyl butyrate esterase (NBE), beta-glucuronidase (BG), alkaline phosphatase (Al-P) og acid phosphatase (AP).

Niðurstöður og umræður: Öll ensímin greindust í meltingarvegi og þrjú þeirra (Al-P, AP og BG) einnig í lifur og húð, strax við klak eða tveimur dögum síðar. Í nýrnavef var jákvæð Al-P litun sex vikum eftir klak og jákvæð BG litun á áttundu viku. Erlendar rannsóknir á blóðstroki úr þorski og sýnum úr tveimur öðrum fisktegundum benda til að kleyfkjarna átfrumur hafi Al-P og AP en hnattkjarna átfrumur AP og NBE. Niðurstöður hér benda til að báðar gerðir átfrumna séu virkar í meltingarvegi og lifur allt frá klaki. Al-P og AP sýndu sterka svörun allar átta vikurnar, en NBE dofnaði og var nær horfið á áttundu viku. Því breytist ef til vill samsetning hópsins. Nýrnavefur varð ekki jákvæður fyrr en á sjöttu viku. Þar sem vefurinn, sem er blóðmyndandi vefur í fiski, er til staðar allt frá klaki og vitað er að eitilfrumur finnast í honum á sjöttu viku, var búist við jákvæðum átfrumulitunum þar fyrr á þroskaferlinu.



Þakkir: Styrkt af Evrópuverkefninu FISHAID og Rannsóknasjóði HÍ.





V 55 Áhrif ónæmisörvandi efna á lifun og sjúkdómsþol þorskalirfa/seiða

Bergljót Magnadóttir1, Sigrún Lange1, Slavko H. Bambir1, Sigurður Helgason1, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1, Sigríður Guðmundsdóttir1, Agnar Steinarsson2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík

bergmagn@hi.is



Inngangur: Mikil afföll á lirfustiginu háir eldi margra sjávarfiska, til dæmis þorsks. Tilraunir hafa sýnt að efni sem örva ósérvirka ónæmiskerfið geta bætt lifun og aukið sjúkdómsþol á fyrstu vikum eftir klak, það er áður en sérvirka ónæmiskerfið hefur þroskast.

Efniviður og aðferðir: Könnuð voru áhrif þriggja efna á lifun þorskalirfa á fyrstu vikum eftir klak við þolrifsaðstæður, það er ekki var skipt um vatn, loftað eða fóðrað á tímabilinu.

Þriggja daga gamlar lirfur voru baðaðar í 20 daga í 0, 25, 50, 100 og 150 µg/ml af 1) lipopolysaccharide (LPS), sem unnið var úr bakteríunni kýlaveikibróður (Aeromonas salmonicida undirteg. achromogenes), 2) lichenan, sem unnið var úr fléttunni Cetraria islandica og 3) thamonlan, sem unnið var úr fléttunni Thamnolan vermicularis var. subuliformis.

Niðurstöður: Allir styrkleikar af LPS (25-250 µg/ml) bættu marktækt lifun þorskalirfa en aðeins minnsti styrkur (25 µg/ml) af lichenan og thamnolan.

Í kjölfarið var kannað hvaða áhrif böðun fimm daga gamalla lirfa í 100 µg/ml af LPS í 30 mínútur hefði á sjúkdómsþol þorsksins. Fimm mánuðum eftir böðun voru þorskaseiðin sýkt með mismunandi styrkleika af kýlaveikibróður. Í ljós kom að LPS böðuð seiði sýndu marktækt betra sjúkdómsþol en viðmiðunarhópurinn. Nokkrir óvissuþættir drógu hins vegar úr gildi niðurstaðnanna eins og stærðarmunur, sem var á baðaða og viðmiðunarhópnum og sýking af völdum Vibrio tegundar, sem greindist í mestöllum fiskinum.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að bæta megi lifun og sjúkdómsþol þorsks á fyrstu vikum eldis með meðhöndlun (böðun) með ónæmisörvandi efnum.



Þakkir: Verkefnið var styrkt af Evrópuverkefninu FISHAID og Rannsóknasjóði HÍ.





V 56 Samanburður á ónæmisviðbrögðum hesta eftir bólusetningu með human serum albumin (HSA) próteini og HSA-genaferju

Vilhjálmur Svansson1, Freyja S. Eiríksdóttir1, Einar Jörundsson1, Viktor Mar Bonilla1, Agnes Helga Martin1, Alfons Ramel1, Helga Árnadóttir1, Eliane Marti2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Division of Clinical Immunology, Dept of Clinical Veterinary Medicine, University of Berne

vsvanss@hekla.rhi.hi.is



Inngangur: Sumarexem er ofnæmishúðsjúkdómur í hestum sem bit mýflugna af ættkvísl Culicoides veldur. Ofnæmið er í flestum tilfellum af týpu I sem einkennist af myndun IgE-mótefna og losun á histamíni og öðrum bólguhvötum frá basa- og mastfrumum. Í sambærilegum sjúkdómum hjá mönnum hefur komið fram að ónæmissvarið er á Th2-braut. DNA-bólusetningar beina ónæmissvarinu inn á Th1-braut og í nagdýrum hefur verið hægt að nota DNA-bólusetningar bæði sem vörn gegn ofnæmi og eins hefur verið hægt að snúa Th2 ónæmissvari inn á Th1-braut. Við höfum sett upp DNA-tilraunabólusetningarverkefni í hrossum þar sem notað er human serum albumin (HSA) sem ofnæmisvaki. Rannsóknin beinist að því að finna genaferju sem virkar vel til DNA-bólusetninga í hrossum og ennfremur að rannsaka Th1 og Th2 ónæmisviðbrögð hjá bólusettum hestum.

Efniviður og aðferðir: Tveir hestar hafa verið bólusettir undir húð með blöndu af HAS-próteini og alúmíníumhýdroxíði. Tvær pcDNA3.1 genaferjur (ferja A og B) hafa verið reyndar í hestum með geninu sem skráir fyrir HSA-próteininu. Ferjurnar eru ólíkar með tilliti til CpG ónæmisörvandi kirnisstefa. Bólusettir voru tveir hestar með ferju A og tveir hestar með ferju B. Hestarnir voru bólusettir í húð og vöðva með 500µg af HSA-ferju-DNA í hvert sinn.

Niðurstöður: Próteinbólusettir hestar mynduðu öflugt IgE og IgG(T) HSA sértækt mótefnasvar og svöruðu á HSA-próteinið í húðprófi. Af ferjubólusettum hestum mynduðu einungis hestar bólusettir með ferju-A lág IgG HSA sértæk mótefni. Þessir tveir hestar hafa nú verið bólusettir með HSA-próteini og ónæmisviðbrögð þeirra verða borin saman við próteinbólusettu hestana með Has-ofnæmið.





V 57 Fjölliða og einliða IgA hjá börnum

Corry Weemaes1, Ina Klasen2, Joep Göertz2, Marjo Belthuis-Valkis2, Örn Ólafsson3, Ásgeir Haraldsson4,5



1Barnadeild og 2rannsóknastofa í meinefnafræði háskólasjúkrahúsinu í Nijmegen, 3vísinda- og kennsluþjónustudeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 4Barnaspítali Hringsins, 5læknadeild HÍ

asgeir@landspitali.is



Inngangur: IgA manna er fjölliða (polymeric, pIgA), einliða (monomeric, mIgA) eða tvíliða (dIgA). IgA hefur tvo undirflokka, IgA1 meginflokkurinn í sermi en IgA2 í munnvatni. IgA1 og IgA2 í sermi eru yfirleitt mIgA. IgA í munnvatni er oftast dIgA.

IgA er lágt eða ómælanlegt í sermi og munnvatni við fæðingu en hækkar eftir það. Þroskun IgA í æsku er nokkuð frábrugðin öðrum immúnóglóbúlínum, til dæmis er IgA k/l hlutfallið annað en hlutfall léttu keðjanna fyrir IgG og IgM.

Þekking á þroskun einliða og fjölliða IgA er lítil en kann að skipta máli í vörnum ungra barna. Við rannsökuðum magn pIgA og mIgA hjá heilbrigðum börnum.

Efniviður og aðferðir: Til rannsóknarinnar voru valin 105 íslensk börn á aldrinum 0-12 ára. Munnvatni var safnað í 10 mínútur, þremur mínútum eftir gjöf á sítrónusafa. Sermi og munnvatn var geymt við -70°C. Mælingar á IgA í sermi voru gerðar með nephelómetríu en í munnvatni með ELISA. Mælingar á mIgA og pIgA voru gerðar með hlauplitskiljun (gelfiltration á liquid chromatography).

Niðurstöður: Á fyrstu ævimánuðum var pIgA hátt í sermi, bæði fyrir IgA1 og IgA2. Í munnvatni var nánast allt IgA á fjölliðuformi, bæði fyrir IgA1 og IgA2 og hélst þannig í æsku.

Ályktanir: Mjög athyglisvert er hversu mikið IgA er á fjölliðuformi í æsku. Nokkrar sveiflur voru á magni IgA1 og IgA2 en pIgA var hátt í báðum flokkum. Einkum var þetta greinilegt meðal barna innan sex ára aldurs. Talið er að sýking hvetji til aukinnar framleiðslu á pIgA. Þetta pIgA víkur fljótlega fyrir sérhæfðara mIgA. Ef þessi tilgáta er rétt gæti það bent til að pIgA barna endurspegli mikið magn nýrra mótefnavaka sem börnin eru útsett fyrir í æsku. Niðurstöður okkar geta samrýmst þessari tilgátu. Frávik í þessu þroskaferli geta valdið veikara ónæmissvari ungra barna.





V 58 Stuðlar skortur á mannósabindilektíni

að sjálfsofnæmi í skjaldkirtli?

Sædís Sævarsdóttir1, Kristján Steinsson2,3, Ari Jóhannesson3, Ástráður B. Hreiðarsson3, Gerður Gröndal2,3, Helgi Valdimarsson1



1Ónæmisfræðideild, 2Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og 3lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss

saedis@landspitali.is



Tilgangur: Mannósabindilektín (mannose binding lectin, MBL) er prótein sem getur virkjað komplementkerfið til hreinsunar sýkla og dauðastýrðra frumna (apoptotic cells) og er því mikilvægur þáttur ósértæks ónæmissvars. MBL-skortur er algengur, eykur líkur á sýkingum og hefur verið tengdur aukinni tíðni eða verri sjúkdómsgangi sumra sjálfsofnæmissjúkdóma, svo sem rauðra úlfa (systemic lupus erythematosus, SLE) og iktsýki (rheumatoid arthritis, RA). Of- og vanstarfsemi skjaldkirtils (thyrotoxicosis, hypothyroidism) er í flestum tilvikum rakin til myndunar sjálfsofnæmis í skjaldkirtli (Graves, Hashimotos) og eru sýkingar taldar geta ræst meinferlið. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga MBL-magn skjaldkirtilssjúklinga án gigtsjúkdóma, annars vegar í ættum með 2 tilfelli rauðra úlfa eða iktsýki og hins vegar með Graves án þekktrar ættarsögu.

Efniviður og aðferðir: Átta skjaldkirtilssjúklingar í ættum með rauða úlfa og 27 í ættum með iktsýki auk 47 Gravessjúklinga án þekktrar ættarsögu. Til samanburðar var 470 manna viðmiðunarhópur. MBL var mælt með samloku-ELISA. Upplýsinga var aflað með spurningalistum, viðtölum og/eða úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Fyrstu niðurstöður benda til að skjaldkirtilssjúklingar í gigtarættum hafi lægra MBL-magn en ættingjar þeirra og viðmið, einkum ef um ofstarfsemi er að ræða. Gravessjúklingar án þekktrar ættarsögu reyndust í heild hafa svipað MBL-magn og viðmið, en hins vegar höfðu þeir sem reyndust hafa ættarsögu um iktsýki (enginn með ættarsögu um rauða úlfa) lægra MBL-magn en hinir.

Ályktanir: MBL-magn einstaklinga með ofstarfsemi skjaldkirtils virðist vera lágt ef þeir hafa ættarsögu um iktsýki eða rauða úlfa. MBL-skortur kann því að vera einn af orsakaþáttum sjálfsofnæmis í skjaldkirtli ef það tengist öðrum sjálfsofnæmissjúkdómum.





V 59 Áhrif TGF-b1 á óþroskaðar CD45RA+ T-frumur

úr naflastrengsblóði

Brynja Gunnlaugsdóttir1,2, Björn Rúnar Lúðvíksson2



1Rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og 2Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjornlud@landspitali.is



Inngangur: TGF-b1 er boðefni sem getur ýmist haft ónæmisbælandi eða ónæmishvetjandi áhrif eftir aðstæðum hverju sinni. Til þess að skilja verkun TGF-b1 er nauðsynlegt að skoða áhrifin á afmarkaðar frumugerðir við staðlaðar aðstæður. Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif TGF-b1 á þroskun T-frumna.

Efniviður og aðferðir: Óþroskaðar T-frumur (CD3+ CD45RA+) voru einangraðar úr naflastrengsblóði. Skoðaðar voru bæði hjálpar-T-frumur (CD4+) og drápsfrumur (CD8+). Frumurnar voru ræstar beint í gegnum T-frumuviðtakann (CD3) með lágum og háum styrk mótefna gegn CD3, með og án TGF-b1 í æti. Frumurnar voru ræstar í tvo og fjóra daga. Áhrif TGF-b1 voru metin út frá frumufjölgun, stýrðum frumudauða, nekrósu og framleiðslu IFN-g og IL-4.

Niðurstöður: TGF-b1 hafði almennt bælandi áhrif á T-frumuþroskun við allar prófaðar aðstæður. T-frumum af báðum gerðum fækkaði þar sem TGF-b1 var til staðar. CD8+ T-frumum fækkaði meira og þá mest við ræsingu með lágum mótefnastyrk í fjóra daga. Þessi munur orsakaðist af áhrifum TGF-b1 á frumufjölgun þar sem mestur munur var á fjölda CD8+ frumna var sömuleiðis mest neikvæð áhrif á fjölgun CD8+ frumna. TGF-b1 verndar hins vegar CD8+ frumur fyrir frumudauða en veldur auknum frumudauða meðal CD4+ frumna. TGF-b1 hafði eingöngu áhrif á stýrðan frumudauða en ekki nekrósu T-frumna. Niðurstöður okkar benda til þess að TGF-b1 geti örvað IFN-g framleiðslu við væga ræsingu en dregið úr henni við háa ræsingu.

Ályktanir: TGF-b1 hefur breytileg áhrif á þroskun T-frumna. Áhrifin eru mest á CD8+ T-frumur, auk þess eru þau háð styrkleika og tímalengd ræsingar. Áframhaldandi rannsóknir okkar munu beinast að því að skilgreina frekar þær innanfrumuboðleiðir sem hér um ræðir.





V 60 Samanburður á stjórnunaráhrifum TGFb á T-frumur hjá einstaklingum með eða án sóra

Sólrún Melkorka Maggadóttir1, Sigríður Reynisdóttir1, Jóhann Elí Guðjónsson2, Hekla Sigmundsdóttir2, Helgi Valdimarsson2, Björn Rúnar Lúðvíksson2



1Læknadeild HÍ, 2Rannsóknastofnun í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

bjornlud@landspitali.is



Inngangur: TGF-b1 hefur margvísleg áhrif á T-frumu starfsemi. Markmið þessarar rannsóknar var að meta áhrif TGF-b1 á T-frumur hjá einstaklingum með eða án sóra. Áhrif TGF-b1 voru því metin út frá virkjun T-frumna gegnum T-frumuviðtakann (anti-CD3: bein ræsing) og hins vegar eftir ræsingu með súperantigenum (óbein ræsing). Þar sem rekja má meingerð sóra til T-frumna og streptókokka þá voru slík áhrif sérstaklega athuguð hjá rannsóknarþýðinu.

Efniviður og aðferðir: Eitilfrumur voru einangraðar úr heilblóði frá heilbrigðum og einstaklingum með sóra. Frumur voru annaðhvort ræstar með anti-CD3 eða streptókokkasúperantigen C (SPEC) í stórum og litlum skömmtum með eða án TGF-b1(10 ng/mL).

Niðurstöður: Ræsing með anti-CD3: Við skammtímaræsingu gætir bæliáhrifa TGF-b1 á T-frumufjölgun mest eftir litla ræsingu en einungis við mikla ræsingu eftir langtímaræsingu. Áhrifanna gætti jafnt meðal CD4+ og CD8+ T-frumna eftir skammtímaræsingu (48 klukkustundir). Hins vegar gætti slíkra bæliáhrifa einungis meðal CD8+ T-frumna eftir langtímaræsingu (96 klukkustundir). T-frumur einstaklinga með sóra virtust ekki vera jafn næmar fyrir bæliáhrifum TGF-b1 (bælistuðull: 69,6% á móti 78,7%). Þó svo að T-frumur sórasjúklinga framleiddu meira magn af IFN-g gætti áhrifa TGF-b1 jafnt til bælingar á slíkri framleiðslu hjá báðum hópum. Ræsing með SPEC: Við óbeina skammtíma- og lágskammtaræsingu eitilfrumna eykur TGF-b1 á virkni og fjölgun bæði CD4+ og CD8+ T-frumna.

Ályktanir: Ljóst er að tímalengd og boðleið ræsingar stýrir áhrifum TGF-b1 á afdrif T-frumna. Hugsanlegt er að misvægi á slíkum boðleiðum hafi hlutverki að gegna í meingerð sjálfsofnæmissjúkdóma eins og sóra vegna viðvarandi ræsingar sjúkdómsvaldandi CD8+ T-frumna.





V 61 Aldursháð brottfall C4B*Q0 og aukning í tíðni C4A*Q0 benda til að vantjáning magnaþátta séu valbreytur fyrir langlífi

Guðmundur Jóhann Arason1, Sigurður Böðvarsson2, Guðmundur Þorgeirsson2, Sveinn Guðmundsson3, Nikulás Sigfússon4, Judit Kramer5, Georg Füst5



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði og 2lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Blóðbankinn, 4Hjartavernd, 5National Institute of Haematology, Blood Transfusion and Immunology, Búdapest

gudmundj@landspitali.is



Inngangur: Kransæðasjúkdómur er talinn mikilvægasti sjúkdómur Vesturlanda bæði hvað varðar dánartíðni og kostnað. Orsakir hans eru ókunnar en meðal áhættuþátta eru háþrýstingur, reykingar, sykursýki og blóðfitumisvægi. Við höfum vísbendingar um að ákveðnar arfgerðir bólgumiðilsins C4B myndi nýjan áhættuþátt þar sem brottfall verður á C4B*Q0 með vaxandi aldri hjá Ungverjum og tíðni C4B*Q0 er hækkuð í kransæðasjúkdómi þarlendis. Markmiðið var að staðfesta þessar niðurstöður og fá úr því skorið hvort áhættugenið er C4B*Q0 eða gen í tengslamisvægi við það með því að skoða þýði með allt annan genabakgrunn.

Efniviður og aðferðir: Arfgerðir C4, C3 og Bf voru greindar með samanburði próteinbanda eftir rafdrátt blóðvökvasýna. Rannsóknin beindist að 462 heilbrigðum Íslendingum á aldrinum 17-74 ára. Til að fá nægan fjölda eldri einstaklinga var bætt við 130 sýnum frá Hjartavernd úr einstaklingum um og yfir sextugt sem ekki höfðu kransæðasjúkdóm.

Niðurstöður: Dreifing C4 arfgerða hélst óbreytt með vaxandi aldri þar til um sextugt, þá snarminnkaði tíðni C4B*Q0 (p=0,04) en í staðinn jókst tíðni C4B*1 og C4B*3. Tíðni C4A*Q0 jókst hins vegar marktækt, en C4A*2 nánast þurrkaðist út. Niðurstöður C4B*Q0 samanburðarins komu ekki fram í sýnum frá Hjartavernd en á hinn bóginn byggðist niðurstaða C4A*Q0 samanburðar alfarið á Hjartaverndarsýnum. Þar áttu í hlut einstaklingar sem ekki höfðu kransæðasjúkdóm en gátu haft aðra sjúkdóma.

Ályktanir: Arfgerðirnar C4B*Q0 og C4A2 eru greinilega áhættugen en C4A*Q0 (og hugsanlega C4B1 og B3 líka) eru verndandi. Áhætta vegna C4B*Q0 virðist takmarkast við kransæðasjúkdóm, en áhætta vegna C4A*2 eða verndun C4A*Q0 kemur ekki í ljós nema hjartasjúklingar séu útilokaðir og virðist því eiga allt aðra orsök. Frekari rannsókna er þörf til að skýra þau ferli sem valda áhrifum C4 arfgerða á lifun.





V 62 Uppsetning aðferða til að greina áhrif magnakerfis á kransæðasjúkdóm í músum

Perla Þorbjörnsdóttir1, Sveinn Haukur Magnússon1, Margrét Ösp Stefánsdóttir1, Ragnhildur Kolka1, Eggert Gunnarsson2, Guðmundur Georgsson2, Guðmundur Jóhann Arason1



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi, 2Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

gudmundj@landspitali.is



Inngangur: Við höfum sterkar vísbendingar um að magnakerfið skipti máli fyrir framvindu kransæðasjúkdóms. Markmiðið var að kanna það nánar með því að koma upp músamódeli og skoða hvaða áhrif það hefði á framvindu sjúkdóms að sprauta mýsnar með magnahindranum VCP (vaccinia complement control protein).

Efniviður og aðferðir: C57BL/6 mýs voru aldar á fituríku fæði og fórnað eftir fjórar, sex, átta, 10 og 12 vikur og umfang sjúkdóms skoðað með fitulitun ósæðasneiða. Reynt var að hraða sjúkdómsferlinu með geislun eða sprautun með methyl-colanchrene (3-MC). Þróuð voru sérstök próf til að mæla virkni og magn VCP, og þau síðan notuð til að fylgjast með brotthvarfi VCP úr blóði eftir sprautun. Einnig var upptaka þess í æðavegg skoðuð með mótefnalitun vefjasneiða.

Niðurstöður og umræða: Geislun og sprautun með 3-MC framkallaði marktæka fitusöfnun í ósæðaveggi strax á átta vikum. Eftir 12 vikur var flatarmál æðaskemmda þó orðið mest í þeim músum sem einungis voru aldar á fituríku fæði, þar sem þær tóku meira til sín af fæðu, en hún er ráðandi þáttur í framköllun sjúkdómsins. Til að mæla virkni magnakerfis í músum var þróuð aðferð (CH50) þar sem notaðar eru rauðfrumur úr nautgripum og mótefni gegn þeim. Virkni VCP er mæld sem hindrun rauðfrumurofs. Útbúin voru mótefni gegn VCP í kjúklingum og kanínum og þau notuð til að þróa ELISA-próf til styrkmælinga. Húðað er með kjúklinga-IgY en framkallað með kanínu-IgG og ensímtengdu kindamótefni gegn kanínu-IgG. VCP hverfur afar hratt úr blóði sprautaðra músa. Hins vegar benda niðurstöður til þess að það safnist fyrir í æðavegg. Eftir þessa aðferðaþróun er hægt að hefja tilraunir þar sem áhrif VCP á framvindu kransæðasjúkdóms eru könnuð með því að framkalla sjúkdóm í 30 músum og helmingurinn sprautaður með VCP á tveggja vikna fresti en hinn helmingurinn með saltvatni. Músunum verður fórnað eftir 12 vikur og flatarmál æðaskemmda skoðað með fitulitun.





V 63 Sjúklingar með insúlínháða sykursýki, skjaldkirtilssjúkdóm og glútenóþol hafa aukna tíðni C4A*Q0 en eðlilega meðhöndlun mótefnafléttna

Guðmundur Jóhann Arason1, Ástráður Hreiðarsson2, Ragnhildur Kolka1, Helgi Valdimarsson1, Alfreð Árnason3



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði og 2lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3Blóðbankinn

gudmundj@landspitali.is



Inngangur: Við höfum áður greint galla í meðhöndlun mótefnafléttna í sjúklingum með bandvefssjúkdóma og samband milli gallans og vantjáningar C4A próteinsins. Til að prófa hvort þetta samband vísaði á orsakatengsl mældum við hindrun fléttuútfellingar í sjúklingum með aðra C4A*Q0-tengda sjúkdóma.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin beindist að sjúklingum með insúlínháða sykursýki (22), skjaldkirtilsjúkdóm Graves (32) og glútenóþol (46). Arfgerðir C4A og C4B voru greindar með rafdrætti, og styrkur C4A, C4B og C1q-mótefna með ELISA-prófi.

Niðurstöður: Tíðni C4A*Q0 var aukin í sjúklingahópunum og styrkur C4A var lækkaður. Nokkrir sjúklingar greindust með galla í hindrun fléttuútfellingar, en í heildina var meðhöndlun mótefnafléttna eðlileg, og fylgni milli þeirrar útkomu og styrks C4B en ekki C4A. Mótefni gegn C1q fundust í nokkrum sjúklinganna og niðurstöðurnar styðja að þau geti átt þátt í gallaðri fléttumeðhöndlun.

Ályktanir: Hindrun fléttuútfellingar getur verið eðlileg þótt C4A próteinið sé vantjáð eða vanti jafnvel alveg. Fylgni milli gallans og styrks C4A í bandvefssjúkdómum á sér því aðrar orsakir. Niðurstöðurnar styðja að mótefni gegn C1q geti haft áhrif á hindrun fléttuútfellingar.





V 64 Mótefni gegn C1q í sjúklingum með fjölkerfa helluroða og gallaða meðhöndlun mótefnafléttna

Guðmundur Jóhann Arason1, Ragnhildur Kolka1, Kristján Steinsson2, Johan Rönnelid3



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði og 2lyflækningadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, 3ónæmisdeild Háskólans í Uppsölum

gudmundj@landspitali.is



Inngangur: Við höfum áður greint galla í fléttumeðhöndlun í bandvefssjúkdómum sem ekki er unnt að skýra út frá styrk eða virkni magnasameinda. Markmiðið var að kanna undirrót gallans.

Efniviður og aðferðir: Sýni voru dregin úr 45 sjúklingum með fjölkerfa helluroða sem höfðu lítt virkan sjúkdóm. Arfgerðir C4 voru greindar með rafdrætti, hindrun fléttuútfellingar með EIAprófi og C4A, C4B, C3d og C1q-mótefni með ELISAprófi.

Niðurstöður: Hindrun fléttuútfellingar var gölluð í sjúklingunum en hefðbundin próf greindu ekki galla í styrk eða virkni magnakerfis. Sjúklingar höfðu aukna tíðni C4A*Q0 og lágan styrk C4A, og fylgni var á milli C4A styrks og hindrunar fléttuútfellingar. Blóðvökvi úr sjúklingi með vanvirkni í hindrun fléttuútfellingar hafði hindrunaráhrif á heilbrigðan blóðvökva. Þessi blóðvökvi reyndist hafa háan styrk mótefna gegn C1q. Nánari athugun sýndi að slík mótefni fundust í 22 sjúklinganna og einkenndu sérstaklega sjúklinga með gallaða fléttumeðhöndlun. Marktæk fylgni (öfug) var milli hindrunar fléttuútfellingar og styrks C1q mótefna í blóðvökvasýnum. Mótefni sem einangruð voru úr blóði sjúklings með háan styrk C1q-mótefna reyndust hafa marktæk hindrunaráhrif á fléttumeðhöndlun þegar þeim var blandað út í heilbrigðan blóðvökva. Eðlissvipting C2 og C1 með hitun hækkaði mæligildi fyrir C1q-mótefni.

Ályktanir: Gölluð fléttumeðhöndlun hjá sjúklingum með fjölkerfa helluroða skýrist ekki af lágum styrk magnaþátta þar sem mæligildi allra prófa nema C4A mælinga eru eðlileg og gallinn kemur ekki fram í sjúklingum með aðra C4A*Q0-tengda sjúkdóma og lág gildi C4A. Niðurstöðurnar sýna að mótefni gegn C1q geta átt þátt í að skýra gallann. Við teljum að slík mótefni geti krossbundið áthúðaðar fléttur og fellt þær út, en það mundi skýra bæði þann galla sem greinist í prófi fyrir hindrun fléttuútfellingar og hækkun á mældum styrk C1q mótefna eftir hitun.





V 65 Lyf sem valda helluroða hafa bein áhrif

á meðhöndlun mótefnafléttna

Ragnhildur Kolka, Guðmundur Jóhann Arason



Rannsóknastofa í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

gudmundj@landspitali.is



Inngangur: Orsakir fjölkerfa helluroða eru óþekktar en stungið hefur verið upp á því að þær gætu tengst gallaðri fléttumeðhöndlun. Til eru lyf sem geta valdið einkennum sem minna á fjölkerfa helluroða (DILE, drug-induced lupus erythematosus) og sett hefur verið fram tilgáta um að ástæðan tengist áhrifum lyfjanna á magnakerfið. Markmiðið var að prófa þessa tilgátu.

Efniviður og aðferðir: Hindrun fléttuútfellingar var mæld með sérstöku prófi sem við höfum þróað. Áhrif lyfja á þessa hindrun var mæld með íblöndun þeirra í heilbrigðan blóðvökva. Prófuð voru öll þau lyf sem hafa verið sterklega bendluð við lyfjamiðlaðan helluroða. Til viðmiðunar voru prófuð lyf með svipaða virkni en sem ekki eru grunuð um að valda helluroða.

Niðurstöður: Hindrun fléttumeðhöndlunar minnkaði marktækt og skammtaháð þegar isoniazid, hydralazine, penicillamine, chlorpromazine og quinidine var bætt út í heilbrigðan blóðvökva. Af þessum lyfjum var penicillamine virkast þar sem áhrif komu fram við 1-2 mM styrk. Áhrif hinna lyfjanna komu fram við 15-25 mM styrk, nema 25-50 mM hjá chlorpromazine. Þrjú af viðmiðunarlyfjunum, cyclophosphamide, perpherazine og amiodarone höfðu engin áhrif. Hins vegar höfðu rifampicin og nitroprusside áhrif í 10 mM styrk.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að lyf sem geta valdið helluroðaeinkennum hafa það sameiginlegt að geta hindrað eðlilega meðhöndlun mótefnafléttna. Hins vegar höfðu tvö af viðmiðunarlyfjum einnig þessi áhrif. Ekki er hægt að fullyrða að lyfjamiðlaður helluroði geti skýrst af áhrifum lyfjanna á meðhöndlun mótefnafléttna, en til þess að svara rannsóknarspurningunni til fulls þarf að skoða hver styrkur DILE-lyfja og viðmiðunarlyfja er í blóði eftir töku þeirra.





V 66 Samband mannósabindilektíns og mótefna við sýkingar og ofnæmi í ungbörnum

Halldóra Þórarinsdóttir, Þóra Víkingsdóttir, Guðjón Karlsson, Þorbjörn Jónsson, Helgi Valdimarsson, Guðmundur Jóhann Arason



Rannsóknastofa í ónæmisfræði Landspítala háskólasjúkrahúsi

gudmundj@landspitali.is



Inngangur: Markmiðið var að kanna þýðingu mannósabindilektíns (MBL) og mótefna fyrir sjúkdómsvarnir í börnum með framskyggnri rannsókn.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 161 barns. Sýni voru dregin úr naflastreng við fæðingu, og við skoðun eftir tvö og fjögur ár. Foreldrar skráðu jafnframt sjúkrasögu í dagbók. Styrkur MBL og mótefna (IgG1, IgG2, IgG3, IgG4, IgA og IgE) var mældur með ELISA-prófi.

Niðurstöður: Styrkur MBL jókst frá fæðingu til tveggja ára aldurs en ekkert eftir það. MBL hækkaði mest í börnum sem höfðu sögu um bólgur í loftvegum (astma eða sýkingar) en marktæk hækkun greindist líka hjá börnum sem enga sögu höfðu um sýkingar. Hækkunin var minnst hjá börnum með tíðar eyrnabólgur og nánari athugun benti til að þau hefðu innbyggðan galla í þroskun MBL-svars. Sýkingar í loftvegum voru mun tíðari meðal barna með IgA eða IgG3 í lægri kanti við tveggja ára aldur en hjá afgangi hópsins (p=0,02 og 0,05) og hjá fyrrnefnda hópnum voru eyrnabólgur líka vandamál (p=0,008). Börn með IgA í lægri kanti bæði tveggja og fjögurra ára voru með marktækt lægri styrk af IgG undirflokkum og aukna tíðni eyrnabólgu og sýkinga í loftvegum. Börn með tíðar eyrnabólgur og IgA í lægri kanti sýndu vangetu í þroskun MBL-svars og voru MBL-gildi þeirra marktækt lægri en hjá viðmiðunarhóp við fjögurra ára aldur.

Ályktanir: MBL framleiðsla eykst eftir fæðingu; aukningin stafar að minnsta kosti að hluta til af áreiti (loftvegabólgum). Styrkur mótefna skiptir miklu máli fyrir varnir barna gegn sýkingum og þá aðallega styrkur IgA og IgG3. Lágur styrkur MBL útskýrir ekki tíðar sýkingar í börnum á þessum aldri en virðist meðvirkandi þáttur í eyrnabólgu ef lítið er af mótefnum. Vangeta til þroskunar MBL-svars virðist hjá mörgum börnum fara saman við litla framleiðslu mótefna og gæti vísað á galla í myndun ónæmisboðefna.





V 67 Fiskolía í fæði hefur ólík áhrif á frumuboðamyndun át- og eitilfrumna úr músum

Dagbjört Helga Pétursdóttir, Ingibjörg Harðardóttir



Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeild HÍ

ih@hi.is



Inngangur: Frumuboðar eru mikilvæg boðefni við miðlun bólgu- og ónæmissvars. TNF er dæmi um bólguhvetjandi frumuboða en IL-10 er bólgutemprandi. Frumuboðar sem taka þátt í T-frumusvari eru oft skilgreindir sem T-hjálpar (Th) 1 (IFN-g) sem hvetja frumubundið ónæmissvar eða Th2 (IL-4) sem hvetja vessabundið ónæmissvar. Í þessari rannsókn voru mæld áhrif fiskolíu á myndun TNF og IL-10 í átfrumum úr kviðarholi og milta og TNF, IFN-g og IL-4 í T-frumum úr milta.

Efniviður og aðferðir: Músum var skipt í tvo hópa og þær aldar á fæði bættu með fiskolíu eða kornolíu í fjórar vikur. Kviðarholsátfrumum og miltisfrumum var safnað, átfrumur úr kviðarholi og milta voru einangraðar með viðloðunareinangrun og þær örvaðar með endótoxíni í 24 klukkustundir. Heildarmiltisfrumur og einangraðar T-frumur úr milta voru örvaðar með aCD3/aCD28 í 48 klst.

Niðurstöður: Fiskolía jók TNF myndun átfrumna úr kviðarholi og milta eftir LPS örvun. Fiskolía jók einnig IL-10 myndun átfrumna úr milta en minnkaði hins vegar IL-10 myndun átfrumna úr kviðarholi. Þá dró fiskolía úr myndun TNF og IFN-g en jók myndun IL-4 eftir aCD3/aCD28 örvun. Þegar T-frumur voru einangraðar frá öðrum miltisfrumum og örvaðar með aCD3/aCD28 reyndist hins vegar ekki marktækur munur á frumuboðamyndun frumna úr músum á mismunandi fæði.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að fiskolía hefur bólguhvetjandi áhrif á átfrumur úr kviðarholi en bólgutemprandi áhrif á T-frumur. Einnig sýna niðurstöðurnar að fiskolía sveigir T-frumusvar í Th2 þegar T-frumur eru ræktaðar með öðrum miltisfrumum en hefur engin áhrif á einangraðar T-frumur. Þetta bendir til að miltisfrumur, aðrar en T-frumur, stýri sveigingu T-frumusvarsins í heildarmiltisfrumuræktum.





V 68 Breytingar í sjónhimnuriti músa með stökkbreytingar í Mitf>Mitf geni með aldri

Þór Eysteinsson1, Anna L. Þórisdóttir1, Eiríkur Steingrímsson2



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2Rannsóknastofa HÍ í lífefnafræði og sameindalíffræði

thoreys@hi.is



Inngangur: Markmið þessarar rannsóknar var að rannsaka breytingar sem verða í sjónhimnuriti músa með stökkbreytingar í microphthalmia umritunarþættisgeni (Mitf) með aldri, frá fjórum vikum eftir fæðingu.

Efniviður og aðferðir: Sjónhimnurit var skráð frá hornhimnu augans í svæfðum músum sem svar við stuttum hvítum ljósblikkum. Skráð var bæði eftir aðlögun að rökkri og aðlögun að ljósi. Bæði arfhrein (MitfMi-wh/MitfMi-wh, MitfMi-sp/MitfMi-sp, og Mitfmi-bws/Mitfmi-bws) og arfblendin (MitfMi-sp/Mitfmi-Wh) dýr, ásamt músum af villigerð (C57BL/6J) voru skoðuð.

Niðurstöður: Sjónhimnurit MitfMi-sp/MitfMi-sp músa voru eðlileg að öllu leyti að 16 vikna aldri. Svör Mitfmi-bws/Mitfmi-bws músa voru eðlileg að 16 vikna aldri nema að c-bylgja var lækkuð sértækt. Sjónhimnurit MitfMi-wh/MitfMi-wh var algerlega ómælanlegt frá fjögurra vikna aldri. Allar bylgjur sjónhimnurits í MitfMi-sp/Mitfmi-Wh músum, skráð eftir aðlögun að rökkri, voru lækkaðar að spennu og seinkaðar að dvöl frá sex vikna aldri.

Ályktanir: MitfMi-wh/MitfMi-wh mýs virðast algerlega blindar frá fæðingu. MitfMi-sp/Mitfmi-Wh mýs sýna merki um hrörnun stafa og keila (rod-cone dystrophy) og eru vænlegt nýtt líkan yfir hægfara sjónhimnuhrörnun. Það kemur á óvart að Mitfmi-bws/Mitfmi-bws mýs, sem hafa sams konar arfgerð og Mitfmi-vit mýs, eru með eðlilegar a- og b-bylgjur sjónhimnurits. Mitfmi-vit sýna hrörnun litþekju og ljósnema, en Mitfmi-bws/Mitfmi-bws mýs sýna eingöngu hrörnun litþekju og lækkaða c-bylgju.





V 69 Vaxtarhvetjandi áhrif kítófásykra á brjóskfrumur

í rækt

Finnbogi R. Þormóðsson1, Jón M. Einarsson2, Jóhannes Gíslason2, Martin G. Peter3



1Rannsóknastofa í líffærafræði, læknadeild HÍ, 2Primex ehf., rannsókna- og þróunardeild, 3Universität Potsdam, Institut für Organische Chemie und Strukturanalytik, Golm

jonme@primex.is



Inngangur: Kítófásykrur eru fásykrur sem framleiddar eru úr kítínefnum. Kítínefni eru stórar fjölsykrur, samsettar úr tveimur einsykrum, N-asetýl glúkósamíni (GlcNAc) og glúkósamíni (GlcN). Áhrif kítínefna á brjóskfrumur hafa verið rannsökuð og gefa niðurstöður til kynna bein áhrif á vöxt frumnanna. Efnin sem notuð hafa verið í þessum rannsóknum hafa þó verið illa skilgreind og ekki hefur enn verið rannsakað hvaða form kítínefna er virkast. Fyrirtækið Primex ehf. (áður Genis ehf.) er að þróa framleiðslu á vatnsleysanlegum fásykrum úr rækjukítíni með aðstoð kítínkljúfandi ensíma. Aðgreining mismunandi fásykra og nákvæm greining á byggingu þeirra hefur opnað áður óþekkta möguleika í athugun á líffræðilegri virkni þeirra. Þessi rannsókn er fyrsti áfanginn í þeirri greiningu. Á Rannsóknastofu í líffærafræði hefur verið þróað örplötulíkan fyrir brjóskfrumur sem notað verður til framhaldsrannsókna á þessu sviði.

Efniviður og aðferðir: Kítófásykrur voru framleiddar hjá þróunardeild Primex ehf., Reykjavík. Vatnsleysanlegar kítínfjölsykrur voru framleiddar úr kítíni og klipptar niður í fásykrur með sérhæfðum kítínasa. Sykrurnar voru þurrkaðar í úðaþurrkara og almennir efnaeiginleikar þeirra mældir. Nákvæm greining á byggingu þeirra (stærð og GlcN-GlcNAc röð) með MALDI-TOF massagreiningu fór fram í Háskólanum í Potsdam.

Brjóskfrumur (chondrocytes) úr manni, frá Cell-Lining GmbH í Þýskalandi, voru ræktaðar í sérstöku æti frá sama aðila í 96 brunna örplötu og mismunandi magni kítófásykra bætt við (0, 10, 50, 100, 500 og 1000 µg/ml). Eftir fjórar vikur í rækt voru frumurnar hertar við -20°C í metanóli, HE litaðar og hver brunnur ljósmyndaður í smásjá. Myndirnar voru notaðar til að telja frumurnar og bera saman útlit þeirra.

Niðurstöður: Fjöldi frumna í brunni fór vaxandi með auknu magni kítófásykra, frá 50 µg/ml upp að 500 µg/ml, og var sú aukning tölfræðilega marktæk. Hins vegar við 1000 µg/ml fækkaði frumum stórlega og voru þær færri en við 0 µg/ml. Frumurnar í þéttvaxnari brunnunum tóku á sig annan svip og líktust meira frumum í eðlilegu brjóski.

Ályktanir: Niðurstöður okkar sýna að kítófásykrur hafa skýr vaxtarhvetjandi áhrif á brjóskfrumur í rækt. Útlitsbreyting frumnanna getur stafað beint af áhrifum fásykranna eða óbeint vegna aukins þéttleika þeirra frumna sem vaxa hraðast. Við 1000 µg/ml er um vaxtarhindrandi áhrif að ræða af óþekktum ástæðum. Næstu skref verða að aðgreina fásykrublöndu og athuga lífvirkni mismunandi sykra.



Þakkir: Verkefnið var styrkt af Rannís.

V 70 Samanburður á sléttvöðvafrumum ræktuðum úr heilaæðum sjúklinga með arfgenga heilablæðingu og úr frumum úr heilbrigðum heilaæðum



Finnbogi R. Þormóðsson, Daði Þór Vilhjálmsson, Hannes Blöndal



Rannsóknastofa í líffærafræði, læknadeild Háskóla Íslands

finnbogi@hi.is



Inngangur: Arfgeng heilablæðing á Ísland (hereditary cystatin C amyloidosis, HCCA) er ákaflega sjaldgæfur en skæður sjúkdómur sem erfist ríkjandi og ókynbundið. Erfðabreyting í próteasahemlinum cystatíni C veldur því að hann safnast sem mýlildi (amyloid) í ýmsa vefi líkamans en einkum í heilaæðar. Æðarnar bila síðan oftast snemma á lífsleiðinni og sjúklingarnir deyja langt um aldur fram sökum síendurtekinna heilablæðinga. Mótefnalitaðar vefjasneiðar fyrir cystatíni C sýna þessa uppsöfnun og hrörnun og eyðingu sléttvöðvafrumna í veggjum æðanna. Við höfum sýnt að sléttvöðvafrumur ræktaðar úr heilaæðum manna veslast upp og deyja á skömmum tíma þegar einangrað uppleyst cystatín C mýlildi er sett út í ræktina. Hér sýnum við rannsóknir okkar á sléttvöðvafrumum úr heilaæðum HCCA sjúklinga og heilbrigðra þar sem skoðuð er dreifing cystatíns C innan sléttvöðvafrumna. Jafnframt er reynt að meta uppsöfnun cystatíns C í frumunum.

Efniviður og aðferðir: Sléttvöðvafrumur voru einangraðar og ræktaðar úr heilaæðum HCCA sjúklinga annars vegar og hins vegar úr heilbrigðum æðum. Frumurnar voru síðan hertar í -20°C metanóli og litaðar með mótefnum fyrir cystatíni C, sléttvöðvasérhæfðu alfa aktíni ásamt flúrljómandi annar stigs mótefnum. Frumurnar voru síðan skoðaðar í smásjá.

Niðurstöður: Greinilegur munur sést á mynstri dreifingar cystatíns C í HCCA frumum í samanburði við eðlilegar frumur. Sléttvöðvafrumur úr heilbrigðum æðum sýna eingöngu cystatín C litun við kjarnann, sem gjarnan er póllæg og gæti bent til staðsetningar í Golgi kerfi frumunnar. Hins vegar er litun HCCA frumna mun sterkari og dreifðari í umfryminu sem bendir sterklega til uppsöfnunar. Þrátt fyrir þessa uppsöfnun sjáum við engan bilbug á HCCA frumum í rækt.

Ályktanir: Uppsöfnun á cystatín C á sér stað innan HCCA heilaæðafrumna í rækt og svo virðist sem þær eigi í erfiðleikum með að seyta próteininu. Hugsanlega veldur þetta auknu álagi á frumurnar og gæti drepið þær á löngum tíma, þó að þær spjari sig í ræktinni síst verr en eðlilegar frumur. Einnig er hægt að hugsa sér að dánarorsök frumnanna sé utanáliggjandi (extracellular) mýlildi, sem eykst að magni eftir því sem fleiri vöðvafrumur eyðast og úr þeim losnar uppsafnað hráefni í mýlildi.



Þakkir: Styrkt af Heilavernd.





V 71 Áhrif hjartaendurhæfingar á öndunarmynstur við áreynslu hjá sjúklingum með hjartabilun

Marta Guðjónsdóttir1, Arna E. Karlsdóttir1, Stefán B. Sigurðsson2, Magnús B. Einarsson1



1Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ

Marta@REYKJALUNDUR.is



Inngangur: Sjúklingar með hjartabilun þjást af mæði og þreytu við áreynslu (Coats, et al. Br Heart 1994). Á Reykjalundi er boðið upp á endurhæfingu fyrir hjartasjúklinga þar sem lögð er áhersla á þol- og styrkþjálfun auk fræðslu. Markmið rannsóknarinnar var að athuga hvort endurhæfing hafi áhrif á öndunarmynstur hjartabilaðra við áreynslu.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru niðurstöður 36 hjartabilaðra sjúklinga (32 karla, fjögurra kvenna) sem fóru í gegnum endurhæfinguna á árunum 1998-2001. Meðalaldur þeirra var 65±9 ár, útfallsbrot hjarta 29±5% og lengd þjálfunar 5,2±1,1 vika. Allir sjúklingarnir fóru í gegnum sams konar öndunarmælingar og áreynslupróf á þrekhjóli fyrir og eftir endurhæfingartímabilið.

Niðurstöður: Engar marktækar breytingar (p<0,05) komu fram í öndunarrúmmálunum FVC (forced vital capacity), FEV1 (forced exspiratory volume á fyrstu sekúndu) og öndunartíðni við hámarksálag (RRmax) við endurhæfinguna. Marktækar breytingar komu fram á eftirtöldum atriðum: Súrefnisupptaka (V&apos;O2 í L/mín) við hámarksálag jókst úr 1,26±0,42 í 1,40±0,47, þoltalan (V&apos;O2 í ml/mín/ kg) jókst úr 15,5±3,5 í 17,2±3,9, hámarksvinnugeta (WR max í wöttum) jókst úr 101±36 í 118±42, hámarkshjartsláttartíðni (HRmax) úr 119±22 í 125±20, magn öndunarlofts við hámarksálag (V&apos;E max í L/mín) jókst úr 53,7±16,6 í 59,2±16,5 og stærð andrýmdar við hámarksálag (VTmax, L) jókst úr 1,71±0,52 í 1,84±0,49.

Ályktanir: Engar marktækar breytingar komu fram á þeim öndunarrúmmálum sem mæld voru. V&apos;E max jókst vegna aukningar í VT max þar sem RR max var óbreytt. Sjúklingar hafa því bætt öndunarmynstur sitt. Súrefnisupptaka sjúklinganna hefur aukist og þeir geta framkvæmt meiri vinnu. Jákvæðara hugarfar (motivation) getur skýrt hluta af þessu þar eð hámarkspúls (HRmax) hefur aukist.





V 72 Áhrif hjartaendurhæfingar á þolmörk sjúklinga með hjartabilun

Arna E. Karlsdóttir1, Marta Guðjónsdóttir1, Stefán B. Sigurðsson2, Magnús B. Einarsson1



1Reykjalundur Endurhæfingarmiðstöð, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ

Marta@REYKJALUNDUR.is



Inngangur: Sjúklingar með hjartabilun hafa lækkuð þolmörk og það takmarkar getu þeirra í daglegu lífi. Endurhæfingarstöðin á Reykjalundi býður upp á fjögurra til sex vikna almenna endurhæfingu hjartasjúklinga. Þar er aðaláherslan á þolþjálfun og styrkþjálfun auk fræðslufyrirlestra. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga áhrif þessarar þjálfunar á sjúklinga með hjartabilun.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru niðurstöður 36 hjartabilaðra sjúklinga (32 karla, fjögurra kvenna) sem fóru í gegnum endurhæfinguna á árunum 1998-2001. Meðalaldur þeirra var 65±9 ár, útfallsbrot 29%±5 og lengd þjálfunar 5,2±1,1 vika. Allir sjúklingarnir fóru í gegnum sams konar áreynslupróf á þrekhjóli fyrir og eftir endurhæfingartímabilið.

Niðurstöður: Súrefnisupptaka (V&apos;O2 í L/mín) við hámarksálag jókst úr 1,26±0,42 í 1,40±0,47, þoltalan (V&apos;O2 í ml/mín/kg) jókst úr 15,5±3,5 í 17,2±3,9, hámarksvinnugeta (WR max í wöttum) jókst úr 101±36 í 118±42, hámarkshjartsláttartíðni (HRmax) úr 119±22 í 125±20, magn öndunarlofts við hámarksálag (V&apos;E max í L/mín) jókst úr 53,7±16,6 í 59,2±16,5 og stærð andrýmdar við hámarksálag (VTmax, L) jókst úr 1,71±0,52 í 1,84±0,49. Allar þessar breytingar voru marktækar (p<0,05). Súrefnisupptaka mæld við öndunarþröskuld (V&apos;O2 @VT í L/mín) og vinnugetan við öndunarþröskuld (WR @ VT í wöttum) breyttust ekki marktækt.

Ályktanir og umræða: Sjúklingar juku þolmörk sín marktækt með þátttöku í endurhæfingunni sem að hluta má skýra með jákvæðara hugarfari (motivation dependent). Öndunarþröskuldur jókst ekki en hann er talinn vera óháður vilja og áhuga (motivation independent). Þar sem ekki reyndist unnt að mæla hann nema í rúmlega helmingi sjúklinganna er erfitt að draga ákveðnar ályktanir út frá því. Niðurstöður benda þó sterklega til þess að súrefnisupptaka aukist marktækt við endurhæfinguna.



V 73 Endurheimt slökunar eftir ertingu í hjartavöðva

og áhrif [Ca2+] á hraða hennar

Magnús Jóhannsson, Lárus S. Guðmundsson, Hafliði Ásgrímsson



Lyfjafræðistofnun HÍ, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði

magjoh@hi.is



Inngangur: Aukaslag eftir stutt ertingarbil (200-400 ms) er veikt en styrkist eftir því sem bilið lengist. Þetta er kallað endurheimt samdráttar eftir ertingu (mechanical restitution). Í aukaslagi er slökunarhraði skertur, en endurheimt slökunar eftir ertingu hefur lítið verið rannsökuð.

Efniviður og aðferðir: Tilraunir voru gerðar á vöðvum úr hjarta marsvína (gáttum og sleglum). Bil milli reglulegra ertinga var 1000 ms og hitastig 32ºC. Rannsakaðar voru breyturnar +dF (hámarks samdráttarhraði), TPF (tími að mesta krafti), -dF (hámarks slökunarhraði) TR50 (tími að 50% slökun) og TR90 (tími að 90% slökun).

Niðurstöður: Allar þessar breytur sýna endurheimt eftir ertingu en hún er mjög mishröð. Hraði endurheimtar fyrir +dF og -dF er nokkurn veginn sá sami bæði í gáttum og sleglum en hraðinn fyrir TPF og TR90 er mun meiri. Áhrif mismunandi [Ca2+], á bilinu 0,5-12 mM, á hraða endurheimtar voru rannsökuð. Hraði endurheimtar +dF og -dF hækkaði með styrk Ca í gáttum en ekki sleglum; við Ca-styrkina 1, 2 og 4 mM voru hraðastuðlar að meðaltali 0,1, 1,8 og 2,4 s-1 (p=0,025; n=4-9) fyrir +dF í gáttum og 0,3, 1,9 og 3,4 s-1 (p=0,012; n=4-10) fyrir -dF. Áhrif Ca-styrks á endurheimt TPF voru svipuð í gáttum og sleglum, hraðinn fór vaxandi með hækkandi Ca-styrk upp í 4 mM en minnkaði heldur við hærri styrk. Ca-styrkur hafði ekki marktæk áhrif á hraða endurheimtar fyrir TR50 og TR90, hvorki í sleglum né gáttum.

Ályktanir: Þessar niðurstöður undirstrika muninn á sleglum og gáttum. Aukinn Ca-styrkur hraðar endurheimt slökunar í gáttum en ekki sleglum. Samdráttur og slökun eru talin háðari starfsemi frymisnets í gáttum en sleglum og geta niðurstöðurnar samræmst því að Ca-pumpa frymisnets verði fyrir áhrifum af Ca-styrk. Niðurstöðurnar gefa einnig vísbendingar um flókna stjórnun slökunar í hjartavöðva.





V 74 Sphingólípíð og boðflutningar í hjartavöðvafrumum

V. Edda Benediktsdóttir1, Anna Margrét Jónsdóttir1, Bergþóra Skúladóttir1, Jón Ólafur Skarphéðinsson2, Sigmundur Guðbjarnason1



1Raunvísindastofnun HÍ, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ

eb@raunvis.hi.is



Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna hlutverk sphingósíns (SPH) í boðflutningum og stjórnun á starfsemi hjartans í rottum. SPH er eitt af innanfrumuboðefnum sphingómyelín boðkerfisins, en áhrif þess eru ekki fullkönnuð í hjartavöðvafrumum.

Efniviður og aðferðir: Áhrif SPH á hjartsláttartíðni í lifandi svæfðum rottum og á samdráttartíðni í ræktuðum hjartavöðvafrumum úr rottu voru mæld. Ennfremur var mældur innanfrumustyrkur cAMP í hjartavöðvafrumum sem örvaðar voru með isoproterenóli (ISO) (sem örvar beta adrenerga viðtaka) eða forskolini (sem örvar adenylcýklasa) og í óörvuðum hjartavöðvafrumum í öllum tilfellum eftir forhitun í næringaræti með SPH eða án.

Niðurstöður: a) Í svæfðu rottunum olli SPH gjöf í bláæð talsverðri lækkun á hjartsláttartíðni og var lækkunin háð skammtastærð SPH. Tíðnin komst í fyrra horf á <60 mínútum eftir gjöf. b) Tíðni samdrátta í ræktuðu hjartavöðvafrumunum minnkaði og tíðniaukning eftir örvun með ISO varð líka minni ef frumurnar voru forhitaðar með SPH samanborið við kontrólsýni. c) SPH hindraði einnig framleiðslu cAMP í frumunum eftir örvun með ISO og var hindrunin háð skammtastærð SPH. Grunnstyrkur cAMP í frumunum lækkaði einnig í návist SPH. Örvun á cAMP framleiðslu með forskolini varð ekki fyrir neinum áhrifum frá SPH og má því útiloka að lækkun á cAMP styrk í návist SPH stafi af áhrifum þess á adenylcýklasa. Fosfódíesterasa inhibitor (IBMX) var settur í ræktunarætið í öllum tilraununum, en það kemur í veg fyrir truflanir niðurstaðna vegna breytinga á virkni fosfódíesterasa (sem hefði þýtt breytingar á niðurbroti cAMP).

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að SPH taki þátt í stjórnun á starfsemi hjartans með því að minnka hana og draga úr áhrifum örvunar á beta adrenergum viðtökum. Verkun SPH á beta-adrenerga örvun beinist að þáttum sem eru á undan adenylcýklasa á boðleið viðtakanna.





V 75 Stjórnun orkuefnaskipta, fæðutöku og líkamsþunga

Logi Jónsson1, Guðrún V. Skúladóttir1, Helgi B. Schiöth2, Pálmi Þ. Atlason1, Védís H. Eiríksdóttir1, Jón Ó. Skarphéðinsson1



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2taugalíffræðideild Háskólans í Uppsölum

logi@hi.is



Inngangur: Viðtakar fyrir melanókortín (MC), eins og MSH (melanocyte stimulating hormone) og ACTH (adrenocorticotropic hormone), eru víða í taugakerfinu. MC viðtakarnir greinast í fimm undirflokka (MC1-5) og hefur MC4 viðtakinn einungis fundist í miðtaugakerfinu. Rannsóknir benda til þess að MC4 viðtaki sé mikilvægur í stjórn fæðutöku, viðhaldi líkamsþyngd og hafi einnig áhrif á orkuefnaskipti. Markmið þessarar tilraunar er að kanna langtímaáhrif MC kerfisins á fæðutöku, orkuefnaskipti og líkamsþyngd.

Efniviður og aðferðir: Wistar rottum var skipt í þrjá tilraunahópa í tveimur tilraunum. Einn hópur í hvorri tilraun fékk sérhæfða MC4 hindrann HS024, annar fékk MC3 og MC4 örvarann MT-II og viðmiðunarhóparnir fengu tilbúinn mænuvökva. Lyfin og lyfleysan voru gefin inn í heilahol með osmótískum ördælum sem komið var fyrir undir húð við herðakamb. Lyfjagjöf stóð yfir í 28 daga í fyrri tilrauninni en átta daga í þeirri síðari. Í 28 daga tilrauninni voru dýrin vegin vikulega og fæðutaka þeirra skráð. Í átta daga tilrauninni voru dýrin vegin og fæðutaka þeirra skráð annan hvern dag. Auk þess var súrefnisupptaka dýranna mæld.

Niðurstöður: Dýrin í HS024 hópunum átu meira og eftir 28 daga voru þau um 30% þyngri en viðmiðunardýrin. Dýrin í MT-II hópnum átu ekki marktækt minna en viðmiðunardýrin en engu að síður léttust þau um nærri 10% á fyrstu viku lyfjagjafarinnar. Við nánari skoðun í 8 daga tilrauninni kom í ljós að efnaskiptahraði MT-II hópsins var hærri en hjá hinum tveimur hópunum á öðrum degi lyfjagjafar. Auk þess léttust dýrin í MT-II hópnum sem rekja má til minnkaðs áts ásamt auknum efnaskiptahraða miðað við viðmiðunardýrin. HS024 dýrin þyngdust miðað við viðmiðunardýrin.

Ályktanir: Langtímahindrun MC4 viðtaka eykur át. MC3 og MC4 örvun eykur efnaskiptahraða tímabundið.





V 76 Lifrarbólguveiru C arfgerðargreining meðal sýktra Íslendinga

Barbara Stanzeit, Arthur Löve



Veirufræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

barbara@landspitali.is



Inngangur: Lifrarbólguveira C (HCV) er af flavívírídeætt. Hún er talin orsakavaldur flestra lifrarbólgutilfella sem komu í kjölfar blóð- eða blóðhlutagjafa og voru ekki af völdum lifrarbólguveira A eða B (nonA- nonB). Smitleið hérlendis er fyrst og fremst nær eingöngu meðal fíkniefnaneytenda sem nota sameiginlegar nálar. HCV RNA genómið sýnir nokkurn breytileika, einkum á svæði sem kóðar fyrir hjúpprótein veirunnar. Önnur svæði sýna mismikinn breytileika. Gerir þetta mögulegt að greina hina ýmsu veirustofna frá sjúklingum í mismunandi arfgerðir (genotypes) sem eru taldar vera um 11 talsins og undirgerðir miklu fleiri. Þessi rannsókn beinist að því að ákvarða hvaða arfgerðir HCV-veirunnar finnast í sýktum einstaklingum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Til rannsóknanna voru notuð aðsend sýni frá HCV sýktum einstaklingum á tímabilinu 2000-2002 sem reynst höfðu vera með HCV-RNA með kjarnsýrumögnunaraðferð (PCR). HCV-RNA var ákvarðað með efnum frá Hoffmann La Roche. Arfgerðargreining var gerð með INNO-LiPATM HCV II aðferð frá Innogenetics. Hún byggist á mismun sem finnst í 5´ ólesnu svæði (5´ NCR) hinna ýmsu arfgerða.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að algengasta arfgerð HCV á Íslandi nú er 3a (56%) en 1a (12%) og 1b (12%) eru einnig áberandi. Niðurstöður þessarar athugunar sýna að arfgerð 3a er langalgengust hérlendis og svo hefur einnig verið í nágrannalöndunum. Algengi hennar þar virðist fara vaxandi miðað við aðrar arfgerðir veirunnar. Ef sú þróun á sér einnig stað hérlendis má telja það jákvætt þar sem arfgerð 3a er vænlegri til meðferðar en ýmsar aðrar arfgerðir.





V 77 Algengi Epstein-Barr veiru og cýtómegalóveiru meðal Íslendinga

Ásgeir Erlendur Ásgeirsson, Auður Antonsdóttir, Arthur Löve



Veirufræðideild Landspítala háskólasjúkrahúss

audura@landspitali.is



Inngangur: Epstein-Barr veira (EBV) er útbreidd um allan heim. Flestir sýkjast af EBV í bernsku. Unglingar og fullorðnir sem sýkjast fá oft einkirningasótt (infectious mononucleosis). Í Bandaríkjunum eru allt að 95% 35-40 ára með merki fyrri EBV sýkinga en í Bretlandi 80%. Í fátækari löndum er EBV mun algengara. Cýtómegalóveira (CMV) er einnig algeng um allan heim. Á Vesturlöndum eru 24-75% með merki fyrri sýkinga. Í fátækari löndum er hún mun algengari. Þeir sem sýkjast eftir fæðingu bera sjaldnast nokkurn skaða af. CMV getur verið skaðleg ónæmisbældum og fóstrum. Í Bandaríkjunum munu 50-85% fertugra bera merki fyrri CMV-sýkinga. Í Frakklandi eru tæp 50% ófrískra kvenna með merki fyrri sýkinga. Hjá breskum blóðgjöfum er algengið 45%. Í Finnlandi er 70,7% ófrískra kvenna með merki fyrri CMV-sýkinga.

Efniviður og aðferðir: Mæld voru mótefni gegn EBV og CMV úr sermi 299 sýna úr lífsýnasafni veirufræðideildar. Notuð var ELISA-tækni við mælingarnar. Til að sýna fram á fyrri EBV-sýkingu voru notuð aðkeypt sett, Biotest anti EBV viral capsid IgG, framkvæmd samkvæmt leiðbeiningum framleiðenda. Til að sýna fram á fyrri CMV-sýkingu var notuð ELISA-tækni sem þróuð var á veirufræðideild og hefur verið notuð til IgG mótefnamælinga.

Niðurstöður: Algengi EBV: Af þeim 299 einstaklingum sem prófaðir voru fyrir EBV á aldrinum 19-63 voru aðeins fjórir neikvæðir, allt ungt fólk. Algengi EBV var 92,5% í aldursflokknum 21-25 ára og 97,6% í hópnum 31-35 ára. Hjá öllum öðrum aldurshópum var algengið 100%.

Algengi CMV: Um 60% fólks hér á landi fær CMV fyrir tvítugt og breytist það lítið fram til þrítugs. Eftir það tekur tíðni CMV stökk upp á við. Algengið er um 68% hjá 31-35 ára, um 87% hjá 36-40 ára og yfir 90% hjá 41-45 ára.

Ályktanir: Algengi fyrri CMV sýkinga virðist því vera heldur hærra hérlendis en víða annars staðar á Vesturlöndum. Mögulegt er að aukning á algengi CMV eftir aldri sé vegna þess að foreldrar sýkist af börnum sínum, eða að það dragi úr algengi CMV í þjóðfélaginu vegna betra hreinlætis, minni fjölskyldna og stærra húsnæðis.





V 78 Stökkbreytitíðni mæði-visnuveirunnar

Hallgrímur Arnarson, Guðmundur Pétursson, Valgerður Andrésdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

valand@hi.is



Inngangur: Mæði-visnuveira er retróveira af flokki lentiveira. Allar retróveirur hafa mjög háa stökkbreytitíðni og er það aðallega vegna hárrar villutíðni ensímsins reverse transcriptase (víxlrita). Retróveirur breytast þó mishratt, þannig breytist alnæmisveiran HIV hraðar en músaretróveirur. Ýmsar veirur, þar á meðal mæði-visnuveira, hafa gen fyrir ensímið dUTPase, en það klýfur dUTP í dUMP og PPi. Kenningar hafa komið fram um að þetta ensím dragi úr villutíðni við eftirmyndun með því að minnka framboð á dUTP og þess vegna hættunni á að dUTP sé sett inn í DNA. Í þessari rannsókn voru kindur sýktar með klónuðu mæði-visnuveirunni KV1772 og einnig með KV1772DU, þar sem úrfelling hafði verið sett í dUTPasa gen í KV1772. Veirur voru einangraðar úr blóði úr kindunum og einnig þegar kindunum var slátrað eftir sex mánuði þar til eftir þrjú ár. Veiru DNA var raðgreint og stökkbreytitíðni athuguð.

Efniviður og aðferðir: Fjórar kindur voru sýktar með hvorri veirugerð og slátrað eftir sex mánuði. Veirur voru ræktaðar úr ýmsum líffærum og 800 bp bútur úr env geni klónaður og raðgreindur. Einnig var gert PCR beint úr líffærum kinda sem höfðu gengið með veiruna allt upp í þrjú ár og sami bútur klónaður og raðgreindur.

Niðurstöður og ályktanir: Stökkbreytitíðni mæði-visnuveiru var 1-3 x 103 stökkbreytingar/basa/ár. Þetta er aðeins tíundi hluti stökkbreytitíðni SIV og HIV og skipti ekki máli hvort dUTPasi var virkur eða ekki.



V 79 Stökkbreytingagreining á vaxtarhindrandi væki mæði-visnuveiru



Benedikta S. Hafliðadóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Valgerður Andrésdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

valand@hi.is



Inngangur: Mæði-visnuveira (MVV) tilheyrir lentiveirum og er því náskyld alnæmisveirunni (HIV). Þó að amínósýrusamsetning hjúppróteina lentiveira sé mjög mismunandi, er bygging próteinanna lík. Það skiptast á vel varðveitt og breytileg svæði og þrívíddarbyggingin er mynduð með brennisteinsbrúm og sykrun. Við höfum kortlagt ríkjandi vaxtarhindrandi væki MVV á breytilegu svæði í hjúppróteini veirunnar. Tilgangur tilraunarinnar var að greina hlutverk og byggingu þessa vækis. Varðveittu cysteini var breytt í serín og einnig var gerð stökkbreyting á sykrunarseti, og kannað hvort þessar stökkbreytingar hefðu áhrif á vöxt veiranna og hvort mótefnasvarið hefði breyst.

Efniviður og aðferðir: Stökkbreytingar voru gerðar á klónuðu veirunni KV1772 með PCR aðferð. Hnattkjarna átfrumur voru sýktar með stökkbreyttu veirunum og sýni tekin daglega til víxlritamælinga, en virkni víxlrita í frumufloti var notuð sem mælikvarði á veirumagn. Einnig var athugað hvort mótefnasermi gegn KV1772 hindraði vöxt veiranna.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að stökkbreyting á cysteini hafði engin áhrif á vöxt, en breytti hins vegar vækinu þannig að sérhæft mótefnasermi gegn KV1772 stöðvaði ekki vöxt veiranna. Breyting á sykrunarseti hafði engin áhrif, en ef auka sykrunarseti var bætt við komst veiran undan mótefnasvari. Þessar niðurstöður benda til þess að þetta cystein gegni hlutverki í þrívíddarbyggingu vækisins, og að auka sykrun feli vækið fyrir mótefnum.





V 80 Stökkbreytingagreining á Vif próteini mæði-visnu veiru

Sigríður Rut Franzdóttir, Valgerður Andrésdóttir, Ólafur S. Andrésson



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

sigrifr@mail.hi.is



Inngangur: Tvö klón af mæði-visnuveirunni (MVV) hafa afar ólíka svipgerð í frumuræktum og kindum þrátt fyrir að aðeins sé 1% munur á amínósýruröð þeirra. KV1772 er afar sýkingarhæf en KS1 vex vel í æðaflækjufrumum en ekki í öðrum frumugerðum. Muninn má rekja til samspils tveggja amínósýrubreytinga í KS1, annarrar í Vif og hinnar í hylkispróteini (CA). Talið er að hlutverk Vif próteins lentiveira sé að vinna gegn hindrandi frumuþætti en við teljum að Vif gegni fleiri hlutverkum. Gerðar voru tvær stökkbreytingar á Vif til að kanna betur samskipti Vif og CA og þær prófaðar með mismunandi hylkisgerðum. Ser173 Gly breyting var gerð á varðveittu röðinni SLQXLA. Þetta Ser er nauðsynlegt í HIV en ekki í geitaveirunni CAEV. Hin breytingin var Trp98 Arg sem reynst hafði nauðsynlegt fyrir virkni Vif í CAEV.

Efniviður og aðferðir: Stökkbreytingar voru gerðar með PCR. Stökkbreyttu raðirnar voru klónaðar inn í erfðamengi veirunnar og raðgreindar. Nýjar veiruagnir fengust með DNA-leiðslu á fósturliðþelsfrumum. Hnattkjarnaátfrumur, fósturliðþelsfrumur og æðaflækjufrumur voru sýktar með veirunum og vaxtarkúrfur fengnar með virknimælingum á víxlrita veiranna.

Niðurstöður og ályktanir: Ser173 breyting hefur engin áhrif á veiruvöxt hvort sem hylkisgerðin er frá 1772 eða KS1. Þetta bendir til þess að Ser173 gegni ekki sama hlutverki í MVV og CAEV og það gerir í HIV. Ekki virðist vera um samspil milli Ser173 og hylkispróteins að ræða. Veirur með Trp98 breytingu í báðum hylkisgerðum uxu eðlilega í fósturliðþelsfrumum en illa í æðaflækjufrumum. Trp98 er því nauðsynleg amínósýra fyrir virkni Vif. Sérlega áhugavert er að stökkbreyttu veirurnar vaxa illa í frumugerð sem KS1 vex vel í og gæti það bent til þess að hér sjáist áhrif af öðru hlutverki Vif en að vinna gegn frumuhindra.





V 81 Veirudrepandi virkni alkóhóla gegn HSV-1

Hilmar Hilmarsson1, Þórdís Kristmundsdóttir2, Halldór Þormar1



1Líffræðistofnun HÍ, 2lyfjafræðideild HÍ

hilmarh@hi.is



Inngangur: Fyrri rannsóknir sýna breiða örverudrepandi virkni fitusýra gegn sýklum. Nákvæmlega hvernig fitusýrur drepa örverur er ekki vitað, en rannsóknir benda til að þær leysi upp hjúp veira. Líklega smjúga þær inn í fituhjúpinn með vatnsfælnikröftum sem leiðir til gegndræpis hjúpsins fyrir smásameindum. Í þessari rannsókn var könnuð virkni mettaðra og ómettaðra, meðallangra og langra (C8-C18) alkóhóla gegn herpes simplex veiru 1 (HSV-1) og borin saman við virkni tilsvarandi fitusýra.

Efniviður og aðferðir: Alkóhólum í ákveðnum styrk var blandað við jafnt rúmmál af veirulausn og veirudrepandi virkni könnuð í mismunandi styrk og í mislangan tíma við 37°C. Veirublandan var títreruð í tíföldum þynningum í Vero frumum. Títer (log10) á alkóhól-veirublöndum var dreginn frá títer viðmiðunarlausna og þannig fengin út veirudrepandi virkni alkóhólanna.

Niðurstöður: Þrjú alkóhól í 10 mM styrk prófuð í 10 mínútur við 37°C sýndu marktæka lækkun á veirutíter, það er n-decyl (10:0), lauryl (12:0) og myristoleyl (14:1). N-decyl alkóhól sýndi mestu virknina við þessi skilyrði og lækkaði títerinn meira en 3 milljón-falt á 10 mínútum en einungis 100-falt á einni mínútu. Við lengri meðhöndlunartíma (tvær klukkustundir) og í minni styrk (2,5 mM) var lauryl alkóhól virkast og lækkaði veirutíterinn meira en milljónfalt en n-decyl alkóhól aðeins þúsundfalt. Þegar veirudrepandi virkni alkóhóla og fitusýra er borin saman sýna alkóhólin minni og hægari virkni.

Ályktanir: Munurinn á hydroxyl hópi alkóhóla og karboxyl hópi fitusýra virðist valda því að alkóhól eru ekki eins virk og sýrur við hlutlaust pH. Við pH 4,1 jókst veirudrepandi virkni bæði alkóhóla og tilsvarandi fitusýra en virknin var óháð vatnssækni-/vatnsfælnihlutfalli efnanna. Breytingin á pH virðist gera hjúp veirunnar viðkvæmari fyrir efnunum, hugsanlega vegna hleðslubreytinga á hjúppróteinum veirunnar.





V 82 Veirudrepandi virkni alkóhóla og fitusýra gegn HSV-2

Hilmar Hilmarsson1, Jóhann Arnfinnsson2, Halldór Þormar1



1Líffræðistofnun HÍ, 2Rannsóknastofa í líffærafræði, læknadeild HÍ

hilmarh@hi.is



Inngangur: Fyrri rannsóknir á meðallöngum og langkeðju alkóhólum og tilsvarandi fitusýrum sýna að nokkur þessara efna eru mjög virk gegn herpes simplex veiru 1 (HSV-1). Í þessari rannsókn var könnuð virkni mettaðra og ómettaðra, meðallangra og langra (C8-C18) alkóhóla gegn herpes simplex veiru 2 (HSV-2) og borin saman við virkni tilsvarandi fitusýra. Auk þess var virkni efnanna gegn HSV-1 og HSV-2 borin saman.

Efniviður og aðferðir: Alkóhólum og fitusýrum í ákveðnum styrk var blandað við jafnt rúmmál af veirulausn og veirudrepandi virkni könnuð í mismunandi styrk og í mislangan tíma við 37°C. Veirutíter var fundinn með því að sá tíföldum þynningum af blöndunni á Vero frumur. Títer (log10) á veirulausnum sem voru meðhöndlaðar með alkóhólum eða fitusýrum var svo dreginn frá títer viðmiðunarlausna og þannig fengin út veirudrepandi virkni efnanna.

Niðurstöður: Við hlutlaust pH var virkni alkóhóla og fitusýra gegn HSV-2 hliðstæð virkninni gegn HSV-1, þannig að fitusýrurnar voru að jafnaði hraðvirkari en alkóhólin. Við lækkun á sýrustigi minnkaði virkni lauric sýru og myristic sýru gegn HSV-2, öfugt við HSV-1 þar sem virkni sýra jókst við pH 4,1.

Ályktanir: Þetta styður þá tilgátu að jónahleðsla á hjúppróteinum veira hafi áhrif á virknina. Rafeindasmásjármyndir verða teknar af HSV-1 eftir meðhöndlun með 10 mM n-decyl alkóhóli í mismunandi langan tíma og þannig kannað hvort alkóhól leysi upp hjúp veira líkt og sýnt hefur verið fram á með fitusýrum.





V 83 Hlutverk Vif í eftirmyndun mæði-visnuveiru

Stefán Ragnar Jónsson, Helga Bryndís Kristbjörnsdóttir, Sigríður Rut Franzdóttir, Ólafur S. Andrésson, Valgerður Andrésdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

stefanjo@hi.is



Inngangur: Lentiveirur eru flokkur retróveira sem valda langvinnum sjúkdómum í spendýrum. Meðal lentiveira eru alnæmisveiran (HIV) í mönnum og mæði-visnuveiran (MVV) í kindum. Allar retróveirur hafa sams konar gen fyrir byggingarprótein og ensím, það er gag, pol og env. Auk þessara gena hafa lentiveirur stjórn- og aukagen sem hafa áhrif á lífsferil veirunnar. Eitt þessara gena er vif (virion infectivity factor). Próteinið sem þetta gen skráir er nauðsynlegt fyrir vöxt HIV-1 og MVV í flestum frumugerðum og fyrir sýkingu in vivo. Þrátt fyrir miklar rannsóknir er hlutverk Vif óþekkt en nokkrar hugmyndir eru uppi. Talið er að Vif verki á síðustu stigum sýkingarferils veiranna, það er við myndun nýrra sýkingarhæfra veiruagna. Í þessari rannsókn var hlutverk Vif í eftirmyndun athugað með því að mæla magn veiru DNAs á ákveðnum tímapunktum eftir sýkingu með veirustofnum sem höfðu mismunandi stökkbreytingar í vif geninu.

Efniviður og aðferðir: Liðþelsfrumur úr kindafóstri (FOS) og æðaflækjufrumur (SCP) voru sýktar með mismunandi mæði-visnuveirustofnum og DNA einangrað á ákveðnum tímapunktum. Magn veiru-DNAs var ákvarðað með rauntíma PCR tækni (real-time PCR). Við mælingarnar voru notaðir sértækir flúrmerktir þreifarar (probes) og flúrljómunarvokorkuflutningur (fluorescence resonance energy transfer (FRET)).

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður benda til mikilvægis Vif við eftirmyndun mæði-visnuveiru. Niðurstöðurnar sem fást með rauntíma PCR tækninni eru samsvarandi þeim niðurstöðum sem áður hafa fengist með erfðafræðilegum aðferðum. Eftirmyndun veirustofna með heilt og gallað Vif er svipuð fyrstu 36 klukkustunda sýkingar en þá skilur á milli þeirra og bendir þetta til þess að stofnar með gallað Vif framleiði ekki full sýkingarhæfar veiruagnir og eigi erfitt með endursýkingu.





V 84 Breytingar í hjúppróteini mæði-visnuveiru (MVV) við náttúrulegar sýkingar

Hallgrímur Arnarson, Valgerður Andrésdóttir, Margrét Guðnadóttir



Veirurannsóknastofnun læknadeildar HÍ, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

hallgra@hi.is



Inngangur: Eitt af meginvandamálum við þróun bóluefna gegn lentiveirum, til dæmis HIV og mæði-visnuveiru (MVV), er mikill breytileiki og há stökkbreytitíðni, ekki síst í hjúppróteinum.

Í bólusetningartilraun gegn MVV fékkst mótefnasvar í kindum með því að sprauta í þær dauðum veiruögnum ásamt ónæmisglæði. Tilraunadýr voru síðan hýst með dýrum sem áður höfðu verið sýkt með MVV. Þessi aðferð er einstök því að reynt var á bólusetningu í gegnum náttúrulegar smitleiðir en ekki með því að sprauta smitefni í dýr líkt og venjulega er gert í bólusetningartilraunum gegn lentiveirum. Í þessari tilraun sýktust öll viðmiðunardýr en þrjú af fimm bólusettum dýrum sýktust ekki.

Megin afvirkjandi væki MVV hefur verið staðsett á yfirborðshjúppróteini MVV. Breytingar í þessu væki geta haft áhrif á virkni mótefna gegn veirunni. Út frá DNA-raðgreiningum voru amínósýruraðir þessa vækis ákvarðaðar fyrir veirur sem ræktuðust úr sýktum dýrum. Gerður var samanburður á þessum röðum til að kanna hvort breytingar hefðu orðið, hvers konar breytingar það væru og hvort bólusetning hefði áhrif þar á.

Efniviður og aðferðir: Í bóluefni voru notaðar dauðar veiruagnir af stofni K796. Annar einstaklingurinn úr fimm tvílembingapörum var bólusettur en hinum var gefið viðmiðunarbóluefni. Mótefnamyndun var könnuð og pari var fórnað þegar viðmiðunardýr sýndi merki sýkingar í blóðprófi. Sýking var ákvörðuð út frá ræktunum úr nokkrum vefjum. Klónaðir voru um það bil 450 bp forveiru DNA-bútar úr þessum ræktunum, þeir raðgreindir og nýttir til samanburðar.

Niðurstöður og ályktanir: Bólusetning með dauðu MVV-bóluefni leiddi til mótefnamyndunar og gat varið þrjú af fimm bólusettum dýrum gegn sýkingu. Raðgreiningar benda til að við náttúrulegar sýkingar komi upp fjöldi breytinga í afvirkjandi væki en ekki var sýnt fram á að bólusetning hefði áhrif á eðli breytinga.
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica