Umræða fréttir

Framkvæmdastjóraskipti hjá LÍ

Í byrjun ágúst lét Ásdís J. Rafnar, hrl., af starfi framkvæmdastjóra hjá Læknafélagi Íslands. Ásdís hóf störf hjá félaginu í febrúar 1999. Þá voru umbrotatímar hjá LÍ, mannahald félagsins og rekstur skrifstofu hafði verið endurskipulagður og tók LÍ af fullum þunga þátt í ákafri þjóðfélagsumræðu um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þetta hvort tveggja hafði gengið nærri innviðum félagsins og átt þátt í þeirri atburðarás sem leiddi til framkvæmdastjóraskipta á þeim tíma. Þess vegna var aðkoma nýs framkvæmdastjóra allt annað en auðveld.

Ásdís tók við starfi sínu af fullum styrk frá upphafi og lauk því verki sem hafið var við endurskipulagningu rekstursins af miklum myndugleik. Það var öllum ljóst sem með Ásdísi unnu frá upphafi að krafan um gegnsæi og málefnalega og réttláta stjórnsýslu lá til grundvallar öllum verkum hennar fyrir Læknafélagið. Hún vakti yfir öllu, smáu og stóru, hvort sem það varðaði fjárhag félagsins eða lögfræðilega úrvinnslu mála sem til meðferðar voru. Þó tókst henni að vinna störf sín þannig að hvorki skyggði nokkurn tíma á kjörna fulltrúa lækna né tók hún frumkvæði við stefnumótun í málefnum þeirra.

Ásdís er nú horfin til framhaldsnáms í London og óskum við henni allra heilla á þeim vettvangi. Stjórn Læknafélags Íslands þakkar henni ágætt samstarf á liðnum árum og störf sem sér stað.

Sigurbjörn Sveinsson

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica