Umræða fréttir
  • Sigurbjörn Sveinsson

Af sjónarhóli stjórnar LÍ. Um skurðlækna og gengi Læknablaðsins

Margt birtist í Læknablaðinu sem er þess virði að það njóti meiri athygli, en raun er á. Það er mikilvægt að umræðum um einstök álitamál í félagsstarfi lækna sé gefið líf. Sérstaklega á þetta við ef um mikilvæg hagsmunamál er að ræða sem varða kjör lækna eða skylda hagsmuni, svo sem aðstöðu til fræðistarfa. Að vísu má halda því fram með nokkrum rétti að Læknablaðið komi út með of löngum fresti til að auðvelt sé að halda þræði í skoðanaskiptum af þessu tagi. Það er að sínu leyti rétt svo langt sem það nær. Ég hygg þó að miklu ráði um líflegar umræður á síðum Læknablaðsins almennur áhugi eða áhugaleysi á félagsmálum, skilningur einstakra lækna á þýðingu samtakamáttar fyrir þá sjálfa og svo áhugi á Læknablaðinu og afdrifum þess í bæði þröngum og víðum skilningi þess hugtaks.

Í síðasta tölublaði Læknablaðsins birtust tvær athyglisverðar greinar um álitamál sem ég vil gjarnan gera að umræðuefni.





Af skurðlæknum og öðru góðu fólki

Páll Helgi Möller ræðir kjaramál sjúkrahúslækna og spyr sig hvort á ferðinni sé sameiginleg barátta eða sértæk. Páll segir:

"Samninganefnd LÍ á og hefur reynt að taka mið af hagsmunum allra lækna og því er það augljóst að sérhagsmunir einstakra hópa, eins og skurðlækna, hafa þurft að víkja fyrir heildarhagsmunum, hvað svo sem einstökum hópum lækna kann að finnast um það. Hópar lækna eins og skurðlæknar telja kjaramálum sínum best komið í eigin höndum. Það er alveg ljóst á máli þeirra að þar eru þeir ekki að vísa til þess að aðrir læknar hafi ekki sérstöðu sem krefjist sértækra kjarasamninga heldur til þess að þeir þekki betur en aðrir til sinnar sérstöðu og séu því best fallnir til að semja um eigin kjör. Vandi skurðlækna er aftur á móti sá að þeir eru meðlimir í LÍ í gegnum hin ýmsu svæðafélög eins og Læknafélag Reykjavíkur, Læknafélag Vesturlands og svo framvegis. Samkvæmt 16. grein laga LÍ sér félagið um gerð kjarasamninga lækna í samráði við svæðafélög og önnur félög lækna eftir því sem við á hverju sinni."

Það ætti að vera flestum læknum kunnugt að stjórn Skurðlæknafélags Íslands fór þess á leit við stjórn LÍ á miðjum liðnum vetri að skurðlæknar færu sjálfir með kjarasamninga sína við ríkið, það er hefðu eigin samninganefnd, sjálfstæða kröfugerð og væru þar með óháðir öðrum hópum lækna. Stjórn LÍ vísaði þessu á bug á þeim forsendum að framkvæmdin stæðist ekki lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, stæðist ekki lög LÍ, kjarasamningar væru í gang komnir og kröfugerð mótuð. Þá gerði LÍ aðeins einn samning sem lyti einni ákvörðun um samþykkt eða synjun og um aðgerðir til að knýja fram það sem ekki fengist með friði. Hins vegar lýsti stjórn LÍ sig þegar reiðubúna til að hefja umræðu um skipulag LÍ er leitt gæti til breytinga sem skurðlæknar gætu unað við.

Það er mín skoðun að skipulag LÍ á hverjum tíma verði að mæta kröfum og hugmyndum sem flestra lækna um stéttarfélag og lög LÍ verði að geyma þessar hugmyndir í orðum og endurspegla þær til þess að læknum líði vel í sínu stéttarfélagi og finni hagsmunum sínum borgið. Það hlýtur að vera sameiginlegt áhugamál okkar. Páll Helgi orðar þetta svo:

"Á fundinum (formannafundi LÍ, innsk. SS) voru fulltrúar svæðafélaganna ekki fráhverfir því að gera mætti skipulagsbreytingar á LÍ en að málið þarfnaðist frekari umræðu. Stjórn LÍ mun vinna úr þessum hugmyndum og fleirum fyrir aðalfund félagsins og jafnvel koma fram með lagabreytingartillögur ef þess er þörf að mati stjórnar. Ef fram koma tillögur um skipulagsbreytingar á LÍ þyrftu meðal annars svæðafélögin að breyta sínum lögum og því er ljóst að víðtæk samstaða þyrfti að nást um það mál og verður það ekki afgreitt einhliða á aðalfundi LÍ.

Ég held að það megi fullyrða að það sé vilji meirihluta lækna að vera áfram aðili að LÍ þar sem LÍ er ekki aðeins félag sem fer með kjaramál heldur gegnir það ýmsum öðrum hlutverkum sem eru læknum sameiginleg. Má í því sambandi nefna lífeyrissjóðsmál, útgáfustarfsemi, málefni er varða siðfræði og ýmis fagleg mál."

Mér þykir alveg ljóst miðað við óskir skurðlækna og þá atburðarás er varð um Félag ungra lækna í tengslum við kjarasamninga sjúkrahúslækna að breyta verði lögum LÍ á komandi hausti. Þær tillögur til lagabreytinga sem fram verða bornar hljóta að lágmarki að gera ráð fyrir fleiri en einu stéttarfélagi lækna, kjósi þeir það. Það er Læknafélags Íslands að gefa félögum sínum þennan kost. Það er hins vegar þeirra sjálfra, sem það kjósa, að afla félagi sínu viðurkenningar og fá samninga fyrir hönd umbjóðenda sinna við gagnaðila, hverjir svo sem það verða.





Um afdrif Læknablaðsins

Tómas Guðbjartsson skrifar athyglisverða forustugrein í sama tölublað um Læknablaðið og framtíð þess sem vísindarits. Tómas tekur upp þráð Hannesar Petersen í 3. tölublaði 2002, þar sem vakin er athygli á að umfang Læknablaðsins sem vísindarits hefur á undanförnum árum ekki vaxið að sama skapi og vísindaiðkun íslenskra lækna. Tómasi þykir þetta miður. Hann segir:

"Öflugt læknablað er forsenda þess að á Íslandi sé hægt að birta rannsóknir í læknisfræði á íslenskum efnivið, svo ekki sé minnst á hlutverk blaðsins í kennslu heilbrigðisstétta og fræðslu við almenning. Ég held að flestir geti verið sammála mér í því að niðurstöður rannsókna sem gerðar eru á Íslandi, á íslenskum sjúklingum og af íslenskum læknum, eigi heima í íslensku vísindariti sem er lesið af íslenskum læknum og læknanemum." Tómas veltir ástæðum nefndrar þróunar fyrir sér og kemst að eftirfarandi niðurstöðu: "Ég held að skýringin sé fyrst og fremst sú að íslenskir læknar telja Læknablaðið ekki nógu öflugan miðil samanborið við erlend læknablöð. Þar skiptir mestu sú staðreynd að Læknablaðið er ekki skráð í alþjóðlegum gagnabönkum vísindatímarita, eins og til dæmis Medline. Þetta er að mínu mati verulegur Akillesarhæll, ekki síst á tímum netvæðingar, og takmarkar verulega útbreiðslu og aðgengi að niðurstöðum blaðsins. Það er því skiljanlegt að íslenskir læknar sæki á önnur mið til að fá niðurstöður sínar birtar. Þetta er óæskilegt því að eins og áður sagði eiga margar þessara rannsókna betur heima í Læknablaðinu en á síðum erlendra tímarita."

Tómas spyr sig: "hvað Læknablaðið getur gert til að sporna við vísindalegri stöðnun? Mér skilst að fulltrúar Læknablaðsins hafi í fjölda ára gert árangurslausar tilraunir til að fá blaðið skráð á Medline. Ástæðan ku vera hversu lítið málsvæði íslenskunnar er." ... "Og þá vaknar eðlilega sú spurning hvort Læknablaðið ætti hreinlega að stíga skrefið til fulls og birta allar vísindagreinar á bæði ensku og íslensku. Ég tel þessa hugmynd alls ekki svo fjarstæðukennda. Þegar til lengri tíma er litið myndi það festa Læknablaðið í sessi sem vísindarit og styrkja stöðu þess í samkeppni við önnur læknatímarit."

Þessi sjónarmið Tómasar eru allrar athygli verð. Það getur ekki verið markmið læknasamtakanna að sínu leyti að halda úti vísindariti, sem býr við þverrandi áhuga eigenda sinna. Áhugi okkar á íslenskri tungu og menningu, nýyrðasmíð og fleiru af því tagi má ekki ganga af Læknablaðinu dauðu. Læknablaðið hefur sem vísindarit fyrst og fremst skyldur við læknavísindin. Þau vísindi lifa í fjölþjóðlegum heimi sem á lítið skylt við stílæfingar á fegurstu og elstu tungu veraldar. Það er í þágu mannsins að þau vísindi eigi greiða leið um þekkingarveitur veraldarinnar. Því er og eðlilegt að íslenskir læknar velji fremur að fleyta vísindaiðju sinni niður brattar flúðir enskunnar, en á lygnum straumum móðurmálsins.

Mér finnst alveg eðlilegt að spurt sé hvort tímabært sé að vísindagreinar í Læknablaðinu séu birtar eingöngu á ensku. Hvort það sé ekki í þágu Læknablaðsins og höfunda þeirra sem blaðið kjósa til að koma vinnu sinni á framfæri. Við vitum að Læknablaðið hefur þýðingu fyrir margvíslega vísindavinnu sem hefur svo sérstaka íslenska tilvísun að niðurstöðurnar fengjust ekki birtar annars staðar óháð gæðum efnisins. Séríslensk niðurstaða fæst ekki birt nema í séríslensku blaði en ef til vill lifir slíkt blað ekki nema það sé á ensku. Af þeirri ástæðu einni má afsaka enskuna, ef hún bjargar blaðinu.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica