Umræða fréttir
  • Mynd 1

Kjaramál unglækna Félagsdómur dæmdi boðaða vinnustöðvun ólögmæta

Kjaramál unglækna hafa verið í brennidepli að undanförnu en eins og kunnugt er af fréttum sagði Félag ungra lækna (FUL) sig frá kjarasamningi þeim sem samninganefnd Læknafélags Íslands (LÍ) gerði við fjármálaráðuneytið í vor um kjör lækna á sjúkrahúsum. Félagið boðaði til vinnustöðvunar hjá unglæknum en áður en til hennar kom felldi Félagsdómur þann úrskurð að hún væri ólögleg.

Forsaga málsins er sú að þegar samninganefndir LÍ og ríkisins undirrituðu nýjan kjarasamning 2. maí síðastliðinn neitaði fulltrúi unglækna í nefndinni að skrifa undir. Á aukaaðalfundi FUL 10. maí voru gerðar breytingar á lögum félagsins sem gerðu það að sjálfstæðu stéttarfélagi sem ekki tilheyrði lengur LÍ. Jafnframt sagði fulltrúi félagsins sig úr samninganefnd LÍ og stjórn félagsins hvatti unglækna til þess að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn sem fram fór 16. maí.

Eins og kunnugt er var samningurinn samþykktur í atkvæðagreiðslunni, þó ekki með meiri mun en svo að atkvæði unglækna hefðu hugsanlega getað ráðið úrslitum. Stjórn FUL óskaði hins vegar eftir samningaviðræðum við ríkisvaldið um nýjan kjarasamning. Samninganefnd ríkisins hafnaði því og lagði stjórn FUL það þá í dóm félagsmanna sinna hvort rétt væri að boða til vinnustöðvunar í því skyni að knýja fram samning. Atkvæðagreiðslan fór fram 5.-6. júní og þann 10. júní boðaði félagið að þrisvar sinnum yrði fjögurra daga vinnustöðvun. Skyldi sú fyrsta hefjast á miðnætti Jónsmessunætur, 24. júní.

Ríkið brást við með því að stefna FUL og LÍ fyrir Félagsdóm til viðurkenningar á því að LÍ hafi farið með samningsaðild fyrir félagsmenn í FUL og að boðuð vinnustöðvun verði dæmd ólögmæt. Félagsdómur kvað upp dóm sinn síðdegis á sunnudegi, nokkrum klukkustundum áður en fyrsta verkfallið átti að hefjast.

Félagsdómur féllst á þau rök ríkisins að unglæknar væru bundnir af kjarasamningi LÍ og ríkisins, á þeim hvíldi því friðarskylda og vinnustöðvun þar af leiðandi ólögmæt. Var FUL gert að greiða ríkinu 200.000 krónur í málskostnað. Læknafélag Íslands var hins vegar sýknað af kröfum ríkisins vegna þess að þegar FUL tók ákvörðun um vinnustöðvun "hafi hvorki verið fyrir að fara aðild félagsins né einstakra félagsmanna þess að Læknafélagi Íslands," eins og segir í dómnum. LÍ hefði því ekki átt neinn hlut í aðgerðum unglækna né borið á þeim ábyrgð. Var ríkinu gert að greiða félaginu 100.000 krónur í málskostnað.





Deilt um lagaákvæði

Verjandi FUL í þessu máli var Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður og byggði hún málsvörnina á því meginatriði að lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá 1986 giltu ekki um samninga unglækna. Félag þeirra væri sjálfstætt stéttarfélag og giltu því um það lög um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938. Á þeim grunni væri FUL óbundið af samningi LÍ og ríkisins, það uppfylli öll skilyrði laga um stéttarfélög og hafi því rétt til að gera kjarasamninga og fylgja eftir kröfum félagsins með því að boða til verkfalls.

Félagsdómur slær því föstu að málið falli undir dómsvald hans á grundvelli laganna frá 1986 "enda hefur lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna verið beitt um langt árabil um kjarasamninga lækna við stefnanda [ríkið]," eins og segir í niðurstöðum dómsins. Samkvæmt dómnum hafa unglæknar átt aðild að samningaviðræðum LÍ og ríkisins og LÍ farið með samningsaðild fyrir félagsmenn FUL.

Athygli vekur að Félagsdómur kemst að þeirri niðurstöðu með vísan til laga um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 að félagsmaður í stéttarfélagi hætti "að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn". Í ljósi þessa séu unglæknar bundnir af samningi LÍ og ríkisins til 31. desember 2005.





Farið yfir stöðuna

Í samtali við Læknablaðið staðfesti Lára að vinnustöðvun unglækna hefði verið dæmd ólögmæt. Hins vegar væri dómurinn ekki alslæmur fyrir umbjóðendur hennar því tilvera Félags ungra lækna sem sjálfstæðs stéttarfélags væri viðurkennd.

Um næstu skref í málinu sagði Lára að nú þyrfti að fara ofan í saumana á ýmsum atriðum samningsins og ræða þau við ríkisvaldið. "Það þarf að fara yfir reglur um vinnutímann því svo virðist sem sum ákvæði samningsins standist ekki ákvæði laga um vinnutíma og gangi í berhögg við það sem gerist bæði í Evrópu og víðar. Það þarf að leggja mat á það hvort þessi ákvæði standist lög. Sé niðurstaðan sú að svo sé ekki er hægt að fylgja því eftir," sagði Lára.

Hún bætti því við að Félag ungra lækna gæti ekki haft nein áhrif á það að félagsmenn segðu störfum sínum lausum. Hins vegar megi búast við því að unglæknar hugsi sinn gang og bregðist við með einhverjum hætti telji þeir samninginn allsendis óviðunandi.

Haft hefur verið eftir forystumönnum unglækna í fjölmiðlum að ástandið á Landspítala væri orðið það slæmt að margir unglæknar vildu helst ekki vinna þar lengur. Þeir halda því fram að á Landspítalanum einum séu um 300 vaktir ómannaðar í sumar. Óttast þeir að unglæknar verði neyddir til þess að leggja á sig verulega yfirvinnu, meira en það sem tíðkast hefur og þykir þó flestum nóg. Nú blasir við félaginu að fara yfir stöðuna og ákveða hvernig brugðist verður við.

Stjórn LÍ náði um það samkomulagi við Magnús Pétursson forstjóra Landspítalans að efna til fundar um stöðu unglækna og átti að halda hann eftir að blaðið fór í prentun.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica