Umræða fréttir

Heimilislæknar álykta um vottorðamálið

Eins og flestum er kunnugt hefur staðið yfir deila milli heilsugæslulækna og heilbrigðisráðuneytisins vegna úrskurðar kjaranefndar um að vottorðagerð lækna skuli falla undir aðalstarf þeirra en ekki greiðast aukalega. Er svo komið að heilsugæslulæknar eru farnir að grípa til uppsagna vegna óánægju með kjör sín. Á félagsfundi sem haldinn var í Félagi íslenskra heimilislækna 16. apríl síðastliðinn var gerð eftirfarandi samþykkt:



Fundurinn harmar að sú staða er komin upp í starfsumhverfi heimilislækna á Íslandi að læknar telji sig knúna til uppsagna. Fundurinn lýsir skilningi á þeim aðgerðum og lýsir fullri ábyrgð á hendur Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og kjaranefndar vegna þeirra upplausnar sem skapast hefur meðal heilsugæslulækna og leitt hefur til þess að læknar eru að hverfa af þessum starfsvettvangi. Fundurinn telur að breyta verði starfsumhverfi heimilislækna tafarlaust þannig að leyfðir verði gjaldskrársamningar til samræmis við aðra sérfræðinga og þannig skapaður traustur grundvöllur fyrir þróun heimilislækninga á Íslandi.





Bakgrunnur

Undanfarnar vikur hefur komið fram í fjölmiðlum djúpstæður ágreiningur milli heilsugæslulækna annars vegar og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og kjaranefndar hins vegar vegna þess sem kallað hefur verið vottorðamál. Þar hefur komið fram óánægja heilsugæslulækna vegna vinnubragða ráðuneytisins sem og óánægja með úrskurð kjaranefndar frá 13. mars þar sem úrskurðað er að öll vinna við vottorðagerð falli undir aðalstarf heilsugæslulækna. Óskað hefur verið eftir við Heilbrigðisráðuneytið og kjaranefnd að úrskurður þessi verði endurskoðaður og dreginn til baka en án árangurs. Heilsugæslulæknar telja þennan úrskurð brjóta í bága við hefðbundin vinnubrögð lækna og að lagastoð sé ófullnægjandi og munu kæra úrskurð þennan til Héraðsdóms Reykjavíkur á næstu dögum. Stjórn Félags íslenskra heimilislækna hefur upplýst félagsmenn um þessar forsendur og einnig bent á að enginn úrskurður hefur borist um verðlagningu þessarar vinnu sem þó hefur verið viðurkennt að verði greitt fyrir.

Heimilislæknar hafa í mörg ár bent á vandamál varðandi heimilislækningar sem skapast hafa vegna óánægju með kjör og starfsmöguleika og hafa óskað eftir úrbótum. Framkoma Heilbrigðisráðuneytisins í ofangreindu vottorðamáli hefur reynst kornið sem fyllir mælinn og er stjórn FÍH nú kunnugt um 12 heilsugæslulækna sem hafa sagt starfi sínu lausu og nokkrir hafa þegar skipulagt launalaus leyfi. Vitað er af fleirum sem hugleiða að grípa til sambærilegra ráðstafana. Stjórn FÍH hefur kynnt heilbrigðisráðherra þau sjónarmið að verði ekki gripið tafarlaust til ráðstafana til að breyta starfsumhverfi heilsugæslulækna muni það leiða til frekari upplausnar á þessum starfsvettvangi. Lausn þessa máls felst í að endurskipuleggja starfsumhverfi heilsugæslunnar þannig að heimilislæknar fái sömu starfskjör og valkosti og aðrir sérfræðingar. Forsenda þessa er að mati stjórnar FÍH að sérfræðingar í heimilislækningum geti gert gjaldskrársamning um stofurekstur eins og aðrir sérfræðingar. Með því skapast forsendur fyrir ýmsum nýjum valmöguleikum fyrir störf heimilislækna sem mun tryggja að heimilislæknar starfi áfram í heilsugæslu og nýliðun mun batna.

Stjórn FÍH lýsir fullum skilningi á áhyggjum heilbrigðisyfirvalda við þessar breytingar en bendir á að starfsemi heilsugæslunnar á þegar undir högg að sækja, flótti er brostinn á í röðum lækna og nauðsynlegt er að tryggja þessa frumþjónustu. Að áliti stjórnar FÍH verður það aðeins gert með því að veita heimilislæknum sambærileg kjör og starfsréttindi og öðrum sérfræðingum og mun leiða til traustrar uppbyggingar þjónustu heimilislækna á Íslandi.



Sigríður Dóra Magnúsdóttir

varaformaður FÍH



Jón Steinar Jónsson

meðstjórnandi

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica