Fræðigreinar
  • Tafla 1
  • Mynd 1
  • Tafla II
  • Mynd 2
  • Mynd 3

Aukaverkanir og milliverkanir náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna

Ágrip

Tilgangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna fjölda aukaverkana og milliverkana sem rekja má til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna hér á landi. Markmiðið var jafnframt að kanna viðhorf lækna á Íslandi til þessara efna.

Aðferðir: Spurningalisti var sendur til allra lækna á landinu, alls 1083. Spurt var hvort viðkomandi læknir hafi orðið/hugsanlega orðið var við auka- eða milliverkanir sem rekja mætti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna hér á landi. Einnig var spurt um viðhorf til efnanna. Þar sem ekki finnast sérstök skráningarnúmer fyrir sjúkdómsgreiningar þar sem þátt eiga náttúrulyf, náttúruvörur eða fæðubótarefni í skráningarkerfum Landspítala-háskólasjúkrahúss, var leit gerð í tölvukerfum sjúkrahússins eftir skráningarnúmerum sem þóttu líkleg til að sýna innlagnir vegna neyslu náttúruefna. Jafnframt var fylgst daglega með bráðamóttökum sjúkrahússins í einn mánuð, fyrirspurnir vegna náttúruefna til Eitrunarmiðstöðvar voru skoðaðar og að lokum athugað hvort tilkynningar hefðu borist Lyfjastofnun eða Landlæknisembættinu.

Niðurstöður: Spurningalistanum svöruðu 410 læknar. Þar af höfðu 134 orðið varir/hugsanlega orðið varir við fyrrgreindar aukaverkanir og 25 við milliverkanir. Upplýsingar komu fram um 253 aukaverkanir og 13 milliverkanir. Innlögn á sjúkrahús var talin afleiðing 38 tilvika og í 14 tilvikum var talið að aukaverkun hafi stofnað lífi sjúklings í hættu. Af þeim læknum sem svöruðu listanum sögðust 17% alltaf/oft spyrja sjúklinga sína hvort þeir neyti náttúrurefna, 62% stundum/sjaldan og 19% aldrei. Um 55% læknanna sögðu þó að þeim fyndist skipta mjög miklu/ miklu máli að sjúklingar nefni neyslu sína á áðurnefndum efnum.

Ályktanir: Auka- og milliverkanir vegna náttúruefna virðast vera vanskráðar hérlendis. Nauðsynlegt er að auka fræðslu um aukaverkanir og milliverkanir náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna og hvetja til virkrar skráningar og tilkynningar auka- og milliverkana sem hljótast af neyslu þessara efna.





English Summary

Þórhallsdóttir Ó, Ingólfsdóttir K, Jóhannsson M

Herbal medicine - Adverse effects and drug-interactions



Læknablaðið 2002; 88: 289-97



Objective: The aim of the study was to estimate the frequency of adverse effects and drug-interactions attributable to the use of herbal medicine and dietary supplements in Iceland. A further objective was to assess the perception and attitudes of Icelandic physicians towards these products.

Material and methods: A questionnaire was sent to all physicians registered in Iceland, a total of 1083. Physicians were questioned as to whether they had become aware of adverse effects or drug interactions that could be related to the use of herbal medicines or dietary supplements. Several questions concerned education and attitudes towards these products. A search was made using the computer system of the University Hospital in order to find cases of hospitalization resulting from consumption of herbal medicine. Details on admissions to the Emergency Department of the hospital were studied daily for one month. Enquiries made to the Icelandic Poison Center from 1997-2000 and formal reports submitted to the Icelandic Medicines Control Agency and the Surgeon General were examined.

Results: Of the 410 physicians that responded, 134 had become aware of adverse effects and 25 had become aware of herbal/drug interactions. Details on 253 adverse effects and 13 interactions were presented. Hospitalization was estimated to have been the consequence of 38 cases, 14 of which had been considered life-threatening. Of those who responded, 17% reported asking their patients always/frequently if they used herbal medicines or dietary supplements, whilst 62% reported asking occasionally/ seldom and 19% never asking. Approximately 55% of the respondents regard it as being very important/important that patients consult a physician before using herbal products or dietary supplements.

Conclusions: Adverse effects and interactions between herbal medicines/dietary supplements and prescribed drugs appear to be under-reported in Iceland. It is important to increase awareness and education in this field amongst physicians and other health-care professionals in Iceland.



Key words: adverse effects, herbal/drug interactions, herbal medicine, dietary supplements.



Correspondance: Ólöf Þórhallsdóttir, olof@omega.is





Inngangur

Notkun náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna til sjálfslækninga, forvarna gegn sjúkdómum og til að bæta útlit nýtur aukinna vinsælda hérlendis. Með aukinni neyslu þessara efna er talið að tilfellum fjölgi þar sem rekja megi aukaverkanir og milliverkanir við lyfseðilsskyld lyf til þeirra. Skipta má náttúruefnum í tvo flokka: Náttúrulyf annars vegar en náttúruvörur og fæðubótarefni hins vegar. Sérstök reglugerð gildir hér á landi um markaðsleyfi náttúrulyfja (1), en skilin á milli náttúruvara og fæðubótarefna eru oft óljós. Náttúrulyf þurfa að standast jafn strangar kröfur um hráefnis-, framleiðslu- og gæðaeftirlit og lyfseðilsskyld lyf. Jafnframt liggur fyrir samantekt á eiginleikum þeirra (Special Product Characteristics, SPC) með sama hætti og þegar markaðssett lyf eiga í hlut (1). Hvað varðar hins vegar náttúruvörur og fæðubótarefni þurfa framleiðendur ekki að staðfesta öryggi og áhrif áður en þau eru markaðssett.

Almenningur telur oft að lækningajurtir valdi ekki aukaverkunum en slík viðhorf geta haft alvarlegar afleiðingar (2). Þótt löng hefð fyrir notkun náttúruefna geti gefið talsverða reynslu um ákjósanleg og óákjósanleg áhrif þeirra, einkum þegar til skamms tíma er litið, getur reynst erfiðara að greina viðbrögð sem koma sjaldan fyrir, þróast stigvaxandi eða koma eftir langt dulið tímabil (3). Talið er að fleiri vísindalegar rannsóknir skorti til að meta áhrif og öryggi við notkun náttúruefna til lækninga (4) og niðurstöður þeirra fáu rannsókna sem birtar hafi verið gefi ekki vísbendingu um raunverulega tíðni aukaverkana (5). Margir hafa ályktað að nauðsynlegt sé fyrir heilbrigðisstarfsmenn að þekkja aukaverkanir af völdum náttúruefna (4, 6-10) en jafnframt bent á að erfitt geti reynst að nálgast áreiðanlegar og óháðar upplýsingar (10).

Milliverkanir við lyf sem tengdar eru náttúruefnum eru að stórum hluta taldar óþekktar (11). Nýlegar kannanir sýna að um þriðjungur Bandaríkjamanna noti náttúruefni til sjálfslækninga (4, 12) og 18% noti þau samhliða lyfseðilsskyldum lyfjum en aðeins 40% þeirra greini læknum sínum frá notkuninni (8). Fáar tilkynningar um milliverkun milli óhefðbundinna efna/vörutegunda og hefðbundinna vestrænna lyfja staðfesta því hvorki öryggi þeirra í notkun né að tíðni slíkra milliverkana sé lág (13). Auk þess að valda beinum vandkvæðum getur náttúruefni seinkað eða breytt áhrifum hefðbundinnar meðferðar (3). Þetta er sérstaklega alvarlegt þegar lyf með litla læknisfræðilega breidd eiga í hlut (12).





Efniviður og aðferðir

Spurningalisti

Allir sem höfðu lækningaleyfi um síðustu áramót fengu spurningalista með pósti í janúar 2001 eftir að tilskilin leyfi fengust frá Tölvunefnd. Öllum læknum var sendur listinn, óháð starfsgrein og aldri. Spurningalistinn skiptist í tvo hluta: Annars vegar var spurt hvort viðkomandi læknir hafi í sínu starfi orðið var við auka- eða milliverkanir sem rekja mætti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna hér á landi. Ef aukaverkun hafði greinst, var beðið um nánari upplýsingar um hvaða efni hefði líklega valdið henni, einkenni og alvarleika aukaverkunarinnar. Ef milliverkun hafði greinst, var einnig óskað upplýsinga um viðkomandi lyfseðilsskylt lyf. Hins vegar fjallaði stór hluti spurningalistans um viðhorf lækna til náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna. Spurningalistinn fylgir með sem viðauki við þessa grein. Ítrekunarbréf voru send með tölvupósti, almennum pósti eða myndsendi til þeirra sem svöruðu ekki spurningalistanum. Allir sem ekki höfðu svarað við lok rannsóknarinnar höfðu þannig fengið 2-3 ítrekanir, þar af að minnsta kosti eina í almennum pósti. Nöfn þátttakenda koma hvergi fram við úrvinnslu könnunarinnar.

Upplýsingar úr spurningalistunum voru skráðar í tölfræðiforritið Statistical Package for the Social Sciences (SPSS) sem notað var við úrvinnslu á niðurstöðum. Samanburður milli starfsgreina og aldurshópa var gerður með kí-kvaðratsprófum og marktekt var miðuð við P < 0,05.



Ástæður innlagna á Landspítala-háskólasjúkrahús

Markmið leitarinnar var að kanna fjölda innlagna á Landspítala-háskólasjúkrahús (LSH) sem rekja mætti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna. Leitað var í tölvukerfum LSH eftir Alþjóðlegri tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, það er ICD-10 og ICD-9 (14). Leitin náði aftur til ársins 1984 á LSH við Hringbraut og 1983 á LSH í Fossvogi. Ekki eru til sérstök skráningarnúmer fyrir sjúkdómsgreiningar þar sem þátt eiga náttúrulyf, náttúruvörur eða fæðubótarefni og því var leitað eftir ákveðnum skráningarnúmerum fyrir eitranir. Áður en rannsókn hófst var sótt um leyfi hjá Siðanefnd LSH og Persónuvernd. Einnig var sótt um aðgang hjá tölvudeild LSH að Lotus Notes tölvukerfinu og sjúkraskýrslukerfi þess í Fossvogi.

Eftir að leit í tölvukerfunum lauk kom í ljós að mikill fjöldi innlagna var skráður undir þeim skráningarnúmerum sem leitað var eftir og aðgangur að sjúkraskýrslum fékkst ekki fyrr en við lok rannsóknartímabilsins. Upplýsingaöflun var því takmörkuð við ákveðna skráningarflokka sem þóttu líklegastir til að hafa að geyma innlagnir af völdum náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna. Þetta voru allir undirflokkar T62 og T78 auk flokkanna T65.8 og T65.9. Sjúkraskýrslur voru eingöngu skoðaðar fyrir árið 2000.



Ástæða komu á bráðamóttökur LSH

Fylgst var með bráðamóttökum LSH í Fossvogi og við Hringbraut daglega í einn mánuð, frá 15. febrúar til 15. mars 2001. Leyfi var veitt frá Siðanefnd LSH og Persónuvernd. Markmiðið var að skoða ástæður komu á bráðamóttöku og athuga hvort um væri að ræða auka- eða milliverkanir af völdum náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Framkvæmd rannsóknarinnar tók mið af bráðamóttöku á hvorum stað fyrir sig sem og óskum starfsfólks. Annan hvern dag var farið á LSH í Fossvogi og hina dagana á LSH við Hringbraut. Í Fossvogi var morgunfundur lyflækna setinn með þeim læknum sem höfðu verið á vakt. Læknar á lyflækningadeild fengu dreifiblað með upplýsingum um rannsóknina. Við Hringbraut var rætt við lækna eða hjúkrunarfræðinga sem sátu morgunfund og/eða höfðu verið á vakt. Þar var dreifibréf hengt upp á áberandi stað fyrir starfsfólk bráðamóttökunnar til kynningar á rannsókninni.



Fyrirspurnir til Eitrunarmiðstöðvar

Farið var yfir fyrirspurnir vegna eitrana hjá Eitrunarmiðstöð á árunum 1997-2000 og þær skoðaðar sem vörðuðu náttúrulyf, náttúruvörur og fæðubótarefni.



Tilkynningar til Landlæknis og Lyfjastofnunar

Lyfjastofnun og Landlæknisembættið annast skráningu aukaverkana og milliverkana hérlendis. Athugað var hvort einhverjar tilkynningar hefðu borist til þessara stofnana vegna náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna.





Niðurstöður

Spurningalisti - tilvik auka- og milliverkana

Spurningalistanum svöruðu 410 af 1083 (38%), þar af 327 karlar og 75 konur en átta gáfu ekki upp kyn. Alls svöruðu 82 heimilislæknar, 79 lyflæknar, 58 skurðlæknar og 30 geðlæknar en 159 kváðust starfa við aðrar sérgreinar. Um 19% svarenda voru 40 ára eða yngri, 58% 41-55 ára, 17% 56-70 ára, 5% 71 árs eða eldri en 1% gaf ekki upp aldur. Þeir læknar sem sögðust hafa orðið varir við aukaverkun sem rekja mátti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna voru 91 en þeir sem merktu við að hafa hugsanlega orðið varir við slíkt voru 43. Læknarnir greindu alls frá 270 aukaverkunum vegna um 60 mismunandi efna. Í 253 tilvikum var bæði greint frá efnum og einkennum aukaverkana.

Á mynd 1 má sjá hvaða náttúruefni eru oftast talin hafa valdið aukaverkun (tvisvar eða oftar) hér á landi ásamt fjölda tilvika. Vöruflokkurinn frá Herbalife® er oftast talinn hafa valdið aukaverkun en þar á eftir koma ginseng, blómafrjókorn, Ripped Fuel®` og sólhattur. Skipting milli starfsgreina var þannig að 56% heimilislækna sem svöruðu höfðu orðið varir/hugsanlega orðið varir við aukaverkanir, 49% lyflækna, 42% geðlækna, 20% skurðlækna en 19% annarra starfsgreina. Um 36% þeirra sem voru 40 ára eða yngri sögðust hafa orðið/hugsanlega hafa orðið varir við aukaverkun, 37% í flokki 41-55 ára, 30% 56-70 ára og 18% 71 árs og eldri. Alvarleiki auka- og milliverkana var metinn samkvæmt kvarða sem svarendur gátu merkt við og sjá má í töflu I. Í töflu II eru tekin dæmi um nokkur náttúruefni og alvarlegustu aukaverkanirnar sem þau eru talin hafa valdið. Algengast var að aukaverkanirnar hefðu nokkur (B skv. kvarða) eða veruleg (C) áhrif á sjúklinga (68% tilvika). Innlögn á sjúkrahús (D) var talin afleiðing 38 tilvika (15%) og aukaverkun var talin hafa stofnað lífi sjúklings í hættu (E) í 14 tilvikum (5%). Alvarlegustu aukaverkanirnar greindu lyflæknar í 50% tilvika, heimilislæknar í 21% tilvika en aðrir sjaldnar.

Þeir læknar sem sögðust hafa í starfi sínu orðið varir við milliverkun sem rekja mátti til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna voru þrír en þeir sem hugsanlega höfðu orðið varir við slíkt voru 22. Margir greindu ekki nánar frá þeim og er fjöldi milliverkana þar sem upplýsingar um efni, lyf og milliverkun komu fram alls 13. Herbalife® var oftast talið hafa valdið milliverkun við lyf (6 tilvik) en þar á eftir koma Jóhannesarjurt, birkiaska, kreatín, ginkgó og Q-10. Það lyf sem oftast er talið hafa komið við sögu í milliverkun er warfarín (7 tilvik). Milliverkanirnar höfðu ýmist lítil (A), nokkur (B) eða veruleg (C) áhrif á sjúklinga og urðu lyflæknar oftast varir við þær.



Spurningalisti - viðhorfskönnun

Um 47% lækna sem svöruðu sögðu að sjúklingar nefni sjaldan að fyrra bragði hvort þeir neyti náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Um 30% svarenda sögðu að sjúklingar nefni það stundum, 13% oft en 7% aldrei. Spurt var hversu oft eða sjaldan læknar spyrji sjúklinga sína hvort þeir neyti náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Um 31% lyflækna spyrja þessarar spurningar alltaf/oft, 28% geðlækna, 17% heimilislækna, 11% annarra og 5% skurðlækna (mynd 2). Marktæk fylgni (P=0,0015) var milli aldurs læknanna og hvort þeir spyrja sjúklinga áðurnefndrar spurningar þannig að yngri læknar virðast líklegri til þess.

Þegar spurt var um hversu miklu eða litlu máli læknum finnst það skipta að sjúklingar nefni neyslu sína á náttúrulyfjum, náttúruvörum og fæðubótarefnum í viðtölum hjá þeim svöruðu 55% af heild að það skipti miklu/mjög miklu máli. Hlutlausir voru 24% en 20% finnst það skipta litlu/mjög litlu máli. Um 79% geðlækna finnst það skipta miklu/mjög miklu máli, 65% lyflækna, 59% heimilislækna en 27% skurðlækna voru sama sinnis. Marktæk fylgni (P<0,0001) var milli aldurshópa þannig að yngri læknum virðist finnast það skipta meira máli en þeim eldri að sjúklingar nefni þessa neyslu.

Um 40% læknanna í heild finnst það skipta miklu/ mjög miklu máli að sjúklingar hafi samráð við lækni áður en þeir neyta náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Hlutlausir voru 32% en 27% finnst það skipta litlu/mjög litlu máli. Meirihluti geðlækna (58%) og lyflækna (50%) finnst það skipta miklu/ mjög miklu máli, nokkur hluti heimilislækna (37%) er sama sinnis en fáir skurðlæknar (16%).

Spurt var hvaðan mestur hluti þekkingar viðkomandi læknis um náttúrulyf, náttúruvörur og fæðubótarefni væri kominn (mynd 3). Boðið var upp á að merkja við einn eða fleiri af sex svarmöguleikum en einnig að skrifa aðra möguleika. Flestir fá þekkinguna úr auglýsingum (253 læknar), næst koma fagtímarit (144). Ekki var mikill munur hvað varðar starfsgreinar og aldur. Það sker sig þó úr að hjá 44% þeirra sem eru 40 ára og yngri kemur þekkingin úr námi, hjá 17% 41-55 ára, hjá 6% 56-70 ára og hjá 16% þeirra sem eru 71 árs eða eldri.

Alls vilja 75% svarenda fræðast meira um náttúrulyf en 68% um náttúruvörur og fæðubótarefni. Á milli starfsgreina er ekki munur fyrir utan að skurðlæknar vilja í um 57% tilvika aukna fræðslu á móti því að hinar starfsgreinarnar vilja að meðaltali í 85% tilvika aukna fræðslu um náttúrulyf og í 76% tilvika um náttúruvörur og fæðubótarefni. Marktæk fylgni var milli aldurshópa þannig að yngri læknar eru líklegri til að vilja aukna fræðslu um náttúrulyf (P=0,0059) og náttúruvörur/fæðubótarefni (P=0,0068).

Þegar spurt var hverjir ættu að annast fræðslu til lækna um náttúrulyf, náttúruvörur og fæðubótarefni töldu 73% að lyfjafræðingar ættu að sjá um fræðsluna og 68% að læknar ættu að sjá um hana.



Ástæður innlagna/komu á bráðamóttökur

Sú leit sem áætluð var í upphafi hafði að geyma 1738 innlagnir en eftir að leitin hafði verið takmörkuð við ákveðin skráningarnúmer voru eftir 289 innlagnir. Skoðaðar voru 90 sjúkraskrár með innlögnum á árinu 2000, 62 við LSH Hringbraut og 28 í Fossvogi. Við Hringbraut var ein innlögn rakin til neyslu fæðubótarefnis og lýsti aukaverkunin sér með útbrotum, bólgu í andliti og öndunarerfiðleikum. Sjúkdómsgreining samkvæmt ICD-10 var T78.4. Eftir daglega athugun á bráðamóttökum LSH á tímabilinu frá 15. febrúar til 15. mars 2001 var ekki unnt að rekja neinar komur þangað til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna.



Fyrirspurnir til Eitrunarmiðstöðvar 1997-2000

Á árunum 1997-2000 voru 26 fyrirspurnir til Eitrunarmiðstöðvar vegna náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna. Flestar voru frá árinu 2000 og vegna aldurshópsins 2-6 ára. Þremur einstaklingum var vísað á sjúkrahús en ekki skráð nánar um afdrif þeirra.



Tilkynningar til Landlæknis og Lyfjastofnunar

Þegar rannsóknin var framkvæmd höfðu engar formlegar tilkynningar borist Lyfjastofnun eða Landlækni um auka- eða milliverkun sem rekja má til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna.





Umræða

Um 33% svarenda höfðu orðið varir við/hugsanlega orðið varir við aukaverkun hjá sjúklingi sem rekja má til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Fjöldi og alvarleiki aukaverkananna var mun meiri en búist var við en álíka rannsókn hefur ekki verið gerð hérlendis áður og ekki fundust heimildir um sambærilega rannsókn erlendis. Greint var frá 18 tilvikum þar sem notkun Herbalife® leiddi til/hugsanlega leiddi til innlagnar á sjúkrahús en þar af voru 11 tilfelli lifrarbólgu. Ekki er hægt að útiloka að fleiri en einn læknir nefni sama tilfellið af umræddri lifrarbólgu. Alvarlegustu aukaverkananna var þó yfirleitt einungis getið af einum lækni. Þegar greint var frá aukaverkunum á hjarta- og æðakerfið getur verið um að ræða Herbalife® með efedríni en sala slíkra vara er ekki leyfð í Evrópu. Þótt óheimilt sé að selja fæðubótarefnið Ripped Fuel®` með efedríni hérlendis sögðust svarendur hafa orðið varir við aukaverkanir af völdum þess í 13 tilvikum.

Warfarín virðist oftast hafa verið greint sem milliverkandi lyf sem skýrist líklega af því að meðferðarlegt skammtasvið þess er þröngt og náið er fylgst með meðferð sjúklinganna. Sem dæmi um aðra milliverkun var greint frá því að birkiaska hefði hugsanlega milliverkað við Contalgin®` og kom læknirinn með þá tilgátu að um lyfjakolaáhrif væri að ræða þar sem birkiaskan aðsogaði lyfið og minnkaði þannig aðgengi þess.

Þótt flestir (62%) spyrji sjaldan eða stundum hvort sjúklingar neyti þessara efna og 19% spyrja aldrei finnst meirihluta læknanna (55%) að það skipti miklu eða mjög miklu máli að sjúklingar nefni neyslu sína á efnunum. Nokkrir erlendir rannsakendur hafa ályktað að þegar læknar skrái sögu sjúklinga eigi þeir að spyrja um notkun náttúruefna (4,8,9). Í könnuninni kom fram að 40% læknanna finnst það skipta miklu eða mjög miklu máli að sjúklingar hafi samráð við lækni áður en þeir neyta áðurnefndra efna en 27% finnst það skipta litlu eða mjög litlu máli. Nokkrir læknar tóku fram að það færi allt eftir veikindum sjúklings og annarri lyfjameðferð. Í kanadískri könnun meðal lækna og læknanema sögðu 98% læknanna að sjúklingar ræddu óhefðbundnar lækningar við sig og 56% læknanna sögðust spyrja sjúklinga um óhefðbundnar meðferðir (15).

Athyglisvert er að flestir svarendur sögðust hafa þekkingu sína á náttúruefnum að mestu úr auglýsingum. Meirihluti lækna vill fræðast meira um náttúruefni sem er í samræmi við erlendar rannsóknir þar sem læknar og læknanemar telja æskilegt að menntun um náttúruefni fari fram í læknanámi (15). Í núverandi könnun skera skurðlæknar sig úr þannig að þeir vilja síður fræðslu en aðrar starfsgreinar. Þetta er umhugsunarefni því nokkrar auka- og milliverkanir sem greint var frá vörðuðu aðgerðir og samfylgjandi lyfjagjöf. Erlend rannsókn sem gerð var hjá sjúklingum á leið í aðgerð sýndi að 22% þeirra notuðu náttúruefni og ályktað var að teymi á svæfingadeild ætti að spyrja sjúklinga um notkun óhefðbundinna lækninga fyrir aðgerð og þekkja mögulegar aukaverkanir (6).

Í nokkuð mörgum tilvikum var munur á svörum eftir aldri. Þeir sem yngri eru virðast líklegri til þess að spyrja sjúklinga sína hvort þeir neyti efnanna og finnst það skipta meira máli en þeim sem eldri eru að sjúklingar nefni slíka neyslu. Yngri læknar virðast að auki líklegri til að vilja meiri fræðslu um áðurnefnd efni. Niðurstöðurnar eru í samræmi við kannanir í Bandaríkjunum sem sýna að áhugi lækna á óhefðbundnum lækningum virðist meiri hjá nýútskrifuðum læknum en þeim sem eldri eru (15).

Svarhlutfall spurningalistans, 38%, getur valdið því að skakki verði í átt til þeirra sem eru meðvitaðri um áhrif náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna. Svörun kynjanna var svipað kynjahlutfalli læknastéttarinnar.

Við upphaf rannsóknarinnar var áætlað að skoða sjúkraskýrslur á LSH fyrir allar innlagnir frá 1983-2000 eftir ákveðnum skráningarnúmerum ICD-9 og ICD-10. Vegna mikils fjölda innlagna og tafa var ekki mögulegt að gera slíka leit en tekið fyrir eitt ár til að fá hugmynd um áreiðanleika skráningarkerfisins vegna innlagna af þessu tagi.

Í svörun spurningalistans kemur fram að 52 aukaverkanir eru taldar hafa leitt til innlagnar á sjúkrahús eða stofnað lífi sjúklings í hættu. Þessar aukaverkanir ætti að vera unnt að finna í skýrslum sjúkrahúsa hérlendis. Eftir þá athugun sem framkvæmd var, fyrir árið 2000, er ekki unnt að álykta um tíðni innlagna á LSH vegna náttúruefna. Athugunin gefur þó mynd af því skráningarkerfi sem notað er. Skráningarkerfið, Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD), hentar afar illa fyrir auka- og milliverkanir af völdum náttúruefna því í kerfinu eru engin skráningarnúmer tiltekin sérstaklega fyrir þessar innlagnir. Ákveðið var að leita eftir eitrunarflokkum en tilvikin geta einnig verið skráð undir sjúkdómsgreiningarflokkum. Þetta skapar vandræði bæði þeim sem ætla að skrá viðkomandi tilvik og þeim sem vilja leita að viðkomandi tilvikum. Í sumum tilfellum er hægt að finna viðkomandi náttúruefni í atriðaskrá skráningarbókarinnar en þó er fjöldi náttúruefna þar ekki nærri tæmandi. Engin skráningarnúmer virðast vera til staðar fyrir milliverkanir.

Engar formlegar tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun eða Landlækni um auka- eða milliverkanir af völdum náttúrulyfja, náttúruvara eða fæðubótarefna. Það er athyglisvert í ljósi þess að í svörun spurningalistans voru gefnar upplýsingar um 253 aukaverkanir vegna ákveðinna efna og 13 milliverkanir við lyf.

Svörun spurningalistans gefur til kynna að auka- og milliverkanir séu vanskráðar hérlendis en ekki er þó hægt að meta líkindi þess að auka- eða milliverkanirnar hafi átt sér stað því ekki er vitað á hvaða hátt læknarnir greindu þær. Greint var frá fáum aukaverkunum sem höfðu lítil áhrif á sjúklinga og líklega leita sjúklingar ekki til lækna í þeim tilfellum. Oft er erfitt að greina milliverkanir sem skýrist ef til vill að hluta til af því að sjúklingar virðast sjaldan greina læknum sínum frá notkun náttúruefna og læknarnir virðast sjaldan spyrja um áðurnefnda notkun. Ályktað hefur verið að læknar þurfi að hafa varann á hvað varðar auka- og milliverkanir náttúruefna (7) og mikilvægt sé fyrir lækna að vita af þekktum milliverkunum náttúruefna við lyf (4).

Til að bæta skráningu auka- og milliverkana þyrfti að minnsta kosti fernt að koma til:

1) Auka þarf fræðslu til lækna og annars starfsfólks heilbrigðisþjónustu um verkun og mögulegar auka- og milliverkanir af völdum náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna.

2) Tilkynna verður Lyfjastofnun um þær auka- og milliverkanir sem vart verður við. Eyðublaðið "Tilkynning um aukaverkun" er fáanlegt gegnum netsíðuna www.lyfjastofnun.is.

3) Bæta þarf skráningarkerfi vegna innlagna á LSH, og sennilega fleiri sjúkrastofnunum því kerfið hentar ekki fyrir innlagnir af þessu tagi.

4) Auka þarf óháða fræðslu til almennings um verkun náttúruefna.



Með þessu móti væri almenningur betur upplýstur um hugsanleg áhrif náttúruefnanna og líklegri til að segja læknum sínum frá notkuninni. Eftir aukna fræðslu myndu læknar væntanlega spyrja sjúklinga sína oftar um notkun náttúruefna. Í kjölfarið gætu skráningar orðið skilvirkari, en við það yrði til betri gagnabanki um auka- og milliverkanir náttúruefna. Slíkar upplýsingar þjóna allri heilbrigðisþjónustu sem og almannaheill.





Ályktanir

Auka- og milliverkanir sem raktar hafa verið til neyslu náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna eru vanskráðar hérlendis. Skráningarkerfi Landspítala hentar ekki fyrir innlagnir af þessu tagi og læknar hafa ekki tilkynnt formlega þau tilvik sem þeir hafa orðið varir við. Auka þarf fræðslu um virkni, aukaverkanir og milliverkanir náttúrulyfja, náttúruvara og fæðubótarefna.





Þakkir

Tengiliðir við Landspítala, Guðmundur Þorgeirsson yfirlæknir við Hringbraut og Jón Baldursson yfirlæknir í Fossvogi, fá bestu þakkir. Einnig Curtis Snook, Guðmundur Oddsson, Gyða Baldursdóttir og Sigurður Guðmundsson landlæknir. Þakkir fyrir viðtöl fá Guðborg A. Guðjónsdóttir, Ingibjörg Halldórsdóttir, Jón Magnússon, Pétur S. Gunnarsson, Steinar B. Aðalbjörnsson og Svava Liv Edgarsdóttir. Steini Kára Steinssyni er þökkuð tölfræðileg aðstoð og Baldri Þórhallssyni aðstaða og góð ráð. Eftirtöldum fyrirtækjum er þakkaður veittur stuðningur: Omega Farma ehf, Delta hf, Thorarensen lyf og Heilsuverslun Íslands.





Heimildir

1. Reglugerð, nr. 684/1997, um markaðsleyfi náttúrulyfja. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Reykjavík 1997.

2. Ernst E, Rand JI, Stevinson C. Complementary therapies for depression: an overview. Arch Gen Psychiatry 1998; 55: 1026-32.

3. De Smet PA. Adverse effects of herbal remedies. Adverse Drug Reaction Bull 1997; 183: 695-8.

4. Miller LG. Herbal medicinals. Arch Int Med 1998; 158: 2200-11.

5. Stickel F, Egerer G, Seitz HK. Hepatotoxicity of botanicals. Public Health Nutr 2000; 3: 113-24.

6. Tsen LC, Segal S, Pothier M, Bader AM. Alternative medicine use in presurgical patients. Anesthesiology 2000; 93: 148-51.

7. Cupp MJ. Herbal remedies: adverse effects and drug interactions. Am Fam Physician 1999; 59: 1239-45.

8. Smolinske SC. Dietary supplement-drug interactions. J Am Med Womens Assoc. 1999; 54: 191-2, 195.

9. Borins M. The dangers of using herbs. What your patients need to know. Postgrad Med 1998; 104: 91-95, 99-100.

10. Shaw D, Leon C, Kolev S, Murray V. Traditional remedies and food supplements. A 5-year toxicological study (1991-1995). Drug Saf 1997; 17(5): 342-56.

11. De Smet PA. An introduction to herbal pharmacoepidemiology. J Ethnopharmacol 1993; 38: 197-208.

12. Heck AM, DeWitt BA, Lukes Al. Potential interactions between alternative therapies and warfarin. Am J Health Syst Pharm 2000; 57(13): 1221-7.

13. Blumenthal M. Interactions between herbs and conventional drugs: Introductory considerations. Herbal Gram 2000; 49: 52-63.

14. Alþjóðleg tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, 10. útg. (ICD-10). Ritstjóri Magnús Snædal. Orðabókasjóður læknafélaganna, Reykjavík 1996.

15. Einarson A, Lawrimore T, Brand P, Gallo M, Rotatone C, Koren G. Attitudes and practices of physicians and naturopaths toward herbal products, including use during pregnancy and lactation. Can J Clin Pharmacol 2000; 7 (1): 45-9.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica