Umræða fréttir
  • Einar Oddsson

Líflegar umræður um siðfræði lífvísinda. Einar Oddsson formaður stjórnar Siðfræðiráðs LÍ sótti heimsráðstefnu á Spáni

Nú á haustdögum sótti Einar Oddsson læknir og formaður stjórnar Siðfræðiráðs Læknafélags Íslands alþjóðlega ráðstefnu um siðfræði í lífvísindum sem haldin var í borginni Gíjon í Astúrías-héraði á Norður-Spáni. Í nálægri borg, Oviedo, var hinn 4. apríl 1997 undirritaður sáttmálinn um mannréttindi og lífsiðfræði sem gildir nú í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Til umræðu voru ýmis siðferðileg álitamál sem brenna á læknum jafnt sem öðrum stéttum sem fást við lífvísindi. Voru samþykktar þrjár ályktanir um alnæmi, mannlega virðingu og matvælaástandið í heiminum.

Ráðstefnan var skipulögð af Societé International de Bioethica, skammstafað SIBI, sem eru virt samtök á sviði lífvísinda en þetta er annað heimsþingið sem þau standa fyrir. Samtökin hafa einnig haldið ráðstefnur þar sem ræddar hafa verið samþykktir á sviði siðfræði lífvísinda sem Evrópuráðið og Unesco hefur tekið mið af við útgáfu á siðareglum en þessar tvær stofnanir eru þær sem helst veita leiðsögn á því sviði í heiminum. Helsti forystumaður samtakanna er spænskur læknir, Marcello Palacios að nafni, en hann býr í Gíjon. Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sendi ráðstefnunni kveðju sína svo það er fylgst með starfi þessara samtaka á þeim vettvangi.

"Ráðstefnan fjallaði um siðfræði lífvísinda sem er víðara hugtak en siðfræði læknavísinda. Hún stóð í fjóra daga og þar var fjallað um alnæmi og eyðni-sýkingar, siðfræði erfðafræði og einræktunar og um matvælaástandið en sú umræða snerist annars vegar um matvælaþörfina í heiminum og hins vegar um erfðabreytt matvæli. Þetta var því ansi vítt svið og á köflum varð umræðan mjög pólitísk."





Ábyrgð Vesturlanda

Einar segir að umræðan hafi kannski ekki höfðað sérstaklega til Íslendinga heldur hafi hún spannað allan heiminn.

"Hún snerist heldur ekki eingöngu um lækna og þeirra starf. Ef ég vitna til ályktunarinnar um alnæmi þá er þar lögð áhersla á að menn reyni að forðast fordóma og að helst öllum standi til boða sú meðferð sem til er. Þar er meðal annars hvatt til þess að fátækari ríkjum sé gert kleift að veita þegnum sínum sem smitaðir eru viðeigandi lyfjameðferð með því að bjóða þeim lyf á viðráðanlegu verði. Einnig er varað við misnotkun á fólki í tilraunum með lyf gegn eyðni-veirunni eins og átt hefur sér stað. Þá er varað við þeim hugsunarhætti að fólk sem smitast hefur hafi kallað veikina yfir sig en hann er töluvert útbreiddur um heiminn.

Yfirlýsingin um mannlega reisn er almennt orðuð og hnykkir í raun fyrst og fremst á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og þeim yfirlýsingum sem á henni eru byggðar. Þar er varað við afleiðingum þess að milljónir manna þjáist af hungri, sjúkdómum og skorti á drykkjarvatni og húsnæði en á öllum þessum vanda séu til auðveldar lausnir ef vilji er fyrir hendi. Þá er ítrekað að ofbeldi, hvers eðlis sem það er, sé í andstöðu við skynsamlega breytni og grafi undan menningu og mannlegri reisn. Það vakti líka athygli mína að í ályktuninni er lögð á það áhersla að rétturinn til þess að njóta gæða náttúrunnar sé hluti af almennum mannréttindum.

Í ályktuninni um matvælaástandið er vakin athygli á því að á þriðja tug milljóna jarðarbúa eigi ekki kost á nægri næringu á sama tíma og nógur matur er til í heiminum. Matvælin berast einfaldlega ekki þeim sem þarfnast þeirra. Þar er gagnrýndur sá hægagangur sem hefur verið á því að fækka þeim sem vannærðir eru og í því sambandi bent á ábyrgð fjölþjóðafyrirtækja og vestrænna allsnægtarþjóðfélaga á meðbræðrum sínum í þriðja heiminum."





Hungur og erfðabreytt matvæli

"Einnig er í síðastnefndu ályktuninni fjallað um erfðabreytt matvæli og hvatt til þess að menn reyni að forðast slys í þeirri þróun en stefnt skuli að því að ýta undir kostina sem hún geti haft í för með sér og dregið úr vanköntunum svo sem unnt er. Á ráðstefnunni kom fram að skoðanir á erfðabreyttum matvælum eru mjög skiptar í heiminum. Það stafar ekki síst af því hversu erfitt er að rannsaka langtímaáhrif erfðabreytinganna. Flestar þær rannsóknir sem gerðar eru hafa verið kostaðar af framleiðendum erfðabreyttra matvæla og því er ekki hægt að segja að þær séu með öllu marktækar. Margir íbúar þriðja heimsins binda miklar vonir við erfðabreytt matvæli og á þinginu voru fulltrúar frá Kúbu mjög ánægðir með þær tilraunir sem þar hafa verið gerðar með notkun slíkra aðferða við ræktun og framleiðslu.

Á móti hafa margir bent á að við vitum ekki hver áhrifin á flóruna verða til lengri tíma, ekki síst í ljósi þess að nytjategundum fer stöðugt fækkandi. Hins vegar er erfitt að sjá hvernig þessi breyttu gen stökkvi yfir í mannfólkið þótt það neyti jurta sem innihalda þau.

Loks má nefna að rætt var um þá mótsögn sem er fólgin í því að í sumum heimshlutum er fólk að deyja úr hungri á sama tíma og fólk veikist og deyr úr ofáti á Vesturlöndum. Hins vegar er það staðreynd að fæðuskortur og alnæmi hrjáir sömu lönd og þar er vandinn svo mikill að hann yfirskyggir allt annað. Þetta er náttúrulega hápólitísk umræða sem snertir efnahagslega afkomu þessara ríkja," sagði Einar Oddsson og bætti því við að íslenskir læknar ættu fullt erindi í þá umræðu sem fram fer á ráðstefnum sem þessum.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica