Umræða fréttir

Íðorð 149. Ný tegund rannsókna

Lísbet Grímsdóttir, meinatæknir, sendi nýlega fyrirspurn í tölvupósti vegna hugtaksins point of care testing sem hún sagði einnig nefnt near-patient testing. Lísbet tilgreindi tvö íslensk heiti sem fram hefðu komið, nándarrannsóknir og nærrannsóknir.

Nærrannsóknir

Point of care testing vísar í rannsókn eða prófun sem fram fer á þeim stað þar sem umönnun eða meðferð sjúklings á sér stað. Algengast er að um sé að ræða heimili sjúklings, göngudeildarherbergi eða sjúkrastofu á deild, en vinnustaður og aðrir tímabundnir dvalarstaðir koma að sjálfsögðu einnig til álita.

Vettvangsrannsókn

Mikilvægt er að sem fyrst komi fram heiti sem heilbrigðisstarfsmenn og sjúklingar geta sætt sig við. Gera má ráð fyrir að rannsóknum af þessu tagi fari fjölgandi og að þær verði í auknum mæli teknar upp í heimaþjónustu við sjúklinga og í hvers konar heilbrigðisþjónustu utan stofnana. Við ritun pistilsins kom fram enn ein hugmyndin, vettvangsrannsókn.

Útvarðareitill

Bryndís Óskarsdóttir, læknaritari, spurðist fyrir um samsetta enska heitið sentinel node biopsy, sem ekki er að finna í Íðorðasafni lækna. Erfitt reyndist að finna heitið í öðrum læknisfræðiorðabókum, sem ef til vill bendir til að það sé að falla úr notkun. Hin mikla læknis- og líffræðiorðabók Wileys frá 1986 gaf þó eftirfarandi lýsingu: þreifanlegur eitill ofan viðbeins, venjulega vinstra megin, sem inniheldur meinvarp frá illkynja æxli, oftast á djúplægum og ógreindum frumstað. Samheiti þessa eitils eru mörg, til dæmis signal node, Troisier's node, Virchow's node og Ewald's node. Læknisfræðiorðabók Dorlands lýsir signal node á sambærilegan hátt, en tilgreinir einnig almenna lýsingu á sentinel node: fyrsti eitillinn sem tekur við afrennsli frá æxli; notaður til að greina hvort um sé að ræða sáningu frá vissum tegundum krabbameins um vessaæðar.

Sjúkrafræði

Ónafngreindur starfsbróðir hringdi og hafði ýmislegt á hornum sér varðandi umfjöllun um heitið medicine í 148. pistli (Læknablaðið 2002; 88: 775). Hann vildi að heitið yrði áfram sérgreint fyrir læknisfræði og að ný heiti yrðu fundin á greinar eða svið sem mynduð væru með þátttöku annarra stétta eða fræðigreina. Þá fannst honum afleitt að stofnanir, sem tækju á móti sjúkum, væru nefndar heilbrigðisstofnanir og að þær stéttir, sem þar störfuðu, væru nefndar heilbrigðisstéttir. Þar vill hann tala um sjúkrastofnanir og sjúkrastéttir. Taldi þessi starfsbróðir að stéttirnar lentu í háskalegum blekkingaleik og jafnvel tilvistarkreppu með því að gefa til kynna að viðfangsefnin væru eitthvað annað en sjúkdómar og sjúklingar. Um heilbrigði væri fjallað utan þessara stofnana. Loks sagði hann að sameiginlegt heiti fræðanna ætti að vera sjúkrafræði.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica