Umræða fréttir

Framsæknar, ungar og í skemmtilegu starfi

Hulda Einarsdóttir og Sigríður Björnsdóttir eru nýútskrifaðir læknar, Hulda lauk kandídatsári sínu á síðasta ári og Sigríður ári fyrr. Þær starfa nú sem umsjónarlæknar á lyflækningadeild Landspítala Hringbraut og eru farnar að huga að sérnámi. Það er í mörg horn að líta hjá þeim um þessar mundir, þar sem það er í þeirra verkahring, auk daglegra starfa á deildum og á vöktum, að skipuleggja vaktaskema deildarinnar fyrir hvern mánuð, fundahöld og annað slíkt. Nýr útskriftarárgangur er að koma til starfa þessa dagana og þá þarf að endurskipuleggja allt upp á nýtt. Vinnuálag unglækna hefur verið mjög til umræðu að undanförnu og þegar litið er á daglegar skyldur þeirra Sigríðar og Huldu og fylgst með þeim í starfi dagspart er ljóst að sú umræða er ekkert út í bláinn. En hvernig upplifa þær þetta vinnuálag:

Hulda: ,,Álagið jókst mikið þegar ég byrjaði á deildarlæknisárinu, og var þó mikið fyrir. Ég var allt í einu komin í umsjónarlæknisstöðu, kennslu og fleira. Þá varð eiginlega alger sprenging ..."

Sigríður: ,,Maður hugsar kannski ekki svo mikið um þetta, það er eins og ósjálfrátt sogist maður inn í þetta mikla vinnu og átti sig ekki á henni fyrr en út úr henni er komið. Þegar ég fór í barneignafrí þá allt í einu sá ég þetta betur."



Unglæknar minna á sig á ýmsum stöðum

Hafið þið verið virkar í baráttu unglækna að undanförnu?

Sigríður: ,,Við höfum verið virkar í umræðunni og undirbúningnum og þá sérstaklega innan spítalans."

Hulda: ,,Svo höfum við tekið þátt í könnunum um þessi mál og talað um þau við yfirmenn okkar."

Sigríður: ,,Og vonandi hefur það skilað einhverju."



Að tala við sjúklinginn

og sinna pappírsvinnunni

Þrátt fyrir álagið finnst þeim ástæðulaust að barma sér og vilja frekar reyna að hafa áhrif á það sem þeim þykir þurfa að breyta til betri vegar. Starfið er ánægjulegt og lærdómsríkt að mati þeirra, ekki síst þeir þættir er varða skipulagningu og stjórnun.

Sigríður: ,,Þetta er mjög skemmtilegt starf en ég vildi hafa miklu meiri tíma til að lesa fræðin, en ég hef. Það er hvetjandi að geta nýtt sér það sem maður er búinn að læra inni á spítalanum. Svo erum við að vinna með skemmtilegu fólki og í starfinu hittum við ótrúlega fjölbreyttan hóp fólks."

Er starfið í einhverri líkingu við það sem þið áttuð von á?

Hulda: ,,Ég varð dálítið hissa þegar ég gerði mér grein fyrir því hve mikil pappírsvinna er fólgin í því."

Of mikil?

Hulda: ,,Það er alltaf spurning af hverju má taka. Nú er ég til dæmis að vinna rannsóknarvinnu, fara í gegnum gamlar sjúkraskrár, og það er mjög erfitt að sjá hverju er hægt að sleppa, því auðvitað skiptir máli að allt sé vel og rétt skráð."

Sigríður: ,,En ef litið er á mannlega þáttinn í starfinu, þá skiptir hann auðvitað mjög miklu máli og það er alltaf verið að benda okkur á mikilvægi þess að staldra sem mest við hjá sjúklingnum, tala beint við hann, frekar en að vera að tala um hann frammi eða skrifa um hann. En auðvitað fer alltaf einhver hluti af tíma okkar í skriffinnsku, það er eðli starfsins."



Stærri hluti framhaldsnáms hér heima

Hvaða hugmyndir hafið þið um framhaldsnám?

Sigríður: ,,Ég held ég sé ákveðin í að fara í lyflækningar, en það sem ég er að velta fyrir mér núna er hvert ég á að fara, og er að skoða alla möguleikana í stöðunni. Við höfum verið að ræða það okkar á milli á spítalanum að það væri mjög gott fyrir unga lækna að hafa þann möguleika að geta tekið hluta af náminu hérna heima. Það þyrfti auðvitað að vera skipulagt þannig að fólk færi í gegnum ákveðið námsferli sem skilaði einhverju, til dæmis alþjóðlegu, stöðluðu prófi. Háskólasjúkrahúsið þyrfti helst að vera í samstarfi við eitthvert erlent sjúkrahús, því ég held að allir hafi gott af því að fara utan einhvern hluta námstímans. Aðstæður fólks eru auðvitað misjafnar og ég held að ef hægt væri að taka stærri hluta námsins hér heima þá væri það mjög jákvætt. Hér á landi eru mjög færir sérfræðingar og það er full ástæða til að nýta það og stytta námstímann erlendis. Það er bara spurning um tíma, hvenær stærri hluti af sérnáminu kemur inn í landið. En auðvitað er þessi þróun byrjuð, bæði með kennslu í heimilislækningum og geðlækningum."

Hulda: ,,Svíþjóð og Ameríka eru helstu kostirnir sem ég er að hugsa um. Fjölskylda mín býr í Svíþjóð, svo það togar sterkt í mig að fara þangað. Hins vegar hef ég ekki ákveðið í hvaða sérnám ég ætla, þótt ég sé komin með nokkrar grunnhugmyndir."





Opinberlega eru allir vegir færir

Hvað finnst ykkur um það sem sagt hefur verið, að konur og karlar velji ólíkar sérgreinar og sérgreinarnar sem konur velji séu oft minna metnar? Hefur það einhver áhrif á ykkur og eru einhverjar áþreifanlegar eða óáþreifanlegar hindranir í veginum?

Sigríður: ,,Fólk verður fyrst og fremst að fara í þá sérgrein sem það hefur áhuga á. Það skiptir sköpum. Það er hægt að leggja á sig ótrúlega mikla vinnu ef það sem maður er að gera er nógu skemmtilegt."

Hulda: ,,Það verður fyrst og fremst að kynna sérgreinarnar vel svo auðveldara sé að velja. Opinberlega eru manni allir vegir færir, en það eru ákveðin fög sem konur virðast síður fara í, eins og þvagfæraskurðlækningar og bæklunarskurðlækningar, sem mögulega skýrist af líkamlegum burðum. En varðandi afstöðu til einstakra sérgreina, þá held ég að það sé auðveldlega hægt að hafa áhrif á hana með málefnalegri umræðu. Það er til dæmis allt of ríkjandi neikvæð umræða um heimilislækningar og heilsugæslu inni á spítölunum."

Takið þið þátt í þeirri umræðu sem er um konur í læknastétt?

Hulda: ,,Ég var fyrir tilviljun dregin með á framsækninámskeið sem Félag kvenna í læknastétt á Íslandi hélt og fannst það mjög skemmtilegt. Þá sá ég nýja hlið á málunum, en áður var ég eiginlega alger anti-feministi."

Sigríður: ,,Félagið er mjög góður vettvangur til að ræða málin okkar á milli, en við erum ekkert að segja: Við erum svona og þeir svona, það er einfaldlega leiðinlegt. Umræðan innan félagsins er hins vegar mjög gagnleg, við sem erum ungar og á leið í framhaldsnám fáum ráðleggingar hjá þeim eldri og reyndari. Ég fór að starfa með Félagi kvenna í læknastétt á Íslandi í tengslum við framsækninámskeiðið, en ég ásamt tveimur öðrum sá um skipulag og undirbúning námskeiðsins."



Hvenær kemur læknirinn?

Námskeiðið vakti mikla athygli starfsfélaga þeirra Sigríðar og Huldu á spítalanum. Karlmönnunum sem unnu með þeim fannst mjög fyndið að þær væru á því sem þeir kölluðu ,,sjálfsstyrkingarnámskeið". Þær létu það lítil áhrif hafa á sig, kannski helst að þær ræddu það lítið á vinnustaðnum en þeim mun meira sín á milli. Námskeiðið var að þeirra mati mjög skemmtilegt, þær hlökkuðu til að mæta, þátt fyrir annríki og þegar námskeiðið var búið var þegar farið að huga að því að leita að nýju námskeiðis sem fylgdi þessu eftir. En hvað var það einkum sem þeim fannst gagnlegt?

Sigríður: ,,Námskeiðið var byggt upp á mjög almennan hátt og kemur því að mjög víðtækum notum. Það var fjallað um hvernig koma ætti sínum málum á framfæri, til dæmis með því að æfa raddbeitingu ... "



Hulda: ,, ... samningatækni og hvernig er hægt að fylgja hagsmunamálum sínum eftir."

Finnið þið fyrir því að þurfa frekar að láta að ykkur kveða en eldri starfsbræður?

Sigríður: ,,Það kemur fyrir, það er sérstaklega eldra fólkið sem á erfitt með að sjá ungar stelpur fyrir sér sem lækna, heldur er læknir í þeirra augum virðulegur eldri maður. Við vorum um daginn að útskýra ítarlega niðurstöður úr rannsóknum fyrir gamalli konu og kynntum okkur auðvitað fyrir henni, en hún var sífellt að spyrja: Já, en hvenær kemur læknirinn, hvenær kemur sjálfur læknirinn."



Óraunverulegt að sjá annað

fyrir sér en jöfnuð

Hulda: ,,Mér fannst viss áskorun felast í því að fara í starf þar sem karlar voru ríkjandi. Maður finnur það vel að þeir eru í meirihluta enn, til dæmis á deildinni okkar, en þetta er að breytast, ekki síst með okkar kynslóð. Mér hefur alltaf fundist sjálfsagt að geta gert það sem ég vil, án þess að hugsa um það að ég sé stelpa. En hins vegar erum við að rekast á það núna að með tímanum þykir kannski ekki sjálfsagt að við fáum stöður til jafns við karla þegar við komum úr sérnámi, alla vega er möguleiki á að svo verði. Samt finnst mér það ekki vera raunverulegt."

Eruð það ekki einmitt þið sem ætlið að breyta því, ekki er það náttúrulögmál?

Hulda: ,,Nei, það er það ekki, en tölurnar tala sínu máli. Hins vegar er aðalmálið að vera að gera það sem maður vill gera. Ég hefði ekki séð það fyrir mér að ég, svona stelpuskjáta, yrði umsjónarlæknir á Landspítalanum rétt komin úr námi."

Sigríður: ,,En það er merkilegt, að í seinni tíð hafa frekar verið konur í því starfi. Ég heyrði reyndar um daginn að það væri engin tilviljun. Konur hafa þótt skipulagðari og henta betur í þetta starf."

Spjallið við Huldu og Sigríði gefur tilefni til fullrar bjartsýni á framtíð kvenna í læknastétt, og þær benda sjálfar á að hlutverkaskipting kynjanna hafi breyst verulega, og fjölgun kvenna í stéttinni vinni með þeim. Munurinn á kynjunum er að þeirra mati síður en svo til að hafa áhyggjur af, aðalatriðið er að allir eigi það val að stunda það nám og leita í þau störf sem áhugi þeirra stendur til. Og það hafa þær hugsað sér að gera.

aób

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica