Umræða fréttir

Norræna læknaráðið Stjórnarfundur í Stokkhólmi

Þann 27. febrúar síðastliðinn var haldinn fundur stjórnar Norræna læknaráðsins í húsakynnum sænska læknafélagsins í miðborg Stokkhólms. Fyrir hönd LÍ mættu Jón Snædal varaformaður og Margrét Aðalsteinsdóttir utanríkisfulltrúi skrifstofu LÍ.

Helstu mál fundarins voru:



Lögfræðileg aðstoð

Öll félögin hafa skilað inn upplýsingum um hvernig lögfræðilegri aðstoð er háttað gagnvart læknum annarra Norðulanda sem koma til skammrar dvalar/vinnu. Fyrir lá stutt samantekt sem samþykkt var að hvert félag setti á heimasíðu sína, félögum sínum til upplýsingar.



Símenntun

Norska félagið hefur unnið að bæklingi með enskri útgáfu á sameiginlegri stefnu (policy), ekki síst til nota gagnvart öðrum löndum. Hann er væntanlegur á næstunni.

Rætt var um norræna loggbók (nokkurs konar punktakerfi) en verið er að vinna að símenntunarkerfum hér og þar á Norðurlöndunum en samræmi vantar. Samþykkt var að félögin beini því til fræðslunefnda sinna að þau vinni að sameiginlegri norrænni skráningu fyrir símenntun. Það var sameiginlegur skilningur að félögin ættu að hafa frumkvæði, annars tækju aðrir það og ekki að vita hvernig kröfur yrðu uppi.



Læknar í vanda (bad apples)

Mikilvægt er að halda umræðunni aðskilinni frá umræðu um gæðaeftirlit til að bæta þjónustu, fækka mistökum og svo framvegis og einnig aðskilinni frá umræðu um símenntun. Þetta var rætt á síðasta fundi en ekkert hefur gerst síðan. Norska félagið heldur áfram að skoða málið og lofaði að hafa eitthvað tilbúið fyrir fundinn í september og jafnframt var ákveðið að taka þessi efni fyrir á almennum læknaráðsfundi í Bergen í maí 2002, sem opinn verður öllum læknum á Norðurlöndunum. Í umræðunni var greint frá umfangsmikilli rannsókn sem danska læknafélagið er að gera á mistökum lækna og telja þeir að niðurstöðurnar verði ekki upplífgandi. Einnig þarf að skoða hvaða aðferðir væru bestar til að finna lækna sem greinilega væru ekki hæfir þegar í náminu og síðan á kandídatsári.

Alþjóðafélag lækna

Almenn ánægja ar með niðurstöður kosninga til stjórnar, en það gekk eftir að Norðurlöndin fengu tvo fulltrúa í stjórn, frá LÍ og norska læknafélaginu. Töluvert var rætt um hvernig staðið verði að kosningum til trúnaðarstarfa innan Alþjóðafélagsins. Upplýst var að Anders Milton, sem er fráfarandi formaður stjórnar félagsins, gefi kost á sér sem forseti samtakanna tímabilið 2002-2003, en um það verður kosið í haust. Ljóst er að hann hefur víðtækan stuðning og reyndar voru stjórnir bæði danska og norska félagsins búnar að ræða málið og ákveða að styðja hann. Fulltrúi Íslands lýsti yfir að vafalítið myndi stjórn LÍ lýsa yfir stuðningi við hann en finnsku fulltrúarnir greindu hins vegar frá því að fráfarandi formaður finnska félagsins, Katy Myllimäki, hygðist gefa kost á sér og kom þessi yfirlýsing nokkuð á óvart því þetta hafði ekki verið kynnt áður.

Tillögur fyrir stjórnarfund Alþjóðafélags lækna:

Fréttir frá félögunum

Danmörk: Fulltrúar greindu frá nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu sem gefa yfirvöldum möguleika á enn nánara eftirliti með læknum og möguleika á aðgerðum svo sem að tilkynna opinberlega um lækna sem ekki þykja standa sig. Þeir greindu einnig frá athugun sem Vinnueftirlitið danska hefur verið að gera á vinnuaðstöðu lækna sem í ljós kom að var víða bágborin. Í kjölfarið hafa nokkrar heilbrigðisstofnanir fengið tilmæli um úrbætur.

Svíþjóð: Verið er að ganga frá samningum og verða þeir meira staðbundnir en áður. Greint var frá starfi vinnuhóps sem skoðar starfsaðstæður lækna á kerfisbundinn hátt og reynir að koma á úrbótum í kjölfarið. Vegna læknaskorts hefur verið unnið að innflutningi lækna frá Evrópubandalagslöndunum og hafa þeir einkum komið frá Spáni og Þýskalandi, en einnig hefur verið nokkuð um innflutning frá Póllandi. Verið er að setja á laggirnar sérstaka endurmenntunarstofnun (Institut för läkarnas professionella utveckling), en ekki var nánar greint frá hlutverki hennar.

Finnland: Verið er að undirbúa verkfall sem að óbreyttu skellur á eftir fimm daga, þegar þetta er skrifað. Mikill undirbúningur hefur átt sér stað og verkfallið er skipulagt í smáatriðum þar sem sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og einstakar deildir skiptast á. Fulltrúar greindu frá því að aðgerðirnar hefðu töluverðan stuðning í samfélaginu. Takmarkið er að hækka grunnlaun til samræmis við það sem gerist í Skandinavíu en það þýðir hækkun um 20%. Viðsemjendur eru tilbúnir að hækka laun um 5,5% sem er sambærilegt og aðrir hafa verið að fá nema á finnska þinginu þar sem menn hækkuðu laun sín um 20%!

Ísland: Sagt var frá nýjum lögum um sjúklingatryggingar og hvernig þau snerta lækna. Sagt frá lögum um persónuvernd. Lesnar voru upp þakkir stjórnar LÍ til Anders Milton fyrir stuðning hans við sjónarmið LÍ gagnvart stjórnvöldum í gagnagrunnsmálinu.

Noregur: Sagt var frá skipulagsmálum sjúkrahúsanna þar sem þau eru nú að færast til ríkisins en jafnframt eru þau gerð að sjálfseignarstofnunum. Margir líta á það sem upphaf að einkavæðingu. Norska læknafélagið styður þessar fyrirætlanir.



Næsti fundur verður haldinn í Reykjavík 27. og 28. ágúst næstkomandi.



Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica