Umræða fréttir

Smásjáin 1

Tóbaksauglýsingar

á biðstofum

Bandarísku læknasamtökin (AMA) beindu fyrir liðlega áratug þeim tilmælum til bandarískra heimilislækna að losa sig við blöð og tímarit sem auglýsa tóbak af læknastofum og heilsugæslustöðvum. Könnun sem gerð var í Boston árið 1988 sýndi að einungis 11% biðstofa þar voru alveg lausar við slík tímarit og ekki lýstu nema 25% lækna áhuga á að útrýma þess háttar efni af biðstofunum. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli heildarsamtaka lækna virðist sem ekki hafi allir tekið við sér á þessu sviði. Árið 1999 var gerð símakönnun meðal barnalækna í Rochester í New York fylki. Niðurstaðan olli vonbrigðum. Einungis 8% læknanna sem spurðir voru sneiddu algerlega hjá blöðum sem innihéldu tóbaksauglýsingar. Að vísu voru 45% læknanna ekki áskrifendur að neinum blöðum sem innihéldu slíkar auglýsingar en meirihluti þeirra lét blöð sem þeir fengu send ókeypis liggja frammi á stofnum sínum og allmörg þeirra innihéldu tóbaksauglýsingar. Tuttugu og einn af hundraði lýsti áhuga á að losa sig alveg við tóbaksauglýsingar af biðstofunum en hafði ekki látið verða af því. 73% læknanna voru með áróðursbæklinga eða veggspjöld á biðstofunum. Ætla má að það gæti borið árangur að dreifa lista yfir tímarit sem ekki birta tóbaksauglýsingar til lækna, því 69% úrtaksins sögðust hafa áhuga á að fá slíkan lista sendan.

JAMA Vol. 285/ No. 1. 3. janúar 2001





Í biðröðinni hjá sáttasemjara

Eftir að hinni löngu samningalotu við kennara lauk hjá sáttasemjara snemma í janúar kom röðin að öðrum hópum sem eru með lausa samninga. Einn af þeim hópum sem eiga eftir að semja eru sérfræðingar á sjúkrahúsum. Læknablaðið hafði samband við Ingunni Vilhjálmsdóttur, formann samninganefndar sjúkrahúslækna, um miðjan janúarmánuð og þá hafði nefndinni ekki verið sagt hvenær röðin kæmi að sjúkrahúslæknum. Biðtíminn hefur verið nýttur vel því verið er að safna efni og undirbúa kynningarfundi vegna mikilla breytinga sem eru framundan á launakerfi sjúkrahúslækna og uppbyggingu samninga þeirra. Á næstu vikum er stefnt að því að halda slíka fundi og verða þeir kynntir vel þegar að þeim kemur.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica