Umræða fréttir

Hlúum að sérstöðu og sjálfsmynd lækna

Jón Kristjánsson heilbrigðismálaráðherra, aðrir gestir og fundarmenn og félagar í Læknafélagi Íslands. Ég vil bjóða ykkur öll velkomin til þessa fundar sem haldinn er á 83. starfsári félagsins.

Það skiptast á skin og skúrir í daglegri önn félags okkar og er þessi aðalfundur haldinn við slíkar aðstæður.

Nýlega komst LÍ að mikilvægu samkomulagi við Íslenska erfðagreiningu eftir langvinn og erfið skoðanaskipti um álitamál um hluta af starfsemi fyrirtækisins, umræðu, sem náð hefur um alla kima þjóðfélagsins. Samkomulag þetta er einfalt í sniðum, lætur lítið yfir sér, ef svo má að orði komast, en felur annars vegar í sér mikilvæga öryggis- og réttindabót fyrir almenning og vísar hins vegar öðrum úrlausnarefnum í farveg, þar sem aðilar geta unnið í samneiningu að farsælli lausn ágreiningsefna án þess að í nokkru sé dreginn í efa fullveldisréttur okkar til setja okkur lög og hlýta þeim í þessum efnum. Nú er tóm til að skoða þessi mál í víðara samhengi, án streitunnar sem fylgir kappinu á skeiðvellinum og án þeirra miklu tilfinninga, sem fylgja gjarnan andlegum átökum af þessum toga. Þetta er ánægjuefni. Það er líka ánægjuefni, hversu vel og fordómalaust hinn nýi heilbrigðisráðherra hefur tekið þessu samkomulagi og tjáð sig um að hann vilji skoða það opnum huga. Það er afar mikilvægt að samkomulagi þessu sé veitt pólitískt skjól og hef ég rökstuddar ástæður til að ætla að þessi velvilji nái út fyrir veggi heilbrigðisráðuneytisins.

Þessi aðalfundur er líka haldinn í skugga, skugga boðaðs frumvarps til laga um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar. Margir kannast við efni þessa frumvarps frá drögum sem í hámæli komust síðastliðið vor. Að vísu hefur verið brugðist vel við ýmsum athugasemdum, sem við það voru gerðar, en það er mín skoðun að afleiðingar þessa fyrir sjálfstæða atvinnustarfsemi lækna, ef að lögum verður, munu verða hinar sömu og lagt var upp með í upphafi.

Í plaggi, sem fyrir þessum fundi liggur og varðar starfsvettvang lækna segir með leyfi ykkar:

"Heilbrigðisþjónustan á Íslandi er góð og skilvirk í samanburði við heilbrigðisþjónustu iðnríkja Vesturlanda. Ef litið er til annarra Evrópulanda, þá er árangur Íslendinga meðal þess besta sem gerist, ef mældur er með kvörðum lífslíkna við fæðingu, burðarmálsdauða, dánartíðni og fleiri mælitækjum heilbrigðisfræðinnar. Íslendingar hafa náð þessum árangri með því að verja hóflegum hluta þjóðartekna til heilbrigðismála í samanburði við önnur vestræn ríki.

Það eru gömul sannindi og ný, að tilraunir til umbóta takast illa, séu þær þvingaðar fram án víðtæks skilnings og stuðnings þeirra sem við þær eiga að búa. Það hefur einkennt þróun heilbrigðismála á Íslandi, að þar hefur gætt varfærni og aðgát verið höfð við að innleiða nýjar hugmyndir og reynt að aðlaga þær að íslensku umhverfi án þess að varpa fyrir róða því, sem vel hefur reynst hér á landi.

Þetta er að sínu leyti hvatning til þess, að haldið verði áfram á sömu braut."

Ég fæ ekki betur orðað eða stutt með rökum þá ósk, að þessi sjónarmið verði í heiðri höfð við setningu nýrrar löggjafar um starfsumhverfi lækna. Ég fæ ekki varist þeirri hugsun, að oft sé litið á lækna og starfsemi þeirra sem sérstakt viðfangsefni eða vandamál, hvort sem litið er til fjárveitinga, eftirlits með því hvernig opinberu fé er varið og stöðu lækna almennt í heilbrigðisþjónustunni. Vísa ég þá ekki einvörðungu til stjórnmálamanna, sem vissulega eru ekki alltaf öfundsverðir af hlutskipti sínu, heldur einnig margra annarra sem læknar eiga skipti við á þessum vettvangi. Læknum er vel ljóst mikilvægi starfa sinna í heilbrigðisþjónustunni og þeir hafa mikinn og heilbrigðan metnað fyrir sína hönd. Þessi metnaður er ekki einvörðungu sjálfsmiðaður, heldur beinist fyrst og fremst að viðfangsefnunum og nærir árangur í starfi og hvetur þá til að ná þeim markmiðum sem þjóðfélagið hefur sett góðri heilbrigðisþjónustu. Að þessum metnaði og að sérstöðu lækna og sjálfsmynd þeirra á að hlúa, hvort sem er með læknalögum eða annarri löggjöf sem varðar starfsvettvang þeirra.

Að lokum vil ég þakka Jóni Kristjánssyni kærlega fyrir að þiggja boð okkar um að koma á fundinn og ávarpa okkur. Jón tekur við af heilbrigðisráðherra, sem setið hefur lengur en nokkur annar og rak ráðuneytið hraustlega og með myndarbrag. Ég hef orðið þess aðnjótandi að eiga samræður við hinn nýja ráðherra nokkrum sinnum vegna málefna lækna og heilbrigðisþjónustunnar og á grundvelli þeirra kynna hlakka ég til frekara samstarfs við hann og ráðuneyti hans, það er ef fundur þessi gefur mér þá umboð til þess. Það er ekkert sjálfsagt að allir séu á eitt sáttir, þegar vélað er um mikilvæg málefni sem varða heill alþjóðar og ráðstöfun stórs hluta tekna hennar, en það er sjálfsagt að samkipti, sem leiða eiga til farsælla ákvarðana, séu streitulaus og vörðuð gagnkvæmri virðingu.

Aðalfundur Læknafélags Íslands er settur.

Með þessum orðum vil ég bjóða ráðherranum stólinn, þennan stól, sem Sighvatur gaf en Ingibjörg færði.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica