Umræða fréttir

Stjórnarfundur Alþjóðafélags lækna í Ferney Voltaire

Aðalfundur Alþjóðafélags lækna (WMA) var áætlaður 4.-7. október í Nýju Delí í Indlandi, en í kjölfar atburðanna í Bandaríkjunum hinn 11. september síðastliðinn var fundinum frestað af öryggisástæðum. Í staðinn var ákveðið að halda stjórnarfund á sama tíma í Frakklandi, í heimabæ aðalskrifstofunnar. Að venju voru haldnir nefndarfundir í fastanefndum félagsins og fór mestur tíminn í þá, enda fara þar fram umræður um efnisatriði og er þá oftast búið að ganga frá ágreiningsmálum þegar málin koma til stjórnar til afgreiðslu.

Nokkur mál sem voru rædd:



1. Ályktun um gagnagrunna: Áður en kom að fundi fastanefndar hittust þeir fulltrúar úr vinnuhópnum sem voru á staðnum. Í þeirra umræðum var ljóst að töluverð vinna var eftir, meðal annars varðandi skilgreiningar. Því ákvað formaður nefndarinnar, dr. Jim Appleyard, að leggja plaggið ekki fyrir til efnislegrar meðferðar, en þess í stað voru nokkrar almennar umræður. Í þeim gerði formaður LÍ grein fyrir samkomulagi stjórnar félagsins við ÍE. Vinnan heldur nú áfram í vinnuhópnum og fékk hann stuttan tíma eða til loka nóvember til að koma fram með næsta uppkast sem gert er ráð fyrir að senda til læknafélaga til umsagnar.

2. Helsinkiyfirlýsingin: Í kjölfar nýjustu útgáfu þessarar yfirlýsingar haustið 2000 komu fram ýmsar ábendingar og gagnrýni sem snertu tvær greinar í yfirlýsingunni. Önnur fjallar um notkun lyfleysu í lyfjarannsóknum og hin um hvernig niðurstöður eru nýttar fyrir þá sem hafa tekið þátt í viðkomandi rannsókn. Vinnuhópur lagði annars vegar til að samtökin birtu texta til útskýringar (notes of clarification) og hins vegar kom hann með tillögu að breytingu á umræddum greinum í sjálfri yfirlýsingunni. Stjórn Alþjóðafélags lækna ákvað hins vegar að breyta engu í yfirlýsingunni, en samþykkti skýringartextann. Nánari grein verður gerð fyrir þessu í Læknablaðinu á næstunni.

3. Notkun sýklavopna: Fyrir fundinum lág ítarleg tillaga frá bandaríska læknafélaginu sem samin hafði verið fyrir atburðina þar í landi í september síðastliðnum. Þessi tillaga fékk góðar undirtektir og var samþykkt af hálfu fastanefndar og stjórnar en kemur síðan til lokaafgreiðslu á næsta ársfundi. Vegna hryðjuverkanna og þeirrar umræðu sem orðið hefur um möguleika á frekari hryðjuverkum, meðal annars með sýklum var ákveðið að senda út fréttatilkynningu og hins vegar var samþykkt stytt tillaga sem álit stjórnar (Council Resolution). Þá tillögu er hægt að kynna út á við sem slíka, en það er ekki hægt með upprunalegu tillöguna fyrr en ársfundur hefur afgreitt hana.

4. Yfirlýsing um sjálfstæði lækna (the autonomy of physicians): Þessi yfirlýsing hefur verið lengi í vinnslu og var lögð fram fimmta útgáfan. Ekki var heldur hægt að afgreiða hana og reyndar kom fram tillaga um að vísa henni frá. Í kjölfarið urðu líflegar umræður og skiptust menn í tvö horn, annars vegar þeir sem töldu þetta vera mikilvægt plagg enda væri sjálfstæði lækna víða í hættu, meðal annars vegna áhuga yfirvalda á að halda þeim í skefjum eða skipta sér af vinnuaðstæðum þeirra og möguleikum. Aðrir töldu að fyrri yfirlýsingar nægðu, enda hefur verið vikið að þessu áður. Settur var saman nýr vinnuhópur til að koma með nýjar tillögur næst.

5. Yfirlýsing um uppbyggingu heilbrigðiskerfa (sustainability of health care systems). Þótti fremur óklár yfirlýsing og var vísað áfram til vinnuhóps.

6. Yfirlýsing um flæði lækna milli landa og landsvæða (physicians' migration). Kanadíska læknafélagið hefur lagt þessa tillögu fram og bauðst til þess að vinna að þessu áfram ásamt öðrum og buðu í því tilviki fram vinnukraft og að afla fjár. Fyrir liggur að áhugi á þessu efni stafar bæði af tilhneigingu til aukinna hafta og frelsis. Íslensku fulltrúarnir héldu því á loft að flutningur lækna milli landa væri íslenskri læknisfræði lífsnauðsynlegur bæði til náms og starfa og að það fyrirkomulag hefði verið lengi á Norðurlöndunum, öllum til góðs. Ljóst er að þessi vinna er afar umfangsmikil ef hún á að skila einhverju, samanber vinnu SNAPS-hópsins á Norðurlöndum þar sem hópurinn getur unnið úr aðgengilegum gögnum frá öllum löndunum og komið með áætlanir sem á þeim byggjast. Víðast eru slík gögn ekki aðgengileg, áreiðanleg eða yfir höfuð til. Þar við bætist að læknismenntun nær ekki alls staðar máli, en það er atriði sem Norðurlöndin þurfa ekki að hafa áhyggjur af. Samþykkt var þó að koma þessari vinnu af stað vegna tilboðs Kanadamanna um að þeir legðu bæði til mannafla og reyndu að afla utanaðkomandi fjár.

7. Stuðningur við Taiwan: Stutt tillaga um að styðja að Taiwan fengi áheyrnarfulltrúa hjá Alþjóðafélagi lækna. Ekki var erfitt að styðja þessa tillögu, en hér var greinilega um viðkvæmt mál að ræða og ýmsir hræddir um að Alþjóðafélag lækna yrði talið of pólitískt. Tillagan var þó samþykkt með þeirri breytingu að fram kom að samtökin tækju enga afstöðu til lagalegrar stöðu Taiwan. Þrátt fyrir þetta gátu sum lönd (Bandaríkin og Suður Afríka) ekki stutt tillöguna, en sátu hjá.

Samþykkt var að halda næsta ársfund samtakanna í Nýju Delí 2.-6. maí 2002 sem þýðir að það ár verða tveir ársfundir, sá síðari um haustið í Washington DC. Nýr forseti tók við, Enrice Accorsi frá Chile, og nýtur hann víðtæks stuðnings og virðingar. Samtökin verða hins vegar ekki með neinn "tilvonandi" forseta (president elect) fram að næsta ársfundi. Fyrir liggja fjögur framboð til næsta forseta og það sem er óvanalegt er að tvö framboðin eru frá Norðurlöndunum, Svíþjóð og Finnlandi. LÍ hefur þegar lýst yfir stuðningi við dr. Anders Milton frá Svíþjóð, enda veitti hann félaginu mikinn siðferðislegan stuðning í gagnagrunnsmálinu þegar hann var formaður stjórnar samtakanna, en af því lét hann síðastliðið vor. Hann á einnig vísan stuðning Dana og Norðmanna.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica