Umræða fréttir

Ný skilgreining S-merktra lyfja

Hinn 1. janúar næstkomandi tekur gildi ný skilgreining á S-merkingu lyfja og fer hún ásamt skýringum um framkvæmd hennar hér á eftir:

Lyf sem falla undir eftirfarandi skilgreiningu, hafa fengið eða munu fá merkinguna S hjá Lyfjastofnun, við afgreiðslu markaðsleyfis eða undanþáguheimildar.

* Lyf sem eingöngu á að nota á eða í tengslum við sjúkrahús/ sjúkrastofnun.

* Lyf notuð í sérhæfðri meðferð sem krefst sérfræðiþekkingar eða sérstaks eftirlits sérfræðinga á sjúkrahúsi/sjúkrastofnun.

* Ný og mjög dýr lyf sem krefjast sérfræðiþekkingar og/eða sérstaks eftirlits sérfræðinga á sjúkrahúsi/sjúkrastofnun.

* Notkun þessara lyfja skal vera samkvæmt leiðbeiningum (prótokollum).

Hér er um að ræða flest stungulyf sem skráð eru. Í mörgum tilvikum er um að ræða lyf sem eru sérhæfð, mikilvirk og notkun þeirra krefst ýtrustu varkárni, sérfræðiþekkingar og öryggisbúnaðar. Þau á eingöngu að nota innan eða í tengslum við sjúkrahús/stofnun. Vegna þessa verður á næsta ári flutt fjármagni frá Tryggingastofnun ríkisins til Landspítala - háskólasjúkrahúss til að mæta þessum útgjöldum sjúkrahússins og verða S-merkt lyf því ekki greidd af TR í framtíðinni.

Samkvæmt þessu mun krabbameinssjúklingur sem vísað er á stofu viðkomandi sérfæðings til áframhaldandi meðferðar, fá lyfin afhent sér að kostnaðarlausu frá sjúkrahúsinu/sjúkrahúsapótekinu, eins og hann væri að þiggja meðferð þar. Meðferð sem hefst inni á sjúkrahúsi/sjúkrastofnun með S-merktum lyfjum verður greidd af viðkomandi sjúkrahúsi.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,

18. desember 2000

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica