Ágrip erinda

Ágrip erinda 28-53

E 28 Hitaþolinn komplementþáttur í sermi þorsks (Gadus morhua L.)

Bergljót Magnadóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði, Keldum v/Vesturlandsveg

Netfang: bergmagn@hi.is



Inngangur: Komplementkerfið, sem skiptist í lengra (classical) og styttra (alternative/lektín) ferli, tengir ósérvirka og sérvirka ónæmiskerfið. Fjölmargar prótínsameindir teljast til komplementkerfisins, sem við ræsingu getur leitt til sundrungar frumna, upptöku örvera eða ræsingar hvítfrumna. Fiskar eru fyrsta dýrategundin í þróunarsögunni, sem hafa bæði komplementferlin. Komplementkerfi fiska er um margt líkt og hjá spendýrum en nokkrir þættir eru ólíkir. Þannig er hámarksvirkni fiskakomplements yfirleitt við lægra hitastig (<20°C) en hjá spendýrum (37°C), það er ekki eins hitaþolið, styttra ferlið er virkara og ýmis prótín kerfisins, eins og C3, sýna fjölbreytni (polymorphism).

Efniviður og aðferðir: Komplentvirkni mæld samkvæmt styttra ferlinu, það er rauðfrumuleysandi virkni sermis án sérvirkra mótefna (haemolysins), var gerð á ýmsum hópum þorska, áhrif hitastigs voru könnuð, virkni gegn rauðfrumum ýmissa tegunda og áhrif ýmissa þátta eins og zymosan, LPS, EGTA og EDTA.

Niðurstöður: Virkni var tiltölulega há í flestum þorskahópum (titer >1000) en þó var einn hópur af eldisþorski sem sýndi enga virkni.

Hámarksvirkni var við 37°C en ekki við kjörhitastig þorsks.

Virknin var óvenju hitaþolin það er um 50% virkni mældist eftir 30 mínútur við 63°C.

EGTA, sem bælir komplementþætti styttra ferlisins (bindur Ca2+), hafði engin áhrif á virknina.

EDTA, sem bælir bæði ferli komplementkefisins (bindur Ca2+og Mg2+), efldi virknina.

Önnur próf gáfu dæmigerðar niðurstöður fyrir komplementþætti, til dæmis var virknin bæld af zymosan, LPS, sermi annarra tegunda og af mótefni gegn manna- C3 þættinum.

Ályktanir: Komplementvirkni þorskasermis var óvenjuleg, sérstaklega hvað varðar hitaþolni og örvun með brottnámi Ca2+ og Mg2+. Niðurstöðurnar benda til að ef til vill séu aðrir þættir í þorskasermi sem hafa rauðfrumuleysandi virkni en hefðbundnir komplementþættir.



E 29 Lýsi eykur myndun bólgumyndandi frumuhvata (TNF) en minnkar myndun bólguhemjandi frumuhvata (IL-10) í kviðarholsátfrumum músa

Dagbjört Helga Pétursdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir, Ingibjörg Harðardóttir



Frá Rannsóknastofu í lífefna- og sameindalíffræði læknadeild HÍ

Netfang: ih@hi.is



Inngangur: Frumuhvatar eru mikilvæg boðefni í varnarkerfi líkamans og við miðlun bólgu- og sýkingarsvars. Þeir geta verið bólguhvetjandi eða bólguhemjandi. Tumor necrosis factor (TNF) er bólguhvetjandi frumuhvati en interleukin (IL)-10 bólguhemjandi. Rannsóknir hafa sýnt að lýsi eykur TNF myndun staðbundinna kviðarholsátfrumna í músum. Hins vegar benda flestar rannsóknir til þess að lýsi minnki myndun bólguhvetjandi frumuhvata í frumum úr blóðrás manna. Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif lýsis á myndun TNF og IL-10 í staðbundnum kviðarholsfrumum og frumum úr blóðrás.

Efniviður og aðferðir: Músum var skipt í tvo hópa og þær aldar á fæði bættu með lýsi (ómega-3 fitusýrur) eða kornolíu (ómega-6 fitusýrur) í fjórar vikur. Kviðarholsátfrumum og blóðfrumum var safnað og einkjörnungar úr blóði einangraðir á þéttnistigi. Eftir örvun með endótoxíni í 24 klukkustundir voru TNF og IL-10 mæld í floti með ensímtengdri ónæmisaðferð (ELISA).

Niðurstöður: Frumur úr músum sem fengu lýsisbætt fóður mynduðu mun meira TNF (118 ±92 pg/mL) en frumur úr músum sem fengu kornolíubætt fóður (554±45 pg/mL). Hins vegar mynduðu frumur úr músum úr lýsishópnum mun minna IL-10 (3±1 pg/mL) en frumur úr músum úr kornolíuhópnum (26±4 pg/mL). Frumniðurstöður benda einnig til þess að lýsi hafi mismunandi áhrif á frumuhvatamyndun í kviðarhols- og blóðfrumum.

Ályktanir: Þessar niðurstöður sýna að áhrif lýsis á myndun bólguhemjandi frumuhvatans IL-10 eru andstæð áhrifum þeirra á myndun bólguhvetjandi frumuhvatans TNF í kviðarholi. Heildaráhrif lýsis á frumuhvatamyndun kviðarholsátfrumna virðast þannig benda til aukins staðbundins ónæmissvars í kviðarholi. Mismunandi áhrif lýsis á frumuhvatamyndun í kviðarhols og blóðfrumum bendir til mismunandi áhrifa þess á staðbundið og kerfisbundið ónæmissvar.



E 30 Áhrif lýsis á ónæmiskerfið; þáttur leukótríena

Valtýr Stefánsson Thors1, Helga Erlendsdóttir2, Ingibjörg Harðardóttir1, Eggert Gunnarsson3, Ásgeir Haraldsson1,4



1Læknadeild HÍ, 2sýklarannsóknadeild Landspítala Hringbraut, 3Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 4Barnaspítali Hringsins, Landspítala Hringbraut

Netfang: asgeir@rsp.is



Inngangur: Margir telja að lýsi bæti heilsu. Bent hefur verið á, að lýsi auki lifun tilraunadýra eftir sýkingar og minnki einkenni sjálfnæmissjúkdóma. Ástæður virkninnar eru óljósar. Því hefur verið haldið fram, að lýsi breyti leukótríen (LT) efnaskiptum líkamans og minnki framleiðslu á LTB-4, PGE-2 og TXA-2 en auki framleiðslu á minna virkum LTB-5, PGE-3 og TXA-3. Á þann hátt, dragi lýsið úr ónæmissvari líkamans.

Við höfum birt niðurstöður um aukna lifun dýra, sem alin voru á lýsisríku fæði, eftir sýkingar og einnig kynnt niðurstöður, sem benda til að lýsi hafi ekki áhrif á bakteríuvöxt í tilraunadýrum og óveruleg áhrif á frumuhvatana TNF-a og IL-1. Rannsóknir okkar nú beinast að þætti leukótríena í ónæmissvari dýra, sem alin hafa verið á lýsisríku fæði.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað og tuttugu músum var skipt í fjóra hópa. Hópur 1 fékk lýsisríkt fæði, hópur 2 lýsisríkt fæði ásamt 5-lípoxýgenase hemjara (Ziluton, Abbot), hópur 3 kornolíubætt fæði og 4 kornolíubætt fæði ásamt 5-LO hemjara. Að sex vikum liðnum voru mýsnar sýktar með Kl. pneumoniae. Fylgst var með lifun. Tilraunin var framkvæmd tvisvar.

Niðurstöður: Eftir 244 klukkustundir var lifun músa, sem fengið höfðu lýsisríkt fæði 30% og 24,1% í tilraununum, en lifun músa, sem fengið höfðu lýsisríkt fæði ásamt 5-LO hemjara var 6,9% og 10,7%. Samanburður hópanna (Log-rank test) sýndi marktækan mun í annarri tilrauninni (p=0,0222 og p=0,125). Ef tilraunirnar voru dregnar saman, var munurinn einnig marktækur (p=0,0067). Ekki var munur á samanburði lifunarferla milli annarra hópa.

Ályktanir: Því hefur verið haldið fram, að áhrif lýsis séu að hluta til vegna áhrifa á leukótríen efnaskipti. Hömlun framleiðslu leukótríena gæti því mögulega hamið áhrif lýsisins.

Niðurstöður okkar styðja þá kenningu, að áhrif lýsis séu, að minnsta kosti að hluta til, vegna áhrifa á leukótríen framleiðslu.



E 31 Tilraunasýking í barka með mæði-visnuveiru gefur góða raun

Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Nanna Viðarsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Guðmundur Pétursson



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: sibbath@hi.is



Inngangur: Mæði-visnuveira (MVV) er lentiveira í kindum náskyld HIV í mönnum. Veiran smitast meðal annars um öndunarfæri þannig að reynt var að finna auðvelda aðferð til að sýkja slímhúð öndunarfæra.

Efniviður og aðferðir: Prófað var að sýkja í nef annars vegar og í barka hins vegar. Einnig þurfti að finna hæfilegan skammt til að smita með í bólusetningartilraunum (challenge). Prófað var með mótefnamælingu og veiruræktun úr blóði hvort kindurnar hefðu sýkst.

Niðurstöður: Nefsýking: Úðað var í nef 0,5 ml af MVV klóni KV1772-kv72/67 í títer 107, 106, 105, 104 og103 TCID50 (Tissue culture infectious dose50). Ein kind var sýkt með hverjum skammti í forkönnun. Sex mánuðum eftir sýkingu var einungis kindin sem fékk hæsta veiruskammtinn (107 TCID50) sýkt. Sýking í nef var því ekki prófuð frekar.

Barkasýking: Í forkönnun kom í ljós að mun minni veiruskammt þurfti til sýkingar í barka svo að sú leið var prófuð nánar. Kindur voru deyfðar með 0,2 ml af Rompun® í æð og 1 ml af MVV klóni KV1772-kv72/67 í títer 106, 105, 104 ,103, 102, 101 og 1 TCID50 var sprautað í barka. Tvær kindur voru sýktar með 106 en fjórar með hinum skömmtunum. Innan sex mánaða voru allar kindur sýktar sem fengu 106,105, 104 103, 102 TCID50 og tvær af fjórum sem fengu 10 veirur en engin sem sýkt var með einni veiru. Samkvæmt því reyndist hæfilegur sýkingarskammtur í barka, þar sem helmingur kinda í hópi sýktist, vera 10 veirur.

Ályktanir: Sýking í barka er því einföld og mjög árangursrík aðferð fyrir tilraunasýkingar og smitanir með mæði-visnuveiru.



E 32 Áhrif TGFb á þroskunarferil Th1 og Th2 CD4+ T frumna

Björn R. Lúðvíksson1,2, Diana Seegers1, Andrew S. Resnick1, Warren Strober1



1Mucosal Immunity Section, LCI, NIAID, NIH, Bethesda, MD, USA, 2Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði

Netfang: bjornlud@rsp.is



Inngangur: Misvísandi niðurstöður liggja fyrir um áhrif TGFß á þroskunarferil T-frumna. Helsta ástæða þess kann að liggja í mismunandi þroskastigum og tegundar þeirra T-frumna sem rannsakaðar hafa verið.

Efniviður og aðferðir: Í þessari rannsókn voru áhrif TGFß rannsökuð á bæði óþroskaðar og minnis- CD4+ T-frumur. Eftir einangrun voru CD4+ T frumur (>96% hreinar) frá OVA-TCR og Cytochrome-C-TCR Tg músa ræstar undir hlutlausum, Th1 eða Th2 aðstæðum.

Niðurstöður: Í ljós kom að TGFß er kröftugur hemjari frumsvars T-frumna undir hlutlausum, Th1 eða Th2 aðstæðum. Auk þess kom í ljós að óþroskaðar T-frumur sem höfðu verið ræstar undir áhrifum TGFß sýndu minni ræsingu við endurörvun. Við þessar aðstæður var ekki hægt að sýna fram á minnkaða tjáningu örvunar viðtakanna CD28, B7-1/2 eða CD25. Jafnframt var ekki hægt að rekja þessi hamlandi áhrif TGFß til minnkaðrar IL-2 framleiðslu.

Annars konar áhrifa gætti á minnisfrumur. Til að ná marktækri hömlun á ræsingu minnis Th1 CD4+ T-frumna þurfti 10X hærri styrk TGFß miðað við næmni óþroskaðra T-frumna fyrir því í frumsvari. Undir slíkum kringumstæðum virðist TGFb leiða til minnkaðrar tjáningar IL-12 viðtakans (IL-12Rß2). Athygli vakti að ekki var hægt að sýna fram á minnkaða ræsingu STAT4 undir þessum kringumstæðum. Hins vegar hefur TGFß ekki áhrif á ræsingu Th2 minnisfrumna hvort heldur þegar litið er á frumufjölgun, cítókínframleiðslu eða STAT6 ræsingu.

Ályktanir: Af þessu er ljóst að áhrifa TGFß er fyrst og fremst að gæta við frumsvar CD4+ T frumna og slíkt kann að vera grundvöllur fyrir ónæmisbælandi áhrifum TGFß. Mikilvægt er að rannsaka frekar hvernig TGFß miðlar þessum áhrifum þar sem slík vitneskja getur leitt í ljós sértækar meðferðarleiðir til ónæmisbælingar.



E 33 Stýrður frumudauði í þroskaferli forvera megakarýócýta in vitro

Ólafur Eysteinn Sigurjónsson1, Kristbjörn Orri Guðmundsson1, Vilhelmína Haraldsdóttir2, Þórunn Rafnar3, Bjarni A. Agnarsson4, Sveinn Guðmundsson1



1Blóðbankinn, 2Landspítali Fossvogi, 3Urður Verðandi Skuld, 4Rannsóknastofa HÍ í meinafræði

Netfang: oes@rsp.is



Inngangur: Vaxtaþættirnir Thrombopoietin (TPO) og Flt3/flk2 (FL) hafa áhrif á þroska megakarýócýta (MK) frá blóðmyndandi stofnfrumum (HSC) og á fjölgun (expansion) blóðmyndandi stofnfrumna. Ein tilgáta er að TPO og FL hafi þau áhrif á þroska megakarýócýta að draga úr stýrðum frumudauða (apoptósu) og ýta þannig undir fjölgun þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif TPO og FL á þroskun megakarýócýta frá CD34+ frumum úr beinmerg með greiningu á tjáningu yfirborðssameinda og stýrðum frumudauða.

Efniviður og aðferðir: CD34+ frumur eru einangraðar úr beinmerg með mótefnahúðuðum segulkúlum og ræktaðar í serumfríu æti með og án vaxtarþátta. Frumur eru greindar í frumuflæðisjá (FCM) með mótefnum gegn CD41, CD34 og HLA-DR sameindum. Stýrður frumudauði er metinn í frumuflæðisjá með PI og Annexin-V litun.

Niðurstöður: Fjölgun náði hámarki á 14. degi með TPO og TPO/FL (9-falt vs 16-falt). Hlutfall CD41+CD34+ frumna, af heildarfjölda frumnanna, náði hámarki á sjöunda degi og var 26% í rækt með TPO og 16% með TPO/FL. Hlutfall CD41+CD34- frumna eftir 14 daga í rækt var 57% með TPO og 39% með TPO/FL. Hlutfall CD41+CD34- frumna eftir 21 dag í rækt var 77% með TPO og 56% með TPO/FL. Hlutfall frumna í stýrðum frumudauða (Annexin-V+PI-) eftir 14 daga í rækt var 23% með TPO og 21% með TPO/FL (p=1,106). Hlutfall frumna í stýrðum frumudauða eftir 21 dag í rækt var 53% með TPO og 41% með TPO/FL (p=0,003). CD34+ frumur ræktaðar án vaxtarþátta reyndust ekki lífvænlegar.

Ályktanir: TPO getur eitt og sér stuðlað að þroska CD41+ frumna (MK) úr CD34+ frumum úr beinmerg. FL í samvinnu við TPO eykur fjölda megakarýócýta-forverafrumna meira heldur en TPO eitt og sér, en hægir aftur á móti á þroskanum. Ekki var marktækur munur á stýrðum frumudauða eftir 14 daga en eftir 21 dag var munurinn orðinn marktækur. FL ásamt TPO virðist ekki hafa marktækt meiri vernd gegn stýrðum frumudauða en TPO eitt og sér nema á síðari þroskastigum.



E 34 Fylgikvillar og algengi IgA skorts

Guðmundur Jörgensen1, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Sveinn Guðmundsson2, Björn Rúnar Lúðvíksson3



1Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2Blóðbanki Íslands

Netfang: bjornlud@rsp.is



Inngangur: Skortur á IgA er einn algengast meðfæddi ónæmisgallinn og er algengið talið vera 1/324-1/1850 sem ræðst meðal annars af kynþætti og þjóðerni. Fylgikvillar IgA skorts virðast vera ofnæmi, sýkingar, sjálfofnæmissjúkdómar og krabbamein. Orsakir þessa og algengi eru hins vegar á reiki.

Efniviður og aðferðir: Til þess að meta algengi fylgikvilla IgA skorts hér á landi var eftirtalið þýði valið. Í fyrsta áfanga var skimað fyrir IgA skorti (<0,05 g/l) hjá heilbrigðum blóðgjöfum. Því næst var

skimað fyrir IgA skorti á öllum innsendum sýnum til Rannsóknastofu Háskólans í ónæmisfræði á tímabilinu 1992-2000. Í síðasta áfanga þessa hluta rannsóknarinnar var algengi sjúkdómseinkenna metið með stöðluðum spurningarlista og skoðun einstaklinga er greindust með IgA skort á Rannsóknastofunni.

Niðurstöður: Nú hefur verið skimað fyrir IgA skorti hjá 4004 blóðgjöfum. Af þeim hafa sjö einstaklingar greinst með IgA skort (algengi 1/572). Á Rannsóknastofu Háskólans í ónæmisfræði var IgA mælt hjá 3450 einstaklingum. Einungis reyndust 13 af þeim 35 sem höfðu IgA <0,05 g/l hafa meðfæddan IgA skort. Algengi sjúkdómseinkenna liggur nú fyrir hjá 11 þessara einstaklinga (sjö fullorðnum, fjórum börnum). Hjá þeim reyndust allir hafa óeðlilega tíðni sjúkdómseinkenna frá slímhúðum þar sem skútabólgur, hálsbólgur og tannholdsbólgur voru algengastar. Auk þess reyndust 9/11 (82%) vera með endurteknar sýkingar, þar af voru þrír á fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf, 5/11 (45%) reyndust hafa astma, 4/11 (36%) sólarexsem og 6/11 (55%) vera með sögu um ofnæmi. Skoðun leiddi í ljós minnkaða táraframleiðslu hjá 3/7 (43%) fullorðnum með IgA skort.

Ályktanir: Fylgikvillar IgA skorts kunna að vera algengari en áður hefur verið talið. Næstu áfangar rannsóknarinnar munu því beinast að því að meta enn frekar alengi sjúkdómseinkenna þar með talin astma og ofnæmistilhneigingar hjá einstaklingum með IgA skort. Ennfremur mun rannsóknin beinast að ættlægni og erfðaþáttum sjúkdómsins.





E 35 Þegar C4A skortur takmarkar styrk C3 brota á mótefnafléttum eykst áhætta á SLE

Kristín H. Traustadóttir1, Ásbjörn Sigfússon1, Kristján Steinsson2, Kristján Erlendsson1,2



1Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2lyflækningadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: kristtr@rsp.is



Inngangur: Einn af áhættuþáttum gigtsjúkdómsins Systemic lupus erythematosus (SLE) er skortur á komplementþætti C4A. Íslenskar mælingar sýna að C4A skortur er algengur í heilbrigðu þýði (25,3%), en þó algengari meðal SLE sjúklinga (46,9%). Fyrri rannsóknir okkar sýna að einstaklingar sem bæði hafa C4A skort og hækkaðan styrk mótefnafléttna í sermi eru líklegri til að fá SLE. Í þessari rannsókn var kannað nánar hvernig samspil þessara tveggja þátta eykur líkur á SLE.

Efniviður og aðferðir: Fimmtíu og einn einstaklingur var aðgreindur með tilliti til C4 arfgerða; 13 voru með arfhreinan skort á C4A (þar af fimm með SLE), 14 með arfblendinn skort og 24 voru ekki með C4A skort. ELISA var notuð til að mæla magn komplementbrota sem sitja föst á tilbúnum mótefnafléttum (hitaaggregeruðu IgG) og endurspegla þannig ræsingarhæfni sermisins. Til að meta áhrif komplementbrotanna var notuð Immune complex red cell binding assay, sem mælir tengingu komplementhúðaðra mótefnafléttna (Alkaline phosphatase (AP)-anti AP) við komplementviðtaka (CR1).

Niðurstöður: Magn C3 brota á mótefnafléttum er ráðandi þáttur í áhættu C4A skorts á SLE. Þegar styrkur C4A er takmarkandi, ákvarðast magn C3 brota á fléttunum af ræsingu C4A en ekki af heildarræsingu C4. Þegar styrkur mótefnafléttna í sermi er lágur, gengur jafnvel að tengja mótefnafléttur við CR1 á rauðum blóðkornum, í semri með C4A skort og í eðlilegu sermi. Hins vegar, þegar styrkur mótefnafléttna er hár, tengjast færri mótefnafléttur við CR1 í sermi sem skortir C4A, en í sermi með eðlilegt magn C4A.

Ályktanir: Mótefnafléttur í háum styrk í sermi með C4A skort trufla eigin bindingu við CR1. Styrkur komplementbrota á mótefnafléttum og tenging þeirra við viðtaka sína hefur áhrif bæði á fléttuflutning og einnig þroskun B frumna. Þetta getur útskýrt hvernig gallarnir tveir vinna saman að því að einkenni SLE komi fram.



E 36 Meðhöndlun mótefnafléttna er gölluð í sjúklingum með herslismein

Guðmundur Jóhann Arason1, Árni Jón Geirsson2, Ragnhildur Kolka1, Þóra Víkingsdóttir1, Helgi Valdimarsson1



1Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2lyflækningadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: garason@rsp.is



Inngangur: Fyrri rannsóknir benda til að ræsing á komplementkerfinu eigi sér stað í meinferli herslismeins (systemic sclerosis) og stungið hefur verið upp á að útfelling mótefnafléttna geti átt þátt í æðaskemmdum sem einkenna þennan sjúkdóm.

Efniviður og aðferðir: Við höfum rannsakað ýmsa þætti komplementkerfisins í 24 sjúklingum með herslismein. Hindrun á útfellingu mótefnafléttna (PIP=prevention of immune precipitation) var mæld með aðferð sem við höfum þróað, og ræsing kerfisins var metin með því að mæla magn C3d með ELISA aðferð. Arfgerð C4 var metin með prótínrafdrætti og mótefnafestingu. Þessar breytur voru bornar saman við CH50 og magn sameindanna C4, C4A, C4B, C1q og C3.

Niðurstöður: Hindrun á útfellingu mótefnafléttna reyndist verulega skert í sjúklingum með herslismein (p<0,001). Þessi skerðing reyndist vera marktækt meiri í þeim sjúklingum sem höfðu hlutaskort á C4A sameindinni samkvæmt prótínrafdrætti (p=0,03) og sterk fylgni fannst milli C4A magns og skertrar fléttumeðhöndlunar

(p =0,001). Gallinn sýndi einnig fylgni við C1q, C3 og CH50, en mun minni, og þessi fylgni gæti skýrst af fylgni milli þessara þátta og C4 magns. Gallinn virtist einkum áberandi snemma í sjúkdómnum og í mörgum sjúklingum virtist hann lagfærast með tímanum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að útfelling mótefnafléttna sé þáttur í æðaskemmd sjúklinga með herslismein. Hlutaskortur á C4A gæti að einhverju leyti skýrt þennan þátt meingerðarinnar. Frekari rannsókna er þörf til að skera úr um hvort þessi galli sé í orsakasamhengi við uppkomu sjúkdóms eða einstakra einkenna hans.



E 37 Nýrnamein í tegund 1 sykursýki á Íslandi

Geir Tryggvason1, Ástráður B. Hreiðarsson1,2,4, Runólfur Pálsson1,3,4



1Læknadeild HÍ, 2göngudeild sykursjúkra, 3nýrnadeild og 4lyflækningadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: runolfur@rsp.is



Inngangur: Hlutdeild sykursýkinýrnameins í lokastigsnýrnabilun hér á landi er mun minni en meðal annarra þjóða. Þessi rannsókn var gerð til að athuga safngengi (cumulative incidence) nýrnameins í sykursýki af tegund 1 og tengsl við blóðsykurstjórnun.

Efniviður og aðferðir: Rannsakaðir voru 557 sjúklingar á insúlínmeðferð sem mættu til eftirlits á göngudeild sykursjúkra á Landspítalanum á árunum 1991 til 1998. Allir sem greindust fyrir 1992 voru teknir með í rannsóknina og var aflað gagna um þá til loka árs 1998. Útilokaðir voru sjúklingar með tegund 2 sykursýki, meðgöngusykursýki og þeir einstaklingar sem greindust með sykursýki eftir þrítugt. Tvö hundruð og tíu sjúklingar mættu þessum skilyrðum. Við athugun á safngengi nýrnameins var sjúklingum skipt upp í fimm hópa eftir greiningarárum frá 1961 til 1985 (140 sjúklingar). Mælingar á glýkósíleruðu hemóglóbíni voru fyrirliggjandi hjá flestum sjúklingum sem greindust með sykursýki á árunum 1961-85. Vegna mæliskekkju var HbA1c mælingum frá 1994-1997 sleppt.

Niðurstöður: Eftir 20 ár með sykursýki var safngengi nýrnameins hjá sjúklingum sem greindir voru á árabilinu 1961-1965 17,7%, hjá sjúklingum greindum 1966-1970 var það 22,2% en hjá sjúklingum sem greinst höfðu á árunum 1971-1975 datt það niður í 11,5%. Hjá sjúklingum sem greindir voru á árabilinu 1976-1980 hækkaði safngengið síðan aftur upp í 21,4%. Meðaltal HbA1c hjá sjúklingum sem greindust á árunum 1961-1985 var 7,8%. Þegar tímabilið frá 1984-1993 og 1998 var skoðað sást marktækur munur á gildum hjá sjúklingum með nýrnamein og þeirra sem ekki voru með nýrnamein (8,3% á móti 7,6%, p=0,004).

Ályktanir: Safngengi nýrnameins í tegund 1 sykursýki er svipað og hjá öðrum Vesturlandaþjóðum. Safngengið hefur ekki breyst á undanförnum tveimur áratugum. Tengsl nýrnameins við lélega blóðsykurstjórnun koma skýrt fram.



E 38 Smásæ ristilbólga á Íslandi árin 1995-1999

Margrét Agnarsdóttir1, Ólafur Gunnlaugsson2, Kjartan B. Örvar3, Nick Cariglia4, Sigurbjörn Birgisson5, Sigurður Björnsson2, Þorgeir Þorgeirsson4, Jón Gunnlaugur Jónasson1,6



1Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 2Landspítali Fossvogi, 3St. Jósefsspítali Hafnarfirði, 4Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, 5Landspítali Hringbraut, 6læknadeild HÍ

Netfang: margragn@rsp.is



Inngangur: Smásæ ristilbólga er samnefni tveggja bólgusjúkdóma í ristli, collagenous colitis og lymphocytic colitis. Lítið er vitað um nýgengi þeirra en eitt helsta sjúkdómseinkennið er vatnsþunnur niðurgangur. Greining fæst eingöngu með smásjárskoðun sýna sem tekin eru úr ristilslímhúð. Tilgangur rannóknarinnar var að kanna nýgengi þeirra hér á landi, afla upplýsinga um staðsetningu þeirra í ristlinum og athuga ýmsa vefjameinafræðilega þætti.

Efniviður og aðferðir: Fundin voru fram vefjasvör allra einstaklinga á landinu sem greindir voru með eða grunur lék á að væru með smásæja ristilbólgu á tímabilinu 1995-1999. Alls var um að ræða sýni frá 193 einstaklingum. Vefjasýni allra voru endurskoðuð og metin með tilliti til sjúkdómsgreininga.

Niðurstöður: Alls reyndust sýni frá 125 einstaklingum uppfylla greiningarskilmerki. Þannig greindist 71 tilfelli af collagenous colitis og 54 tilfelli af lymphocytic colitis. Meðalnýgengi collagenous colitis á tímabilinu var 5,2/100.000 og fyrir konur sérstaklega 9,3/100.000. Meðalaldur við greiningu var 66,1 ár. Meðalnýgengi lymphocytic colitis á tímabilinu var 4,0/100.000 og fyrir konur sérstaklega 6,6/100.000. Meðalaldur við greiningu var 68,7 ár. Sýni sem tekin voru úr ristli reyndust oftar gefa greiningu sjúkdómanna en þau sem tekin voru úr endarþarmi.

Ályktanir: Nýgengi collagenous colitis og lymphocytic colitis er hátt hér á landi. Er nýgengi collagenous colitis það hæsta sem hingað til hefur verið skýrt frá. Til greiningar er rétt að gera fulla ristilspeglun og taka sýni víðs vegar úr slímhúðinni.



E 39 Magatæmingarrannsókn með ísótópatækni: stöðlun og ákvörðun viðmiðunargilda

Sigurbjörn Birgisson, Eysteinn Pétursson



Rannsóknastofa í meltingarsjúkdómum og ísótóparannsóknum Landspítala Hringbraut

Netfang: sigurbjb@rsp.is



Inngangur: Magatæmingarrannsókn með ísótópatækni (gastric emptying scintigraphy) telst besta aðferðin til að meta sjúklinga með einkenni um skerta magatæmingu og áhrif lyfja á tæmingu magans. Staðla þarf aðferðina á hverri stofnun áður en hún er notuð til rannsókna eða í læknisfræðilegum tilgangi. Aðferðin hefur ekki verið stöðluð á Íslandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að staðla aðferðina og ákvarða viðmiðunargildi.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu og fimm heilbrigðir sjálfboðaliðar (14 karlar), meðalaldur 38 ár (bil 20-62 ár). Magatæmingarrannsóknin var framkvæmd á svipaðan hátt og áður hefur verið lýst (Am J Gastroenterol 1995;90:869). Máltíð: eggjasamloka (332 kaloríur, 16g fita, 16g prótín og 31g kolvetni), merkt með 0,3mCi 99mTc-tin colloid, ásamt 200 ml vatns er snædd innan 10 mínútna. Strax að lokinni máltíðinni og síðan á 15 mínútna fresti er kviðurinn myndaður í uppréttri stöðu að framan og aftan með gammamyndavél í um fjórar klukkustundir. Ísótópavirka svæðið svarandi til magans er afmarkað með aðstoð tölvu og ísótópavirkni magasvæðisins mæld fyrir hverja mynd og virknin leiðrétt fyrir rúmfræðilegum breytingum og eðlislægri minnkun á virkni ísótópsins með tímanum.

Niðurstöður: Það tók að meðaltali 7,3 mínútur (bil 3-11 mín) að ljúka máltíðinni. Miðgildis helmingunartími magatæmingar (t1/2) var 95 mínútur ((21,0), 90 persentíli og 95 persentíli var 120 og 132 mínútur. Eftir 120 mínútur voru að meðaltali 33,4% ((13,7) eftir í maganum, 90 persentíli og 95 persentíli voru 50 og 56%. Enginn marktækur munur var á magatæmingu karla og kvenna.

Ályktanir: Rannsókn á magatæmingu fastrar fæðu með ísótópatækni hefur verið stöðluð og viðmiðunargildi fyrir bæði kynin fengin. Niðurstöðurnar eru í samræmi við erlendar rannsóknir þar sem svipu aðferð er notuð.



E 40 Samanburður á áhrifum Lanser® og Lanzo® á sólarhrings sýrumælingu í maga

Sigurbjörn Birgisson, Anna Soffía Guðmundsdóttir



Rannsóknarstofa í meltingarsjúkdómum Landspítala í Hringbraut

Netfang: sigurbjb@rsp.is



Inngangur: Sumar lyfjafræðilegar rannsóknir benda til að ómeprazól samheitalyf séu lakari að gæðum en frumlyfin. Íslensk rannsókn (Læknablaðið 1997;83:368) sýndi þó að samheitalyfið Lómex® var jafnvirkt og frumlyfið Losec® hvað sýrubælingu í maga varðar. Engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar á lansóprazóli. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman virkni samheitalyfsins Lanser® (Omega Farma) og frumlyfsisns Lanzo® (Wyeth Lederle).

Efniviður og aðferðir: Tólf heilbrigðir sjálboðaliðar (átta konur), meðalaldur 32 ár (bil 18-47) fóru í þrjár sólarhrings sýrustigsmælingar í maga (sýrunemar staðsettir 10 sm ofan í maga, staðsetning ákvörðuð með þrýstingsmælingu í vélinda). Rannsóknin var blinduð slembirannsókn með krossuðu sniði. Fyrst var gerð viðmiðunarmæling án lyfja og mæling endurtekin eftir sjö daga meðferð með Lanser® eða Lanzo® 30 mg/dag með sjö daga hléi á milli lyfja.

Niðurstöður: Bæði lyfin sýndu marktæka sýrubælingu maga (p<0,001). Enginn marktækur munur var á sýrubælingu Lanser® eða Lanzo® (p>0,05).



Sólarhrings sýrumæling í maga (n=12), miðgildi (±SD).

Heildar % pH >3 Heildar % pH >4 Heildar % pH >5

Án lyfja 17,5 (±6,3) 9,5 (±5,5) 4,2 (±3,4)

Lanser® 69,8 (±12,3) 63,6 (±14,4) 49,1 (±15,6)

Lanzo® 72,7 (±11,6) 66,3 (±14,4) 57,8 (±18,2)



Miðgildissýrustig í maga hækkaði marktækt á meðferð, var 1,7 (±0,2) án lyfja en 4,9 (±1,0) á Lanser® og 5,2 (±0,9) á Lanzo®.

Ályktanir: Virkni Lanser® og Lanzo® er sambærileg og mjög kröftug hvað varðar sýrubælingu í maga. Magn og lengd sýrubælingar lyfjanna hefur klíníska þýðingu í meðferð sýrutengdra kvilla. Niðurstöðurnar eru sambærilegar innlendum og erlendum rannsóknum á prótónpumpublokkara lyfjum.



E 41 Samanburður á áhrifum Lanser® og Lanzo® á sólarhrings sýrumælingu í vélindi

Sigurbjörn Birgisson, Anna Soffía Guðmundsdóttir



Frá rannsóknarstofa í meltingarsjúkdómum Landspítala Hringbraut

Netfang: sigurbjb@rsp.is



Inngangur: Um 15% sjúklinga með bakflæðiseinkenni hafa sýrunæmt vélindi (acid sensitive esophagus), það er að segja engin merki um bakflæði í vélindisspeglun og fýsíólógískt (eðlilegt) magn af sýrubakflæði í sólarhrings sýrumælingu. Einkenni þeirra geta verið jafnslæm og þeirra sem hafa vélindisbólgur. Engar rannsóknir eru fyrirliggjandi um áhrif prótónpumpublokka á fýsíólógískt sýrubakflæði. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman áhrif samheitalyfsins Lanser® (Omega Farma) og frumlyfsins Lanzo®

(Wyeth Lederle) með sýrumælingu í vélindi og meta áhrif þeirra á fýsíólógískt sýrubakflæði.

Efniviður og aðferðir: Tólf heilbrigðir sjálfboðaliðar (átta konur), meðalaldur 32 ár (bil 18-47) fóru í þrjár sólarhrings sýrustigsmælingar í maga (sýrunemar staðsettir 5 sm ofan við neðri hringvöðva vélindis, staðsetning ákvörðuð með þrýstingsmælingu í vélindi). Rannsóknin var blinduð slembirannsókn með krossuðu sniði. Fyrst var gerð viðmiðunarmæling án lyfja og mæling endurtekin eftir sjö daga meðferð með Lanser® eða Lanzo® 30 mg/dag með sjö daga hléi á milli lyfja.

Niðurstöður: Bæði lyfin sýndu marktæka sýrubælingu í vélindi (p<0,005). Enginn marktækur munur var á sýrubælingu Lanser® eða Lanzo® (p>0,05).



Sólarhrings sýrumæling í vélindi (n=12), miðgildi (±SD).

Heildartími Fjöldi bak- Heildar % pH<4 (mín) pH <4 flæðistilvika

Án lyfja 2,5 (±3,1) 33,0 (±40,0) 74 (±42,7)

Lanser® 0,4 (±0,6) 4,0 (±8,3) 8,5 (±15,9)



Miðgildissýrustig vélindis breyttist ekki marktækt á meðferð, var 6,5 (±0,6) án lyfja en 6,6 (±0,6) á Lanser® og 6,8 (±0,5) á Lanzo®.

Ályktanir: Virkni Lanser® og Lanzo® er sambærileg hvað varðar sýrubælingu í vélindi og hefur klíníska þýðingu í meðferð sjúklinga með sýrunæmt vélindi (acid sensitive esophagus).



E 42 Samanburður á lungnastarfsemi og þoli heilbrigðra og einstaklinga með hryggikt

Marta Guðjónsdóttir1,2, Björn Magnússon3, Kári Sigurbergsson1, Árni J. Geirsson4, Kristján Steinsson4



1Reykjalundur, 2læknadeild HÍ, 3Fjórðungssjúkrahúsið Neskaupstað, 4Landspítali Hringbraut

Netfang: Marta@REYKJALUNDUR.is.



Inngangur: Lungnarýmd (VC) einstaklinga með hryggikt (lat. spondylitis ankylopoetica) getur lækkað vegna skerðingar á hreyfanleika brjóstkassa (Qurterly J Med 1962;31:272-3). Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif þess á þol þessara einstaklinga.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu og sex sjálfboðaliðar með hryggikt (New York skilmerki) voru paraðir við 26 heilbrigða einstaklinga af sama aldri, kyni og hæð og sem stunduðu sambærilega þjálfun. Enginn munur fannst á milli hópanna með tilliti til þátta sem parað var fyrir.

Mældur var hreyfanleiki hryggjar og brjóstkassa hjá hryggiktarhópnum með stöðluðum aðferðum. Hjá báðum hópunum var mæld flæðirúmálslykkja (FVC og FEV1), heildarúmmál lungna (TLC), hámarksöndunargeta (MVV) og innöndunargeta (IC). Allir fóru í hámarksþolpróf, þar sem mæld var öndun (V'E), súrefnisupptaka (V'O2) og koldíoxíðútskilnaður (V'CO2). Parað t-próf var notað til að bera hópana saman.

Niðurstöður: Í töflunni hér að neðan má sjá helstu niðurstöður (meðaltal ± staðalfrávik).



VC IC MVV V'E, hám VT, hám V'O2, hám (L) (L) (L/mín) (L/min) (L) (L/mín)

Hryggiktar- 4,7±1,0 3,2±0,7 150±35 89±22 2,4±0,5 2,6±0,7

hópur

Viðmiðunar- 5,7±1,0* 3,8±0,7* 170±33* 104±25* 2,8±0,6* 3,0±0,7*

hópur

*p<0,05 viðmiðunarhópurinn borinn saman við hryggiktarhópinn

VT= andrýmd (tidal volume)

hám= við hámarksálag



Enginn munur fannst á öndunar- og púlsleif við hámarksálag hjá hópunum. Hreyfanleiki brjóstkassa hjá hryggiktarhópnum sýndi marktæk vensl við VT, hám og V'O2, hám.

Ályktanir: Hryggiktarhópurinn í þessari rannsókn hafði væga herpu á öndunarmælingum og skert þol á þolprófum samanborið við heilbrigðan viðmiðunarhóp. Skertur hreyfanleiki brjóstkassa gæti skýrt lægri öndun (V'E, hám) við hámarksálag.



E 43 Áhrif sex vikna reykbindindis á öndunarmælingar fólks sem kemur til lungnaendurhæfingar

Hans Jakob Beck, Marta Guðjónsdóttir



Lungnadeild Reykjalundar

Netfang: hansib@isholf.is



Inngangur: Vitað er að þjálfun og fræðsla lungnasjúklinga í endurhæfingu hefur engin áhrif á sekúndufráblástur (FEV1). Margir hætta reykingum við komu til lungnaendurhæfingar á Reykjalund, þar sem gerð er krafa um algert reykleysi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif reykbindindis í sex til sjö vikna langri endurhæfingu á öndunargetu.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingar, sem lögðust inn á lungnadeild Reykjalundar á 12 mánaða tímabili og höfðu reykt fram að innlögn voru öndunarmældir við komu og fyrir brottför eftir hlé á töku berkjuvíkkandi innúðalyfja. Þeir sem voru á slíkri meðferð voru einnig mældir eftir lyfjatöku.

Niðurstöður: Alls voru 56 manns, sem hættu reykingum við komu. Af ýmsum ástæðum voru 11 ekki mældir fyrir útskrift en í rannsóknarhópunum voru 45 manns, 13 karlar og 32 konur meðalaldur 60±11 ár. Þeir sem voru á meðferð með berkjuvíkkandi innúðalyfjum (n=41) voru einnig mældir eftir lyfjatöku, tveimur til þremur dögum eftir fyrstu mælingu. Sjá niðurstöður í töflu. Þeir sem svöruðu lyfjameðferð bættu FEV1 marktækt meira en þeir sem ekki svöruðu lyfjameðferð (p<0,001).



Allir Svara lyfjum* Svara ekki lyfjum* n = 45 n = 21 n = 20

Koma FEV1 1,49±0,60 1,23±0,43 1,69±0,62

FEV1% 60±23 48±16 70±24

Útskrift FEV1 1,71±0,57 1,52±0,45 1,84±0,632

FEV1% 69±21 59±16 76±24

* Samkvæmt skilmerjum ATS: FEV1 eykst um 12% og að minnsta kosti 200 ml.



Ályktanir: Reykbindindi við komu til lungnaendurhæfingar bætir öndunargetu marktækt hjá öllum hópnum, en mest hjá þeim einstaklingum sem svara berkjuvíkkandi lyfjum.



E 44 Langtímahorfur karla og kvenna með háþrýsting og áhrif meðferðar. Rannsókn Hjartaverndar

Lárus S. Guðmundsson1, Guðmundur Þorgeirsson1, Magnús Jóhannsson1, Nikulás Sigfússon2, Helgi Sigvaldason1, Jacqueline C. M. Witteman3



1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 2Hjartavernd, 3Dpt of Epidemiology and Biostatistics, Erasmus University Medical School, Rotterdam, Netherlands

Netfang: magjoh@hi.is



Inngangur: Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að ákvarða áhrif meðferðar við háþrýstingi í hóprannsókn Hjartaverndar á 14 923 körlum og 15 872 konum sem fylgt var eftir í allt að 30 ár.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru fæddir á árunum 1907 til 1935. Rannsóknin var framkvæmd í sex þrepum og við inntöku var hver einstaklingur greindur með eðlilegan eða háan blóðþrýsting. Þeir sem voru með háþrýsting voru flokkaðir í þrjá flokka: 1) á meðferð og með eðlilegan blóðþrýsting, 2) á meðferð og með of háan blóðþrýsting og 3) án meðferðar. Þessi flokkun hélst óbreytt alla rannsóknina. Endapunktar voru hjartadrep, dauði vegna hjarta- og æðasjúkdóma og dauði af hvaða orsök sem er. Notuð var tímaháð Cox aðhvarfsgreining til að reikna áhættuhlutfall fyrir hina ólíku hópa með háþrýsting og með þá sem höfðu eðlilegan blóðþrýsting sem viðmiðunarhóp. Leiðrétt var fyrir aldri og ári inntöku í rannsóknina og samsettri áhættu þar sem það átti við.

Niðurstöður: Áhættuhlutfall fyrir hjartadrep og dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóms fór lækkandi fyrstu 10 ár eftirfylgnitímabils hjá hópnum sem fékk árangursríka meðferð en hafði tilhneigingu til að hækka hjá hópunum sem fengu enga eða ófullnægjandi meðferð. Þetta var greinilegra hjá körlum en konum. Við eftirfylgni í meira en 10 ár fór munurinn á milli hópa minnkandi, sennilega vegna flutnings einstaklinga á milli hópa.

Ályktanir: Í faraldsfræðilegri hóprannsókn með langtíma eftirfylgni sást árangur árangursríkrar meðferðar við háþrýstingi, fyrstu 10 ár eftirfylgnitímabils, á hjartadrep og dauða vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Í upphafi rannsóknar höfðu karlar sem fengu háþrýstingsmeðferð marktækt verri horfur vegna áhættuþátta en þeir sem ekki fengu meðferð.



E 45 Áhættuþættir skyndilegs hjartadauða

Gestur Þorgeirsson1, Helgi Sigvaldason2, Guðmundur Þorgeirsson,2,3



1Landspítali Fossvogi, 2Rannsóknarstofa Hjartaverndar, 3Landspítali Hringbraut

Netfang: gesturth@shr.is



Inngangur: Rannsókn Hjartaverndar er framskyggn ferilrannsókn sem hófst 1967 og hefur meðal annars veitt haldgóðar upplýsingar um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hvort í hóprannsóknarþýði Hjartaverndar sé unnt að greina áhættuþætti skyndilegs hjartadauða eða hjartastopps.

Efniviður og aðferðir: Í tengslum við rekstur neyðarbíls við slysa- og bráðdeild Landspítalans hefur frá árinu 1982 verið haldin skrá yfir einstaklinga á Reykjavíkursvæðinu sem áhöfn bílsins hefur vitjað vegna hjartastopps. Hér eru til athugunar hjartastoppstilfelli utan sjúkrahúsa frá árabilinu 1987-1996. Að fengnu leyfi Vísindasiðanefndar og Tölvunefndar var kannað hverjir þessara einstaklinga hefðu tekið þátt í rannsókn Hjartaverndar. Samband hinna ýmsu áhættuþátta og skyndilegs hjartadauða var könnuð í úrtaki 8007 karla og 9435 kvenna sem voru á lífi þegar rekstur hjartabílsins hófst. Meðal karlanna hafði 171 verið vitjað vegna skyndilegs hjartadauða en 47 kvennanna. Sjálfstætt vægi hinna ýmsu áhættuþátta var metið með tímaháðri aðhvarfsgreiningu Cox.

Niðurstöður: Meðal karla reyndust aldur, kólesteról, þríglýseríðar, taka háþrýstingslyfja, líkamsþungi, þekkt hjartadrep, þögult (verkjalaust) hjartadrep og þöglar ST-T breytingar í hjartariti vera tölfræðilega marktækir sjálfstæðir áhættuþættir skyndilegs hjartadauða. Meðal kvenna voru miklu færri tilfelli og tölfræðilegur styrkur því minni. Tölfræðilega marktækir sjálfstæðir áhættuþættir reyndust þó vera: kólesteról, þríglýseríðar, slagbilsþrýstingur, reykingar meiri en 25 sígarettur á dag, þyngd og angina pectoris.

Ályktanir: Í almennu þýði úr samfélaginu eru þekktir áhættuþættir kransæðasjúkdóms sem og fyrri einkenni kransæðasjúkdóms helstu áhættuþættir skyndilegs hjartadauða.



E 46 Áhætta á kransæðasjúkdómi í fjölskyldum með fjölskyldulæga blandaða blóðfituhækkun

Bolli Þórsson1, Anna Helgadóttir2, Harpa Rúnarsdóttir2, Helgi Sigvaldason1, Gunnar Sigurðsson1,3, Vilmundur Guðnason1,3



1Hjartavend, 2Íslensk erfðagreining, 3læknadeild HÍ

Netfang: bolli@hjarta.is



Inngangur: Fjölskyldulæg blönduð blóðfituhækkun (familial combined hyperlipidemia, FCH) er erfðasjúkdómur sem einkennist af háu kólesteróli, þríglýseríðum eða hvoru tveggja hjá einstaklingum í sömu fjölskyldu. Talið er að um 20-30% einstaklinga sem fá kransæðastíflu fyrir 65 ára aldur hafi fjölskyldulæga blandaða blóðfituhækkun. Tilgangur rannsóknarinnar er að rannsaka faraldsfræði og erfðafræði fjölskyldulægrar blandaðrar blóðfituhækkunar á Íslandi og skima fyrir sjúkdómnum vegna aukinnar áhættu á kransæðasjúkdómi hjá einstaklingum með fjölskyldulæga blandaða blóðfituhækkun.

Efniviður og aðferðir: Gagnagrunnur Hjartaverndar (um 53 þúsund einstaklingar) var notaður til að finna upphafseinstaklinga (probanda) í rannsóknina. Upphafseinstaklingar höfðu kólesteról yfir 90. percentíli og þríglýseríð yfir 95. percentíli miðað við aldur og kyn. Ættrakning var gerð hjá Íslendingabók Íslenskrar erfðagreiningar. Hlutfallslegt áhætta á kransæðastíflu var reiknuð út frá heildarskráningu kransæðastíflu á Íslandi frá 1981-1992 fyrir upphafseinstaklinga. Nýgengi var reiknað fyrir aðra einstaklinga í ættum þar sem fjölskyldulæg blönduð blóðfituhækkun var algeng.

Niðurstöður: Heildarfjöldi upphafseinstaklinga var 1045. Hlutfallsleg áhætta á kransæðastíflu hjá upphafseinstaklingum reyndist á bilinu 2,2-5,8 eftir aldurshópum og var áhættan mest hjá yngsta aldurshópnum fæddum á árunum 1938-1947 (5,8; 95% öryggisbil 2,5-13,3). Nýgengi annarra einstaklinga í ættum með fjölskyldulæga blandaða blóðfituhækkun var um tvöfalt þess sem vænta mátti í almennu þýði.

Ályktanir: Hlutfallsleg áhætta á kransæðasjúkdómi er verulega aukin hjá einstaklingum með blandaða blóðfituhækkun einkum hjá einstaklingum yngri en 65 ára sem er í samræmi við erlendar niðurstöður. Þessi aukna áhætta undirstrikar þörf á sjúkdómsgreinandi prófi og nauðsyn skimunar fyrir sjúkdómnum í ættum þar sem kransæðasjúkdómur eða blóðfituhækkun er algeng.



E 47 Fjölskyldusaga um kransæðastíflu er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir kransæðastíflu

Margrét B. Andrésdóttir1, Gunnar Sigurðsson1,2, Helgi Sigvaldason1, Uggi Agnarsson1,2, Vilmundur Guðnason1



1Rannsóknarstöð Hjartaverndar, 2Landspítali Fossvogi

Netfang: margret@hjarta.is

Inngangur: Á síðastliðnum áratugum hafa komið fram ýmsir áhættuþættir fyrir kransæðasjúkdóma eins og hækkaður blóðþrýstingur, blóðfitubrenglun og reykingar. Einnig eru kransæðasjúkdómar í nánum ættingjum tengdir aukinni áhættu. Þar sem hinir vel þekktu áhættuþættir eru einnig að nokkru leyti fjölskyldulægir er hins vegar óljóst hver sjálfstæð áhrif fjölskyldusögu eru.

Efniviðir og aðferðir: Til að kanna sjálfstæð áhrif ættarsögu á kransæðastíflu (MI) voru notaðar niðurstöður úr hóprannsókn Hjartaverndar. Upplýsingar um ættarsögu voru fengnar úr spurningalistum. Spurt var hvort ættingjar (foreldrar eða systkini) hafi fengið kransæðastíflu (já, nei, veit ekki). Leiðrétt var fyrir kólesteróli, þríglýseríðum, sykursýki, blóðþrýstingi, hæð, þyngd, reykingum og menntun. Hlutfallsleg áhætta (relative risk) og áhættuhlutdeild (attributable risk) ættarsögu eru reiknuð miðað við næstu 10 ár eftir mælingu. Leiðrétt er fyrir öðrum áhættuþáttum með fjölþátta aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Alls tóku 17 615 einstaklingar þátt í rannsókninni (8904 karlar og 9711 konur). Meðalaldur karla við skoðun var 52,1 ár og kvenna 53,2 ár. Niðurstöður eru sýndar í töflu hér að neðan:



Tafla I. Hlufallsleg áhætta (95% öryggisbil) og áhættuhlutdeild ættarsögu.

Fjölskyldusaga Leiðrétt fyrir aldri og ártali Leiðrétt fyrir öðrum áhættuþáttum

um MI* Karlar Konur Karlar Konur

Nei 1 1 1 1

Já 1,85 (1,54-2,22) 1,80 (1,35-2,40) 1,75 (1,46-2,10) 1,53 (1,14-2,05)

Veit ekki 1,33 (1,12-1,59) 1,39 (1,03-1,87) 1,27 (1,06-1,52) 1,24 (0,92-1,67)

Áhættu-

hlutdeild % 17 20 15 14

* MI = kransæðastífla



Ályktanir: Fjölskyldusaga um kransæðastíflu er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir kransæðastíflu hjá körlum og konum. Þeir sem vita um slíka ættarsögu eru í 80-85% meiri áhættu en þeir sem vita að um slíkt er ekki að ræða. Tæp 20 af hverjum 100 tilfellum af kransæðastíflu er hægt að skýra út frá ættarsögu, sé ekki tekið tillit til annarra þekktra áhættuþátta, en um 15 af hverjum 100 tilfellum, sé leiðrétt fyrir þeim. Þessar niðurstöður benda til að enn óútskýrður erfðaþáttur sé mikilvægur í tilurð kransæðastíflu.



E 48 Fólk sem fær kransæðastíflu fyrir 70 ára aldur hefur tiltölulega lága Mannose Binding Lectin þéttni í sermi

Óskar Örn Óskarsson1, Þóra Víkingsdóttir1, Guðný Eiríksdóttir2, Vilmundur Guðnason2, Helgi Valdimarsson1



1Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2Hjartavernd

Netfang: helgiv@rsp.is



Inngangur: Mannose-binding lectin (MBL) er hluti hins ósértæka ónæmiskerfis. MBL binst sykrum á yfirborði ákveðinna sýkla og stuðlar að eyðingu þeirra, aðallega gegnum komplementvirkjun. Skortur á MBL er algengur og getur stafað af stökkbreytingum í byggingargeni og/eða breytileika í stýriröð. Ýmislegt bendir til þess að bólga og sýkingar geti átt þátt í myndun kransæðasjúkdóms. C. pneumonia er ein þeirra örvera sem hafa verið tengdar þessum sjúkdómi, en vitað er að MBL getur stuðlað að eyðingu hennar. Vísbendingar hafa komið fram um að stökkbreytingar í MBL-geninu séu algengari meðal kransæðasjúklinga en viðmiðunarhóps. Við athuguðum hvort MBL-þéttni væri lægri meðal kransæðasjúklinga en hjá viðmiðunarhópi án sjúkdómsins.

Efniviður og aðferðir: Mæld var MBL-þéttni í blóðsýnum úr 528 sjúklingum sem höfðu fengið kransæðastíflu á aldrinum 37 til 70 ára. Viðmiðunarhópur voru 582 einstaklingar sem höfðu ekki fengið kransæðastíflu fyrir 70 ára aldur.

Niðurstöður: Miðgildi MBL-þéttni hjá kransæðasjúklingunum var marktækt lægra en viðmiðunarhópsins (893ng/ml vs 1161ng/ml; p=0,001). Marktækt fleiri kransæðasjúklingar reyndust vera með MBL-gildi undir 500ng/ml (p=0,039), en munurinn var þó ennþá meiri þegar miðað var við 1000ng/ml (p=0,0006).

Ályktanir: Fólk með tiltölulega lága MBL-þéttni virðist frekar fá kransæðastíflu en fólk með háan MBL-styrk. Ástæðan gæti verið sú að einstaklingar með lágt MBL fái frekar þrálátar sýkingar ef völdum C. pneumoniae eða annarra örvera sem binda MBL. Talið er að MBL-þéttni þurfi að vera um 500ng/ml til þess að geta bundist örverum að því marki að komplement virkist in vitro. Hugsanlegt er að hærri MBL-þéttni þurfi in vivo.



E 49 Örvun MAP-kínasa í æðaþelsfrumum

Haraldur Halldórsson, Frank R. Verheijen, Guðmundur Þorgeirsson



Rannsóknarstofa í lyfjafræði, lyflækningadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: gudmth@rsp.is



Inngangur: MAP-kínasar miðla ýmsum boðum frá úthimnuviðtökum til umfrymis og kjarna þar sem þeir virkja meðal annars ýmsa umritunarþætti og hafa þannig áhrif á fjölgun, sérhæfingu og dauða. Best þekkta boðleiðin frá úthimnuviðtaka til MAP-kínasa er örvun ERK eftir meðhöndlun með vaxtarþáttum sem bindast týrósínkínasa-viðtökum. Örvun JNK og p38 og boðleiðir frá öðrum viðtökum eru að mestu óþekktar. Einnig virðast boðleiðirnar mjög háðar frumugerð og sérhæfingu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna hlutverk arakídónsýru og afleiða hennar sem og hliðarvirkni eða transactíveringu í örvun MAP-kínasa í æðaþelsfrumum.

Efniviður og aðferðir: Æðaþelsfrumur voru ræktaðar úr bláæðum naflastrengja og þegar samfelldu gróðurlagi var náð voru frumurnar meðhöndlaðar með ýmsum áverkunarefnum og stundum einnig með hindrum ákveðinna boðleiða. Eftir rafdrátt var virkjun MAP-kínasa metin með mótefnum sem greina fosfóraða MAP-kínasa.

Niðurstöður: Eftir meðhöndlun frumnanna með MAFP, sem hindrar cPLA2, varð hindrun á fosfórun allra MAP-kínasanna eftir örvun með histamíni, trombíni, EGF (epidermal growth factor) eða TPA (örvar protín kínasa C, PKC). Meðhöndlun með arakídónsýru gaf litla svörun og ýmsar afleiður arakídónsýru hafa gefið lítil eða engin svör. Thyrphostin 1978 sem hindrar fosfórun EGF-viðtakans hafði engin áhrif á örvun MAP-kínasa með öðrum áverkunarefnum en EGF.

Ályktanir: Öll áreiti sem örva MAP-kínasa í æðaþelsfrumum eru háð virkni cPLA2 en ekki er ljóst hvaða myndefni hans miðla boðunum. Hliðarvirkjun eða transactívering EGF-viðtaka virðist ekki koma við sögu. Þátttaka PKC og týrósínkínasa er mismunandi eftir áreiti.



E 50 Dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma er aukin á meðal kvenna sem greinst hafa með háþrýstingssjúkdóm í meðgöngu

Gerður A. Árnadóttir, Reynir Tómas Geirsson, Lilja S. Jónsdóttir, Reynir Arngrímsson



Kvennadeild Landspítala Hringbraut, Hjartavernd, erfðalæknisfræði HÍ

Netfang: reynirar@hi.is



Inngangur: Tilgáta um tengsl milli háþrýstingssjúkdóms í meðgöngu og hjarta- og æðasjúkdóma síðar á ævinni var sett fram og prófuð.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1931-1947 fæddu 7453 konur á Landspítalanum og af þeim reyndust 325 hafa háþrýstingssjúkdóm í meðgöngu (bþ>140/90; eftir 20. viku meðgöngu). Öll tilfellin voru flokkuð eftir alvarleika í hækkaðan blóðþrýsting, hækkaðan blóðþrýsting með prótíni í þvagi (meðgöngueitrun) eða hækkaðan blóðþrýsting og fæðingarkrampa. Valdar voru konur sem fæddu næst á undan eða eftir tilfellinu sem viðmið og höfðu þær hvorki haft hækkaðan blóðþrýsting i meðgöngu, prótín í þvagi eða fæðingarkrampa. Í viðmiðunarhóp völdust 629 konur sem voru jafngamlar og áttu jafn mörg börn fyrir meðgöngu. Upplýsingar um hvort konurnar voru á lífi eða látnar fengust hjá Hagstofunni. Dánarvottorð, krufningarskýrslur og sjúkraskýrslur kvennanna voru yfirfarnar og dánarorsök skráð. Lifun var reiknuð frá meðgönguári. Hlutfallsleg áhætta og 95% vikmörk voru notuð til að bera saman hópana.

Niðurstöður: Meðaleftirfylgnitími var 38 ár fyrir tilfelli og 44 ár í samanburðarhópnum. Heildardánarhlutfall kvenna sem fengið höfðu háþrýstingssjúkdóm í meðgöngu var 60% og 52% hjá viðmiðum (RR 1,13; CI 0,91-1,42). Dánarorsök mátti rekja til kransæðasjúkdóms í tæpum helmingi tilfella hjá konum með sögu um háþrýstingssjúkdóm í meðgöngu en 28% í samanburðarhópi (RR 1,45; CI 1,02-2,05; p<0,04), en engan marktækan mun var að finna á krabbameini (RR 1,07; CI 0,74-1,55). Dánartíðni vegna heilaæðasjúkdóms var 16% hjá tilfellum en 12% í samanburðarhópi (RR 1,29; CI 0,78-2,12). Hækkaður blóðþrýstingur í kjölfar meðgöngunar (síðar á ævinni) hafði greinst hjá 40% kvenna með sögu um háþrýstiningssjúkdóm í meðgöngu en aðeins 9% tilfella í viðmiðunarhópi (RR 4,24; CI 2,75-6,52; p<0,0001). Heildardánartíðni fyrir 65 ára aldur var 50% hærri hjá konum í tilfellahópi en í viðmiðunarhópi.

Ályktanir: Aukin tíðni er á hækkuðum blóðþrýstingi og dánartíðni af völdum kransæðasjúkdóms er hækkuð hjá konum með sögu um háþrýstingssjúkdóm í meðgöngu. Að meðaltali eru ævilíkur þessara kvenna styttar um fimm til sjö ár. Mikilvægt er að konur sem veikjast af háum blóðþrýstingi í meðgöngu fái viðeigandi ráðgjöf og eftirlit til að minnka líkur á veikindum síðar á ævinni.



E 51 Forspárgildi gigtarþáttar og reykinga í nýbyrjaðri iktsýki

Valdís Manfreðsdóttir1, Þóra Víkingsdóttir1, Helgi Valdimarsson1, Þorbjörn Jónsson1, Árni Jón Geirsson2, Arnór Víkingsson1,2



1Rannsóknarstofa Háskólans í ónæmisfræði, 2gigtarskor Landspítala Hringbraut

Netfang: arnor@rsp.is



Inngangur: Iktsýki einkennist af langvinnum fjölliðabólgum sem í mörgum tilvikum leiðir til liðskemmda, örorku og dregur jafnvel úr lífslíkum. Vaxandi áhersla er lögð á að greina sem fyrst þá sjúklinga sem hafa verri sjúkdómshorfur svo að hægt sé að meðhöndla þá kröftuglega. Góða mælikvarða til að spá fyrir um sjúkdómshorfur hefur hins vegar vantað, ekki síst vegna þess að flestar rannsóknirnar hafa verið afturskyggnar eða þversniðsrannsóknir gerðar á sjúklingum með langtgenginn sjúkdóm.

Tilgangur þessarar framvirku rannsóknar var að greina þætti við upphaf meðferðar sem hefðu forspárgildi fyrir illvígari sjúkdómi.

Efniviður og aðferðir: Nýgreindir sjúklingar með samhverfar fjölliðabólgur komu í skoðun á göngudeild Landspítala Hringbraut þar sem atriði úr sjúkrasögu, heilsufarssögu og skoðun voru skráð og framkvæmt nákvæmt liðamat. Gigtarþáttur var mældur með ísótýpu sértækri ELISU og röntgenmyndir af höndum og fótum voru teknar til að meta liðskemmdir. Rannsóknin er framskyggn og komu þátttakendur til mats við greiningu sjúkdóms og síðan sex, 12 og 24 mánuðum eftir upphaf meðferðar.

Niðurstöður: Nú hefur 171 nýgreindur sjúklingur með fjölliðabólgur hafið þátttöku í rannsókninni. Níutíu og fjórir þeirra uppfylla skilmerki bandarísku gigtlæknasamtakanna um iktsýki og þar af hefur 84 sjúklingum verið fylgt eftir í sex mánuði eða lengur.

Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að liðagigtarsjúklingar sem höfðu jákvæðan IgA gigtarþáttur við fyrstu komu fái meiri liðskemmdir á fyrstu sex mánuðum lyfjameðferðar. Sjúklingar sem reykja eða hafa reykt voru oftar með jákvæðan IgA gigtarþátt og núverandi reykingamenn virtust svara verr lyfjameðferð fyrstu sex mánuði meðferðar.

Á ráðstefnunni verður sagt frá endanlegum niðurstöðum rannsóknarinnar en þær munu liggja fyrir í desember 2000.



E 52 Framskyggn rannsókn á byrjandi iktsýki (RA) bendir til að sjúklingar með lágt mannose binding lectin (MBL) fái verri sjúkdóm

Sædís Sævarsdóttir1, Þóra Víkingsdóttir1, Arnór Víkingsson1,2, Valdís Manfreðsdóttir1, Árni Jón Geirsson2, Helgi Valdimarsson1



1Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2gigtarskor Landspítala Hringbraut

Netfang: helgiv@rsp.is



Inngangur: Mannose binding lectin (MBL) er prótín sem getur virkjað komplementkerfið ef það binst sykrum á yfirborði vissra örvera eða mótefnafléttna og þannig stuðlað að útrýmingu þeirra. MBL skortur er algengur og hefur fundist fylgni við sýkingar en einnig við úrátur í langt genginni iktsýki. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga hvort lágt MBL tengist slæmum horfum í iktsýki og hvort iktsýkisjúklingar hafa aukna tíðni á MBL skorti.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingar með samhverfa fjölliðabólgu (<1 ár) voru teknir inn ef þeir höfðu ekki verið meðhöndlaðir lengur en tvær vikur með lyfjum er hafa áhrif á sjúkdómsgang. Eftir sex mánuði var virkni og gangur sjúkdómsins borinn saman við MBL styrk, gigtarþátt (RF) og C-reactive prótín. Til samanburðar voru metnir 63 konur með langt gengna iktsýki.

Niðurstöður: Þegar hafa 65 sjúklingar með byrjandi liðagigt uppfyllt skilmerki ACR fyrir iktsýki og komin er sex mánaða eftirfylgd fyrir 52 þeirra. Sjúklingum með lágt MBL (lægsti fjórðungur) hafði batnað marktækt minna eftir sex mánaða lyfjameðferð en sjúklingum í hæsta fjórðungi MBL styrks, metið út frá Thompsons liðskori (p=0,03) og gripkrafti (p=0,004). Sjúklingar með lágt MBL höfðu einnig marktækt oftar úrátur í liðum á röntgenmyndum við upphaf þátttöku og eftir sex mánuði (p=0,039). Hjá sjúklingum með langt gengna iktsýki var marktækt samband milli lágs MBL styrks og liðskemmda á röntgenmynd (p=0,036). Ennfremur voru marktæk tengsl milli lágs MBL og hækkaðs gigtarþáttar, einkum IgA gigtarþáttar (p=0,02) og samhliða hækkunar á IgM og IgA gigtarþáttar (p=0,035). Enginn munur fannst á tíðni MBL skorts hjá sjúklingum með byrjandi eða langt gengna iktsýki og viðmiðunarhópi.

Ályktanir: Lágt MBL magn virðist spá fyrir um slæmar horfur í sjúklingum með byrjandi iktsýki. Skýringin gæti verið sú að MBL gegni mikilvægu hlutverki við útrýmingu mótefnafléttna úr liðum í iktsýkisjúklingum.



E 53 HLA-B27 vefjaflokkurinn er ekki tengdur gangráðskrefjandi hjartsláttartruflunum á Íslandi

Hallgrímur Hreiðarsson1, Jón Þór Sverrisson1, Ína Björg Hjálmarsdóttir3, Kristjana Bjarnadóttir3, Pedro Riba Ólafsson2, Sveinn Guðmundsson3, Björn Guðbjörnsson1,4



1Lyflækningadeild og 2myndgreiningardeild FSA, 3Blóðbankinn, 4Rannsóknarstofan í gigtarsjúkdómum Landspíta Hringbraut

Netfang: bjorngu@rsp.is



Tilgangur: Þekkt eru tengsl vefjaflokksins HLA-B27 við ýmsa hjartasjúkdóma, til dæmis ósæðarleka og leiðnitruflanir í hjarta. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tíðni HLA-B27 vefjaflokksins hjá einstaklingum með ígræddan gangráð og athuga hvort tengja mætti vefjaflokkinn við ákveðnar gangráðskrefjandi hjartsláttartruflanir.

Efniviður og aðferðir: Sjúklingum sem höfðu fengið ígræddan gangráð við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri var boðin þátttaka í rannsókninni. Kannað var hvaða hjartsláttartruflun og/eða einkenni höfðu leitt til ígræðslu gangráðsins. Ennfremur voru þeir athugaðir með tilliti til sjúkdómseinkenna sem tengja má HLA-B27 vefjaflokknum. Spjaldliðir voru röntgenmyndaðir og sjúklingar gáfu lífsýni til vefjaflokkunar sem framkvæmt var við blóðflokkunardeild Blóðbankans.

Niðurstöður: Eitt hundrað og tíu sjúklingar höfðu fengið gangráð, 53 sjúklingar voru á lífi í apríl 1998, og af þeim samþykktu 49 sjúklingar þátttöku í rannsókninni; 24 konur (49%) og 25 karlar (51%). Tuttugu og tveir sjúklingar (45%) höfðu sögu um blóðþurrðarsjúkdóm í hjarta áður en til gangráðsígræðslunnar kom. Algengast var að svimi og/eða yfirlið (65%) leiddu til ísetningar gangráðsins. Hjartalínurit fyrir gangráðsísetninguna sýndu oftast hraðsláttar-hægsláttarheilkenni eða önnur holæðaskútaheilkenni (77,5%). Fáir sjúklingar höfðu HLA-B27 tengd einkenni og enginn greindist með spjaldliðabólgu við myndgreiningu. Vefjaflokkun sýndi eingöngu fjóra einstaklinga (8%) með HLA-B27 vefjaflokkinn, þrjá karlar og eina konu. Allir sjúklingarnir höfðu sama undirflokkinn; B*2705. Þrír þessara sjúklinga höfðu leiðnitruflun á hjartalínuriti.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir ekki aukna tíðni af HLA-B27 vefjaflokknum hjá einstaklingum með ígræddan gangráð. Ennfremur var ekki hægt að sýna fram á tengsl ákveðinna hjartsláttatruflana við vefjaflokkinn. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í andstöðu við það sem sýnt hefur verið fram á í nágrannalöndunum.
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica