Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 68-100

V 68 Undirflokkar GABA viðtaka og áhrif þeirra á sjónhimnurit rottna

Þór Eysteinsson, Anna Lára Möller



Lífeðlisfræðistofnun HÍ

Netfang: thoreys@hi.is



Markmið: Að meta framlag taugafruma í sjónu er hafa mismunandi undirflokka viðtaka fyrir taugaboðefnið GABA í myndun a- og b-bylgja og sveifluspenna (OPs) sjónhimnurits (ERG) rottna.

Efniviður og aðferðir: Sjónhimnurit var skráð með hornhimnuskautum frá rottum sem svæfðar voru með ketamíni og xýlazíni, sem svar við hvítum ljósblikkum, 10 msekúndur að tímalengd. GABA agonistar og hamlarar sem vitað er að verka á ljóssvörun taugafruma í innri flókalagi sjónhimnu var sprautað inn í augnhlaup.

Niðurstöður: GABA og GABAA agónistinn isoguvacine (1 mM) fjarlægðu Ops úr svari, og lækkuðu spennu a- og b-bylgja. GABAA hamlarinn bicuculline (0,1-1 mM) jók spennuútslag ERG rottna, þar á meðal OPs. GABAB agonistinn baclofen (0,1-0,5 mM) lækkaði spennu a- og b-bylgja, án þess að hafa nokkur marktæk áhrif á sveifluspennur. GABAB hamlarinn CGP35348 (0,1-0,5 mM) jók spennu a- og b-bylgja, án marktækra áhrifa á sveifluspennur. GABAC agonistinn CACA (2,5 mM) lækkaði spennu allra þátta í ERG rottna, en GABAC hamlarinn TPMPA (0,1-1 mM) lækkaði a- og b-bylgjur en hafði engin áhrif á sveifluspennur.

Ályktanir: Taugafrumur í sjónhimnu er hafa GABAB viðtaka, líklegast undirflokkur griplufrumna, taka ekki þátt í myndun sveifluspenna. GABAC viðtakar virðast heldur ekki gegna þar hlutverki. Aðeins GABAA viðtakar virðast tengjast sveifluspennum, en allir undirflokkar GABA viðtaka a- og b-bylgjum.



V 69 Áhrif glákulyfja á sjálfvirkni og samdrátt vakinn með rafertingu í sléttum vöðvum æða

Sigríður Harpa Hafsteinsdóttir, Þór Eysteinsson, Stefán B. Sigurðsson



Lífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ

Netfang: stefsig@hi.is



Markmið: Að skoða áhrif algengra glákulyfja, timolol (Blocadren`), dorzólamíð (Trusopt®` og Cosopt®`), á samdrátt æða.

Efniviður og aðferðir: Hlutar úr portal bláæðum voru fjarlægðir úr rottum, tengdir við tognema, og settir í vefjabað er innihélt Krebslausn. Samdráttarkraftur í æðunum var mældur samfellt með með tognema og skráður á Grass sírita. Æðarnar sýndu reglubundna sjálfvirkni en voru einnig rafertar með reglubundnu millibili. Glákulyfjum var bætt út í vefjabaðið í mismunandi skömmtum.

Niðurstöður: Hvert lyf var prófað á sex portal bláæðum, og styrkur lyfjanna í baðinu aukinn í skrefum. Til viðbótar voru fjórar æðar notaðar sem viðmiðunarhópur. Sjálfvirkni og samdráttarsvörun við rafertingu voru mæld við hvern lyfjastyrk, það er togkraftur og tíðni. Öll lyfin þrjú drógu úr samdráttarsvörun við rafertingu, það er taugasvörun æðanna, en höfðu engin marktæk áhrif á sjálfvirkni, hvorki togkraft né tíðni.

Ályktanir: Hömlun beta viðtaka og hömlun kolanhýdrasa veldur breytingum í taugastjórnun æða. Sjálfvirkur samdráttur, sem kemur til vegna aukningar á kalsíum í innanfrumuvökva sléttra vöðvafrumna, og er óháður taugavirkni breytist ekki við hömlun beta viðtaka eða á kolanhýdrasa.



V 70 Áhrif melanókortína í stjórnun fituefnaskipta

Védís H. Eiríksdóttir1, Pálmi Þ. Atlason1, Logi Jónsson1, Jón Ó. Skarphéðinsson1, Helgi B. Schiöth2, Guðrún V. Skúladóttir1



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2 taugalíffræðideild Háskólans í Uppsölum

Netfang: logi@hi.is



Inngangur: Ofneysla kolvetna, prótína og fituefna veldur uppsöfnun á fituforða. Hlutfall mettaðra- og ómettaðra fitusýra í fituvef endurspeglar fituefnaskipti í lifur. Leptín er hormón sem framleitt er í fituvef. Melanókortín (MC) viðtakar koma við sögu í stjórnun fæðutöku og líkamsþyngdar. Markmið þessa verkefnis var að kanna áhrif melanókortínviðtaka í heila á fituefnaskipti

Efniviður og aðferðir: Karlkyns Wistar rottum var skipt í þrjá tilraunahópa. Einn hópurinn fékk sérhæfða MC-4 hindrann HS024, annar fékk MC-3 og -4 örvarann MT-II og viðmiðunarhópurinn fékk tilbúinn mænuvökva. Lyfjagjöf var haldið stöðugri í átta daga. Dýrin voru vegin og fæðutaka þeirra skráð. Blóð var tekið úr dýrunum, blóðvökvi skilinn frá og styrkur fituefna og leptíns ákvarðaður.

Niðurstöður: MT-II hópurinn léttist um 7% af upphafsþyngd sinni á tilraunatímabilinu og sýndi einkenni lystarstols. HS024 hópurinn sýndi hins vegar offitueinkenni og þyngdist um 10% af upphafsþyngd sinni á sama tíma. Fæðutaka MT-II hópsins var einnig minni en fæðutaka HS024 hópsins. Styrkur leptíns var hærri hjá HS024 hópnum en hjá hinum tveimur hópunum. Styrkur blóðfitu var hærri hjá HS024 hópnum en hjá hinum tveimur hópunum. Styrkur mettaðra og einómettaðra fitusýra var hærri í fríum fitusýrum hjá HSO24 hópnum borið saman við hina tvo hópanna. Jákvæð fylgni var á milli magns fituvefs og styrks leptíns í HS024 hópnum.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til að inngjöf á þessum hindra og örvara hafi áhrif á fituefnaskipti. Þrátt fyrir að allir hóparnir hefðu jafnan aðgang að fæðu þá var orkuinntaka HS024 hópsins meiri en hinna hópanna. Ennfremur sýna niðurstöðurnar að umframneysla á orkuefnum fór í myndun á mettuðum og einómettuðum fitusýrum.



V 71 Melanókortínviðtakar og stjórnun fæðutöku og efnaskipta

Pálmi Þ. Atlason1, Védís H. Eiríksdóttir1, Logi Jónsson1, Guðrún V. Skúladóttir, Helgi B. Schiöth2, Jón Ó. Skarphéðinsson 1



1Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 2 taugalíffræðideild Háskólans í Uppsölum

Netfang: logi@hi.is



Inngangur: Nýlega hefur verið sýnt fram á að viðtakar fyrir melanókortín (MC), eins og MSH (melanocyte stimulating hormone) og ACTH (adrenocorticotropic hormone), eru til staðar víða í taugakerfinu. Melanókortínviðtakarnir greinast í fimm undirflokka (MC1-5). MC4 viðtakinn, sem einungis hefur fundist í miðtaugakerfinu, kemur við sögu í stjórnun fæðutöku og viðhaldi líkamsþyngdar. Fyrri rannsóknir benda til þess að MC-4 viðtakar hafi einnig áhrif á efnaskipti. Markmið þessarar tilraunar er að athuga nánar þau áhrif.

Efniviður og aðferðir: Karlkyns Wistar rottum var skipt í þrjá tilraunahópa. Einn hópurinn fékk sérhæfða MC-4 hindrann HS024, annar fékk MC-3 og -4 örvarann MT-II og viðmiðunarhópurinn fékk tilbúinn mænuvökva. Lyfin og lyfleysan voru gefin inn í heilahol með osmótískum ördælum sem komið var fyrir undir húð við herðakamb. Lyfjagjöf var haldið stöðugri í átta daga. Annan hvern dag var súrefnisupptaka dýranna mæld auk þess sem þau voru vegin og fæðutaka þeirra skráð.

Niðurstöður: Strax á öðrum degi lyfjagjafar átu rottur í HS024 hópnum meira en þær í MT-II hópnum og á fjórða og sjötta degi átu dýrin í HS024 hópnum meira, um leið og MT-II hópurinn át minna en viðmiðunarhópurinn. Við lok tilraunatímabilsins var ekki marktækur munur á áti MT-II hópsins og viðmiðunarhópsins. Efnaskiptahraði MT-II hópsins var hærri en hjá hinum tveimur hópunum á öðrum degi lyfjagjafar. Auk þess léttust dýrin í MT-II hópnum sem rekja má til minnkaðs áts ásamt auknum efnaskiptahraða miðað við viðmiðunarhópinn. HS024 hópurinn sýndi þyngdaraukningu miðað við viðmiðunarhópinn.

Ályktanir: Hindrun MC-4 viðtaka eykur át í tilraunarottum. Örvun MC-3 og -4 viðtaka eykur tímabundið efnaskiptahraða. Þeim áhrifum er ef til vill miðlað um MC-3 viðtaka.



V 72 Hlutverk laktats í stjórn öndunar

Jóhannes Helgason, Þórarinn Sveinsson, Jón Ólafur Skarphéðinsson



Lífeðlisfræðistofnun HÍ, Læknagarði

Netfang: joskarp@hi.is



Inngangur: Við líkamlegt álag verður mkil aukning í loftun lungna sem ekki er hægt að skýra með breytingum í pH eða pCO2 í blóði, en þessir þættir eru þekktir áhrifvaldar í stjórn öndunar í hvíld. Lækkun í pH við uppsöfnun laktats hefur verið tengd þeirri miklu aukningu í loftun lungna sem á sér stað við áreynslu. Sá möguleiki að laktatanjónin sjálf örvi loftun hefur þó ekki hlotið mikla athygli. Í fyrri rannsóknum dældum við blöndu af laktic sýru og salti hennar í sofandi rottur og hækkuðum þannig laktatstyrk í blóði. Þetta olli aukinni loftun án þess að fram kæmu breytingar á pH og pCO2 í blóði. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þá tilgátu að loftunaraukningin samfara auknum styrk laktats í blóði væri vegna aukningar í efnaskiptahraða og framleiðslu CO2.

Efniviður og aðferðir: Notaðar voru 16 karlkyns Wistar rottur sem skipt var í laktat- og viðmiðunarhóp. Rotturnar voru svæfðar, æðaþræddar og líkamshita haldið við 38Í tilraunahópnum var blóðþéttni laktats aukin um 10 mM á 10 mínútum án þess að pH breyttist. Viðmiðunarhópurinn fékk saltlausn sem var isosmótísk við laktatlausnina. Fylgst var samfellt með blóðþrýstingi, hjartsláttartíðni, öndunartíðni og öndunarrúmmáli. Blóðsýni voru tekin á þriggja mínútna fresti og mæld blóðgös og sýrustig. Loftskipti og súrefnisupptaka voru mæld á þriggja mínútna fresti.

Niðurstöður: Inndælingin jók loftun um 40% í tilraunahópnum en 9% í viðmiðunarhópnum. Súrefnisupptaka jókst um 24% í tilraunahópi en 7,5% í viðmiðunarhópi og koldíoxíðframleiðslan jókst um 43% í tilraunahópi en 7,5% í viðmiðunarhópi. Munurinn á milli hópanna var marktækur.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda því til að aukningin í loftun sem verður í kjölfar hækkaðs styrks laktatanjónarinnar í blóði, sé einkum vegna aukins efnaskiptahraða og aukinnar framleiðslu CO2.



V 73 Aðgengi lyfja að lyktarsvæði manna

Davíð Ólafsson, Sveinbjörn Gizurarson



Lyfjafræðideild HÍ, Lyfjaþróun hf.

Netfang: david@lyf.is



Inngangur: Blóð-heila þröskuldurinn stendur í vegi fyrir því að hægt sé að koma mörgum lyfjum til heila. Dýrarannsóknir hafa á undanförnum árum sýnt fram á að mögulegt er að komast fram hjá þessum þröskuldi með því að flytja lyfin með lyktartaugum til heila. Til að mögulegt sé að nýta sér þessa frásogsleið er nauðsynlegt að koma lyfjunum á einfaldan og þægilegan hátt á lyktarsvæði manna.

Efniviður og aðferðir: A) Nokkrum lausnum með mismunandi lyfjafræðilega eiginleika svo sem seigjustig og yfirborðsspennu var úðað í sílíkonafsteypu af nefholi manns og mælt hversu stór hluti lausnarinnar komst upp á lyktarsvæðið sem og hversu stór hluti komst upp á síuþynnuna sjálfa.

B) Flúrmerkt efni var gefið í nefhol músa og skoðað í smásjá hvernig það dreifðist um nefholið og yfir lyktarsvæðið.

Niðurstöður: Mögulegt var að úða lausnum með mismunandi seigjustig og yfirborðsspennu, innan ákveðinna marka og í töluverðu magni á lyktarsvæðið í heild (allt að 35,3% úðans) og einnig á síuþynnuna (allt að 29,2% úðans).

Greinilegt var að stór hluti efnisins komst á lyktarsvæði músanna og hægt var að sjá að hluti þess komst í gegnum síuþynnuna til heilans.

Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að mögulegt er að koma lyfjum í töluverðu magni á lyktarsvæði manna með því að hanna lausnir með rétta lyfjaeðlisfræðilega eiginleika og rétt nefúðatæki. Með þessu móti ætti að vera mögulegt að koma lyfjum í nægilegu magni á lyktarsvæðið og nýta sér þannig þessa frásogsleið til heilans. Klínískt raunhæfi þessarar lyfjaleiðar myndi þá einungis takmarkast af því hvort flutningsgetan fyrir lyfið væri nægilega mikil.



V 74 Dílaskóf - efnafræði og lífvirkni innihaldsefna

Guðrún F. Guðmundsdóttir, J.M. Pezzuto, Y. Dong, E.M. Greenwood, H. Kristinsson, Kristín Ingólfsdóttir



Lyfjafræðideild H.Í. Reykjavík, lyfjafræðideild University of Illinois at Chicago, Chicago, IL, USA, Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyri

Netfang: kring@hi.is



Inngangur: Dílaskóf (Peltigera leucophlebia) er stórvaxin skóf, náskyld flannaskóf (P. aphthosa), sem er þekktari og meira rannsökuð. Það sem greinir þessar tvær tegundir að, útlitslega séð, er að dílaskóf hefur greinilegt dökkbrúnt æðanet á ljósum grunni á neðra borði en æðar flannaskófar eru óljósari og renna saman, þannig að neðra borð hennar verður svo til allt brúnt.

Efniviður og aðferðir: Tenuiorín, sem efnafræðilega flokkast sem þrídepsíð af orcinol gerð, var einangrað í fyrsta sinn úr P. leucophlebia með því að þátta asetónextrakt með öfugfasa skiljun á kísilgelsúlu. Vetnis- og kolefniskjarnagreiningum (NMR) var beitt til ákvörðunar á hreinleika og efnabyggingu tenuioríns.

Niðurstöður: Fléttan P. leucophlebia hefur ekki áður verið rannsökuð með tilliti til líffræðilegrar virkni, nema að mjög takmörkuðu leyti. Rannsóknir hafa nú leitt í ljós, að hráextrakt fléttunnar sýnir vaxtarhindrandi verkun gegn bakrita alnæmisveirunnar (HIV-1 reverse transcriptase) in vitro með IC50 94,1 mg/ml, en slík virkni telst verðskulda frekari rannsóknir sem miða að einangrun virkra efna á hreinu formi og virknimælingum þeirra. Hráextrakt hefur einnig sýnt áhugaverða virkni í prófum sem hönnuð hafa verið til að meta forvarnaráhrif gegn krabbameini (cancer chemoprevention). Þá hindrar hráextrakt dílaskófar virkni 15-lípoxygenasa in vitro. Unnið er að einangrun virkra efna.



V 75 Greinótt (1Æ3)- b-D-glúkan með sterka in vitro antikomplementvirkni einangrað úr fléttunni Thamnolia vermicularis var. subuliformis

Elín Soffía Ólafsdóttir1, B. Smestad Paulsen2, K. Jurcic3, H. Wagner3



1 Lyfjafræðideild HÍ, 2Institute of Pharmacy, Dpt of Pharmacognosy, University of Oslo, Osló, 3Central Pharmacy Research Institute, Pharmaceutical Biology, University of München, Butenandtstr. 5-13, D-81377 München, Þýskalandi

Netfang: elinsol@hi.is



Inngangur: Fjölsykrur einangraðar úr plöntum, sveppum og fléttum hafa margar hverjar sýnt verkun á ónæmiskerfið svo sem antikomplementvirkni og aukna átfrumuvirkni og auk þess krabbameinshemjandi og veiruhemjandi verkun (1-3). Markmið verkefnisins var að greina byggingu fjölsykru sem er að finna í tæplega 2% magni í basaextrakti fléttunnar Thamnolia vermicularis var. subuliformis (ormagras) og að ákvarða hvort fjölsykran væri ónæmisvirk.

Efniviður og aðferðir: Fjölsykran Ths-2, var einangruð úr basaextrakti fléttunnar með etanólfellingu í þrepum og himnuskiljun. Einsykrusamsetning hennar var greind með metanólýsu og GC og gaf eingöngu glúkósu. Staðsetning og tegund tengja var greind með metýleringsgreiningu og GC-MS. 13C- and 1H-NMR rafsegulgreining var notuð til að ákvarða gerð tengja og til að staðfesta byggingu sykrueininga, tengingar þeirra og hlutföll.

Niðurstöður: Byggingin reyndist vera samsett af (1Æ3)- b-D-glúkópýranósýl einingum með hliðarkeðjum við O6.

Ths-2 hefur því byggingu sem svipar mjög til byggingar tveggja sveppafjölsykra, lentinan og schizophyllan, en þær hafa krabbameinshemjandi áhrif og hafa verið notaðar, samhliða meðferð með krabbameinslyfjum, gegn krabbameini hjá mönnum, í Japan (1). Virkni Ths-2 var prófuð í in vitro antikomplementprófi og reyndist vel virk. Ætla má að Ths-2 hafi svipaða ónæmisvirkni og hinar áþekku sveppafjölsykrur lentinan og schizophyllan.



Heimildir



V 76 Efnagreining og veiruhemjandi verkun xýlan-fjölsykra úr sölvum

Elín Soffía Ólafsdóttir1, Lilja Dögg Stefánsdóttir1, Rökkvi Vésteinsson1, Guðmundur Bergsson2



1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líffræðistofnun HÍ

Netfang: elinsol@hi.is



Inngangur: Fjölsykrur, einangraðar úr þörungum, sveppum og ýmsum plöntum, hafa sýnt áhugaverða ónæmisörvandi, æxlishemjandi og veiruhemjandi verkun. Markmið verkefnisins var að einangra, byggingarákvarða og kanna veiruhemjandi virkni helstu fjölsykra rauðþörungsins Palmaria palmata (söl). Söl hafa verið notuð til manneldis hér á landi að minnsta kosti frá dögum Egils Skallagrímssonar.

Efniviður og aðferðir: Þörungurinn var fyrst extraheraður með óskautuðum leysum og metanóli, því næst með heitu vatni og að lokum með köldum basa. Fjölsykrur voru felldar með etanóli úr vatns- og basaextrakti og síðan hreinsaðar og aðgreindar með jónskiptaskiljun og gelsíun. Einsykrusamsetning var athuguð með sýruhýdrólýsu og TLC. Einsleitni fjölsykranna og mólþyngd var ákvörðuð með HP-GPC tækni, en bygging ásamt gerð og hlutföllum tengja voru ákvörðuð með 1H-NMR og 13C-NMR kjarnsegulgreiningu.

Niðurstöður: 0,05-0,3% af mólþyngd sölvanna reyndist vera vatnsleysanlegar xýlan-fjölsykrur með mólþyngd á bilinu 160-790 kD. Tengingar á milli xýlósaeinsykranna eru b-(1Æ3) og b-(1Æ4) í hlutföllunum 1:3 (Pal-B-ng og Pal-B-alg) eða 1:2 (Pal-D-ng) eftir því hvort fjölsykran var einangruð úr vatn- eða basaextrakti sölvanna.

In vitro veiruhamlandi virkni grófhreinsaðra og upphreinsaðra fjölsykra úr P. palmata gegn HSV-I og HSV-II (Herpes simplex) veiru var könnuð í Vero frumum og samhliða var athugað hvort fjölsykrurnar hefðu eituráhrif á frumurnar. Fjölsykrurnar veittu 50-90% vernd gegn frumuskemmdum af völdum veiranna í styrkjum á bilinu 200-1000 mg/ml án þess að hafa eituráhrif á frumurnar. Niðurstöðurnar benda til að neysla sölva gæti hugsanlega leitt til verndandi áhrifa gegn Herpes simplex veiru.



V 77 Líffræðileg virkni baeomycesínsýru úr ormagrösum

Kristín Ingólfsdóttir1, Helga Ögmundsdóttir2, Ute Franck3, Gunnar M. Zoëga1,2, Guðrún F. Guðmundsdóttir1, Hildebert Wagner3



Lyfjafræðideild HÍ, rannsóknastofa Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði, Institute of Pharmaceutical Biology, München, Þýskalandi

Netfang: kring@hi.is



Inngangur: Plöntur sem þola erfið vaxtarskilyrði mynda oft nýstárleg efni sér til viðurværis og varnar, og geta slík efni verið áhugaverð til skoðunar frá efnafræðilegu og lyfjafræðilegu sjónarhorni. Fléttan Thamnolia subuliformis (Ehrh.) W. Culb., ormagrös, er slík planta, en vaxtarlag hennar sem smáir, stakir þræðir, gerir söfnun í miklu magni erfiða.

Efniviður og aðferðir: Baeomycesínsýra, tvíhringja fenól samband (b-orcinol depsíð), var einangruð úr T. subuliformis og staðfesting á hreinleika og efnabyggingu fengin með TLC, IR, H NMR, C NMR og MS greiningum. Á grundvelli efnabyggingar var virkni baeomycesínsýru könnuð í völdum in vitro prófunum.

Áhrif á efnaskipti arakídonsýru voru könnuð með því að mæla hindrunar virkni á 5-lípoxygenasa, cyklóoxygenasa-1 og cyklóoxygenasa-2.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að baeomycesínsýra hindrar virkni 5-lípoxygenasa með skammtaháðum hætti (IC50 = 8,3 mM) án þess að letja cyklóoxygenasa. Í fyrri rannsóknum á fléttuefnum höfum við séð fylgni milli 5-lípoxygenasa hindrunar og vaxtarhindrandi áhrifa á illkynja mannafrumur í rækt. Til að kanna hvort um slík tengsl geti verið að ræða hjá baeomycesínsýru voru áhrif hennar á brjóstakrabbameinsfrumur (T-47D) og hvítblæðifrumur (K-562) könnuð með því að mæla upptöku frumnanna á geislamerktu thymidíni. Baeomycesínsýra dró verulega úr vexti brjóstakrabbameinsfrumnanna, með ED50 gildi 20 mg/ml, en hafði lítil áhrif á hvítblæðifrumurnar. Verið er að prófa virkni baeomycesínsýru á aðrar illkynja frumulínur svo og á eðlilegar frumur.

Ályktanir: Niðurstöður in vitro mælinga á hindrandi virkni gegn angiotensín converting enzyme (ACE) sýna, að baeomycesínsýra er miðlungshindri með IC50 gildi 200 mM. Baeomycesínsýra er óvirk gegn sveppum og Gram jákvæðum/neikvæðum bakteríum.



V 78 Áhrif buffera á seigjustig carbol og natrímkarboxýmetýlcellulósa hlaupa

Þórdís Kristmundsdóttir1, Páll Sigurðsson1, Halldór Þormar2



1Lyfjafræðideild HÍ, 2Líffræðistofnun HÍ

Netfang: thordisk@hi.is



Inngangur: Vatnssækin hlaup (hydrogel) sem innihalda mónóglýseríðið mónókaprín hafa sýnt mikla virkni gegn ýmsum veirum og bakteríum sem sýkja slímhimnur kynfæra og valda kynsjúkdómum. Talið er æskilegt að lyfjaform sem nota á til að fyrirbyggja smit af völdum HIV og annarra veira og baktería sem smita um slímhimnur hafi lágt sýrustig þar sem sýrustig hefur áhrif á virkni HIV veirunnar. Við þróun og samsetningu mónókaprínhlaupanna voru notaðar hlaupmyndandi fjölliður, annars vegar carbopol (pólýakrýlsýra) og hins vegnar natríum karboxýmetýlcellulósa (NaCMC). Þessar fjölliður voru valdar sökum þess að þær hafa mikla viðloðun við slímhimnur. Markmið þessa verkefnis var að kanna hvaða áhrif það hefði á eiginleika og virkni mónókaprínhlaupanna að innihalda bufferkerfi til að viðhalda sýrustiginu. Fyrri rannsóknir á mónókaprínhlaupum hafa sýnt að ýmis hjálparefni sem notuð eru við lyfjagerð geta dregið mjög úr virkni mónókapríns.

Efniviður og aðferðir: Könnuð voru áhrif mismunandi bufferkerfa á eiginleika hlaupanna. Buffervirkni samsetninganna var könnuð. Könnuð voru áhrif sýrustigs á losun mónókapríns svo og virkni bufferhlaupanna gegn HSV-1 og HIV.

Niðurstöður: Bufferkerfin höfðu öll áhrif á seigjustig hlaupanna þannig að til að ná sama seigjustigi og á hlaupi án buffers þurfti að auka magn hlaupmyndandi efnis. Meiri breyting kom fram á seigjustigi carbopolhlaupa en NaCMC-hlaupa. Buffervikni hlaups sem innihélt cítrat/laktat bufffer var mest af þeim samsetningum sem prófaðar voru. Virkni mónókaprínhlaupa með cítrat/laktat buffer gegn HSV-1 og HIV var sambærileg við virkni mónókaprínhlaups án buffers.

Ályktanir: Þegar buffer er bætt í hlaupforskrift hefur það áhrif á eðlisefnafræðilega eiginleika eins og seigjustig en hefur ekki áhrif á virkni mónókapríns.



V 79 Þróun aðferðar til að mæla slímhimnviðloðun vatnshlaupa

Skúli Skúlason1, Þórdís Kristmundsdóttir1, Peter Holbrook2



1Lyfjafræðideild HÍ, 2Tannlæknadeild HÍ

Netfang: thordisk@hi.is



Inngangur: Áhugi á notkun slímhimnubindandi fjölliða (bioadhesive polymers) í lyfjaform til notkunar á slímhúð hefur aukist mikið síðustu ár. Ákvörðun á bindandi eiginleikum lyfjasamsetningar er mikilvæg með tilliti til þróunar þeirra og hafa nokkrar mæliaðferðir verið notaðar í þessum tilgangi. Í þessari rannsókn var þróuð aðferð til að mæla bindingu vatnshlaupa (hydrogel). Notað var tæki, Texture Analyser TA-XT2, sem gefur kost á að mæla nákvæmlega krafta sem þarf til að skilja að tvö yfirborð en það hefur ekki áður verið notað til að mæla bindingu vatnshlaupa.

Efniviður og aðferðir: Framleidd voru vatnshlaup úr fjölliðunum xanthan, Carbopol 934, hýdroxýprópýlmetýlcellulósa og kítósan í mismunandi styrk. Gervihimna var notuð sem móttökufasi. Texture Analyser TA-XT2 var notað til að mæla kraft, nauðsynlegan til að aðskilja hlaupin frá himnunni. Mismunandi álnemar (probe) voru prófaðir við tækið. Yfirborðsflatarmál þeirra var það sama en munur á dýpt keilu og fjölda raufa. Sá kraftur sem þurfti til slíta hlaupið frá himnunni var mældur, bæði hámarks- aðskilnaðarkraftur og flatarmál undir kraft/tíma kúrfu.

Niðurstöður: Af þeim nemum sem kannaðir voru reyndist sá best, með tilliti til magn sýnis og áreiðanleika í endurteknum mælingum, er hafði fæstar raufar. Áreiðanleiki mælingarinnar var góður en til að fá fram nákvæmar niðurstöður ætti að framkvæma mælingar minnst fimm sinnum á hverri samsetningu. Miklu reyndist skipta hvernig hlaupi var hlaðið á nemann og nauðsynlegt að staðla þá aðferð til að ná endurtakanlegum niðurstöðum. Niðurstöður úr mælingum á viðloðun fjölliðuhlaupanna voru í samræmi við áður birtar niðurstöður.

Ályktanir: Niðurstöðurnar gefa til kynna að þessi aðferð til mælingar á viðloðun vatnshlaupa gefa áreiðanlegar niðurstöður. Frekari mælingar verður síðan að framkvæma á líffræðilegum himnum.



V 80 Dreifing á blönduðum meðallöngum glýseríðum í músum eftir gjöf um nef og innspýtingu

Jón Valgeirsson, Ana Guibernau, Stefanía Baldursdóttir, Sveinbjörn Gizurarson



Lyfjafræðideild HÍ, Lyfjaþróun hf., Geirsgötu 9, 101 Reykjavík

Netfang: sg@lyf.is



Inngangur: Blanda af mónó- og díglýseríðum af oktanóik og dekanóik sýrum hefur verið notuð sem ónæmisglæðir í bóluefna, gefin um nef. Blanda þessi er viðurkennt hjálparefni í lyfjagerð og er meðal annars að finna í nokkrum lyfjaskrám. En þar sem notkun þessara efna er ný (það er sem ónæmisglæðir), þykir nauðsynlegt að kanna afdrif þessara efna í líkamanum.

Efniviður og aðferðir: Glýseríðblandan er nokkuð flókin að gerð og inniheldur flesta mögulega ísómera af glýseríðum, nema 2-mónóglýseríð, bæði blönduðum og hreinum í ákveðnum hlutföllum. Til að fylgja þessum efnum eftir í líkamanum voru glýseríð smíðuð úr 1,2,3-3H glýseróli og viðeigandi sýrum í réttum hlutföllum, með aðstoð efnahvata. Efnasmíðinni var hagað þannig að hlutföllin milli glýseríð ísómera í merktu glýseríðunum samsvöruðu þeim í ónæmisglæðinum. Til að tryggja rétt hlutföll voru notuð TLC, NMR, og RP-HPLC aðferð sem sérstaklega var þróuð í þessum tilgangi Til að hægt væri að fylgjast með glýseríðunum eftir gjöf um nef þurfti að koma mælanlegum skammti fyrir í 5 ul lausn, sem inniheldur aðeins 5% glýseríð. Þetta tókst með því að framkvæma efnasmíðina á litlum skala (50 mg).

Niðurstöður: Í dreifingarrannsókninni kom í ljós að glyseríðin dreifðust til líffæra nokkurn veginn í réttu hlutfalli við blóðflæði um viðkomandi líffæri. Þannig varð þéttnin mikil í lifur, lungu og nýrum en minnst í fituvef. Það kom einnig í ljós að glýseríðin fara ekki í meira magni til heila eftir gjöf um nef heldur en eftir s.c. gjöf.

Hafa skal þann vara á tilraun þessari að stöðugleiki glýseríða þessa er ekki þekktur in vivo. Sé helmingunartími glýseríðanna miklu minni en tímaskali tilraunarinnar þá er óvíst hvort verið sé að mæla dreifingu glýseríðsins eða glýseróls. Svo stuttur helmingunartími væri í raun mjög æskilegur, því þá þyrfti ekki að hafa frekari áhyggjur af afdrifum þessara efna.



V 81 Etanól í blóði eftir drykkju léttöls (2,25% v/v)

Kristín Magnúsdóttir, Þorkell Jóhannesson



Lyfjafræðistofnun, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, Ármúla 30, 108 Reykjavík

Netfang: kristmag@hi.is



Inngangur: Tilraunin á að sýna, hve mikið etanól gæti verið í blóði manna, sem drykkju á skömmum tíma 0,5 l af léttöli (2,25% v/v) á fastandi maga, en léttöl telst ekki til áfengra drykkja.

Efniviður og aðferðir: Tilraunaþolar voru 12 (átta konur og fjórir karlar). Tilraunin fór fram að morgni og höfðu tilraunaþolar verið fastandi í að minnsta kosti átta klukkustundir. Tilraunaþolar voru á aldrinum 24-63 ára og vógu 47-100 kg. Etanól var ákvarðað í blóði áður en drykkja hófst, um leið og henni lauk og síðan þrisvar sinnum á 10 mínútna fresti, þá tvisvar sinnum á 15 mínútna fresti og loks þrisvar sinnum á 20 mínútna fresti. Alls voru því tekin 10 blóðsýni. Var síðasta sýnið tekið 120 mínútum (tveimur klukkustundum eftir að drykkju lauk.

Niðurstöður: Þéttni etanóls í blóði var ákvörðuð með gasgreiningu. Niðurstöður sýndu, að í öllum tilvikum nema einu var þéttni etanóls mælanleg í blóði við lok drykkju. Þéttnin óx síðan hratt og náði hámarki 15-30 mínútum síðar. Hámarksþéttni var á bilinu 0,09-0,28o/oo. Í öllum tilvikum nema fjórum (þrír karlar og ein kona) var etanól enn mælanlegt (0,02-0,08o/oo) 100 mínútum eftir að drykkju lauk. Allir tilraunaþolar töldu sig finna skammvinn áfengisáhrif stutta stund um það bil á sama tíma og þéttni etanóls var í hámarki.

Ályktanir: Rætt hefur verið um að lækka sektarmörk vegna ölvunaraksturs úr 0,5o/oo í 0,2o/oo eða minna. Niðurstöður þessar sýna að ekki er ráðlegt að lækka þessi mörk niður fyrir 0,3o/oo. Að öðrum kosti verður að telja léttöl til áfengra drykkja eða vara ökumenn við neyslu þess.



V 82 Framleiðsla á bóluefni gegn kókaíni og áhrif þess á dreifingu kókaíns til miðtaugakerfisins

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, Jón Valgeirsson, Sveinbjörn Gizurarson



Lyfjafræðideild HÍ, Lyfjaþróun hf, Reykjavík

Netfang: kolbrun@lyf.is



Inngangur: Misnotkun kókaíns byggir á flutningi efnisins yfir til heilans þar sem það örvar starfsemi hans og veldur vímu. Ef dreifing kókaíns til miðtaugakerfisins er hindruð ætti að vera hægt að koma í veg fyrir þessi áhrif efnisins. Því er mikilvægt að finna leið til að koma í veg fyrir flutning kókaíns yfir til heila og hjálpa þannig sjúklingum sem háðir eru efninu.

Markmið verkefnisins er að útbúa bóluefni sem virkjar ónæmiskerfið gegn kókaíni, örva það til framleiðslu sérhæfðra mótefna sem binda kókaín og hindra þannig flutning þess til miðtaugakerfisins.

Efniviður og aðferðir: Kókaínsameindir voru tengdar við burðarprótínið og ónæmisvakann KLH (keyhole limpet hemocyanin). Síðan voru notaðir ónæmisglæðar til að örva mótefnaframleiðsluna enn frekar. Gerðar voru tvær samsetningar af bóluefninu, ein til bólusetningar á nefslímhúð og önnur til bólusetningar í kviðarhol. Bóluefnin voru prófuð á dýrum og sérhæfð mótefnasvörun þeirra í blóði eftir bólusetningu var mæld með ELISA. Átta vikum eftir upphafsbólusetningu var dýrunum gefið 3H-kókaín og dreifing þess um líkamann skoðuð með því að mæla styrk þess í sermi og heila.

Niðurstöður: Bólusettar mýs höfðu hærri styrk sérhæfðra mótefna gegn kókaíni og einnig mældist minna magn kókaíns í heila þessara dýra en hjá viðmiðunarhópnum.

Ályktanir: Því verður að teljast að tekist hafi að útbúa aðferð sem hindrar flutning kókaíns yfir til heila.



V 83 Tengsl sjálfsvíga og neyslu ávana- og fíkniefna 1995-1999

Jakob Kristinsson1, Gunnlaugur Geirsson2



Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ1, Rannsóknastofa í réttarlæknisfræði HÍ2

Netfang: jakobk@hi.is



Inngangur: Greint er frá afturskyggnri rannsókn á niðurstöðum réttarlæknisfræðilegra og réttarefnafræðilegra rannsókna á sjálfsvígum á tímabilinu 1995-1999. Markmið rannsóknarinnar var: a) Að skoða hve oft sjálfsvíg væru tengd neyslu amfetamíns, benzódíazepínsambanda, kannabis, kókaíns, morfínlyfja og etanóls. b) Að athuga hve margir hinna látnu væru ávana- og fíknefnaneytendur samkvæmt fjölþjóðlegum staðli. c) Að meta gagnsemi skimunar eftir ávana- og fíkniefnum við rannsóknir á sjálfsvígum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 105 karla (meðalaldur 40,2 ár) og 29 kvenna (meðalaldur 41,1 ár). Fjörutíu og sjö höfðu svipt sig lífi með hengingu, 30 með útblásturslofti bifreiða, 22 með skotvopni, 13 með töku lyfja, níu með drekkingu, sex með falli af háum stað, fjórir með kæfingu og þrír með öðrum aðferðum. Farið var yfir krufningaskýrslur, lögregluskýrslur og skýrslur um réttarefnafræðilegar rannsóknir á sjálfsvígum á tímabilinu. Skráður var aldur og kyn hins látna, sjálfsvígsaðferð, niðurstöður réttarefnafræðilegra rannsókna og saga um neyslu ávana- og fíkniefna.

Niðurstöður: Rannsóknir reyndust ófullnægjandi í 10 tilvikum. Ástæðan var óupplýst í fjórum tilvikum, í þremur tilvikum vantaði sýni eða þau voru ónothæf og í þremur tilvikum var lagst gegn rannsókn af hálfu lögreglu. Ávana- og fíkniefni og/eða etanól fundust í 57 tilvikum (46,0%). Þar af voru ávana- og fíkniefni eða lyf í 32 (25,8%) og etanól í 38 (30,6%). Benzódíazepínsambönd komu fyrir í 13 tilvikum (10,5%), amfetamín (þar með talið MDMA) í 12 (9,7%), morfínlyf í níu (7,3%), kannabínóíðar í átta (6,5%) og kókaín í einu (0,8%). Átján einstaklingar (14,5%) greindust sem ávana- og fíkniefnaneytendur samkvæmt staðli. Sú ályktun var dregin af niðurstöðunum að við rannsóknir á sjálfsvígum sé skimun eftir ávana- og fíkniefnum jafn mikilvæg og skimun eftir etanóli.



V 84 Áreiðanleiki neyslusögu ungs fólks á aldrinum 15-24 ára við komu á sjúkrahús SÁÁ í Vogi

Elísabet Sólbergsdóttir1, Guðbjörn Björnsson2, Jakob Kristinsson1,

Þórarinn Tyrfingsson2, Þorkell Jóhannesson1



1Lyfjafræðistofnun, Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, Ármúla 30, 108 Reykjavík, 2Sjúkrahús SÁÁ Vogi

Netfang: betajona@hi.is



Inngangur: Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur. Í fyrsta lagi að afla sem áreiðanlegastra upplýsinga um vímuefnaneyslu ungs fólks á aldrinum 15-24 ára, sem lagt er inn á sjúkrahúsið Vog til afeitrunar. Í öðru lagi að kanna hversu áreiðanlegar neyslusögur sjúklinga eru. Flestar rannsóknir um vímuefnaneyslu ungs fólks eru eingöngu byggðar á neyslusögu þess við innlögn á meðferðarstofnanir eða komu þeirra á göngudeildir.

Efniviður og aðferðir: Alls tók rannsóknin til 316 einstaklinga (215 karlmanna og 101 konu) á aldrinum 15-24 ára er leituðu meðferðar á Vogi á tímabilinu október 1998 til apríl 1999.

Rannsóknin beindist fyrst og fremst að neyslu áfengis, amfetamíns, benzódíazepínsambanda, kannabis, kókaíns og morfínlyfja.

Upplýsingum um neysluna var annars vegar aflað með því að sjúklingar voru spurðir um neyslu sína allt að tveimur vikum fyrir innlögn, samkvæmt stöðluðum spurningarlista og hins vegar með því að rannsaka þvagsýni sem tekin voru við innlögn. Niðurstöður þvagrannsókna voru bornar saman við sögu sjúklinga.

Niðurstöður: Algengast var að menn lýstu neyslu á kannabis (205), næst algengast var neysla á áfengi (104), þá á amfetamíni (96), benzódíazepínsamböndum (50), kókaíni (30) og loks á morfínlyfjum (17).

Ályktanir: Að jafnaði var mjög gott samræmi á milli sögu og niðurstaðna rannsókna. Bendir það til þess að neyslusaga sjúklinga við innlögn á meðferðarstofnun gefi marktækar upplýsingar um neyslu þeirra.



V 85 Samanburður á áhættuþáttum háþrýstingssjúklinga eftir því hvort þeir eru á meðferð eða ekki. Rannsókn Hjartaverndar

Lárus S. Guðmundsson1, Guðmundur Þorgeirsson1, Magnús Jóhannsson1, Nikulás Sigfússon2, Helgi Sigvaldason1, Jacqueline C.M. Witteman3



1Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 2Hjartavernd, 3Dpt of Epidemiology and Biostatistics, Erasmus University Medical School, Rotterdam, Hollandi

Netfang: magjoh@hi.is



Inngangur: Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að gera samanburð á áhættuþáttum karla með langvinnan háþrýsting eftir því hvort þeir fengju lyf við háþrýstingi eða ekki. Áhættuþættir karla úr stigi II og III í hóprannsókn Hjartaverndar voru metnir.

Efniviður og aðferðir: Karlar í hóprannsókn Hjartaverndar sem tóku þátt í stigi II og III var skipt eftir blóðþrýstingi og lyfjanotkun gegn háþrýstingi. Þeir sem tóku lyf gegn of háum blóðþrýstingi voru flokkaðir sem háþrýstingssjúklingar óháð því hver blóðþrýstingsgildi þeirra voru. Karlar með háþrýsting sem fengu enga meðferð við komu II og III (n=442) voru bornir saman við þá sem tóku lyf við of háum blóðþrýstingi við komu II og III (n=82). Eftirfarandi áhættuþættir voru metnir: heildarkólesteról, þríglýseríð, blóþrýstingur, reykingar, prótín og glúkósa í þvagi, stærð vinstri slegils, saga um hjartadrep, hjartaöng, ST-T breytingar og hjartastækkun.

Niðurstöður: Karlar á langtímameðferð við of háum blóðþrýstigi höfðu slagbils-/hlébilsþrýsting 169,2 (SD 19,3)/ 105,6 (SD 10,6) mmHg en þeir sem voru með langvinnan háþrýsting (fimm ár) án meðhöndlunar höfðu blóðþrýsting 162,3 (SD 15,0)/ 101,3 (SD 7,6) mmHg. Karlar á langtímameðhöndlun (fimm ár) við of háum blóðþrýstingi höfðu marktækt hærri slagbils- og hlébilsblóðþrýsting (p=0,003 og p=0,001), oftar hjartaöng (p=0,0004) og ST-T breytingar (p=0,001) borið saman við menn sem höfðu langvinnan háþrýsting án meðhöndlunar. Ekki var munur á hópunum varðandi aðra mælda áhættuþætti.

Ályktanir: Svo virðist sem það hversu mikil blóðþrýstingshækkunin er, sem og vissir aðrir áhættuþættir (hjartaöng og ST-T breytingar) hafi áhrif á hvort lyfjameðferð við háþrýstingi er hafin eða ekki.



V 86 Yfirborðspennumælingar á sýklódextrínlyfjafléttum með og án vatnssækinnar fjölliðu í vatnslausnum

Auður Magnúsdóttir, Þorsteinn Loftsson, Már Másson



Lyfjafræðideild HÍ

Netfang: audurm@hi.is



Inngangur: Yfirborðsvirk efni eru oft notuð til að auka leysni fitusækinna lyfja í vatnslausnum og vantssæknar fjölliður auka þessi áhrif. Rannsóknir Þorsteins Loftssonar og samstarfsmanna hafa leitt í ljós að hægt er að auka leysni lyfja í sýklódextrín- (CD) fléttum með vatnssæknum fjölliðum en ekki hefur verið fyllilega skýrt hvernig fjölliðan eykur leysni lyfsins. Markmið verkefnisins var að nota yfirborðsvirknimælingar til að kanna hvort sýklódextrínfléttur mynda mísellur í vatnslausnum og kanna hvaða áhrif vatnsleysanlegar fjölliður hafa á yfirborðsvirkni lausnanna og mísellumyndun.

Efniviður og aðferðir: Í rannsóknina voru notuð náttúruleg sýklódextrín (a-CD, b-CD og g-CD), hýdroxýprópýl-b-CD og "randomly" metýlerað b-CD. Fjölliðan var hýdroxýprópýl-metýlsellulósi og lyfin voru hýdrókortisón og ýmis bólguleyðandi lyf (NSAID). Yfirborðsvirkni lyfjalausnanna, sýklódextrínlausnanna og lausna sem innihéldu fléttu lyfs og sýklódextríns voru mældar í Kruss yfirborðsspennumæli. Áhrif sýklódextríns og fjölliðu á leysni lyfjanna voru einnig rannsökuð.

Niðurstöður: Mælingar sýndu að fléttur lyfja við sýklódextrín voru yfirborðsvirkar. Vatnsleysanlegar fjölliður auka yfirborðsvirkni sýklódextrínfléttulausna. NSAID lyf eru yfirborðsvirk og við háan styrk mynda þau gel. Leysniferlar NSAID lyfja í sýklódextrín-lausnum eru línulegir með hallatölu >1 sem þýðir að hver sýklódextrínsameind leysir fleiri en eina lyfjasameind. Þetta bendir sterklega til þess að lyfin séu á míselluformi.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að áhrif fjölliðunnar á leysni lyfjanna sé meðal annars vegna samspils hennar við mísellur sem eru myndaðar af sýklódextrínfléttum. Æskilegt væri að fá frekari staðfestingu með öðrum mæliaðferðum eins og 1HNMR og flúrljómunarmælingum.



V 87 Cýklóserín forlyf

Þorsteinn Þorsteinsson1, Már Másson1, Þorsteinn Loftsson1, Tomi Jarvinen2



1Lyfjafræðideild HÍ, 2Dpt of Pharmaceutical Chemistry, University of Kuopio, Finnlandi

Netfang: thorstt@hi.is



Inngangur: Áður höfum við sýnt fram á að með því að smíða fituefnaafleiður af lyfjum má auka flutning í gegnum húð og aðrar himnur verulega. Ákveðin fituefni hafa hingað til verið notuð sem frásogshvatar fyrir flutning á lyfjum í gegnum lífrænar himnur. Í þessu verkefni voru smíðuð og rannsökuð áhrif nokkurra fituefna á þekkt bakteríudrepandi lyf, cýklóserín.

Efniviður og aðferðir: Nokkrar afleiður af lyfinu cýklóserín voru smíðaðar með því að vernda fyrst amínóhóp lyfsins, samtengja mismunandi langt fituefni á og afvernda síðan amínóhópinn. Þessi efni voru öll efnagreind með NMR. Stöðugleiki þessara afleiða var rannsakaður og umbreyting þeirra af völdum ensíma aftur í lyf rannsökuð í mannasermi.

Niðurstöður og ályktanir: Nýjar fitusæknar afleiður af lyfinu hafa verið smíðaðar og sýnt hefur verið fram á að lyfið myndast aftur. Þessar afleiður auðvelda flutning í gegnum lífrænar himnur og verður það prófað á næstunni sem flutningskerfi fyrir cýklóserín.



V 88 Notkun á fituefnum í forlyf

Þorsteinn Þorsteinsson, Már Másson, Þorsteinn Loftsson



Lyfjafræðideild HÍ

Netfang: thorstt@hi.is



Inngangur: Ákveðin fituefni hafa verið notuð sem frásogshvatar fyrir flutning á lyfjum í gegnum húð og slímhúð. Díacýlglýcerólafleiður af lyfjum líkjast mjög byggingareiningum lífrænnar himnu og þar með er hægt að koma lyfjasameindum þar inn og endanlega í gegn. Í þessu verkefni voru rannsökuð áhrif þessara fituefna sem og venjulegra fituefna sem flutningseiningar fyrir forlyf.

Efniviður og aðferðir: Nokkrar díacýlglýceról ester afleiður af lyfinu naproxen og fitusýruafleiður af lyfinu metrónídazól voru smíðaðar og efnagreindar með NMR. Stöðugleiki þessara afleiða var rannsakaður í bufferlausnum og niðurbrot þeirra af völdum ensíma aftur í lyf rannsakað í mannasermi. Fitusækni þessara lyfja var ákvörðuð, sækni þeirra inn í músahúð mæld og flæði í gegnum húðina.

Niðurstöður og ályktanir: Sækni díacýlglýceról ester afleiðanna inn í húðina var 110 sinnum meiri en fyrir lyfið sjálft, þar brotnaði forlyfið hægt niður í lyfjasameindina og skilaði lyfinu í gegnum húðina. Flutningur á metrónídazól lyfinu í gegnum húðina jókst um allt að 40 falt miðað við lyfið sjálft með því að nota fitusýruafleiður. Þetta sýnir með ótvíræðum hætti að hægt er að smíða fituefna afleiður af vatnssæknum lyfjum til að betrumbæta flutning inn í eða í gegnum húð.



V 89 Metazólamíð augndropar í cýklódextrínlausn

Jóhanna F. Sigurjónsdóttir1, Elínborg Guðmundsdóttir2, Gyða Bjarnadóttir2, Guðrún Guðmundsdóttir2, Már Másson1, Einar Stefánsson2, Þorsteinn Loftsson1.



1Lyfjafræðideild HÍ, 2augndeild Landspítala Hringbraut

Netfang: thorslo@hi.is



Inngangur: Metazólamíð, karbónikanhýdrasahindri (carbonic anhydrase inhibitor, CAI), hefur verið notaður í stórum skömmtum um munn til að lækka augnþrýsting í meðferð gláku. Þeirri meðferð hafa fylgt systemískar aukaverkanir, en vegna lítillar vatnsleysni metazólamíðs hefur reynst erfitt að forma það í augndropa til staðbundinnar gjafar. Í þessarri rannsókn var cýklódextrínfléttun beitt til að útbúa metazólamíðaugndropa, sem síðan voru prófaðir í mönnum samanborið við dorzólamíðaugndropa (Trusopt®).

Efniviður og aðferðir: Metazólamíð var formað í vatnslausn með 2-hýdroxýprópýl-b-cýklódextríni og hýdroxýprópýlmetýlsellulósu. Átta einstaklingar með háan augnþrýsting fengu mehöndlun með metazólamíðaugndropum og aðrir átta með dorzólamíðaugndropum (Trusopt®). Augndropar voru gefnir þrisvar á dag í eina viku. Augnþrýstingur (intraocular pressure, IOP) var mældur áður en meðferð hófst og á fyrsta, þriðja og áttunda degi meðferðar kl. 9 að morgni og aftur kl. 15.

Niðurstöður: Eftir eina viku hafði augnþrýstingur í metazólamíðhópnum lækkað úr 24,4±2,1 mmHg (meðaltal±staðalfrávik) í 21,0±2,0 mmHg, sem er 14% lækkun. Í dorzólamíðhópnum hafði augnþrýstingur hins vegar lækkað úr 23,3±2,1 mmHg í 17,2±3,1 mmHg, eða um 26%. Að meðaltali lækkaði augnþrýstingur um 3,4±1,8 mmHg eftir gjöf metazólamíðs og 6,1±3,6 eftir gjöf dorzólamíðs.

Ályktanir: Með tækni byggðri á cýklódextrínfléttun var mögulegt að forma metazólamíðaugndropa sem höfðu áhrif til lækkunar augnþrýstings við staðbundna gjöf í auga. Augnþrýstingslækkandi áhrif metazólamíðaugndropanna voru þó minni heldur en dorzólamíðaugndropa. Fylgni var milli sækni karbónikanhýdrasahindrana í ísóensým karbónikanhýdrasa og augnþrýstingslækkandi áhrifa.



V 90 Stöðugleiki indómetasíns og kólekalsíferóls í sýklódextrínlausnum

Már Másson1, Miina Johanna Niskanen2, Þorsteinn Loftsson1



1Lyfjafræðideild HÍ,2)Universtiy of Kuopio, Finnlandi

Netfang: mmasson@hi.is



Inngangur: Myndun sýklódextrínfléttu leiðir oft til aukins stöðugleika lyfja. Með því að mæla niðurbrotshraða lyfja við mismunandi sýklódextrínstyrk er hægt að ákvarða hraðafasta niðurbrots fyrir lyf í fléttu við sýklódextrín (kc) og stöðugleikastuðul fléttumyndunarinnar (Kc). Algengast er að nota línulega bestun á gögnunum en við höfum nýlega bent á að ólínuleg bestun geti oft gefið nákvæmari niðurstöðu.

Markmið rannsóknarinnar var að mæla áhrif sýklódextrína á stöðugleika indómetasíns og D3 vítamíns í vatnslausnum. Mismunandi aðferðir til að ákvarða stöðugleikastuðulinn voru bornar saman og lagt mat á aðra þætti sem gætu haft áhrif á áreiðanleika ákvörðunarinnar.

Efniviður og aðferðir: HPLC mælingar voru notaðar til að fylgjast með niðurbroti lyfjanna. Áhrif mismunandi sýklódextrína á stöðugleika indómetasíns við pH 9 var mælt og áhrif sýrsustigs á stöðugleika lyfsins í sýklódextrínlausnum. Áhrif sýklódextríns á stöðugleika kólíkalsíferóls var mælt í vatnslausnum sem innhéldu 10% etanól.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurbrot indómetasíns er basahvatað við hátt sýrustig. Áhrif sýklódextríns voru óháð sýrustigi á bilinu pH 7 til 10, þar sem niðurbrotið varð tífalt hægara við það að lyfið myndaði sýklódextrínfléttu. Vegna basahvötunarinnar voru niðurbrotshraðamælingar mjög viðkvæmar fyrir litlum breytingum á pH og því gaf ákvörðun Kc og kc með línulegri bestun önnur gildi en fengust með ólínuleg bestun. Ólínuleg bestun er almennt áreiðanlegri aðferð og gefur betra mat á óvissuna í ákvörðun fastanna. Indómetasín er óhlaðið við pH 1 og við þær aðstæður leiðir fléttumyndun við sýklódextrín til sjötíufalt hægara niðurbrots. Ólínuleg bestun á gögnum fyrir kólekalsíferól bendir sterklega til þess að kólíkalsíferól myndi 1:2 fléttu lyfs við sýklódextrín.



V 91 Formun og klínísk forprófun mídazólam-cýklódextrín nefúða

Jóhanna F. Sigurjónsdóttir1, Hólmfríður Guðmundsdóttir2, Hákon H. Sigurðsson1, Siguður D. Sigfússon1, Már Másson1, Oddur Fjalldal3, Einar Stefánsson2, Þorsteinn Loftsson1



1Lyfjafræðideild HÍ, 2augndeild og 3svæfingadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: johannas@hi.is



Inngangur: Mídazólam er fljótvirkt, öruggt og áhrifaríkt sefandi lyf. Nokkur áhugi hefur verið á gjöf þess í nefúðaformi, þar sem róunar- og kvíðastillandi áhrif skila sér hratt og vel án notkunar sprautu og nála. Markmið rannsóknarinnar var að þróa mídazólamnefúða á grunni fléttumyndandi eiginleika cýklódextrína (CDa) og að framkvæma klíníska forprófun á nefúðanum.

Efniviður og aðferðir: Könnuð voru áhrif 2-hýdroxýprópýl-bCDs (HPbCD) og súlfóbútýleter-bCDs (SBEbCD), með og án 0,1% hýdroxýprópýlmetýlsellulósu, á sýrustigs-leysniferil mídazólams. Nefúði var útbúinn sem innihélt 17 mg/ml mídazólam við pH 4,2, 14% (w/v) SBEbCD, 0,1% (w/v) HPMC, rotvarnarefni og stuðpúða. Stöðugleiki nefúðans var kannaður við 121°C og stofuhita. Framkvæmt var klínískt próf á nefúðanum (opin lyfjarannsókn, stig II), hjá 12 hraustum sjálfboðaliðum þar sem mat var lagt á staðbundna ertingu og lyfhrif, frásog og aðgengi nefúðans samanborið við gjöf Dormicum® í æð.

Niðurstöður: Formaður var nefúði sem innihélt 17 mg/ml mídazólam í SBEbCD-HPMC samsetningu þar sem sýrustig var stillt á pH 4,2 með H3PO4/NaOH. Geymsluþol nefúðans (95%) í myrkri við 24°C reyndist vera að minnsta kosti tvö ár. Aðgengi nefúðans reiknaðist 64±19% og hámarksblóðþéttni mældist 10-15 mínútum eftir gjöf í nef. Róunaráhrif voru sýnileg í ~40 mínútur. Blóðþéttni Dormicum® þremur til fjórum mínútum eftir gjöf í æð var svipuð hámarksblóðþéttni nefúðans og róunaráhrif voru sýnileg í ~35 mínútur. Sömu einstaklingar sýndu merki róunar, óháð lyfjaforminu. Væg erting (beiskt bragð, óþægindi í hálsi) kom fram í kjölfar úðunar.

Ályktanir: Á grundvelli cýklódextrínfléttunar var mögulegt að forma stöðugt nefúðalyf mídazólams við æskilegt sýrustig. Nefúðinn dreifist vel um nefholið, frásogast vel um nefslímhúð og framkallar viðunandi róunaráhrif án teljandi aukaverkana.



V 92 Notkun flúorkjarnaspunarófsmælinga til að mæla fléttun lyfja við cýklódextrín

Jóhanna F. Sigurjónsdóttir1, Sigríður Jónsdóttir2, Már Másson1, Þorsteinn Loftsson1



1Lyfjafræðideild HÍ, 2Raunvísindastofnun HÍ

Netfang: johannas@hi.is



Inngangur: Prótonukjarnaspunarófsmælingar (1H NMR) eru mikið notuð aðferð til að mæla fléttustuðla (KC) cýklódextrína (CDa) við lyf. Fléttun veldur breytingum í hliðrun (d) sumra prótóna CDsins og þeirra prótóna lyfsins sem skermast inni í gati CDsins. KC má reikna út frá hliðrunarbreytingum (Dd). Ókostir þessarrar aðferðar eru að toppar CDa og lyfja vilja lenda saman og mikil breikkun verður á toppum við aukinn CD styrk. Markmið þessarra tilrauna var að kanna möguleika á notkun flúor (19F) NMR til að mæla fléttun flúorinnihaldandi lyfja við CD. Þetta er næm aðferð (abundance 19F = 100%) og truflanir frá 1H-toppum sjást ekki. Hliðrun 19F er á stærra bili heldur en 1H og breytingar á hliðrunum einnig mun stærri.

Efniviður og aðferðir: Mæld voru 19F NMR róf þriggja lyfja (dexametasóns, flúoxetíns og díflúnisals) í lausnum af mismunandi styrk 2-hýdroxýprópýl-bCDs (HPbCD). KC gildi voru reiknuð út frá Dd með ólínulegri bestun.

Niðurstöður: Dexametasón er mjög torleyst í vatni (0,01%). Því er mæling rófanna tímafrek og toppar rísa lítt upp úr grunnlínu. Breytingar í hliðrun mælast þó, svo mögulegt er að reikna KC. Flúoxetín er rasemísk blanda og við litla íbót HPbCD verður aðskilnaður toppa fyrir hvora handhverfu í 19F-rófinu. Dd er þó lítil og óregluleg, sem bendir til þess að flúorhópurinn taki ekki þátt í fléttumynduninni. Tveir toppar í 19F NMR rófum díflúnisals hafa stórt Dd (Ddmax 1,6 og 2,2). Stærra gildi KC reiknast fyrir þann hópinn sem dýpra gengur inn í gat CDsins.

Ályktanir: Með 19F NMR mælingum er hægt að meta KC fyrir CD og lyf sem innihalda flúor. Skilyrði er þó að flúorhópurinn gangi inn í gat CDsins við myndun fléttunnar. Lyfið sem um ræðir, þarf minnst að hafa vatnsleysni ~0,1% svo mögulegt sé að mæla rófin innan nokkurra mínútna.



V 93 Fiskroð sem himnulíkan til að mæla frásog lyfja

Sigurður Daði Sigfússon, Margrét Jóna Höskuldsdóttir, Már Másson, Hákon Hrafn Sigurðsson, Þorsteinn Loftsson



Lyfjafræðideild HÍ

Netfang: sds@hi.is



Inngangur: Við in vitro prófanir á frásogi lyfja hafa ýmsar gervihimnur eða húðir af tilraunadýrum verið notaðar sem himnulíkön fyrir mannshúð. Flest þessi himnulíkön hafa þá annmarka, að þeir þættir sem ráða frásogi eru oft frábrugðnir því sem þekkt er fyrir mannshúð og flæðið í gegnum þessar himnur getur oft verið breytilegt. Markmið verkefnisins var að kanna notagildi fiskroðs sem himnulíkans til að rannsaka frásog lyfja.

Efniviður og aðferðir: Franz flæðisellur voru notaðar til að mæla flæði lyfja í gegnum himnur. Fiskroð mismunandi fisktegunda voru borin saman með því að mæla flæði hýdrókortisóns úr þrenns konar lyfjaformum. Steinbítsroð var valið til frekari prófana á flæði mismunandi lyfja og áhrifa frásogshvetjandi efna á flæðið. Geymsluþol roðsins var einnig kannað. Niðurstöður in vitro prófana á fiskroðunum voru bornar saman við samskonar prófanir á sellófanhimnum og slönguham, sem eru himnur sem hafa verið notaðar sem himnulíkön fyrir húð.

Niðurstöður: Flæðiferlarnir fyrir fiskroðið voru mjög línulegir (R2>0,98) og breytileiki á milli tilrauna var lítill (<20%) ef roð af sama fiski var notað. Flæði hýdroókortisóns úr 1% lausn var um það bil tvöfalt hægara en í gegnum einfalda sellófanhimnu (MW 3500) en um það bil þremur stærðargráðum hraðara en í gegnum slönguham. Geymsla á blautu fiskiroði í ísskáp í rúma viku virtist ekki hafa nein áhrif á eiginleika þess og heldur ekki frysting á roðinu.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að fiskroð geti verið hentugt himnulíkan til að mæla frásog lyfja.



V 94 Líkan til að skýra út áhrif sýklódextrína á flæði lyfja gegnum himnur

Hákon Hrafn Sigurðsson, Þorsteinn Loftsson, Már Másson



Lyfjafræðideild HÍ

Netfang: hakonhrafn@simnet.is



Inngangur: Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem geta aukið leysni ákveðinna fitusækinna lyfja í vatnslausnum með því að mynda svokallaðar gest-gestgjafa fléttur við lyfið. Aukinn styrkur sýklódextríns í vatnslausnum sem eru mettaðar af lyfi leiðir til aukins flæðis í gegnum himnur. Ef lausnin er hins vegar ekki mettuð af lyfi, þá minnkar flæði lyfsins með auknum sýklódextrínstyrk. Þessi áhrif hafa ekki verið skýrð út á fullnægjandi hátt. Nýtt líkan fyrir flæði lyfja í sýklódextrínlausnum sem hér er til prófunar gerir ráð fyrir svokölluðu vatnsflæðilagi.

Markmið: Að sýna fram á tilvist einhvers konar vatnsflæðilags og skýra áhrif sýklódextrína á flæði lyfja í því. Búa til stærðfræðijöfnu sem lýsir nýju flæðilíkani þar sem vatnsflæðilag er til staðar.

Efniviður og aðferðir: Flæði hýdrókortisóns úr vatnslausnum í gegnum sellófanhimnur var mælt á Franz-flæðisellum. Lausnirnar innihéldu frá 0 til 25% (w/v) styrk af HP-ß-sýklódextríni og voru ýmist ómettaðar eða mettaðar með hýdrókortisóni. Einfaldar og tvöfaldar sellófanhimnur með fjórum mismunandi gatastærðum voru prófaðar, 500, 3500, 6000-8000 og 12000-14000 MWCO. Tvær fjölliður voru einnig notaðar til að auka seigjustig lausnanna og kanna hvaða áhrif það hefði á flæðið. Nýja stærðfræðijafnan sem búin var til var leyst í Maple.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður úr þessari tilraun styðja mjög tilvist vatnsflæðilags og einnig styðja þær kenningar um hvernig sýklódextrín hafa áhrif á flæði lyfs gegnum himnu. Seigjustig inni í himnu skiptir miklu máli en seigjustig í lausn virðist ekki hafa takmarkandi áhrif á flæði lyfsins. Bestun sem byggðist á stærðfræðijöfnunni passaði við líkanið en var þó of opin til að geta talist sértæk fyrir flæði lyfja úr sýklódextrínlausnum gegnum himnur þar sem vatnsflæðilag er til staðar.



V 95 Einangrun, ræktun og greining á heilaæxlisfrumum (glioblastoma)

Pétur Snæbjörnsson1, Finnbogi Rútur Þormóðsson1, Margrét Steinarsdóttir2, Garðar Guðmundsson3, Hannes Blöndal1



1Rannsóknastofu í líffærafræði, 2litningarannsóknadeild Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, 3heila- og taugaskurðdeild Landspítala Fossvogi

Netfang: peturs@hi.is



Inngangur: Glioblastoma multiforme (GBM), sem er illkynjasta form stjarnfrumuæxla, er ein algengasta tegund heilaæxla og kemur helst fyrir í heilahvelum fullorðinna. Talið er að GBM (gráða IV) geti annars vegar þróast út frá stjarnfrumuæxli af gráðu III (secondary GBM) en geti hins vegar myndast án forstiga (primary GBM).

Með frumuræktun gefst tækifæri til að rannsaka lifandi frumur við skilgreindar aðstæður. Hér er gerð grein fyrir reynslu okkar af tilraun til að rækta heilaæxlisfrumur. Þar þarf fernt að koma til; a) einangra frumurnar, b) rækta, c) greina tegund þeirra og d) greina þær sem æxlisfrumur.

Efniviður og aðferðir: Frumur voru einangraðar úr skurðsýnum með meltingu og síðan ræktaðar í æti ásamt sermi og sýklalyfjum. Frumurnar voru metanólhertar og flúrlitaðar með mótefnum gegn GFAP og vímentíni til smásjárskoðunar. Einnig voru þær skoðaðar í rafeindasmásjá. Litningagreining var gerð með hefðbundnum hætti (G-böndun) auk þess sem flúrljómun (FISH) var beitt til frekari litningagreiningar.

Niðurstöður: Allar frumurnar voru vímentín-jákvæðar en stór hluti frumnanna var einnig GFAP-jákvæður. Úlitsskoðun sýndi að frumurnar höfðu ýmis einkenni krabbameinsfrumna og litningagreining staðfesti að svo væri. Engar eðlilegar frumur fundust við litningagreiningu en bæði tvílitna og fjórlitna frumur sáust.

Ályktanir: Okkur hefur tekist að einangra frumur úr heilaæxlisfrumum (glioblastoma), rækta þær, greina stjarnfrumueðli þeirra og litningagalla. Þannig höfum við náð tökum á aðferðum sem henta þessari frumugerð og lagt grunn að frekari ræktun á heilaæxlisfrumum. Þar með opnast möguleikar á ýmsum rannsóknum, svo sem lyfjaprófunum og erfðaefnisrannsóknum. Áhugavert væri að framrækta þessar frumur frekar í þeim tilgangi að fá fram einsleita æxlisfrumulínu.



V 96 Breytileiki í efnaskiptaensímum og tengsl við brjóstakrabbamein

Katrín Guðmundsdóttir1, Jón Gunnlaugur Jónasson2, Laufey Tryggvadóttir3, Jórunn E. Eyfjörð1



1Rannsóknastofa í sameinda- og frumulíffræði Krabbameinsfélagi Ísland, 3Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagi Íslands, 2Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði Landspítala Hringbraut

Netfang: katrin@krabb.is



Inngangur: Glutathione S-transferasar (GST) hvata tengingu glutathiones við hvarfgjarnar sameindir og vernda þannig frumur líkamans gegn skaðlegum áhrifum ýmissa efna, sem annars gætu valdið stökkbreytingum í erfðaefninu. Þekktir eru fjórir hópar GST ísoensíma í mönnum, (aGSTA), (µGSTM), () og (qGSTT). Fundist hefur fjölbreytileiki í sumum þessara ensíma, sem gæti haft áhrif á hve vel þau sinna hlutverki sínu. Þekktar eru úrfellingar á GSTM1 og GSTT1 genunum og A-G breytileiki í GSTP1 geninu, sem leiðir til amínósýruskipta í ensíminu í bindiseti hvarfefnis. Talið er að áhættan tengd erfðabreytileika sé lítil, en hins vegar er útbreiðsla þeirra mikil og hefur því áhrif á marga einstaklinga. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort breytileiki í GST genunum tengdist brjóstakrabbameini og hvort fylgni væri við 999del5 stökkbreytingu í BRCA2 geni og p53 stökkbreytingar í brjóstakrabbameinsæxlum.

Efniviður og aðferðir: Arfgerðir voru skoðaðar í 728 viðmiðum og í þremur hópum brjóstakrabbameinssjúklinga: 500 konum, 40 arfberum stökkbreytingar í BRCA2 geninu og 388 sýnum sem greind voru með tilliti til p53 stökkbreytinga.

Arfgerðargreining var gerð með PCR, rafdrætti og skerðibútagreiningu.

Niðurstöður: Aukin brjóstakrabbameinsáhætta kom í ljós í tengslum við G samsætu GSTP1 gensins, sem náði þó ekki marktækni (p=0,09). Fleiri stökkbreytingar í p53 geninu var að finna í æxlum þeirra brjóstakrabbameinssjúklinga sem báru GSTT1 núll arfgerð samanborið við þá sem voru með annað eða bæði genin til staðar (p=0,019). GST arfgerðir sýndu enga marktæka fylgni við sýnd 999del5 stökkbreytingar í BRCA2 geni.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að GSTT1 og GSTP1 tengist brjóstakrabbameinsáhættu hér á Íslandi, en nákvæmlega með hvaða hætti er ekki vitað.



V 97 Óstöðugleiki litninga í brjóstakrabbameinum

Sigríður Klara Böðvarsdóttir1, Margrét Steinarsdóttir2, Halla Hauksdóttir2,3, Þorvaldur Jónsson4, Jórunn Erla Eyfjörð1



1Rannsóknastofa í sameinda- og frumuerfðafræði Krabbameinsfélagi Íslands, 2litningarannsóknadeild Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, Landsspítala Hringbraut, 3Urður Verðandi Skuld, 4Landspítali Fossvogi

Netfang: skb@krabb.is



Inngangur: Litningaóstöðugleiki er algengur í brjóstkrabbameinsæxlum, sem og í öðrum krabbameinum. Meðal litningabreytinga sem fram koma eru úrfellingar eða magnanir ákveðinna litningasvæða, ójafnar yfirfærslur og jafnvel endasamruni litninga. Mjög mismikinn litningaóstöðugleika er að finna í brjóstakrabbameinsæxlum, en í verkefninu er einkum lögð áhersla á að rannsaka brjóstaæxlissýni með mikinn óstöðugleika.

Efniviður og aðferðir: Greining er gerð á litningum sem heimtir hafa verið beint úr brjóstaæxlum. Felst hún í því að nota sértæka þreifara, sem eru merktir með flúrljómunarefnum, til þáttatengingar á ákveðna litninga eða litningssvæði (fluorescence in situ hybridization). Notuð hefur verið fjöllitagreiningin COBRA (combined ratio labelling) til aðgreiningar á flóknum litningabreytingum þannig að unnt er að aðgreina alla litninga og hvort um sé að ræða p eða q arma þeirra.

Niðurstöður: Komið hefur í ljós að ásamt flóknum yfirfærslum er endasamruni litninga einnig algengur sem leiðir til myndunar hringlaga litninga og litninga með tvö eða fleiri þráðhöft. Áhersla er lögð á að rannsaka eðli þessara litninga í frumuskiptingu með því rannsaka aðskilnað slíkra kennilitninga í anafasa. Greining er gerð á arfblendni slíkra æxla með notkun þráðhaftsþreifara. Einnig eru skoðaðir ýmsir aðrir þættir sem við koma slíkum breytingum, svo sem þekktar stökkbreytingar (til dæmis p53 og BRCA2) sem hafa áhrif á frumuhringinn og frumuskiptinguna.



V 98 Eitilfrumuæxli í meltingarvegi á Íslandi 1983-1998

Torfi Höskuldsson1, Jón G. Jónasson1, Friðbjörn Sigurðsson2, Kjartan Örvar3, Bjarni A. Agnarsson1



1Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 2krabbameinslækningadeild Landspítala Hringbraut, 3lyflækningadeild St. Jósefsspítala, Hafnarfirði

Netfang: bjarniaa@rsp.is



Inngangur: Eitilfrumuæxli (lymphoma) í meltingarvegi eru tiltölulega sjaldgæf, en margar rannsóknir benda þó til þess að þeim fari fjölgandi og einnig hefur nýlega verið bent á mögulegt orsakasamhengi milli H. pylori sýkinga í maga og myndunar eitilfrumuæxla þar. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga nýgengi, staðsetningu, meinafræðilega greiningu og klíníska þætti í öllum eitilfrumuæxlum sem greindust á Íslandi á árabilinu 1983-1998 og einnig að athuga tíðni H. pylori sýkinga í tengslum við eitilfrumuæxli í maga.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að sjúklingum í skrám Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði og voru meinafræðileg sýni endurskoðuð.

Niðurstöður: Fjöldi sjúklinga sem greindust á þessu 16 ára tímabili voru 53 (35 karlar og 18 konur). Á fyrri hluta tímabilsins (1983-1990) greindust 15 sjúklingar, en á seinni hluta tímabilsins (1991-1998) greindust 38 sjúklingar og voru flestir með æxli af MALT gerð (18). Algengustu æxlin flokkuð samkvæmt REAL flokkun voru MALToma (23), diffuse large B-cell lymphoma (16) og Burkitt lymphoma (6). Flest æxlin voru í maga. Ellefu MALToma voru tengd Helicobacter pylori. Nýgengi fyrir karla á tímabilinu 1,70 fyrir 100 000 og fyrir konur 0,88 fyrir 100 000. Heildarnýgengi frá 1983-1990 var 0,76 fyrir 100 000 en jókst í 1,78 fyrir 100 000 frá 1991-1998 og er um marktæka aukningu milli tímabilanna að ræða.

Ályktanir: Rannsókn okkar sýnir að nýgengi eitilfrumuæxla í meltingarvegi á Íslandi er með því hærra sem þekkist. Miðað við svipaðar rannsóknir annars staðar eru íslensku sjúklingarnir jafnframt yngri, oftar karlar og hlutfallsleg tíðni í maga (einkum hvað varðar MALToma) er hærri.



V 99 Kopar, cerúloplasmín og súperoxíðdismútasi í sjúklingum með Parkinsonssjúkdóm og hreyfitaugungahrörnun

Guðlaug Þórsdóttir1, Jakob Kristinsson2, Jón Snædal1, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir3, Grétar Guðmundsson4, Þorkell Jóhannesson2



1Öldrunarsvið Landspítala Landakoti, 2Lyfjafræðistofnun HÍ, 3endurhæfingardeild Landspítala Kópavogi, 4taugalækningadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: Ingolfur@isholf.is



Tilgangur: Við kynnum tvær rannsóknir á kopar og koparensímum í 40 sjúklingum með Parkinsonssjúkdóm (PD) og 14 sjúklingum með hreyfitaugungahrörnun (ALS). Við skoðuðum einnig járnbúskap í 30 Parkinsonssjúklingum

Efniviður og aðferðir: Í báðum rannsóknunum voru notaðir heilbrigðir einstaklingar af sama kyni og aldri til viðmiðunar. Við mældum þéttni kopars og cerúloplasmíns (CP) í sermi ásamt virkni cerúloplasmíns í sermi. Einnig var mæld súperoxíðdismútasa- (SOD) virkni í rauðum blóðkornum. Einnig var mæld þéttni járns, transferrins, ferrritíns og reiknuð transferrinmettun

Niðurstöður: Í PD var bæði cerúloplasmínþéttni og virkni marktækt lægri í sjúklingum en í viðmiðunarhópi. Bæði súperoxíðdismútasi og cerúloplasmín minnka marktækt með sjúkdómslengd. Enginn munur fannst á þéttni kopars í sermi né munur á virkni súperoxíðdismútasa í rauðum blóðkornum hjá sjúklingum og viðmiðunarhópi. Enginn munur fannst á járnbúskap hjá Parkinsonssjúklingum og viðmiðunarhópi. Varðandi hreyfitaugungahrörnun var enginn munur á koparbúskap sjúklinga og viðmiðunarhóps en dreifing á virkni súperoxíðdismútasa og cerúloplasmíns var marktækt meiri hjá sjúklingum en viðmiðunarhópi.

Ályktanir: Það má sjá merki um truflun í koparbúskap í bæði PD og ALS þó að þessi truflun sé með mismunandi hætti í hvorum sjúkdómi fyrir sig.



V 100 Cystatín C einangrað úr mýlildi drepur sléttvöðvafrumur ræktaðar úr heilaæðum manna

Daði Þór Vilhjálmsson, Finnbogi R. Þormóðsson, Hannes Blöndal



Rannsóknastofa í líffærafræði, læknadeild HÍ

Netfang: finnbogi@hi.is



Inngangur: Uppsöfnun mýlildis í miðlag heilaæða er eitt meginmeinvefjaeinkenni arfgengrar heilablæðingar á Íslandi (Hereditary Cystatin C Amyloidosis, HCCA), en sjúkdómurinn leiðir til endurtekinna heilablæðinga sem dregur sjúklinginn oftast til dauða langt um aldur fram. Mýlildisútfellingar gerðar af erfðagölluðu cystatín C finnast í flestum vefjum sjúklingsins, en aðeins í heilaæðum fylgja þeim merkjanlegar vefjaskemmdir. Mótefnalitun á alfa-aktínþráðum sléttvöðvafrumna heilaæða annars vegar og cystatín C mýlildisins hins vegar, sýndi ótvírætt að sléttvöðvafrumurnar hrörna og hverfa meðan sívaxandi magn mýlildis kemur í þeirra stað, en innanþelsfrumur æðanna virðast óskaðaðar.

Efniviður og aðferðir: Til að rannsaka hugsanleg eituráhrif cystatín C mýlildis á sléttvöðvafrumur heilaæða, var cystatín C mýlildisefnið einangrað úr heilavef HCCA sjúklinga og blandað í ræktunardiska með einangruðum sléttvöðvafrumum úr heilaæðum.

Niðurstöður: Frumurnar sýndu formbreytingar sem lýstu sér í rýrnun útvaxtar, frumubolir urðu hnöttóttir og frumukjarnar, þéttust og urðu ógegnsæir, en öll þessi viðbrögð samrýmast stýrðum frumudauða (apoptosis). Framvinda breytinganna var háð styrk mýlildisefnisins á því bili sem reynt var, það er 12,5-100 µM af cystatín C mýlildi. Við styrkinn 25 µM voru breytingar greinilegar strax á öðrum degi og flestar frumurnar dauðar eða deyjandi í lok fyrstu vikunnar. Frumurnar sýndu engin viðbrögð þegar annað prótín, svo sem BSA, var sett í ræktina í sama styrk.

Ályktanir: Þessar niðurstöður skjóta stoðum undir þá tilgátu okkar að sléttvöðvafrumurnar í heilaæðum HCCA sjúklinga hrörni og hverfi vegna beinna eituráhrifa frá cystatín C mýlildinu.

Þakkir: Styrkt af Rannsóknaráði Íslands og Heilavernd.1. Wagner H, ed. Immunomodulatory Agents from Plants. Basel: Birkhäuser Verlag; 1999.

Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica