Umræða fréttir

Netið, auglýsendur og heilsufarsupplýsingar

AuglÝsendur og ríkisstjórn Bandaríkjanna komu sér nýverið saman um siðareglur varðandi notkun á upplýsingum sem fólk veitir um einkahagi sína á veraldarvefnum. Um er að ræða upplýsingar sem notendur vefsíðna, meðal annars um heilbrigðismál og lækningar, veita á vefnum. Þeirra á meðal eru vefsíður á borð við WebMD og drkoop.com.

Megininntak siðareglnanna er að á vefsíðum þar sem almenningur veitir upplýsingar um einkahagi sína, skuli skýrt koma fram hver stefna viðkomandi vefs er gagnvart auglýsendum. Auk þess skuli vera gefinn kostur á að merkja við þar til gerðan reit ef notandi vill ekki að persónuupplýsingar um hann verði framseldar til auglýsenda.

Skiptar skoðanir eru um ágæti siðareglnanna. Áður en þær voru settar höfðu notendur vefsíðna af þessu tagi enga hugmynd um hvernig farið yrði með upplýsingar þær er þeir veittu. Lyfjafyrirtæki gat keypt allar upplýsingar tiltekinnar vefsíðu og sent auglýsingar til þeirra einstaklinga sem notuðu síðurnar. Slíkar upplýsingar gátu jafnvel dreifst til hundraða auglýsenda. Reglunum er ætlað að bæta úr þessu ástandi, en þær hafa verið gagnrýndar harðlega fyrir að ná allt of skammt. Notandi þarf sérstaklega að taka fram ef hann vill ekki að upplýsingar um hann séu framseldar auglýsendum. Gagnrýnendur reglnanna vilja snúa þessu við, þannig að merkt sé við leyfi til að nota slíkar upplýsingar.

Nýskipaður viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Norman Y. Mineta, telur að þegar reglurnar komi að fullu í gagnið muni þær duga fullkomnlega til að veita nauðsynlega persónuvernd. Gagnrýnendur reglnanna telja að þær hafi fyrst og fremst verið settar til að koma í veg fyrir að Bandaríkjaþing samþykkti strangari löggjöf. Reglurnar veiti notendum vefsins falskt öryggi og auðvelt sé að yfirsjást hvernig skuli segja sig frá notkun gagnanna. Einnig hefur það verið gagnrýnt hve óskýrt sé hvað skuli skilgreint sem ,,viðkvæmar persónuupplýsingar" en reglunum er fyrst og fremst ætlað að ná yfir þess konar gögn. Umræða um þetta mál hófst á vef American Medical News með grein dagsettri 21. ágúst 2000. Þeir sem vilja taka þátt í henni geta farið á slóðina: www.ama-assn.org/sci-pubs/amnews/pick_00/gvsb0821.htm/

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica