Umræða fréttir

Norræna læknaráðið fundar

Símenntun og rafræn skráning voru meðal þess helsta sem fjallað var um á fundi Norræna læknaráðsins, sem haldinn var í Visby á Gotlandi dagana 13.-15. júní síðastliðinn. Jón G. Snædal og Hannes Petersen sóttu fundinn af Íslands hálfu.

Símenntun var eitt meginþema fundarins. Sameiginleg yfirlýsing Norrænu læknafélaganna um símenntun hefur verið samþykkt í stjórnum allra félaganna. Læknafélögin hafa samkvæmt henni tekið að sér að vera í forystu á sviði símenntunar lækna hvert í sínu landi.

Þá var sagt frá rafrænu skráningarformi danskra heimilislækna. Símenntunarpunktar lækna eru skráðir í kerfið og hver læknir getur borið stöðu sína saman við meðaltöl og frávik heildarinnar. Tæpur þriðjungur danskra heimilislækna notar kerfið en þeim fer heldur fjölgandi. Á fundinum var einnig sagt frá skráningarkerfi því sem íslenskir heimilislæknar nota. Reynslan af því er á margan hátt svipuð reynslu Dana og notkunin álíka mikil.

Á fundinum kom fram verulegur áhugi á málefnum er varða íslenska gagnagrunninn. Þau voru rædd undir liðnum: ,,Hvað hefur gerst frá því síðast?". Umræður urðu fjörugar og varð að slíta þeim áður en mælendaskrá tæmdist.

Á fundinum voru kynntar skýrslur frá SNAPS, samstarfshópi sem skoðar og gerir spár um framboð og eftirspurn á læknum. Önnur fjallaði um horfur á vinnumarkaði lækna á Norðurlöndum næstu tvo áratugi en hin um mismunandi áherslur varðandi sérfræðimenntun. Auk þess var rætt um framtíðarhlutverk lækna svo og breytta stöðu lækna gagnvart sjúklingum sínum í upplýsingasamfélagi nútímans. Það verður æ algengara að sjúklingar afli sér gagna á netinu og spyrji upplýstra spurninga. Þetta gerir auknar kröfur til lækna í samskiptahæfni og viðhaldi menntunar í starfi.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica