Umræða fréttir

Aðalfundur Lífeyrissjóðs lækna Aldurstengdu réttindakerfi komið á

Lífeyrissjóður lækna hélt fjölmennan aðalfund um miðjan apríl og var þar samþykkt að taka upp aldurstengt réttindakerfi. Samhliða því voru áunnin réttindi sjóðfélaga aukin um 45%. Báðar þessar samþykktir helgast af styrkri stöðu sjóðsins um þessar mundir en hrein eign hans jókst úr 8,9 milljörðum í 11,4 milljarða króna á síðasta ári.

Raunávöxtun sjóðsins var á síðasta ári 16,4% en nafnávöxtun 22,4%. Síðustu fimm ár hefur raunávöxtun sjóðsins verið að jafnaði 10,4% á ári sem verður að teljast góður árangur. Tryggingafræðileg staða sjóðsins var sterk þegar úttekt var gerð á henni um síðustu áramót. Miðað við 3,5% raunávöxtun eru eignir sjóðsins 4,6 milljarðar umfram áfallnar skuldbindingar.

Í ljósi þessarar góðu stöðu var ákveðið að taka upp aldurstengt réttindakerfi en það felur í sér að lífeyrisréttindi munu í framtíðinni ráðast af aldri sjóðfélaga þegar iðgjald er greitt en áður voru áunnin réttindi óháð aldri. Það þýðir í raun að iðgjald sem læknir greiðir í sjóðinn þegar hann er þrítugur veitir meiri réttindi en iðgjald sem hann greiðir um sextugt. Þetta helgast af því að fyrra iðgjaldið á eftir að standa á vöxtum í sjóðum allt að fjórum áratugum en hitt mun skemur.

Í blöðum sem dreift var á fundinum eru talin upp helstu rökin fyrir þessari breytingu:

o Afkoma lífeyrissjóðsins er óháð aldurssamsetningu sjóðfélaga.

o Hver sjóðfélagi fær réttindi í hlutfalli við sparnaðartíma og tryggingalega áhættu. Enginn sjóðfélagi hagnast á kostnað annars.

o Sjóðfélagar geta hætt fyrr að vinna án þess að missa af "verðmætustu" árunum.

o Sjóðfélagar geta greitt viðbótariðgjald (umfram 11% af launum) til Lífeyrissjóðs lækna og þannig aukið lífeyrisréttindi sín í samtryggingarsjóði.

o Hægt verður að úthluta eignum umfram skuldbindingar árlega til sjóðfélaga. Það verður ekki lengur þörf á að eiga varasjóð til að mæta breytingum á aldurssamsetningu sjóðfélaga.

Við undirbúning þessara breytinga var skoðað hvaða áhrif þær hefðu fyrir einstaka aldurshópa innan sjóðsins og kom þá í ljós að elstu og yngstu sjóðfélagarnir hagnast á breytingunum. Sjóðfélagar á miðjum aldri hagnast minna vegna þess að þeir hafa þegar greitt í sjóð sem byggir á jöfnum réttindum hálfa starfsævina. Þess vegna var samþykkt að gera ráðstafanir til að jafna réttindin. Áunnin réttindi verða ekki skert en réttindi sjóðfélaga reiknuð eins og þeir hefðu greitt í aldurstengdan sjóð frá upphafi.

Á aðalfundin var gerður góður rómur að þessum tillögum og þær samþykktar í miklu bróðerni. -ÞH


Þetta vefsvæði byggir á Eplica