Umræða fréttir

Læknar á Íslandi. Nýtt Læknatal komið út

Á aðalfundi LÍ fyrir sex árum var samþykkt að ráðast í nýja útgáfu af ritinu Læknar á Íslandi, hina fjórðu, og hefur verkið nú séð dagsins ljós. Fyrsta útgáfan kom út árið 1944, unnin af Vilmundi Jónssyni landlækni og Lárusi H. Blöndal bókaverði. Ritstjóri hins nýja Læknatals er Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur, en Bókaútgáfan Þjóðsaga annaðist útgáfuna. Í ritnefnd sátu af hálfu LÍ læknarnir Hafsteinn Sæmundsson, Sigurbjörn Björnsson og Örn Bjarnason.

Læknatalið nýja er mikið að vöxtum, í þremur bindum alls 1725 síður. Þar er að finna æviskrár 2022 lækna sem starfað hafa og/eða numið læknisfræði á Íslandi frá miðri 17. öld til ársins 2000.

Í tilefni útgáfu ritsins bauð stjórn LÍ til samsætis í húsakynnum sínum þann 28. apríl síðstliðinn, en það var formlegur útgáfudagur ritsins. Formaður LÍ Sigurbjörn Sveinsson bauð gesti velkomna, ekki síst heiðursgesti sem voru læknarnir Baldur Johnsen, Erlingur Þorsteinsson, Friðrik Einarsson og Sigurður Samúelsson en þeirra hefur verið getið í öllum Læknatölum sem út hafa verið gefin.

Formaður rakti í grófum dráttum þá vinnu sem liggur að baki útgáfunni og þakkað öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn: ritnefnd, ritstjóra, starfsmönnum Þjóðsögu, fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjóra LÍ og læknunum Hannesi Finnbogasyni, Tryggva Þorsteinssyni, Sigmundi Magnússyni og Árna Björnssyni sem af mikilli óeigingirni prófarkarlásu allt verkið. Í ávarpi sínu sagði Sigurbjörn meðal annars: "Í dag fáum við í hendur æviágrip og ættir hundruða lækna, sem lagt hafa læknislistinni lið á Íslandi á umliðnum öldum. Öll gerum við okkur grein fyrir að hér er einungis að finna ramma um líf, ytri ásýnd þess, sem gerst hefur. Að baki hverju nafni býr yfirleitt mikil og flókin saga eins og verða vill í lífinu yfirleitt. Að baki eru örlög, sigrar og ósigrar í önn hversdagsins. Í þessi örlög fléttast og saga ástvina læknanna og allra þeirra annarra, sem gerðu þeim kleift að leggja stund á lækningarnar. Sumpart má finna heimildir um það annars staðar en í flestum tilfellum er líf þessa fólks óskrifuð saga, sem tíminn einn geymir."

Heiðursgestunum voru afhent fyrstu eintökin af ritinu og síðan öðrum þeim sem að framan er getið.

Læknar á Íslandi er til sölu hjá Þjóðsögu í Húsi verslunarinnar, s. 511 1777 og kostar kr. 26.900. Einnig mun verkið fást í einhverjum öðrum bókaverslunum.

-bþ


Þetta vefsvæði byggir á Eplica