Umræða fréttir

Frá Kvennadeild Landspítalans. Endurtengingar eggjaleiðara

Endurtengingar eggjaleiÐara eftir ófrjósemisaðgerð hafa einkum verið gerðar á Kvennadeild Landspítalans á undanförnum árum. Um er að ræða kviðarholsaðgerðir þar sem eggjaleiðarar eru endurtengdir undir smásjá. Aðgerðin er talsvert yfirgripsmikil og oft þarf kviðarholsspeglun nokkru eftir aðgerðina að auki vegna viðbótarmeðferðar. Kostnaður við aðgerðirnar er verulegur. Árangur er um 50-70% ef aðrir þættir er varða frjósemi eru í lagi. Áhætta á utanlegsþykkt er aukin eftir endurtengingaraðgerðir. Oft er ástæða þessara aðgerða vel ígrunduð og fyllilega réttmæt en í öðrum tilvikum getur virst að svo sé ekki. Við höfum því undanfarin þrjú ár haft eftirtaldar vinnureglur á Kvennadeildinni sem hér eru kynntar öllum læknum.

1. Áður en konan er tekin til aðgerðar þarf að vera búið að staðfesta að hún hafi egglos (prógesteron mæling á síðari hluta tíðahrings).

2. Almennt heilsufar konunnar þarf að vera gott.

3. Niðurstöður sæðisprófs hjá maka þurfa að liggja fyrir.

4. Meta þarf ástand eggjaleiðara með tilliti til möguleika á árangri, sem yfirleitt er gert með kviðarholsspeglun.

5. Hjá mörgum konunum er einnig viðeigandi að þær fari í viðtal hjá félagsráðgjafa, þar sem félagslegar aðstæður konunnar eru kannaðar. Sambúð þarf að vera trygg.

6. Til viðmiðunar við reglur um glasafrjóvgun þá hefur hámarksaldur verið settur við 42 ár. Hjá konum yfir þeim aldri eru líkur á þungun sem leiðir til barneigna ekki góðar og minnka hratt með aldrinum.

7. Loks þarf að vekja athygli þeirra, sem eftir slíkri aðgerð leita, á því að gjald fyrir endurtengingaraðgerð er kr. 129.000,00 og er þar stuðst við reglugerð um hlutdeild sjúkratryggða í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu frá 29. mars 1999.



Einn sérfræðinga deildarinnar (AuG) hefur gert þessar aðgerðir. Beiðni um aðgerð ásamt nauðsynlegum upplýsingum, samanber liði 1-4 hér að ofan, þarf að berast til hans. Biðtími eftir aðgerð sem þessari er að minnsta kosti þrír til sex mánuðir.



Reynir Tómas Geirsson

Auðólfur Gunnarsson

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica