Umræða fréttir

Fundur Evrópusamtaka sérfræðilækna í Vínarborg dagana 21.- 24. október 1999

Undirritaður fór á ársfund Evrópusamtaka sérfræðilækna (UEMS) í Vínarborg á haustdögum, sem fulltrúi Læknafélags Íslands. Þessi samtök, sem urðu 40 ára í fyrra, eru regnhlífarsamtök evrópskra sérfræðilækna og hefur Ísland verið fullgildur meðlimur síðan haustið 1997.

Á fundinum að þessu sinni var mál málanna áform um að koma meiri samhæfingu á símenntun lækna í Evrópu. Fyrirhugað er að koma á fót Símenntunarstofnun Evrópu, sem UEMS hyggst ráða einkaaðila til að reka. Stofnun þessi á væntanlega að hafa með höndum samhæfingu og framkvæmd símenntunarmála, talningu endurmenntunarpunkta, þar sem slíks er krafist og svo framvegis Allt er þetta þó í mótun enn sem komið er.

Vandamál sem varða einstakar sérfræðigreinar eru alltaf rædd talsvert á aðalfundum UEMS. Að þessu sinni bar þar helst til tíðinda að samþykkt var að taka upp til reynslu Section of clinical neurophysiology, sem er ákveðin viðurkenning fyrir klíníska taugalífeðlisfræði sem sérgrein. Gyneacological Oncology sótti um að viðurkenningu innan UEMS sem undirsérgrein. Við þessari beiðni var orðið en almennt virtust fulltrúar hafa áhyggjur af síauknum fjölda sérgreina og undirsérgreina innan læknisfræði. Fleiri mál af svipuðum meiði voru rædd, bæði ónæmislækningar og nýburalækningar, sem og taugalækningar sem undirsérgreinar af barnalækningum. Ekki var tekin nein ákvörðun hvað varðar þessar sérgreinar/undirsérgreinar, en nánari upplýsingar um umræðuna er hægt að fá hjá LÍ.

Gengið var til kosninga um nýja stjórn UEMS. Þar áttust við annars vegar alvörugefinn franskur fulltrúi, Hoertig en hins vegar lagviss Íri, Cillian Twomey. Hoertig naut stuðnings frönskumælandi þjóða sem og fulltrúa Miðjarðarhafsins en Twomey var maður Bretlandseyja, Norðurlanda, Hollands og Portúgals. Leikar fóru þannig að Twomey var kosinn forseti samtakanna, sem er mikið lán. Kosningar um aðrar stöður fóru einnig þannig að Norður-Evrópubúar eru þar í meirihluta.

Gestrisni Austurríkismanna var við brugðið og mikið sungið, enn meir borðað en ekkert dansað þá daga sem fundurinn stóð.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica