Umræða fréttir

Félag eldri borgara mótmælir lokun deilda á sjúkrahúsum

Félag eldri borgara í Reykjavík hefur sent frá sér ályktun þar sem það "mótmælir kröftuglega fækkun sjúkrarýma á hjúkrunar-, geð- og handlækningadeildum eins og fram kemur í fjárhagsáætlun stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík fyrir árið 2000."

Í ályktuninni er bent á að stór hluti þess fólks sem er á biðlistum sé eldra fólk. Vitnað er til ýmissa kannana á biðlistum sem sýna meðal annars eftirfarandi:

o Síðastliðin fjögur ár hafa að staðaldri verið um 7.000 manns á biðlistum.

o Allt að 65% sjúklinga á bæklunarlistum bíða í 6-12 mánuði eftir aðgerð þrátt fyrir verulegar þjáningar á biðtímanum og draga fram lífið á sterkum verkja- og svefnlyfjum.

o Áður fyrr gengu sjúklingar með gallsteina fljótlega undir aðgerð en nú er algengt að yfir 60% þeirra komist ekki í aðgerð fyrr en ástand þeirra hefur stórversnað og batalíkur minnkað.

o Nú bíða yfir 200 aldraðir eftir hjúkrunarplássi á Reykjavíkursvæðinu, en 30-40% þeirra eru of veikir til þess að bíða heima.

o Skortur á sjúkrarýmum á geðdeildum veldur því að margt fársjúkt fólk fær ekki vistun en reikar um götur með lyf í vasa sem það hefur ekki rænu á að taka inn.

Í ályktuninni er fjallað nokkuð um bollaleggingar um afköst sjúkrastofnana og klykkt út með þessari spurningu: "Hvaðan koma þær hugmyndir stjórnenda og stjórnmálamanna um afköst sjúkrastofnana sem stangast þvert á athuganir þeirra er sinna veiku fólki daglega?"



Þetta vefsvæði byggir á Eplica