Umræða fréttir
  • Fig. 1

Gömul læknisráð: Hrein er hundstungan

Mér er minnisstæð saga sem móðir mín sagði mér frá því er hún var barn á Vestdalseyrinni við Seyðisfjörð eystra. Grasa Þórunn, svo kölluð vegna grasalækninga sinna, dvaldi þar, gömul kona, hjá dóttur sinni, en dótturdóttir Þórunnar var aftur á líku reki og mamma og þær léku sér saman. Einu sinni komu þær inn, svangar eftir leik, og góð og mikil matarlykt dró þær inn í eldhúsið þar sem var fullt fat af heitu kjöti. "Í guðanna bænum ekki snerta, þetta er hundur," hrópaði húsmóðirin þegar þær nálguðust fatið. Hún hafði verið að sjóða hund fyrir Þórunni sem hugðist nota flotið af honum í græðismyrsl, en Þórunn var meðal annars þekkt fyrir að græða brunasár fljótt og vel.

Þegar ég skoðaði svör við spurningaskrá um hundinn sem send var út frá þjóðháttadeild árið 1987 kom í ljós að margir sem svöruðu könnuðust við að hundafeiti væri notuð til lækninga. Um það voru heimildir úr öllum landshlutum en minnst af Suðurlandi. Hafi Sunnlendingar staðið í því að sjóða hunda sína til flots, þá virðist það hafa verið úr sögunni fyrir 100 árum síðan. Þeir 70 sem svöruðu skránni voru flestir fæddir í blábyrjun 20. aldar. Nefnt var að það hefði komið fyrir að hundum væri slátrað eingöngu vegna þess að hundafeiti vantaði og að mergurinn úr beinunum hefði þótt alveg sérlega kröftugur í lækningaskyni. Eitt af því sem þurfti að vera til á sumum bæjum voru dósir eða öskjur með hundafeiti til að grípa til þegar á þurfti að halda. "Fram yfir 1930 var alltaf til hundafeiti á bænum," skrifaði skagfirskur heimildarmaður. Eyfirðingur segir:

"Það er engin fjarlæg þjóðsaga að hundafeiti væri notuð til lækninga og það fram á þessa öld. Mig minnir að ég heyrði eða læsi frásögn um að Hallgrímur Jónasson kennari, landskunnur maður, væri læknaður af hnémeiðslum þegar hann var barn, með því að vefja hundsnetju um hnéð og láta það sitja þannig einhverja daga. Þá var hundafeiti borin á mar og alls konar meiðsli og ég þekkti konur, sem vitað var að áttu alltaf hundafeiti til alls konar lækninga." Og Austfirðingur skrifar eftirfarandi: "Bróðir minn var á Hvanneyri um 1920. Þar var þá lógað hundi sem bústjórinn fláði, setti kjötið í pott og sauð. Sagði bústjórinn að hundafeiti væri sá besti áburður sem hægt væri að fá við útvortis meinsemdum og þrautum."

Sumir nefndu tófumör eða tófufeiti í sama bili til dæmis að setja ætti hundsnetju eða tófumör við liði sem væru að kreppa. Einn heimildarmanna þekkti dæmi um að tófumör hefði virkað á slík bágindi, en tófur og hundar eru náskyld dýr. Þá var nefnt að tófuhár hefði þótt gott við kuldabólgum.

Algengast var að hundafeitin væri gigtaráburður, en hún var einnig borin á bólgur, tognun, æðahnúta og ýmis konar sár, til dæmis legusár og brunasár og notuð sem handáburður. Hundafeiti var líka notuð til að græða sár og meiðsli á hestum. Hrátjara var soðin saman við hundafeiti til að bera á bólgur en vallhumall þegar gera átti græðikrem. Alþekkt var að sjóða græðismyrsl úr vallhumli, en algengast mun hafa verið að nota ósaltað smjör í vallhumalssmyrsl.

Þá var nefnd sú saga að fólk hefði læknast af holdsveiki þegar volgt nýflegið hundsskinn hefði verið lagt á kaunin með holdrosann að. Frá lækningu af þessu tagi er sagt í bókinni Úr byggðum Borgarfjarðar eftir Kristleif Þorsteinsson (2. hefti bls. 315). Skinn voru annars oft flegin af hundum í gamla daga verkuð og höfð til ýmissa þarfa. Þykja þau afar teygjanleg og þess vegna mun orðtakið að "vera eins og útspýtt hundsskinn" vera til orðið um þann sem hefur verið togaður og teygður til hins ýtrasta. Hundsskinn þóttu sérlega góð til að hafa innan klæða við gigtarbletti og eins voru þau oft höfð undir reiðingum á hestum til að varna særi.

"Hrein er hundstungan" eða "heilnæm er hundstungan" eru þekkt orðtök og enn algengara er "kattartungan særir en hundstungan græðir" enda vita þeir sem hafa umgengist þessi dýr að kattartunga er snörp en hundstunga mjúk. Margir hafa hneykslast á þeim sögum að í gamla daga hafi hundar verið látnir sleikja aska og hugsað með hryllingi til sullaveikinnar. En heimildarmenn sem svöruðu þessari skrá, nær allir fæddir eftir aldamót, virtust margir kannast við að hundar væru látnir sleikja sár eins og sést á eftirfarandi brotum úr svörunum:

"...var svo talið að ekki hlypi illt í sár sem hundur sleikti til dæmis á sjálfum sér og furða var hvað sár á hundum greru fljótt ef þeir náðu að sleikja þau. Sumir höfðu líka mestu tröllatrú á að láta hunda sleikja sig og sagt var um mann einn að hann þvægi sér ekki öðru vísi en svo að hann bæri skyr framan í sig og í eyrun og léti svo hundinn sleikja."

"Ég man að pabbi fékk einu sinni sár á milli tánna, og að Táta gamla var látin sleikja það," segir í annarri heimild en þar er talið alvanalegt að hundar sleiktu sár, sérstaklega þó ígerðir til lækninga.

Heimildarmaður úr Norður Múlasýslu skrifar:

"Ég held að öruggt sé að hundstungan sé græðandi. Það reyndist hún okkur börnunum, hvort sem var á höndum eða fótum. Oft var ekki heil brú í skónum að kvöldi eftir fjallgöngur allan daginn. Smalahundurinn bara sleikti allar mínar benjar og það var eins og hætti að blæða og allt greri."

Á þessu viðhorfi voru þó undantekningar og er þetta til dæmis haft eftir Strandamanni:

"Ég veit hvorki til né hefi heyrt þess getið, að nokkrum manni eða konu hafi til hugar komið að láta hund sleikja sár og skurfur í græðslu- og lækningarskyni. Þvert á móti gætti fólk mikillar varfærni í sínum samskiptum við hunda, að minnsta kosti allt yngra fólk." Annar heimildarmaður segir að á fyrri hluta aldarinnar hafi börnum verið bannað að snerta hunda eða láta þá sleikja sig.

Það voru nær eingöngu Árnesingar sem þekktu sögur um lækningamátt tíkarmjólkur. Það var þá fyrst og fremst að hún ætti að örva hárvöxt, en því brá jafnframt fyrir að þetta væri að vera þveröfugt, menn ættu að bera hana á sig til að eyða hárum. Einn hafði heyrt að gott væri að bera tíkarmjólk á sár.

Nokkuð þekkt var trúin um að hundar sæju feigð á mönnum, enda þóttu þeir afar næmir. Af hegðun þeirra mátti til dæmis marka veðurfar á næstunni og gestakomur og þá einnig hvernig fylgjur tilvonandi gestir hefðu. Þegar hundar þefuðu af einhverjum og gengu síðan í burtu sneyptir með lafandi skott átti viðkomandi ekki langt eftir. Sérstaklega voru hundar næmir á þetta gagnvart eigendunum og sögð var saga bónda sem merkti eigin feigð af heimahundinum - og dó síðan drottni sínum.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica