Umræða fréttir
  • Fig. 1

Fjölmenni á Læknadögum

Læknadagar stóðu vikuna 17. til 21. janúar og lauk þeim með ráðstefnu Samtaka um krabbameinsrannsóknir á Íslandi. Fóru fundir fram bæði að Hlíðasmára og á Hótel Loftleiðum. Auk erinda á málþingum var lyfja- og áhaldasýning lyfjafyrirtækja.

Fjölmörg efni voru tekin fyrir á málþingum læknadaga og má nefna tengsl skurðlækninga við vefja-, meina- og sýklafræðina, nýjungar í meðferð á æðasjúkdómum, kosti og galla sýklalyfjameðferðar, meðferð illkynja blóðsjúkdóma, nýjungar í ofnæmis- og ónæmisaðgerðum, stöðu og árangur líffæraflutninga, nýjungar í húðlækningum og nýjungar og framtíðarhorfur í kvenlækningum. Samtök um krabbameinsrannsóknir héldu sérstakt málþing á síðasta degi læknadaga sem hélt síðan áfram á laugardeginum í húsnæði Krabbameinsfélagsins. Var þar rætt um fjölmargar hliðar á rannsóknum á hinum ýmsu krabbameinum og fulltrúar líftæknifyrirtækjanna Urðar, Verðandi, Skuldar og Íslenskrar erfðagreiningar gerðu grein fyrir hlutverki fyrirtækjanna í krabbameinsrannsóknum.

Í framkvæmdanefnd læknadaga sitja Stefán B. Matthíasson, formaður Fræðslustofnunar lækna, Hannes Petersen, framkvæmdastjóri framhaldsmenntunarráðs læknadeildar Háskóla Íslands, og Ari Jóhannesson, stjórnarmaður í Fræðslustofnun. Margrét Aðalsteinsdóttir er ritari nefndarinnar. Góð aðsókn var að læknadögum og þykir mönnum tímasetning þeirra hentug en nefna má að árshátíð LR var haldin í beinu framhaldi.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica