Umræða fréttir

Gott að vera með frá upphafi

Ósk Ingvarsdóttir sérfræðingur í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp er ein þeirra lækna sem vinnur á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Hún sinnir þessu starfi til viðbótar við venjuleg störf sín á Miðstöð mæðraverndar og eigin sérfræðistofu, en allir læknar móttökunnar eru í fullu starfi annars staðar. Hvað varð til þess að hún ákvað að gefa kost á sér til starfa við Neyðarmóttökuna?



,,Ég byrjaði strax og undirbúningur undir stofnun móttökunnar hófst. Það kom til af því að Guðrún Agnarsdóttir hafði samband við mig og nokkra aðra lækna sem hugsanlega hefðu áhuga á málefninu. Við hittumst veturinn 1992-1993 og kynntum okkur það sem gert var á svipuðum móttökum erlendis, til dæmis á Læknavaktinni í Osló, sem var í mörgu fyrirmynd okkar móttöku. Auk þess höfðum við skýrslu nauðgunarmálanefndar frá Alþingi til hliðsjónar. Við kynntum okkur margvíslegt efni varðandi nauðganir og nauðgunarmóttökur auk þess sem við bættum við út frá eigin reynslu og hugmyndum. Þannig lögðum við drögin að móttökunni, bæði okkar starfi og væntanlegu samstarfi við aðrar stéttir."

Var ekki gott veganesti að taka þátt í mótuninni?

,,Jú, það var bæði góð og gagnleg reynsla. Einkum vegna þess að þarna var farið af stað með mál sem fékk góðan undirbúning og var skipulagt frá grunni. Ég held að í mörgum þáttum heilbrigðiskerfisins mætti taka þetta til fyrirmyndar. Það var líka jákvætt og gagnlegt að geta byggt á því að úttekt hafði verið gerð á málaflokknum, í þessu tilviki með viðamikilli skýrslu nauðgunarmálanefndar."

Hafa hugmyndirnar staðist tímans tönn?

,,Já, þessi móttaka er búin að margsanna sig, það er engin spurning. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á móttökunni hafa átt rætur í mánaðarlegum fundum allra starfsstétta sem vinna við móttökuna. Þær koma saman og ræða mál sem koma upp á og þær endurbætur sem þarf að gera. Á þessum fundum er líka litið yfir farinn veg og horft fram í tímann. Það er ekki algengt að starf sé það vel skilgreint að ætlaður sé tími í þess konar hluti. Á þennan hátt hafa agnúar verið sniðnir af jafnóðum og hugmyndir komast á framfæri."

Finnst þér jákvætt að vinna í teymi margra starfsstétta?

,,Já, að mörgu leyti held ég að við nýtumst vel með þessari fyrirfram ákveðnu verkaskiptingu."

Er álagið í þessum starfi meira eða öðru vísi en þú átt að venjast?

,,Oft er það meira og tvímælalaust annars eðlis. Við vinnum með brotaþolum sem hafa orðið fyrir alvarlegum glæp og maður kemst ekki hjá því að komast í snertingu við þá miklu vanlíðan sem því fylgir, þótt sem áhorfandi sé. Sumir eiga í ýmiss konar öðrum erfiðleikum líka og það er auðvelt að finna sig vanmáttuga. Við erum að sinna þessu brotamáli og getum ekki gert allt. En það jákvæða er að ef um annars konar erfiðleika er að ræða, þá getur þessi reynsla brotaþolans og aðstoðin sem hann fær oft orðið til þess að hann nái sjálfur að vinna úr erfiðleikunum."

Hvernig er með það sem nefnt er áhættuhegðun?

,,Oft er um áhættuhegðun að ræða, en það þarf ekki endilega að vera að óeðlileg áhætta sé tekin. Unglingar eru til dæmis alltaf að taka áhættu, sem gefur þeim reynslu og þroska, en heimilar ekki nokkrum að fara óboðinn inn fyrir þeirra landamæri og brjóta á rétti þeirra. En þeir sem lenda í nauðgunum eru oft ungir að árum og það getur verið erfitt að horfa upp á þegar þeir verða fyrir erfiðri reynslu sem getur haft áhrif á líf þeirra seinna meir."

Eru einhverjir hópar í meiri áhættu en aðrir?

,,Það virðist vera að fólk sem hefur lent í áföllum af svipuðu tagi áður eða í æsku sé stundum í meiri áhættu en aðrir. Þess vegna er mikilvægt að beina einnig fræðslu til þessara hópa. Sjúklingar með geðræn vandamál hafa sumir lent í erfiðri reynslu einhvern tímann. Það getur verið skynsamlegt að fara með fræðslu inn á geðdeildir. Einnig þarf að kynna málefnið betur fyrir þeim sem vinna með þroskahefta, það er hvernig þeir eiga að taka á svona málum ef grunur kemur upp um nauðgun eða misnotkun."

Er fleira sem veldur álagi?

,,Já, oftar en ekki verða nauðganir um helgar og að nóttu til, og það eru auðvitað rask og álag út af fyrir sig."

Nú gegnið þið í raun tvöföldu hlutverki, að sinna læknisskoðun og réttarlæknislegri hlið starfsins. Þarf að setja sig í ákveðnar stellingar þess vegna?

,,Við verðum að vera gagnrýnni en ella, bæði í skoðun og hugsun. Við getum þurft að standa fyrir máli okkar fyrir rétti og gera grein fyrir þeim ályktunum sem við höfum dregið, af skoðun, viðtali og sýnatöku. Það þarf að gæta hlutleysis og vera mjög nákvæmur, til dæmis í orðalagi og lýsingum áverka. Þó við höfum flest starfað lengi, finnst engu okkar auðvelt að koma sem vitni í dómsmáli. Hins vegar hafa bæði þeir sem eru verjendamegin og sækjendamegin lært heilmikið á þeim tíma sem liðinn er frá því móttakan opnaði. Þeir skilja málin og röksemdafærsluna betur nú en áður."

Hvernig byggið þið ykkur upp til að mæta þessu álagi?

,,Við styrkjum hvert annað og ræðum saman þannig að við vitum hvaða reynslu hver fyrir sig öðlast með því að fara fyrir rétt. Berum saman bækur okkar um spurningar, framkomu, svör og heimildir sem við vitnum í. Síðan má segja að það sé verulegur styrkur í því hvernig móttakan er byggð upp varðandi vinnubrögð. Skýrslueyðublöðin sem við fyllum út eru stöðluð og fyllt út á nákvæman hátt sem tryggir góð vinnubrögð og vekur traust."

Þannig að þið þurfið ekki að vera á nálum yfir að gleyma einhverju?

,,Nei, alls ekki. Við höfum líka alltaf hjúkrunarfræðing með okkur við móttöku brotaþolans og samvinnan er góð. Með tímanum höfum við líka náð betri tökum á þessu fjölþætta hlutverki. Auk læknisstarfs og réttarlæknisrannsóknar metum við andlegt ástand konunnar eða karlsins - oft er viðkomandi í losti - en það geta líka verið allt frá tiltölulega litlum viðbrögðum, ef í hlut á sterkur einstaklingur, til einstaklings í sjálfsmorðshættu. Þetta þarf að meta og vísa viðkomandi áfram ef eitthvert hættuástand er á ferðinni. Hið venjulega læknishlutverk felst í að huga að áverkum og meðhöndla meiðsl og sár, tognanir og þvíumlíkt. Meðan við gerum þessar skoðanir þarf að vinna hinar réttarlæknisfræðilegu athuganir og skoðanir og taka sýni jafnóðum. Þannig að það geta komið stundir þegar manni finnst að brotaþolinn sé afskiptur. Þá þarf að sýna fram á að verið sé að gera það besta sem hægt er, því sýni þurfa auðvitað að vera rétt merkt og vel frá þeim gengið."

Er ekki boðið upp á einhvers konar handleiðslu?

,,Jú, læknahópurinn hittist reglulega og við eigum eftir að taka saman reynslu okkar af því. Eins og algengt er með lækna þá finnst þeim að þeir eigi að geta ráðið við allt, sérstaklega eigið álag. Í fyrstu vorum við svolítið efins um þetta fyrirkomulag, en þetta hefur reynst mjög gagnlegt, ekki síst félagslega séð. Við sem erum í læknateyminu vinnum hvert á sínum vinnustað, hittumst mjög sjaldan og sum hver mundum við ekki hittast nema af því þessir fundir eru haldnir. Við höfum gagn og gaman af fundunum, tölum saman og hlæjum, erum líka að greiða úr hagnýtum málum, gera ráðstafanir, áætlanir og taka ákvarðanir. Auk þess getum við létt á okkur og rætt um erfiða hluti."

Hvað rekur fólk til þess að vera í þessu ofan á fullt starf?

,,Ég held að fyrst og fremst hafi ég haft þá tilfinningu frá upphafi að þarna væri hægt að gera gagn. Og ennþá held ég að flestum okkar finnist að svo sé. Við fáum svörun við vinnu okkar tiltölulega fljótt. Hittum konuna sem við tókum á móti aftur eftir tvær vikur og finnum að hún er fegin að hafa komið. Móttakan hefur nýst henni. En hvort nauðgunum fækkar eða ekki er auðvitað mjög erfitt að meta. Ég á frekar von á að svo sé. Það að þessum málaflokki er almennilega sinnt og brotaþolar finna að þeir eiga einhvern vettvang leiðir ef til vill til einhverrar viðhorfsbreytingar. Þótt tíðnitölur segi það ekki beint, þar sem ekki er hægt að segja til um hve margir voru ótaldir áður, þá er það mín trú."

Hvað með karlana?

,,Ennþá held ég að þeir séu ragari við að koma en konurnar en það er vonandi að breytast."

Er Neyðarmóttakan ekki orðin þjónusta sem allir reikna með?

,,Jú, ég held að það sé reynsla þeirra sem hafa komið og aðstandenda eða vina sem koma með, að þjónustan sé búin að sanna sig. Neyðarmóttakan er komin til að vera."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica