Umræða fréttir

Aðalfundur Comité Permanent árið 2000

Aðalfundur Comité Permanent (CP) var haldinn í Brussel dagana 10. og 11. nóvember 2000. CP, eða Comité Permanent/ Standing Committee, fundar að jafnaði tvisvar á ári, að vori og hausti, fyrir utan aðalfund í nóvember ár hvert. Stjórn LÍ fól undirritaðri að vera fulltrúi félagsins hjá CP fyrir rúmu ári og birti Læknablaðið grein um starfsemi samtakanna á síðasta vetri (Læknablaðið 2000; 86: 445-6).

Á aðalfundinum nú voru mættir fulltrúar 16 landa af 17, en írski fulltrúinn var fjarverandi. Samþykkt var að veita tveimur nýjum löndum aukaaðild, en það voru Ungverjaland og Eistland, sem verið hafa áheyrnarfulltrúar um nokkurt skeið.



Lagabreytingar

Alllangur tími fór í að ræða lagabreytingar, en þær koma fram í skjali merktu CP/2000 Rev3 og er þar um að ræða breytingar bæði á lögum CP (statutes) og reglugerð (rules of procedure). Í fyrsta lagi var fellt niður lagaákvæði um að skylt væri að Belgar ættu sæti í fastanefndinni, en slíkt hafði verið í belgískum landslögum um erlend félög síðan 1919 en þeim lögum var breytt 30. júní síðastliðinn. Þá var ákvæði um áheyrnarfulltrúa breytt og munu þeir eftirleiðis eiga aukaaðild að CP (associate members eða associate associations í stað observers). Í þriðja lagi var kveðið nánar á um það hvernig framselja megi atkvæði frá einu aðildarríki til annars. Í reglugerð voru gerðar breytingar til samræmis en að auki tekið til hendinni í vandasömu, langvarandi deilumáli: hvernig fara eigi með hjásetu í atkvæðagreiðslu. Í CP hefur nefnilega gilt sú regla að hjáseta hefur verið reiknuð inn í heildaratkvæðatölu og þurft hefur þrjá fjórðu hluta atkvæða til að samþykkja mál Á þann hátt hafa tillögur fallið hver um aðra þvera á síðustu árum, samanber tillögu CP 2000/51 sem sagt var frá í síðustu skýrslu í Læknablaðinu. Þar féllu atkvæði þannig að 12 voru meðmæltir, einn á móti en fjórir sátu hjá. Þá var reiknað út að tillagan hefði fengið 12 atkvæði af 17 en það eru rúm 70% en ekki þrír fjórðu. Eftir breytinguna eru atkvæði með og á móti talin, sömuleiðis hjásetur en þær ekki taldar með lengur. Ofangreind tillaga um að breyta þessu var samþykkt með 12 atkvæðum gegn fjórum og náði því fram að ganga. Mjótt var þó á mununum. Loks átti að greiða atkvæði um hvort lengja ætti kjörtímabil forseta CP úr tveimur í þrjú ár en tillagan var dregin til baka og stendur ákvæðið því óbreytt.



Fjárhagur CP

Þegar nýir endurskoðendur, PriceWaterhouse -Coopers, fóru að rýna í reikninga CP fyrir árin 1998 og 1999 voru nokkur atriði óljós, einkum vantaði kvittanir vegna ferðakostnaðar stjórnar og túlkaþjónustu á nokkrum stöðum og var því ekki hægt að loka þeim fjárhagsárum. Þetta olli nokkuð miklu uppnámi á fundinum eins og gefur að skilja og urðu langar umræður sem lauk með því að málið verður skoðað nánar og lagt fyrir á ný í apríl á aukaaðalfundi, í tengslum við reglulegan fund þó. Ekki batnaði málið þegar fram kom að í fjárhagsáætlun fyrir 2001 (CP 2000/149) var farið fram á hækkun á framlögum um ein 5% milli ára og kom þar meðal annars fram áætlun um að ferðakostnaður stjórnar ykist um 202% milli 2000 og 2001!!! Þetta á sér án efa þær skýringar að forsetinn býr í Finnlandi og þarf að fara til Brussel aðra hvora viku, en að auki hefur starfsemin aukist verulega, mun meiri samskipti eru við Evrópustofnanir svo sem Evrópuráðið og Evrópuþingið en áður. Þar við bætist að ákveðið var á sínum tíma að skrifstofa samtakanna yrði í Brussel og hefði þar sitt fasta starfslið en starfsemin yrði ekki lengur í heimalandi forsetans. Niðurstaðan aðalfundar varð sú að fjárhagsáætlun stjórnar um 5% hækkun var felld, sömuleiðis tillögur um 4% hækkun og 2,5% hækkun. Þarna var fyrst og fremst um að ræða óánægju með reikninga fyrri ára. Loks var samþykkt samhljóða að halda áfram á grundvelli núverandi fjárhagsáætlunar en að aflað skyldi nægra upplýsinga um fyrri vandamál svo að allt gæti komist á hreint, bæði í augum innri endurskoðenda CP svo og PriceWaterhouse Cooper þannig að hægt væri að ljúka við að afgreiða fjárhagsáætlun ársins 2001 á fundinum í apríl.



Skýrslur frá nefndum

Formenn undirnefnda gerðu grein fyrir starfi nefndanna frá síðasta aðalfundi (vinnu sem fram fór á fundum í apríl 2000 og ágúst 2000 en einnig með tölvupósti).

Mörg mál voru kynnt og nokkrar tillögur voru samþykktar. Hér á eftir verða nokkrar þeirra reifaðar og fylgir númer viðeigandi skjals ef einhver hefur áhuga á að kynna sér efni þeirra nánar:

1. Í CP 2000/148 er komið inn á úrskurð Evrópudómstólsins frá 5. október 2000 sem nam úr gildi Evróputilskipun 98/43 um auglýsingar á tóbaki. CP harmar að Evrópusambandið skuli enn á ný seinka því að banna tóbaksauglýsingar innan ESB landanna, en tóbaksreykingar valdi ótímabærum dauða 500.000 manna árlega í Evrópu. CP hvetur Evrópuráðið að senda sem fyrst frá sér nýja tilskipun sem banni tóbaksauglýsingar eins og kostur er en einnig hvetja samtökin ráðherraráð Evrópu og Evrópuþingið til að setja slíka tilskipun í forgang og lögleiða ákvæði þar að lútandi sem allra fyrst.

2. Í CP 2000/088 er fjallað um aðbúnað eiturlyfjaneytenda í fangelsum og var samþykkt ályktun þar sem segir að læknum sem starfi í fangelsum verði að gera kleift að veita föngum, sem háðir eru ávana- og fíkniefnum, góða læknisfræðilega og læknisfélagslega þjónustu (medical and medico-social), þar með talda alla sérfræðimeðferð sem hægt er að veita fíkniefnaneytendum, þar með talda lyfjameðferð. Ekki síst að faglegt sjálfstæði læknisins sé virt, að fangar eigi ávallt aðgang að læknisþjónustu og að læknirinn geti fengið að fylgjast með líðan eiturlyfjasjúklings í fangelsi og fylgt þar með meðferð eftir. Þess vegna þurfi að gera ráð fyrir því þegar heilbrigðisþjónusta er skipulögð í fangelsum að eiturlyfjasjúklingar þurfi sérstaka umsinnu því að þeir séu sjúklingar en ekki einungis fangar.

3. Í CP 2000/167 var samþykkt tillaga um að í tilvikum þegar hægt sé að rekja legionella sýkingar til hótela, sumarleyfisstaða eða annarra staða þar sem fólki gæti stafað hætta af væri siðlaust að koma þeim upplýsingum ekki til almennings hafi sótthreinsun (decontamination) dregist.

4. Í CP 2000/157 var samþykkt sameiginleg ályktun CP og PGEU (lyfjanefnd Evrópusambandsins) um lyfjaauglýsingar til almennings. Hvatt er til þess að almenningi sé tryggð fræðsla um lyf og aukaverkanir þeirra en auglýsingum og markaðsvæðingu lyfja harðlega mótmælt. Eindregið er lagst gegn því að lyfseðilsskyld lyf séu auglýst eða seld á netinu.

5. CP 2000/156 fjallar um hlutverk lækna í matvælaeftirliti en þetta hefur verið mikið hitamál víða í Evrópu ekki síst vegna díoxíneitrunar og kúariðu og eru læknar flestir á þeirri skoðun að hlutverk þeirra, sem ekki er eins frá einu landi til annars, þurfi að samræma og aukast verulega hvað hollustu matvæla varðar. Lagt hefur verið til að stofnuð verði eins konar Hollustuvernd matvæla í Evrópu (The European Food Safety Authority) sem meðal annars á að meta hættur sem stafað geta af matvælum. Læknar þurfa að mati CP að geta unnið sem teymi við slíkar aðstæður, gefið sérfræðilegt álit og tekið þátt í að miðla upplýsingum til almennings. Þess vegna verði að tryggja faglegt og siðferðilegt sjálfstæði lækna og koma því svo fyrir að þeir komi að málum þegar koma þarf áreiðanlegum upplýsingum til neytenda og heilbrigðisstarfsfólks. Kennsla í næringarfræði, fræðsla um hættur sem af matvælum getur stafað svo og hvernig eigi að meðhöndla verði hluti af námi og símenntun evrópskra lækna og loks að tengslum verði komið á milli Hollustuverndar matvæla í Evrópu og nýjustu þekkingu stöðugt miðlað til þeirra lækna sem vinna að þessu verkefni hver á sínum stað.

Með CP 2000/156 Annexes fylgja svör nokkurra landa við spurningalista um það hvernig málum sé háttað hvað matvælaeftirlit varðar í heimalandinu, hvort einhver sé ábyrgur í stjórnkerfinu og svaraði ég því til fyrir okkar hönd að matvælasvið hjá Hollustuvernd ríkisins bæri þá ábyrgð, starfaði samkvæmt lögum og heyrði undir Umhverfisráðuneytið. Menntunarkröfur eru háskólagráða í fagi sem tengist viðfangsefni deildarinnar (en ekki er kveðið á um að þar skuli starfa læknir).

Einnig er talsvert fjallað um sama efni í CP info 42-2000.

6. Áfram var rætt um lágmarkskröfur ESB til heimilislæknanáms (samanber meðal annars UEMO 2000/133, UEMO 2000/127 og UEMO 2000/120). Alllengi hefur verið kveðið á um að það skuli vera að lágmarki tvö ár þótt í mörgum Evrópulöndum sé það mun lengra, samanber fjögur og hálft ár samvkæmt íslenskri reglugerð. UEMO hefur barist fyrir því í ein sex ár að þessu ákvæði yrði breytt í tilskipun 93/16 og loks gerðist það á þessu ári að Evrópuþingið lagði þetta til þótt Evrópuráðið hafi enn ekki samþykkt það. Til tíðinda á að draga alveg á næstunni.



Skýrslur aðildarsamtakanna

Fulltrúar frá þeim samtökum sem sitja fundi CP það er að segja AEMH (samtök sjúkrahúslækna, sem ég veit ekki til að Ísland sé aðili að), CIO, FEMS, PWG, UEMO, UEMS og EMSA/FMSA (en enginn var mættur frá WMA) sögðu því næst frá starfi sinna félaga og var mér falið að flytja skýrslu UEMO í fjarveru Rogers Chapman frá Bretlandi. Sagði ég þá meðal annars frá samhljóða samþykkt UEMO í október síðastliðnum í tengslum við umræður um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og upplýst samþykki. Nánar er sagt frá þessu í skýrslu um nýafstaðinn UEMO fund eftir Steinunni Jónsdóttur, fulltrúa LÍ hjá UEMO.

Næsti reglulegi fundur verður í apríl 2001 í Brussel og verður þá einnig haldinn aukaaðalfundur vegna fjárhagsáætlunar samtakanna eins og að ofan segir auk þess sem kjörinn verður nýr forseti. Ekki er vitað á þessari stundu hverjir gefa kost á sér en Rainer Brettenthaler frá Austurríki, sem nú er einn af varaforsetum CP, er talinn líklegur.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica